sunnudagur, desember 14, 2008

Oh

Gaman að vera að blogga bara fyrir sjálfa sig. Og Völu og hann Trygg vin minn. Mjög upplífgandi. En verið róleg því þetta er póstur nr. 796 og planið er að púlla þetta upp í 800. 1000 væri töffaðast en þetta blogg er bara löngu dautt. Enda er það að verða 6 ára!!! Gosh, held að þetta sé kannski bara með þeim elstu á landinu. En í þá gömlu daga hafði ég smá blogghæfileika sem hafa gufað upp í atóm sín í dag. Nei ég er bara ekki eins skemmtileg og flippuð og ég var þá. Orðin gömul kelling sem allir hafa misst áhugann á ef hann var einhver til að byrja með. Það glittir í smá biturleika núna en það er kannski af því að ég á eitt jólapróf eftir og er bara hreinlega ekki að nenna því. En þá er gott að eiga góða vini eins og þessa:



og smá íslenskur svartur djókur í lokinn:



Og svo verður blogg nr. 797 allsherjar jólablogg.

Bæ Vala og Tryggur!

fimmtudagur, desember 04, 2008

ðfrðfrð

Nýjast fútt Særúnar: að skrifa öll skólafög án sérhljóða. Eins og sést greinilega á titlinum er ég að læra fyrir aðferðafræði, það yndisfríða fag. Er að lesa hérna um bókasöfn og að internetið sé vont. Gígantískt stuð. Enda þetta stuðblogg á íðilfagurri mynd sem mér barst frá aðdáenda í vikunni.


Við vinkonurnar í blússandi sveiflu, það er allavega ekki hægt að sjá annað.

Verð að þjóta, þarf að hlaupa á næsta borð og gubba yfir allt.

Sæjó gubbó

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Vondur draumur marr!

Ég veit að þessi fræga auglýsing segir allt annað en mínir draumar síðastliðnu nætur hafa bara verið vondir.

Þarsíðasta nótt

Þá var ég komin til heimilislæknisins míns og kippti mér ekkert upp við það enda hef ég verið tíður gestur þar á bæ síðastliðnar vikur. Nú þetta byrjaði bara með venjulegri skoðun en allt í einu erum við komin í hörkusudda sleik og sem betur fer vaknaði ég með andfælum því ekki vildi ég sjá meira af þessari martröð. Vonandi þarf ég ekki að fara til doksa í bráð því ekki vil ég nú sjá þessa sjón fyrir mér aftur. Eða bara skipta um lækni...

Síðasta nótt


Þá var öldin önnur en þá var ég mætt í lesstofuna hérna í Morgunblaðshúsinu og engar læknar né sleikar í augnsýn. Bara sama gamla. Mig dreymdi meira að segja að ég væri að gera stærðfræðidæmið sem ég riðlaðist við kvöldið áður en því miður birtist svarið mér ekki. Deeeem. En allt í einu er hurðunum rykkt upp og svartklæddir karatekappar með vélbyssur hrúgast inn og segja öllum að leggjast í jörðina. Ég geri það auðvitað en svo bara búmm, Særún skotin í magann. Ég vakna við það að ég er að drepast í maganum en sem betur fer er hann ennþá áfastur. Þá veit ég hvernig er að láta skjóta sig í magann.

Já krakkar, draumar eru merkilegt fyrirbæri. Segi ekki annað.


Ég og nýi besti vinur minn. Dýrka þennan strák!
Nei ókei, ég þekki hann eiginlega ekki neitt, var bara með honum á mynd sko.

mánudagur, október 27, 2008

Draumastarfið mitt

Um daginn píndi ég sjálfa mig til að taka til í geymslunni og í gömlu menntóskóladóti um leið. Mátti þar finna margt skondið og skemmtilegt og var heldur betur gaman að skoða gömul verkefni. Má þar helst nefna ritgerðirnar: "Er Harry Potter slæmur fyrir umhverfið?" og "Af hverju eru strákar svona leiðinlegir?". Fann líka nokkra spjallmiða, þá aðallega milli mín og Móu. Það sem við gátum talað um... En upp úr stóð fyrirlesturinn Draumastarfið mitt fyrir lífsleiknitíma hjá Knúti árið 2003:

Ég á mér lítinn draum. Draum um gott framtíðarstarf. En leitin að þessu starfi er ekki auðveld. Hindranirnar eru margar líkt og gallarnir. Á tímabili hélt að ég væri búin að finna rétta starfið. En allt kom fyrir ekki því ég sá að ég gat bara ekki unnið við tannréttingar því ég er með viðkvæmt nef og þoli því andfýlu illa.
Ég lét þó ekki bugast, heldur leitaði og fann. Flugfreyja, það er eitthvað fyrir mig! Það er afar heillandi starf; flottur hattur, sætir flugmenn og flugþjónar, ef þeir eru ekki hýrir. Svo get ég verslað í Fríhöfninni hvenær sem ég vil og heimsótt framandi lönd.
Ég vil halda því fram að ég hef marga kosti sem eru nauðsynlegir í þessu starfi. Ég er ljóshærð, leggjalöng og get nokkurn veginn bjargað mér á 4 tungumálum. Svo er starfið líka þokkalega vel borgað miðað við að það eina sem þarf að gera er að labba milli farþega, brosa, sýna þjónustulund og spyrja með móðurlegu röddinni sinni: "Má nokkuð bjóða þér djús?"
Þar sem ég er afar fyrirferðamikill og plássfrekur kvenmaður, væri nú ekki gott að mæta mér á þröngum gangi. Af þeim ástæðum er þetta kannski ekki mjög hentugt starf fyrir mig en oft má kenna gömlum hundi að sitja.
Segjum sem svo að ég nái að komast í gegnum flugfreyjuskólann og gerist atvinnuflugfreyja, þá verður það mitt takmark að láta stækka klósettin og fótaplássið og í leiðinni verða þjóðinni til sóma!

