mánudagur, febrúar 25, 2008

Ó Japan

Síðustu tónleikar okkar í Tokyoborg voru á föstudaginn og gengu svona hrikalega vel. Krávdið var líka í aðeins meira stuði núna en síðast. Helgin að koma og svona. Daginn eftir var svo lestarferð hingað til Osaka og var þynnkan ferðafélagi flestra innanborðs. Nei ég segi svona.

Í Osaka var mikið gert en í gær fórum við nokkrar til Kyoto en það ferðalag tók aðeins hálftíma með hraðlest. Ferðinni var heitið í geisjuleit og sáum við nokkrar á vappi. Ætli þær haldi sig ekki innivið í snjókomu. Við fundum þó elsta musteri í Japan og fengum okkur smá göngutúr þar inni á sokkaleistunum en það má víst ekki fara inn á skónum. Musterið var þó ekki inni heldur úti þannig að tærnar okkar voru ansi kaldar og vorum við skónum fegnar að skoðunarferð lokinni. Þá vorum við orðnar svolítið þreyttar á snjónum þannig að við fórum bara til baka til Osaka. Smá rím svona í tilefni mánudagsins. Í gærkvöldi var okkur svo boðið í ekta japanskan kvöldverð í boði prómotorsins hérna í Japan. Allir þurftu að fara úr skónum enn og aftur setjast við pínulítið borð og á litla og lága stóla. Maturinn var mjög góður og er ég alltaf að meta sushi meira og meira þótt það sé mikið hlegið að prjónatækninni minni af sérfræðingum.

Á eftir spilum við svo hér í Osaka Castle Hall. Ekki amalegur kofi. Flogið til Hong Kong á morgun og vitiði hvað, bara vika þangað til við komum heim. Þessi túr er núna búinn að standa yfir í 6 vikur og er þreytan aldeilis farin að segja til sín meðal fólks hér. En það þýðir ekki að kvarta því þetta er jú vinnan okkar.

Seeerún kveður með vel völdu myndefni


Mark Bell átti afmæli og fékk þessa risaköku


Loftur kom í heimsókn


Japanarnir alltaf svo kurteisir og glaðir


Bara eins og í Kill Bill


Munkarnir voru jú tæknivæddir


Girnó?


Allir að springa úr gleði

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Big in Japan

Í Tokyo er svaka stuð og er maður heldur betur búinn að verlsa af sér alla limi. Dagurinn í dag fór í draslinnkaup eins og hund sem þú tengir við USB á tölvu og þá riðlast hann á tölvunni eins og hann eigi lífið að leysa. Og loftgítar sem er bara snilld. Og gaffal, skeið og hníf í einu og sama búsáhaldinu. En við erum nú í Tokyo og þá má svona.

Hér í Japan er allt voða tæknilegt. Klósetttæknin heillar mig samt mest enda er ég afar mikil áhugakona um klósett. Í þeim flestum er innbyggður rassahreinsir með mörgum stillingum sem sprautar vatni í bossann eftir losun. Og þegar á klóið er sest byrjar vatn að renna sem á bæði að hjálpa til við pisseríið og einnig útiloka öll leiðindarhljóð sem klósettferðum fylgja. Í gær bjóst ég svo við kaldri klósettsetu en nei, hún var bara heit. Mér leið bara helvíti vel á því klósetti verð ég að segja. Svona klósett ætla ég sko að koma með heim í handfarangri.

En nóg af klósettum. Í gær var giggað í Budokan sem er íþróttahöll. Þar spiluðu Bítlarnir líka á sögufrægum tónleikum hér um árið. Ég stend pottþétt þar sem Ringo stóð. Áhorfendurnir voru hinir kurteisustu og var ekki að sjá og heyra á pleisinu að þarna væru 10.000 manns samankomnir. En liðið hresstist fljótt í hressu lögunum og ég tók þau í sátt. Eftir giggið var skoppað á afar tæknilegan karókíbar. Þá borgaði maður vissa upphæð til að fá að vera með og næstu 2 tímana voru fríir drykkir og matur. Vitaskuld var það nýtt til hins ýtrasta.

Næstu tónleikar eru svo á föstudaginn á sama stað.

Kveð með nokkrum myndum frá Kóreu og Tokyo:


Hótellyfturnar í Kóreu prýddu sjálflýsandi fimleikahringi og við bara urðum að prufa og pósa


Jújú maður er módel svona on the side


Alveg nokkrir úti að labba þennan dag


Klikkað að gera


Smokkabúð. Jidúddamía.

