þriðjudagur, apríl 29, 2008

Mikið gaman, mikið grín

Vera okkar í N-Írlandi var blússandi góð að mínu mati enda Írarnir óttarlegir stuðboltar með fyndnasta hreim norðan Alpafjalla. Það vantaði bara búálfabúninginn og Lucky Charms og þá hefði þetta verið fullkomið. Fyrsti túristinn var tekinn á þetta á frídeginum okkar en þá skutluðumst við ásamt nokkrum úr krúinu og bandinu á Giant’s Causeway sem er svakalega flott stuðlaberg í fjöru. Einu sinni lærði maður nú um það hvernig þetta varð til en það er allt gleymt og grafið eins og flest frá menntaskólaárunum. En Led Zeppelin notuðu einmitt þetta sama stuðlaberg framan á plötu sinni Houses Of The Holy frá 1973. Merkilegt nokk. Ferðin tók nú tíma sinn og á þvagblaðran mín skilið Fálkaorðinu fyrir að springa ekki í tætlur þessa þrjá tíma sem ég hélt í mér í rútunni á leiðinni til baka. Besta piss lífs míns.

Tónleikarnir voru töff og ennþá meira töff af því að rétt hjá tónleikastaðnum var Titanic byggt á sínum tíma. Uss. Eftir tónleika byggðist upp allsvakalegt rútupartí og hristist rútan sem aldrei fyrr við allan dansinn. Þreytt og mygluð var hoppað í ferju yfir á meginlandið og komum við hingað til Blackpool um kvöldmatarleytið. Svartlaugamenn hafa meira að segja byggt sinn eigin Eifell-turn og er ekki furða að bærinn sé kallaður Las Vegas Bretlands. Tónleikar hér á fimmtudaginn, svo til Sheffield og hvert svo? Jú heim.

Kveð með myndum:


Komum við í viskíverksmiðju og þar mætti okkur Ferrari-klúbburinn "Gamlir kallar með lítil typpi og gráan fiðring"


Erla og Stulli stuðlaberg


Þarna erum við


Ísbeibs


Vó, bara 800 mílur í Ísland. Ég þangað!

Ég kveð héðan frá Blackpool
Særún Ósk Palmandale (nýtt hótelnafn komið í hús)

föstudagur, apríl 25, 2008

Ekki minn tebolli

Síðustu tónleikar voru hinir ágætustu og voru áhorfendurnir hinir fuðrulegustu. Fremst mátti sjá tvær vinkonur með neonlitað hár, með neon varalit og neon skartgripi. Þær voru greinilega á vitlausum tónleikum því þær áttu frekar heima á Spice Girls tónleikum ’98. Þegar ég sá betur framan í þær komst ég að því að þær voru báðar í kringum fertugt. Ég gaf þeim því nýtt nafn: tvær úr Tungunum. Alltaf bondar maður við áhorfendurna.

Eftir giggið tókum við svakalegt píanósessjón frammi á gangi tónleikahallarinnar. Hásar fórum við inn í rútu og var horft á Donnie Darko í betri stofu rútunnar. Rigningin dundi á bílrúðunum og gardínurnar flöksuðu til og frá í ósýnilegum vindi. Þetta var þetta týpíska veður þar sem eitthvað slæmt myndi gerast. Mér datt fyrst í hug að rútan myndi lifna við og taka völdin eða að við yrðum stoppaðar af blóðþyrstum kúrekum á miðri leið og rændar öllum eigum okkar. Það kennir mér að horfa hvorki á hryllings- né kúrekamyndir seint á kvöldin.

Við komumst þó klakklaust til Wolverhampton sem er sko mega djammbær. Nei núna lýg ég. Við skulum bara segja að ég myndi aldrei á ævi minni flytja hingað. En nóg um það því í kvöld spilum við hér í bæ og við tekur 10 tíma rútuferð + ferjuferð í fyrramálið. Belfast er staðurinn og vonandi lendum við ekki í miðjum götubardaga.

Ég var mjög myndalöt í stuðbænum en tók eina sem lýsir andrúmsloftinu vel:


Bis später
-S

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Stuðkompaníið

Nú er dvöl okkar í London lokið og draugabælið Plymouth tekið við. En meira um það síðar.

Í London var megastuð eins og alltaf. Mamma, pabbi og Harpa gerðu sér ferð til að sjá sjóvið og auðvitað mig líka. Dögunum var nú aðallega eytt í búðarráp og samgöngur sem eru með þeim dýrari í heiminum.

Nú á eftir spilum við hér í Plymouth sem við fyrstu sýn virtist vera bær á barmi örvæntingar en annað kom nú í ljós við frekari bæjarrölt. Í nótt brummum við svo til Woulverhampton í tveggja hæða lúxusrútunni okkar og vonum að það sé aðeins meira líf í þeim bæ en hér.