Stór orð fyrir svo unga mannsveskju. Ég man samt mjög vel eftir flutningi þessa fyrirlestrar. Í salnum í Gamla skóla þar sem Jón Sigurðsson sagði hin frægu orð í gamla daga, stóð ég upp í pontu og frussaði yfir hana alla af hlátri. Stundum var ég bara alltof fyndin. Knútur kennari varð að reyna að róa mig niður svo ég gæti nú klárað þetta en mér fannst öndunaræfingarnar hans bara meira fyndnar og hélt því áfram að grenja af hlátri. Af tvöföldum krafti. Sem betur fer var ég ekki ein um það að hlæja því bekkjarfélagarnir gerðu mér þann greiða að hlæja með mér. Og að mér.

Mín fyrstu ræðuhöld voru því afar misheppnuð en svona er þetta víst. Og sem betur fer gerðist ég ekki flugfreyja því þá væri ég kannski bara ekki með vinnuna mína lengur í dag.

föstudagur, október 10, 2008

Vasareiknaglens

Í tilefni þess að ég var í stærðfræðiprófi í gær kemur hér smá vasareiknaglens sem fróðir menn geta stundað á þessum síðustu og verstu tímum. Nú hefur enginn efni á að fara í bíó og því er þetta tilvalin skemmtun og alveg ókeypis.
Vasareiknar eru skemmtileg tól. En það er ekki einungis hægt að reikna með þeim, heldur einnig er hægt að hlæja að þeim. Hér koma nokkur dæmi sem hægt er að framkvæma með t.d. Casio reiknivélum:

- Pressa 2x á samasemtakkann (=) Þá stendur efst á skjánum: AnsAns
- Pressa á "svigi opnast" takkann, síðan á kommutakkann. Síðan á "svigi lokast" og endurtaka undanfarandi rullu. Þá kemur þetta: (.)(.) Þá ertu kominn með þessar fínu júllur til að dást að; þér að kostnaðarlausu.
- Pressa á "svigi opnast" og síðan á sinnummerkið x. Loka sviganum með "svigi lokast." Þá er útkoman (x) Og nú hefurðu beygjandi rassgat til að horfa á, daginn út og daginn inn.
- Svo þessi klassíski. Pressa á 170.55378. Svo einfaldlega snýrðu reiknivélinni 180° og þá hefurðu orðin Bless Óli. Góð kveðja ef þú þekkir einhvern Óla.

Stærðfræði getur nefnilega líka verið skemmtileg krakkar. Yfir. Sæjó.

föstudagur, september 26, 2008

Reglur morgunökumannsins

Nú þegar skóli og vinna tekur við sumrinu þyngist umferðin um aðalgötur bæjarins. Hjá því verður ekki komist. Ég er svo heppin að hafa kynnst þessu allvel upp á síðkastið enda þarf ég að mæta í skólann kl. 8:15 á hverjum degi. Ef ekki væri fyrir reglurnar sem ég hef búið til handa sjálfri mér, væri ég eflaust ennþá föst í viðjum umferðarinnar.

1. Leggja 5 mínútum fyrr af stað en þú gerir venjulega
. Það gerir gæfumuninn því fyrstu skóladagana lagði ég af stað kl. 7:45 og var stundum mætt of seint. Nú legg ég af stað kl. 7:40 og hef nokkrum sinnum komið 20 mínútum of snemma (sem er reyndar svolítið lúðó) en það er víst betra að mæta snemma en seint. Eða það finnst mér.

2. Aldrei hafa mikið bil á milli þín og bílsins fyrir framan þig í umferðarteppunni
. Því með því nýtir ökumaðurinn á hinni akreininni sér það til fulls og svínar fram fyrir þig þegar hann getur. Það leiðir til þess að fleiri bílar verða fyrir framan þig og þú verður lengur á leiðinni. Einföld stærðfræði. Bilið sem um er að ræða má ekki verða meira en sirka 2 metrar því annars verður allt vitlaust.

3. Ef einhver bíll reynir að troða sér fyrir framan þig og bilið er mjög lítið, ekki leyfa hinum sama að komast upp með það. Sá ökumaður er bara frekja og við þolum ekki frekjur. Frekar skrúfa niður bílrúðuna og sýna viðkomandi puttann og/eða öskra eitthvað skemmtilegt fúkyrði á viðkomandi. Afar hressandi svona í morgunsárið.