Arigato!

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Hrísgrjón í hádeginu og núðlur á kvöldin

Dvölinni í Jakörtuborg er lokið og rann ljúflega niður með tónleikum í tennishöll. Áhorfendaskarinn var ekki eins og við bjuggumst við og allir frekar rólegir á því. Flestir í okkar hóp voru líka rólegir og var farið snemma að sofa eftir allt hoppið á sviðinu.

Flugin hingað til Seoul í Suður-Kóreu voru frekar döll enda ekki við öðru að búast. Í fluginu fékk ég þó týpíska kóreska máltíð sem ég kýs að kalla bimm bamm búmm af því að nafnið hljómaði þannig í mínum eyrum. Grjón og aftur grjón. Þegar á hótelið var komið (sem er eitt af því flottasta sem ég hef gist á) var lúllað smá en við stelpurnar létum ekki þar við liggja heldur hoppuðum beint í uppáhaldsbúð okkar allra og létum ekki frostið hér aftra okkur. Fyrri gærdagurinn fór einnig í afar menningarlega hluti eins og að kíkja í búðir og skoða mannlífið. Ekki sást í marga vestræna hausa þar sem við vorum og fannst Kóreubúunum örugglega skrýtið að sjá svona marga ljóshærða kolla. Við Björk, Sigrún júníor og Valdís gerðumst svo kræfar að skella okkur á kóreskt grillhús og vissum ekkert í hvað við vorum að fara. Enginn skildi ensku og því var rykið dustað af allskonar handapati og táknmáli. Fyrir framan okkur var lagt allskonar gúmmelaði og í miðju borðinu var einhvers konar viðargrill. Þjónninn sá greinilega að við vorum afar ringlaðar yfir þessu öllu saman og grillaði svínakjötið bara fyrir okkur en venjulega á maður að gera það sjálfur. Kjötið var suddagott og var okkur heldur skemmt þegar framkvæmdarstjóri staðarins fór að mata Sigrúnu og blés á heita matinn hennar með frussi og tilheyrandi. Allir svo hjálpsamir.

Í gær skunduðum við á svið í ólympíuhöllinni hér í borg og gekk fruntalega vel. Þetta er ritað í Tokyo en hingað komum við í dag. Karókí- og Harajukusögur koma síðar. Buxur? Nei stuttar. Aaaahaha.

Blelluð,
Seeeeerún

Tvær myndir:


Hressar úti á götu


Sigrún og Björk ásamt matnum góða

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Balíblogg

Loks kemst maður á internet en það er greinilega af skornum skammti í þessum hluta álfunnar. Á Balí var meira að segja ekki hægt að kaupa farsíma heldur varð maður að panta hann og fá hann nokkrum vikum seinna. En hér í Jakarta er mikil mengun enda mikil umferð. Umferðin var einnig svakaleg á götum Balí en þar keyra um fleiri vespur en bílar. Þar kaupa fáir fjölskyldubíl heldur fjölskylduvespu og er allt að tveimur fullorðnum og tveimur litlum börnum vippað á bak á sömu vespunni. Sum börnin eru meira að segja sofandi og ekki með hjálm. Er ekki alveg að sjá það fyrir mér á götum Reykjavíkur.

En á Balí var lavað mikið sjóvt eins og að skoða apamusteri. Hér eru apar taldir vera heilagar verur og eru þeim færðar fórnir daglega sem einkennist aðallega af mat. Sumir aparnir voru líka afar holdmiklir og áttu sumir erfitt með gang. Aparnir voru svaka hressir og hoppuðu upp á fólk og rifu í föt. Þeir voru svo ekkert að fela sitt daglega amstur eins og að þrífa lýs á óæðri stöðum og riðlast á næsta apa. Svo vaknaði maður upp við hressan jarðskjálfta um miðja nótt. Afar hressandi. Næsti dagur fór svo í brennslu og freknusöfnun, sem sagt sólbað og leti. Eyddum við stelpurnar svo flestum kvöldum í spil og vídjógláp sem var voða kósí.

Þá var það fílaferðin. Skelltum okkur á fílsbak og var það alveg hreint magnað. Löbbuðum um svæðið í sirka hálftíma og fílarnir enduðu herlegheitin með smá munnhörpuspili. Gáfum fílunum svo að borða og aftur upp á hótel.