Sandra og co. skelltu sér á tónleika nr. 2 í London


Shaun túrdúddinn okkar ásamt fríðu föruneyti


Jú þetta getur maður.


Fyrsta neðanjarðarlestarferð Hörpu. Á myndinni sést samt ekki fyrsti Stabucks kakóbollinn hennar. Allt að gerast!


Mamma og pabbi voða dúlló á skrítna indverska staðnum. Og mamma ekki með lokuð augun! Allt að gerast!


Systurnar á sama stað nema hinum megin við borðið.

Þangað til næst!
-Saeerún hotness

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Rónar

Hér í London er gott að vera. Þetta er örugglega í fimmta skipti sem við stöllurnar erum á þessu blessaða hóteli og í þessu blessaða hverfi þannig að allt kemur kunnuglega fyrir sjónir. Meira að segja þjónar á veitingastöðum þekkja okkur í sjón og muna eftir okkur frá því í ágúst þegar við vorum hérna síðast. Minnugir Bretarnir.

Síðasta sunnudag spiluðum við í Hammersmith Apollo fyrir um 5000 manns og var stemmarinn allsvakalegur. Í kvöld verður leikurinn endurtekinn og þá er bara um að gera að gera betur en síðast.

Ég lenti líka í afar skondnu í gær þegar ég var að rölta yfir í þá yndislegu búð Marks & Spencer. Eins og oftast er ég í mínum eigin heimi og var að labba fyrir horn þegar ég steig á eitthvað á jörðinni. Var þetta þá sofandi róni en sem betur fer kippti hann sér ekkert upp við þetta og hélt áfram að sofa. En svona er bara að liggja á jörðinni eins og skata.


Stelpurnar spássera yfir Abbey Road að hætti Bítlanna eins og enginn væri morgundagurinn


Fyrir utan stúdíóið víðfræga. Einn daginn...


Fann þessa lekker tímavél í Camden


Erla var svo frökk að svara í hringjandi símaklefa. Hún á yfir höfði sér 5 ára langa fangelsisvist.


Helga Sólveig kíkti í heimsókn alla leið frá Brighton

Á morgun kíkja uppalendurnir og örverpið í heimsókn þannig að það verður nóg að gera hjá mér við að halda þeim vakandi og vel á verði. Búðarverði. Ahaha.

Rugludallurinn kveður héðan frá Lundúnum

sunnudagur, apríl 13, 2008

Man Júnæted

Þá er sjöundi hluti þessa túrs hafinn og byrjaði hann með trompi eins og alltaf. Ég svaf massívt yfir mig fyrir flugið og ekki skánaði það þegar ég lenti hliðina á tveimur sveittum útlendingum í vélinni. Jæja, bið á Heathrow, uppáhalds samastað okkar allra og sirka 20 mínútna flug til Mansjester. Í fyrradag var svo giggað í Manchester Apollo tónleikasalnum og var megagóð stemming á liðinu. Pottþétt einhver fótboltakappinn í krádinu, nýkominn af æfingu og velsveittur.
Í gærmorgun svaf ég aftur smá yfir mig og rauk út til að fá mér morgunmat og nesti fyrir komandi 5 tíma löngu rútusetu til London. Í hótellobbínu mætti mér enginn annar en Árni Johnson í öllu sínu veldi, með svefnhnakka og allt. Ekki gat ég ímyndað mér hvað hann var að gera þarna en ákvað fljótt að hann væri gígantískur Bjarkaraðdáandi. Þegar ég kom aftur á hótelið heyrði ég íslensku út um allt, meira að segja í lyftunum. Mér var ekki farið að lítast á blikuna þegar ég mætti Þorsteini Joð á leiðinni niður og spurði hann því hvað allir þessir Íslendingar væru að gera á hótelinu. Hann tjáði mér að allt hótelið væri morandi í fótboltasjúkum Íslendingum á leið á Manchester United - Arsenal leik sem er í dag. Já, heimurinn er svo sannarlega lítill, líka í Stóra-Bretlandi þótt stórt sé.

Í dag verður gert eitthvað svakalega menningarlegt. Ekki nenni ég að versla. Nei djók. Og á morgun eru okkar fyrstu tónleikar hér í London af þremur í Hammersmith Apollo. Ég er með gesti og læti á öllum tónleikunum þannig að það verður nóg að gera hjá minni. Ég kveð því í bili með nokkrum sveittum nektarmyndum sem Hugh Hefner myndi eflaust borga fúlgu fjár fyrir að birta í blaðinu sínu:


Stelpurnar voru í krúttstuði á sándtékkinu


En ég og Benni minn ákváðum bara að tjilla


Harpa og Erla voru rútuferðinni fegnar


Maðurinn á hjólaleigunni misskildi mig aðeins…

Ég ætla að fá mér te og kex með marmelaði
-Saaaaeeeerún