4. Aldrei mynda augnsamband við þann sem þú sérð að ætlar að koma inn á þína akrein.
Því ef það gerist tekur hinn ökumaðurinn augnsambandinu sem samþykki og oftar en ekki endar það illa, svo sem með dauðsföllum eða limlestingum. Frekar láta eins og þú sjáir ekki viðkomandi og þá getur hann lítið gert annað en verið áfram á sinni fúlu akrein.

5. Oft getur verið gaman að fylgjast með öðrum ökumönnum í umferðinni. Ekki er leiðinlegt að sjá manninn í bílnum við hliðina á bora í nefið eða kreista fílapensil í baksýnisspeglinum. Þegar hann lítur svo á þig og sér þig, er alltaf skemmtilegt að skella upp úr og láta manngreyið alveg fara hjá sér. Góð byrjun á ef til vill afar góðum degi.

Prófið bara og þið munuð trúa mér.

Smá pæling:
Væri ekki fyndið að heita Benjamín, vera handrukkari og vera kallaður Berjamín?

þriðjudagur, september 16, 2008

Heitt


Hundaástir


Svo langt frá því að vera heitt



Jónsi með ljótasta dú sem ég hef séð. Og þá er mikið sagt.

Egg, beikon og knús,
Sæbba

þriðjudagur, september 09, 2008

Stuð að eilífu

Ég sit hérna í lesstofunni og svitinn lekur ofan á stærðfræðibókina mína. Ég held að ég stofni sjóð fyrir skólasystkini mín, sjóð fyrir kommúnusvitaspreyi því lyktin er GASAleg í orðsins fyllstu merkingu. Ég held að hún komi aðallega frá manninum á móti mér sem er með EVE online belti. Maður kann að velja sér mótsessunauta krakkar. Annars eru allir hressir hér, gleðin skín úr hverju andliti yfir sömu stærðfræði og ég. Jess-in óma í loftinu og þá veit ég að einhver gat gert dæmið rétt og aðrir samnemendur flykkjast í átt að jess-inu í von um hjálp. Samskiptamóti okkar krakkanna er ekkert flókinn skal ég ykkur segja.

Útsendingu héðan úr mbl-húsinu er lokið. Þangað til næst, hittumst heil - alaus.

Bæjó, Sæjó

laugardagur, ágúst 30, 2008

Já ég veit

ég er ömurlegur bloggari. En ég hef bara ekki nennt að blogga, svo einfalt er það. En núna kemur þetta. Já, komin heim fyrir fullt og allt og er því ekkert á leiðinni til útlanda á næstunni. Nema að einhver bjóði mér sem væri vel þegið. Það gerðist bara allt of mikið á Spáni að það er ekki hægt að tala um það hér, skulum því bara segja að þar hafi verið mikið gaman, mikið grín og mikið tanað. Svo voru WB tónleikar bara rétt eftir að við komum heim, góð mæting, mikið af kökum og freyðivíni. Svo voru aðrir Bjöllutónleikar í vikunni og það var stuð. Ríkur kall var á svæðinu en ekki var hann mikið að gefa mér monní. Nánösin. Mín bara byrjuð í skóló og læti og allt að gerast! Hef þetta ekki lengra því ég er að fara á ættarmót. Mamma verður með leiki og kannski les afi ljóð. Smá kennsla í fullri varalitun frá mér og Sóley:+


Respect!

mánudagur, ágúst 18, 2008

Ef þú hefur ekkert að gera í kvöld...

Málmblásarasveitin Wonderbrass heldur sína fyrstu opinberlegu tónleika mánudaginn 18. ágúst í Hásölum Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Strandgötu 51 klukkan 20:30.

Wonderbrass samanstendur af 10 íslenskum brassmeyjum sem hafa nýverið lokið við 18 mánaða tónleikaferðalag með Björk Guðmundsdóttur.
Á efnisskránni má m.a. finna brassverk eftir G. Gabrielli, Chris Hazell, Pál Ísólfsson og fleiri.
Aðgangur ókeypis meðan húsrúm leyfir.

laugardagur, ágúst 09, 2008

Letilíf í svitapolli

Í Istanbúl var heldur betur líf og fjör. Sprengjuleitartæki í lobbíinu og svona. Við skvísurnar fórum í túristagallann og vöppuðum glaðar í bragði að berja bláu moskuna og Hagia Sofia augum. Konur í svörtum búrkum voru út um allt og sömuleiðis tyrkneskur karlpeningur sem súmmuðu á rassinn á okkur með myndavélunum sínum sí og æ. Línurnar þeirra voru heldur ekki af lakari endanum. Þið íslensku strákarnir ættuð kannski að taka ykkur þá til fyrirmyndar. Hér koma nokkur sýnishorn fyrir ykkur, esskurnar mínar og þessir frasar spruttu upp eftir aðeins nokkurra mínútna labb:

- I scream, you scream. Let’s see who can scream more… (ég var sem sagt að borða is)
- Want to share your ice-cream with me?
- Aaaa… Spice Girls!
- How can I rip you off?

