föstudagur, júlí 25, 2008

Teflt við páfann

Á mánudaginn mættum við hingað í Róm og síðan þá erum við heldur betur búnar að ofurtúristast. Á þriðjudaginn löbbuðum við ansi mikið og skoðuðum meðal annars Panþeon, Fontana di Trevi og Spænsku tröppurnar. Gangan tók vel á en næsta dag var heldur engu til sparað og örkuðum við á Forum Romanum. Ekki var þolinmæðin mikil því við nenntum engan veginn að bíða í endalausri túristaröð til að komast inn á svæðið. Ég fékk því ekki að ganga þann sama veg og Quintus gerði þegar hann mætti leiðindarskjóðunni á Via Sacra fyrir þúsundum ára. Við á fornmáladeildinni skiljum þetta. Colosseo var hinum megin við hornið og létum við okkur það nægja að horfa í fjarlægð.

Í gær var heldur betur teflt við páfann því Vatikanið var arkað fram og til baka og list Michelangelos sogin í sig. Því næst fórum við í San Lorenzo hverfið, fjarri öllum túristum og eyddum restinni af deginum þar. Við náðum því að skoða alla helstu staði Rómar á þremur dögum sem telst ansi gott að mínu mati.

Í dag spilum við hér í Róm í Arcadium tónleikahöllinni og á morgun tökum við lest til Verona.

Nokkrar myndir frá Melt! festivalinu í Þýskalandi og Róm:


Tónleikastaðurinn var ansi magnaður. Minnti helst á pólskan slipp.


Ég fór í einhvers konar flugjóga hjá Sylvíuvini sem var ansi magnað


Þetta kann maður


Hafiði komið til Rejkyavik?


Sprellað í Pantheon


Ví!


Kannski fer páfinn í djakúsí þarna eftir erfiðan vinnudag...

Svo er ekki mikið stuð að vakna við það um miðja nótt að fólkið í herberginu við hliðina á sé að gera dodo...

-Særún

sunnudagur, júlí 20, 2008

Ich habe Dürchfall

Hér í Berlín er búið að vera svaka stuð. Stuðið byrjaði á flugvellinum þegar að æstir æsiblaðaljósmyndarar biðu Bjarkar og tóku myndir sí og æ. Skil nú ekki af hverju þeir tóku ekki bara mynd af mér... En krú-gaurarnir okkar eru svo yndislegir að þeir fóru í það að hoppa á ljósmyndarana sem eltu Bjölluna út í rútu. Það var frekar fyndið sjónarspil og komu þeir móðir og másandi inn í rútu eftir erfitt verk.

Það fyrsta sem við gerðum var auðvitað að fara í uppáhaldsbúð okkar allra, American Apparel og flugu nokkrar evrur við það og töskuyfirvigtin fylgdi á eftir. Þetta er bara svo flott búð krakkar. Föstudagurinn fór í almenna peningaeyðslu, yndislegan víetnamískan mat og myndatökur í "photobooth". Eyddum þónokkrum tíma á þeim staðnum og hér má sjá smá sýnishorn:


Fundum þennan svakagóða sushi-stað og fékk ég svo sterkar núðlur að ég var við það að fara að gráta. Allavega lak heilmikið úr augunum á mér. Fengum okkur svo Fuck-You-Fries á barnum White Trash Fast Food sem björguðu kvöldinu.

Annars er ekki búið að gerast mikið merkilegt en á eftir skundum við á Melt! festivalið og hittum þar góðkunningja okkur úr Battles og Hot Chip. Ansi langt síðan við höfum spilað á festivali en síðast var það í Ástralíu í febrúar. Kominn tími til.

Myndavélin var pásu þannig að... æjæj.

Bæjó, Sæjó (eitthvað nýtt trend hjá stelpunum)

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Vinnustaðatussan

Hér held ég sögu minni áfram þaðan sem frá var horfið í Litháen. Hefst nú lestur:

Í Vilnius var nú aðallega labbað um gamla bæinn, rambað inn í fermingu og indverski maturinn gúffaður í sig. Við og körfuboltaliðið vorum þó ekki eini stóri Íslendingahópurinn á svæðinu því Karlakórinn Fóstbræður var einnig á vappi en þeir héldu tónleika þar í borg kvöldið sem við komum. Það var því mikið um bjórþambandi tenóra á götum úti sem brá heldur betur í brún þegar þeir heyrðu íslenskar smápjásur flissa milli rekka í matvörubúðunum.

Tónleikarnir heppnuðust hinsvegar afar vel að vanda og var sú nýbreytni að í miðjum konsertnum spiluðum við stelpurnar lagið Overture úr Dancer In The Darkog er þetta svona ekta lag sem maður fær hroll við það að heyra, svo átakanlegt er lagið. Eftir gigg fór ég nú bara upp á hótel og hvíldi lúin bein fyrir rútuferðina sem var daginn eftir. Stóð hún yfir í sirka 5 tíma og á endanum komum við hingað til Riga sem er jú einmitt stöðnuð borg frá árinu '98. Já og svo fengum við okkur sushi í kvöldmat og ein þjónustustúlkan var það sem ég myndi kalla: Vinnustaðatussan. Þar hafið þið það.

Á morgun eru tónleikar hér í Riga og verða um 10.000 manns á svæðinu. Daginn eftir það er flug til Berlín og get ég varla beðið.

Bless í bili og hér koma fótógrafíur:


Má bjóða þér chilli-píku?


Þetta gerðist á sirka 5 mínútum


Verðlaust


Sovéskur morgunmatur: Sovétnúðlur bornar fram í bjórglasi


Sushistuð

Þá er það komið. Lifið vel og lengi takk.

-Saaaerún

föstudagur, júlí 11, 2008

Partýbær

Já já, þá er ferðinni haldið áfram og það í síðasta skiptið. Okkar fyrsta gigg var planað í Helsinki í gær en það var hætt við það á síðustu stundu. Þess vegna lögðum við af stað í gær og erum nú mætt til Vilnius í Litháen. Sauðskjáninn ég gleymdi auðvitað i-podnum sínum heima og verður þetta ferðalag því heldur einmanalegt ef ég geri ekki eitthvað í þessu á næstunni.

Við höfum kannski ekki séð mikið af pleisinu annað en traktor dreginn af vörubíl á miðri götu og jú, hótellobbíið. Á flugvellinum hér í borg var svo mætt íslenska landsliðið í körfubolta og eiga þeir víst að spila á móti Litháuum (væri kannski betra ef þeir væru LitLágir í körfuboltanum. Hehehe) á næstu dögum. En hvað það væri nú fyndið ef við myndum mæta á leikinn og styðja okkar menn. Ég leggst í málið og reyni að koma því í kring. Ekki spurning.

Kíkti svo aðeins á litháenska imbann og allt er döbbað af sama manninum. Toy Story var á einhverri barnastöðinni og sami dimmraddaði maðurinn talaði fyrir alla og upprunalega talið var samt undir því sem hann sagði. Svona á að gera þetta!

Tónleikarnir eru svo núna á sunnudaginn og fer því morgundagurinn í æfingu og almennt tjill. Þýðir ekkert annað. Það verður eflaust frískandi að hoppa aftur upp á svið eftir svona langa fjarveru þótt það séu nú bara 2 vikur síðan við spiluðum í Laugadalnum. Deffó.

Ég kveð í bili og læt heyra í mér þegar kostur og tími gefst.

-S