Nú erum við mætt til Jakarta og í kvöld spilum við í sveittri tennishöll. Á morgun er okkur svo skutlað í kuldann í Kóreu og er undirrituð bara með eina hlýja peysu með sér. Maður er gáfaður. Vonandi er netið þar betra en hér og þá kem ég með ofurfærslu. Lofa.

Nokkrar gleðimyndir:


Smá riðlerí milli vina


Þessi var svangur


Bakarí á hjólum


Brynja og Valdís skella sér á bak


Fílahjörðin


Svaka stuð á okkur

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

BaliBaliBaliBali

Litid um internet her. Hamsturinn sem snyr hjolinu er i sumarfrii. Thad eina sem thid thurfid ad vita er: HITI og RAKI og RIGNING. Annars er eg ad fara a filsbak a morgun. Typiskt ad eg detti. Sjaum til. Hoa i ykkur thegar eg kemst i mina eigin tolvu.

Gledilegt kinverskt nyar segi eg nu bara!

sunnudagur, febrúar 03, 2008

G’day mate

Við erum lent á síðasta áfangastað okkar hér í Ástralíu, Perth. En fyrst fórum við nú til Adelaide og gerðum ekki mikið annað en að spila á spil og spila á lúðra. Spilaæðið í hámarki. Tókum nokkra gaura hjá henni Brynju. Haha nei sko spilið heitir Gaur. Ég tapaði á lokasprettinum sem er kannski ekki frásögu færandi. Daginn eftir var okkur vippað á festivalið og byrjuðum við á því að kíkja aftur á strákana í Battles. Þeir eru bara svo miklar dúllur. Í kvöldmat fengum við svo kóalabjörn, krókódíl og slöngu. Nei nei allt í plati, þeir voru ekki á boðstólnum heldur fengum við aðeins að klappa og halda. Krókódíllinn var eins og gúmmí viðkomu og sem betur fer var hann með teygju utan um kjaftinn. Hefði nú ekki nennt að vera bitin með mína óheppni á hælunum. Upp á svið og voru áhorfendurnir nú frekar döll og latir en það skemmdi ekki skemmtanagleðina hjá okkur stelpunum. Ó nei. Partýið byrjaði svo í lobbíinu á hótelinu og tókum við smá sing-along með Arcade Fire sem fór misvel í aðra lobbígesti. Því hertókum við skemmtistað rétt hjá hótelinu og fífluðumst þar fram eftir nóttu.
Í gær flugum við hingað í 37 stiga hita og voru Rage Against the Machine, Arcade Fire og LCD Soundsystem með í för. Sannkallað stjörnuflug og sem betur fer komst vélin á leiðarenda því það hefði nú verið frekar sorglegt ef þessi flugvél hefði hrapað. Já bara eins og með allar flugvélar… En papparassarnir biðu þónokkrir við töskubandið og hver veit nema að ég birtist í einu áströlsku slúðurblaðinu svei mér þá.

Gærkvöldið fór svo í almennt sukk og svínerí en umræddir strákar í Battles og James úr LCD voru að plötusnúðast á bar hér í grendinni og auðvitað lét maður sjá sig.

Í dag spilum við svo í síðasta sinn á BigDayOut hátíðinni og eiga eflaust nokkur tár eftir að fella í kvöld. Allir orðnir blússandi góðir vinir og allir eiga eftir að sakna allra. Já þetta var svo sannarlega snilldar festival og verð ég að segja að þessi hluti túrsins hefur verið sá besti hingað til. Og þá er nú mikið sagt. Ástralía - sweet ass!

Balí tekur á móti okkur á morgun og verðum við á þessu líka flotta strandhóteli með öllu sem til þarf. Dveljum þar í viku en veðurspáin lofar kannski ekki góðu. Regntímabil á þessum tíma en við gerum bara gott úr því. Ég læt heyra í mér þegar þangað er komið og kveð með nokkrum vel völdum myndum.


Bara töffarar sem fá sér indverskan


Skvísupjásur


Helvíti flott mynd af Rage þótt ég segi sjálf frá. Stuttu eftir myndatökuna flaug svitadropi gaursins við hliðina á mér í augað á mér. Nammi.


Þessi fluggaur hafði nákvæmlega ekkert að gera þann daginn


Ég og Kolli kóalabjörn. Sorrí en ég klippti kallinn úr sem hélt á honum. Hann minnti mig svo á einhvern stjórnmálamann.


Kristófer krókódíll var alveg kjaftstopp. Haha.


Stuðborðið eins og sést vel á svipbrigðum Bjarkar

Seeeerún kveður