Lesið og skælið! Af hlátri eða gráti, mér er sama. Svona á sko að gera þetta. En af einskærri tilviljun hittum við tvær íslenskar stelpur á interraili og reyndist önnur þeirra vera gömul skólasystir mín úr MR og hin vinkona Valdísar. Og nokkrum mínútum seinna mættum við íslensku pari. Heimurinn er nú heldur betur lítill, krakkar mínir.

Tónleikarnir voru svo við ána Bosphorus og voru um 17.000 manns á svæðinu og voru þetta okkar síðustu einkatónleikar á þessu tónleikaferðalagi. Það var því mikið sprellað í síðasta sándtékkinu og fékk krúið heldur betur að njóta sín í stað okkar brassstelpna.

Næsta dag var fluffast til Lissabon í tveimur heldur löngum flugum. Daginn eftir hélt Chris trommari tónleika með sópran saxófónleikara sem var afar góð skemmtun. Djammað fram eftir kvöldi enda ekkert annað hægt þegar stuðið er í hámarki. Spiluðum síðan á festivalinu Sudoeste í fyrradag og tók næstum 3 tíma að komast þangað. Allt gekk voða vel og einkenndist heimferðin af endalausum pissuspreng á mínum bæ.

Hér erum við svo mætt til Almería, eins heitasta staðar Spánar enda ein eyðimörk. Hér voru líka teknir upp nokkrir spaghettí-vestrar á sínum tíma og svona. Veit ekki um hina en ég ætla allavega að sleikja sólina í viku áður en ég kem heim og hafa það náðugt. Ef til vill verður þetta síðasta blogg þessa túrs og verður eflaust mikið grátið á næstum dögum því helvíti á maður eftir að sakna allra.

Dass af myndum:


Brynja þurfti að hylja axlirnar og ég fæturnar með þessu forláta efni til að fá inngöngu í bláu moskun


Píur


Og Chris bara trommaði og trommaði og blés og blés


Framtíðardyraverðir þarna á ferð…


Monseur Anthony og æi, þessi leiðinlega þarna


Mín bara mætt í ullarnaríurnar fyrir veturinn


Við í bandinu gáfum krúinu áritaðar myndir af þeim við störf sín og sáust nokkur gleðitár á hvörmum þeirra

Næsta helgi: Olá-festivalið og heimkoma. Fokk já.


Smá jútjúb af Overture sem við stelpurnar spilum.

Adios y hasta luego,
-Sæbba rokk

laugardagur, ágúst 02, 2008

Dobbúl blogg

Sorrí krakkar mínir en það er bara búið að vera svo gaman hjá mér að ég hef ekki haft tíma né rænu í að blogga fyrr en nú. Hér kemur það:

Verona


Þar var nú heldur betur stuð á okkur. Valdís og fjölskylda eru gamalreyndir Verónusérfræðingar og fyrsta kvöldið fór mestallur hópurinn á þennan flotta veitingastað. Maturinn var í einu orði sagt yndislegur og hef ég sjaldan verið jafn södd. Daginn eftir bauð vinafólk Valdísar okkur í garðinn sinn í úthverfi Verona og auðvitað voru ítalskar kræsingar í boði. Einnig afnot af sundlaug sem var heldur betur freskandi í steikjandi sólinni. Um kvöldið var spilað í Arenu fyrir um 12.000 manns og mátti sjá hvern einasta Ítala dilla sér í takt við tónlistina.


Fallegur hópur í vínkjallaranum... hvar annars staðar?


Greyið Jez var með einhvern aðskotahlut í auganu


Engin miskunn í vatnsslagnum

Aþena

Fyrsta deginum þar eyddi mín nú bara við sundlaugarbakkann og var ekki alveg að nenna að klöngrast upp á Akropolis. Gat séð það ágætlega frá sundlauginni ofan á þakinu...
Ekki gerði ég mikið þar annað en að versla og fór jú í þetta svakafína baknudd enda kroppurinn ekki alveg að sætta sig við þetta brölt á manni. Tónleikarnir þar voru í risastórri ólympíuhöll og gengu bara glymrandi vel.

Nú erum við mætt í dýrðina til Istanbúl í Tyrklandi og fann ég alveg svakalega tengingu við Ísland af því tilefni. Tyrkir réðust jú einmitt á Vestmannaeyjar forðum daga og nú stendur yfir Þjóðhátíð. Og hver er þar? Jú pabbi. Ókei þetta var lélegt. Spilum svo á morgun og í næsta bloggi skal ég taka ykkur í tyrkneska frasakennslu. Þeir eru svakalegir kallarnir hérna...

Jæja nóg af blaðri. Ég er farin í froðubað.


Smá augnakonfekt... bara af því að það er laugardagur

föstudagur, júlí 25, 2008

Teflt við páfann

Á mánudaginn mættum við hingað í Róm og síðan þá erum við heldur betur búnar að ofurtúristast. Á þriðjudaginn löbbuðum við ansi mikið og skoðuðum meðal annars Panþeon, Fontana di Trevi og Spænsku tröppurnar. Gangan tók vel á en næsta dag var heldur engu til sparað og örkuðum við á Forum Romanum. Ekki var þolinmæðin mikil því við nenntum engan veginn að bíða í endalausri túristaröð til að komast inn á svæðið. Ég fékk því ekki að ganga þann sama veg og Quintus gerði þegar hann mætti leiðindarskjóðunni á Via Sacra fyrir þúsundum ára. Við á fornmáladeildinni skiljum þetta. Colosseo var hinum megin við hornið og létum við okkur það nægja að horfa í fjarlægð.

Í gær var heldur betur teflt við páfann því Vatikanið var arkað fram og til baka og list Michelangelos sogin í sig. Því næst fórum við í San Lorenzo hverfið, fjarri öllum túristum og eyddum restinni af deginum þar. Við náðum því að skoða alla helstu staði Rómar á þremur dögum sem telst ansi gott að mínu mati.

Í dag spilum við hér í Róm í Arcadium tónleikahöllinni og á morgun tökum við lest til Verona.

Nokkrar myndir frá Melt! festivalinu í Þýskalandi og Róm:


Tónleikastaðurinn var ansi magnaður. Minnti helst á pólskan slipp.


Ég fór í einhvers konar flugjóga hjá Sylvíuvini sem var ansi magnað


Þetta kann maður


Hafiði komið til Rejkyavik?


Sprellað í Pantheon


Ví!


Kannski fer páfinn í djakúsí þarna eftir erfiðan vinnudag...

Svo er ekki mikið stuð að vakna við það um miðja nótt að fólkið í herberginu við hliðina á sé að gera dodo...

-Særún

sunnudagur, júlí 20, 2008

Ich habe Dürchfall

Hér í Berlín er búið að vera svaka stuð. Stuðið byrjaði á flugvellinum þegar að æstir æsiblaðaljósmyndarar biðu Bjarkar og tóku myndir sí og æ. Skil nú ekki af hverju þeir tóku ekki bara mynd af mér... En krú-gaurarnir okkar eru svo yndislegir að þeir fóru í það að hoppa á ljósmyndarana sem eltu Bjölluna út í rútu. Það var frekar fyndið sjónarspil og komu þeir móðir og másandi inn í rútu eftir erfitt verk.

Það fyrsta sem við gerðum var auðvitað að fara í uppáhaldsbúð okkar allra, American Apparel og flugu nokkrar evrur við það og töskuyfirvigtin fylgdi á eftir. Þetta er bara svo flott búð krakkar. Föstudagurinn fór í almenna peningaeyðslu, yndislegan víetnamískan mat og myndatökur í "photobooth". Eyddum þónokkrum tíma á þeim staðnum og hér má sjá smá sýnishorn:


Fundum þennan svakagóða sushi-stað og fékk ég svo sterkar núðlur að ég var við það að fara að gráta. Allavega lak heilmikið úr augunum á mér. Fengum okkur svo Fuck-You-Fries á barnum White Trash Fast Food sem björguðu kvöldinu.

Annars er ekki búið að gerast mikið merkilegt en á eftir skundum við á Melt! festivalið og hittum þar góðkunningja okkur úr Battles og Hot Chip. Ansi langt síðan við höfum spilað á festivali en síðast var það í Ástralíu í febrúar. Kominn tími til.

Myndavélin var pásu þannig að... æjæj.

Bæjó, Sæjó (eitthvað nýtt trend hjá stelpunum)

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Vinnustaðatussan

Hér held ég sögu minni áfram þaðan sem frá var horfið í Litháen. Hefst nú lestur:

Í Vilnius var nú aðallega labbað um gamla bæinn, rambað inn í fermingu og indverski maturinn gúffaður í sig. Við og körfuboltaliðið vorum þó ekki eini stóri Íslendingahópurinn á svæðinu því Karlakórinn Fóstbræður var einnig á vappi en þeir héldu tónleika þar í borg kvöldið sem við komum. Það var því mikið um bjórþambandi tenóra á götum úti sem brá heldur betur í brún þegar þeir heyrðu íslenskar smápjásur flissa milli rekka í matvörubúðunum.

Tónleikarnir heppnuðust hinsvegar afar vel að vanda og var sú nýbreytni að í miðjum konsertnum spiluðum við stelpurnar lagið Overture úr Dancer In The Darkog er þetta svona ekta lag sem maður fær hroll við það að heyra, svo átakanlegt er lagið. Eftir gigg fór ég nú bara upp á hótel og hvíldi lúin bein fyrir rútuferðina sem var daginn eftir. Stóð hún yfir í sirka 5 tíma og á endanum komum við hingað til Riga sem er jú einmitt stöðnuð borg frá árinu '98. Já og svo fengum við okkur sushi í kvöldmat og ein þjónustustúlkan var það sem ég myndi kalla: Vinnustaðatussan. Þar hafið þið það.

Á morgun eru tónleikar hér í Riga og verða um 10.000 manns á svæðinu. Daginn eftir það er flug til Berlín og get ég varla beðið.

Bless í bili og hér koma fótógrafíur:


Má bjóða þér chilli-píku?


Þetta gerðist á sirka 5 mínútum


Verðlaust


Sovéskur morgunmatur: Sovétnúðlur bornar fram í bjórglasi


Sushistuð

Þá er það komið. Lifið vel og lengi takk.

-Saaaerún

föstudagur, júlí 11, 2008

Partýbær

Já já, þá er ferðinni haldið áfram og það í síðasta skiptið. Okkar fyrsta gigg var planað í Helsinki í gær en það var hætt við það á síðustu stundu. Þess vegna lögðum við af stað í gær og erum nú mætt til Vilnius í Litháen. Sauðskjáninn ég gleymdi auðvitað i-podnum sínum heima og verður þetta ferðalag því heldur einmanalegt ef ég geri ekki eitthvað í þessu á næstunni.

Við höfum kannski ekki séð mikið af pleisinu annað en traktor dreginn af vörubíl á miðri götu og jú, hótellobbíið. Á flugvellinum hér í borg var svo mætt íslenska landsliðið í körfubolta og eiga þeir víst að spila á móti Litháuum (væri kannski betra ef þeir væru LitLágir í körfuboltanum. Hehehe) á næstu dögum. En hvað það væri nú fyndið ef við myndum mæta á leikinn og styðja okkar menn. Ég leggst í málið og reyni að koma því í kring. Ekki spurning.

Kíkti svo aðeins á litháenska imbann og allt er döbbað af sama manninum. Toy Story var á einhverri barnastöðinni og sami dimmraddaði maðurinn talaði fyrir alla og upprunalega talið var samt undir því sem hann sagði. Svona á að gera þetta!

Tónleikarnir eru svo núna á sunnudaginn og fer því morgundagurinn í æfingu og almennt tjill. Þýðir ekkert annað. Það verður eflaust frískandi að hoppa aftur upp á svið eftir svona langa fjarveru þótt það séu nú bara 2 vikur síðan við spiluðum í Laugadalnum. Deffó.

Ég kveð í bili og læt heyra í mér þegar kostur og tími gefst.

-S

mánudagur, júní 30, 2008

Náttúra

Síðastliðinn miðvikudag spiluðum við Volta fólk í Olympiu-tónleikasalnum í París. Ótrúlegur hiti var á sviðinu og kamerur í öllum hljóðfærabjöllum. Það var því gott að komast heim úr rakanum.

Á laugardaginn voru hinir margumtöluðu Náttúrutónleikar það sem Ghostigital, Ólöf Arnalds, Sigur Rós og Björk létu gott af sér leiða í þágu íslenskrar náttúru. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel en kuldinn var kannski full mikill. Ef það hefði verið skrúfað aðeins niður í honum hefði þetta verið fullkomið. Eftir mikið hopp, sprell og míkrófónarúst (af minni hálfu) var tjúttað smá í Þróttaraheimilinu og síðan marserað í miðbæinn og skvett úr klaufunum.

Planið var svo að við færum til Sheffield í fyrramálið í annað skiptið að spila eina sárabótatónleika en aftur er röddin hennar Bjarkar að stríða henni þannig að ekkert verður af þeim tónleikum. Svo er líka búið að hætta við aðra tónleika á Wild In The Country festivalinu í Bretlandi þannig að ég fer ekki aftur út fyrr en 9. júlí og þá verður ferðinni heitið til saunulandsins Finnlands.

Þangað til eru hér nokkrar gleðimyndir:


Að springa úr gleði fyrir giggið (mynd: Damian Taylor)


Pabbi var öflugur á kamerunni en þessi error var ekki eins öflugur..


Hörpuvinkonur voru hressastar


Dillontöffararnir

Leiter skeiter

mánudagur, júní 23, 2008

Sko

ég er eiginlega að fara til París á morgun

blelló

mánudagur, júní 16, 2008

Þú ert að lesa

virkasta blogg heimssögunnar! Vó! (leisersjóv, glimmer og g-strengur)
Kjellan komin í hóp kúlaða fólksins og fékk sér tattú fyrir viku. Mega röff tattú, g-lykil á mjöðmina. Lítið tattú en töff tattú. Núna er það samt bara ljótt, allt að flagna og svona en það verður flottara seinna. Þá skal ég skella inn mynd af fegurðinni. Ég er ekki kölluð Særún Hardkor Pálmadóttir fyrir ekki neitt.

Öööö svo bara fer ég til París eftir sirka viku að spila eitt gigg sem verður örugglega tekið upp á VHS. Síðan fjölfaldað hjá Fjölföldun Valda og hægt að kaupa eintak á 500 kall í Kolaportinu frá 10-16 allar helgar það sem eftir er sumars. Svo náttúrast maður eitthvað í Laugardalnum og svo aftur til útlanda. Alltaf þetta fart á manni alltaf hreint.


Meira sexí en þú og pabbi til samans

Hætt þessu bulli og farin í gymmið að pumpa. Hver veit nema að ég flexi tattúinu í leiðinni. Fæ allavega nokkur kúl-stig fyrir það.

Tattrún

sunnudagur, júní 08, 2008

Yndislegt

að vakna kl. 8 á sunnudagsmorgni við það að það er verið að berja niður hellur beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann þinn.

En svona stöff er enn yndislegra:



Ja sei sei nú.

laugardagur, maí 31, 2008

Skjálftinn mikli

Fyrst enginn talar um annað verð ég að vera memm. Jújú skjálfti og læti en sama dag var ljóta nágrannahúsið rifið og leit kannski út eins og að það hefði farið í skjálftanum. Svo var ekki. Meira að segja pólskíkallarnir í framkvæmdunum hinum megin við húsið tóku sér pásu til að horfa. Hér koma myndir og lýsingar með:


Stofan farin...


Tékkið á strompinum sem er farinn að halla ískyggilega mikið


Nokkrum sekúndum seinna datt strompurinn á gröfuna sem fór í hakk og efsta stykkið á strompinum rúllaði í bílastæðið okkar en mamma var nýbúin að færa bílinn. Þá hló ég.


Uss

En það fyndna við þetta er að mamma færði bílinn annars staðar í götuna og um kvöldið klessti gamall kall á bílinn. Bílnum var greinilega ætlað að verða fyrir hnjaski þennan dag. En kreisílúkk dagsins er í boði Flugu Særúnardóttur. Haldið ró ykkar.


Björk bað um fleiri dónamyndir og dónamyndir skal hún fá!


Alveg með þetta í bleikum H&M nærbuxum og nývöknuð á netfylleríi

Blæ, Slærún

föstudagur, maí 23, 2008

Sumar sumar, gleðjumst með humar

Nú er sumar og get ég ekki annað en rifjað upp gamlar sumarminningar þar sem ég hef voðalega lítið að gera þessa dagana. Nú mun maður detta um arfaklórur og hrífur um allar götur bæjarins en einu sinni var ég nú einmitt að munda slík tól heilu sumrin. Ég nenni nú ekki að rifja upp langt aftur í tímann en þá var ég nú aðallega að passa litla kúkakrakka fyrir 50 kall á tímann. Barnaþrælkun á háu stigi. En ég byrja bara hér:

Sumarið 2000
Þá fengu krakkar á mínum aldri bara að vinna í 2 vikur í enda ágúst. Það var því lítið að gera fyrir mig annað en að hanga heima, borða nammi, horfa á sjónvarpið og búa mér til flórsykurskrem sem ég borðaði svo með skeið. Enda var ekki sjón að sjá mig. Vinnan fólst svo í því að vera í skotbolta og brennó allan daginn enda var ég í svokölluðum listahóp. Sýndum svo eitt fáránlegt bangsaleikrit í leikskólum bæjarins þar sem ég sýndi glæsitakta sem gelgja. Margir krakkar fóru svo að grenja yfir leikritinu. Slappt sumar verð ég að segja.

Sumarið 2001
Við Björk, Erla og Sigrún unnum allar þetta sumar í skógrækt Hafnarfjarðar við Hvaleyravatn. Unnum alltaf af okkur alla föstudaga og fengum grill og nammi sirka einu sinni í viku. Vinnan fólst í því að gróðursetja tré, reyta arfa, búa til og laga göngustíga og gera grín að feita strætóbílstjóranum í Kvennahlaupsbolnum. Yfirmennirnir okkar voru tvær skessur og hann Darri. Önnur skessan var með ógeðslega gömlum feitum gaur og hin átti pabba sem var prestur sem hélt framhjá mömmu hennar. Svo lugu strákarnir að mér að stóri rauðhærði gaurinn væri hrifinn af mér og eftir það var ég ógeðslega hrædd við hann. Núna er hann held ég svona homma-Mansonisti. Næs. Svo varð allt brjálað þegar vandræðagemlingurinn Kristín “Keikó” kom í nokkra daga að vinna með okkur og stal nokkrum geisladiskum af okkur og kláraði inneignina á símanum mínum án leyfis sem á þeim tíma var mesti glæpur sem þú gast framið. Ætla nú ekki að segja frá þýsku stelpunni, það tæki heila öld. Toppsumar!

Sumarið 2002
Þessi venjulega unglingavinna. Ég og Björk vorum saman í hóp og kynntumst henni Sóley sem vill nú ekki tala við mig í dag af því að ég er víst búin að breytast svo mikið. Jæja, flokkstjórinn okkar var frekar spes og reykti eins og strompur. Sagði okkur svo að það væri ógeðslega kúl að reykja og hann ætli aldrei að hætta. Góð fyrirmynd. Ætti kannski að tékka hvort hann reyki ennþá. Hann var líka alltaf að segja okkur að hann væri svo fátækur og það skemmtilegasta í heimi var að skoða sms-in í símanum hans þegar hann sá ekki til. Aðallega sms frá mömmu hans að segja honum hvað væri í kvöldmatinn og oftast voru bara kjötbollur. Lægst lögðumst við þó þetta sumar þegar við þurftum að vera í viku að búa til veiðafæri fyrir dorgveiðikeppni í loftlausum kjallara. Og númer tvö þegar ég þurfti að standa í gulu vesti og vera markstöng í fótboltaleik milli bæjarstjórnar og leikjanámskeiðakrakka. Lúlli bæjarstjóri þrusaði 2x í mig.

Sumarið 2003
Þá lenti ég í einhverjum kúkavinnuhóp sem fékk það yndislega verkefni að vera aðallega að tyrfa. Það voru nú aðallega bara þroskaheftir að vinna með okkur Helmu og Guðnýju þannig að við vorum duglegar að dútla okkur einar. Þetta sumar lærði ég til að mynda p-málið. Með þessari vinnu var ég svo að vinna á elliheimilinu Sólvangi og var ég næstum því hætt á fyrstu vakt þegar ég þurfti að sjá um neðanþvott á konu með gyllinæð. Ég náði þó að taka mig saman í andlitinu og vann þar aðrahverja helgi það sem eftir var af sumrinu.

Sumarið 2004
Enn og aftur lenti ég í kúkavinnuhóp sem samanstóð af gelgjum og nördum en eftir viku í helvíti fékk ég að færi mig yfir í sláttuhópinn til Erlu og Kristínar. Það var allt annað líf og þrusustuð. Ég var snillingur með orfinn og orfaði eins og ég fengi borgað fyrir það! Tvíhöfði í útvarpinu bjargaði líka því sumri enda var ekki talað um annað í hléum. Svo náði ég líka að hella jógúrti í hárið á flokkstjóranum þegar við fórum yfir hraðahindrun. Hann fattaði það held ég ekki. Og aftur vann ég við skeiningar um helgar. Snilldar sumar.

Sumarið 2005
Aftur var það slátturinn og fékk ég smá stöðuhækkun í þetta skiptð. Fékk nefnilega að brumma um á 5 km hraða á Stiga og slá grasbletti bæjarins. Ég náði samt oft að rústa hinu og þessu tækinu en það var nú bara fyndið. Enginn Tvíhöfði þetta sumar en Capone-bræður náðu oft að láta mig keyra út af með bullinu í sér. Vondu-laga-keppnin á föstudögum var samt best. Með þessu vann ég á Hereford steikhúsi með henni Oddnýju minni en fattaði síðar að þjónastarfið er ekki alveg fyrir mig. Ónei. Þetta sumar var líka útskriftarferð okkar í MR og fórum við til Portúgal. Mikið drukkið, við læstumst nokkrar inni á fatlaðraklósetti í klukkutíma og allir héldu að ég hefði drukknað. Minnisstætt sumar.

Sumarið 2006
Þetta sumar vann ég á sambýli og gerði ekki annað en að vinna. Ágústmánuður var næturvaktarmánuðurinn ógurlegi enda var ég eins og uppvakningur eftir vinnu. Ég fór held ég ekkert úr bænum og var að vinna um verslunarmannahelgina. Geðveikt sumar.

Sumarið 2007
Besta vinna í heimi. Ferðast um Evrópu í rigningu og roki eða í steikjandi hita með rútubílstjóra dauðans. “Hello cuties!” En ég fékk að vaða drullu á bæði Glastonbury og Hróarskeldu. Já og spila þar í yndislegra manna hópi.

Sumarið 2008
Fer í það að gera lítið en í júlí og ágúst er ferðinni haldið til Englands, Finnlands, Lettlands, Litháen, Tyrklands, Ítalíu, Þýskalands, Portúgal og Spánar og verða nokkur rassgöt spiluð af sér eins og enginn væri morgundagurinn. To be continued…
----------------
Eins og sést þá styttast pistlarnir með árunum og sýnir það kannski helst að langtímaminnið mitt er mun betra en það skammtíma-. Sem er kannski ágætt bara. Vonandi skemmtuð þið ykkur yfir þessari 1000 orða ritgerð minni. Ég skemmti mér allavega við að skrifa hana og hló mikið. Ahaha. Gott.

Blelló
-S

þriðjudagur, maí 20, 2008

Gott kombó


Heimatilbúið sushi, borðað með gaffli



Og ein eldheit í þröngum fimleikasamfesting á djamminu

Gerist ekki betra

sunnudagur, maí 11, 2008

Jæja

Kjellan komin heim og allt hennar hafurtask. Síðustu tónleikunum okkar í Sjeffíld var því miður aflýst sökum veikinda en lítill fugl sagði mér að kannski förum við bara aftur þangað og tökum svakalegt gigg í sárabætur.

Ekki er ég nú búin að gera mikið síðan ég kom á klakann. Aðallega klóra mér í rassinum og bora í nefið. Alltaf gott. Jú, sækja um í skóla og svona.

hl nµ2q1 ,kµmaqwm, qw,.wsþæþw.´wg. Þessi skilaboð voru í boði Flugu Særúnardóttur sem steig ofan á tölvuna mína rétt í þessu. Hún breyttist líka í risa á þessum mánuði sem ég var að heiman og núna þarf lyftara til að lyfta henni. Djuuuuk. Hún hefur það fínt og alltaf jafn óþekk ef þú varst að pæla í því.


Sokkastelari


Haha, þessir alltaf jafn fönní

En við stelpurnar fórum á soldið misheppnað djamm í gær því við héldum að allt væri opið til 6 en neeeeei, hvítasunnan stoppaði það. En við áttum gott ruglmyndasessjón í staðinn:


Hæfæv!








Ekkert skemmtilegra en að fara berrassaður á djemmið

Kveð í bili. Gubba einhverju út úr mér ef eitthvað merkilegt gerist.
-Seeeeerún