sunnudagur, nóvember 28, 2004

Ég átti víst 18 ára afmæli í gær, eða eitthvað svoleiðis. Satt best að segja þá var þetta ekki mjög góður dagur. Kvef, tónleikaspilerí, jólaþorpsspilerí, vinna, partý sem endaði með ósköpum. En ég verð að líta á björtu hliðarnar sem eru þær að ég er orðin sjálfráða og má gifta mig. Planið var samt að gera það í gær en ég fann ekki þann rétta. Spurði rosalega marga á Hereford en þeir voru allir giftir eða of fullir til að skilja spurninguna. Ég fékk einnig góðar gjafir, gjafir sem hlýjuðu mér um hjartarætur. Mörg símtölin fékk ég, einnig smáskilaboðin og meira að segja eitt frá Glasgow. Takk fyrir þau. Núna er planið að fara út að borða af því að ekki gafst tími til þess í gær. Pabbi er samt búinn að vera í fýlu í allan dag útaf einhverju skyri, held að við skiljum hann bara eftir heima. Sem sagt lala afmælisdagur, ekki sá besti.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Plömmer

Svo virðist sem að ég fari ekki á jólaball MR þetta árið. Busapussurnar kláruðu alla miðana. En ég verð að líta að björtu hliðarnar: ég er nr. svona 20 á biðlista. Vúhú! Og ég sem var búin að hlakka svo mikið til. Ég held þá bara partí fyrir biðlistafólkið eða ræni miða af einum busanum.

Fregnir af jólaundirbúningi móður minnar

Hún er búin að baka 3 sortir af smákökum, allar í gærkveldi. Jólaseríur eru komnar í glugga og aðventukrans á borð. Einnig jóladúkar.

Hrútspungalistinn

Það er komið nýtt system á þetta allt. Ég vildi ekki vera að eyða lötu fólki útaf en í staðinn refsaði ég því með því að gefa þeim ekki p-málið á nafnið sitt. Þeir sem eru duglegir fá einnig umbun en hún er einmitt p-málið á nafnið þeirra. En þeir sem taka sig til og hætta að vera latir, fá p-málið á nafnið sitt. Og aumingja þeir sem skilja ekki p-málið. Þipið gepetipið baparapa boporapað í nepefipið ápá öpömmupu ypykkapar!

Pælingin er að fara að læra fyrir latínupróf.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Mean Girls

Af hverju í ósköpunum eyddirðu 1 1/2 klukkutíma í að horfa á þessa mynd? Af hverju Særún, af hverju?

í þessum pikkuðu orðum er móðir mín að taka upp jólaskrautið. Það verður nefnilega allt jólaskraut að vera komið upp fyrir fyrsta í aðventu en hann er núna á sunnudaginn. Hún er samt löngu byrjuð því að í síðustu viku bakaði hún piparkökur, gerði heitt súkkulaði og lét okkur drekka úr jólabollunum okkar en hver og einn fjölskyldumeðlimur á sinn jólabolla. Á mínum stendur: Mom gave me this cup. Hún kláraði líka handgerða aðventukransinn í október og heimatilbúna pappírinn fyrir jólakortin í byrjun nóvember. Ekki halda að hún sé klikkuð, ónei, hún er bara svo mikið jólabarn.

Kosningar á morgun fyrir útskriftarferðina. Mexíkó, (hvítar strendur við Karabíahafið og áfengið drýpur af pálmatrjánum) Krít, (rústir) eða Slóvenía? (nýkomið úr stríði, eða eitthvað) Erfitt val.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Gærkvöldið í ljóðamáli

Á Jagúartónleika í gær ég fór
og drakk þar afar mikinn bjór.
Ég borgaði fimmtánhundruð kall
en uppskar heljarinnar svall.
Maður yfir mig hellti drykk,
ég sagði við hann: ,,Þú ert sikk!"
Hitti Bergþór túbumann
mig langaði helst að flengja hann.
Ég fremst við sviðið dansaði dátt
og eðlilega söng mjög hátt.
Í hálsi fokking hás ég er,
ég fór í bað alveg allsber.

Ljóðabókin er á leiðinni í allar helstu bókabúðir.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Þarfaþing mánaðarins

Rafmagnskryddkvörn frá Aida.
Fæst í öllum Bónus verslunum, nema á Stykkishólmi.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Handriði

Snjómaðurinn Handriði leit dagsins ljós í gærkvöldi (það er reyndar ekki hægt að líta dagsins ljós á kvöldin)í garðinum mínum. Hann er með risastórt ístyppi í lóðréttri stöðu og það er ástæða fyrir því. Fyrir framan hann er nefnilega 32" sjónvarp með allsberri snjókellingu á skjánum. Hafandi dáðst að Handriða í eilitla stund, lögðu stúlkurnar 3 leið sína í Lárubrekku með snjóþotu í annarri og vettling á hinni. Svo þegar ég kom heim, þá var hundurinn minn búinn að pissa á Handriða. Það mun ég aldrei fyrirgefa.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Hvernig voru Ripp, Rapp og Rupp búnir til?

- Með andardrætti!

Æi þetta er svo uppáhaldsbrandarinn minn. Vonandi gleymi ég honum ekki eins og öllum hinum.

Ég er farin að búa til snjókall með Oddnýju. Svo ætla ég að lemja hana í hausinn með skóflu, setja snjó yfir hana, hella vatni yfir, bíða eftir að skaflinn frjósi og flissa á meðan hún deyr kvalarfullum dauðdaga. Oddný mín, ég elska þig samt.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Brjáluð vinnuhelgi

Föstudagur:
- full kona á fimmtugsaldri káfaði á lærinu á mér til þess eins að ég myndi láta hana fá eftirréttinn en ekki mann sem sat með henni á borðinu. Ég sló bara á hendina hennar og sagði: ,,Svona gerir þú ekki við stelpu sem gæti verið barnabarnið þitt!" Og hún steinþagði það sem eftir var kvöldsins.
- önnur full gömul kona ropaði svo framan í mig.
- ég var að labba framhjá skrifstofunni sem hefur að geyma tölvu og inn um rifu á hurðinni, sá ég annan danska kokkinn vera að horfa á klámmynd í tölvunni. Ég mun aldrei aftur líta á hann sömu augum.
- ég átti afar skrítið samtal við einn kokkinn sem ég er orðin hálfhrædd við:

Kokkur: Hvað heitir þú?
Ég: Ég er búin að segja þér það tvisvar áður.
K: Nei þú hefur sagt einhverjum öðrum það.
É: Nújæja. (undirgefni) Ég heiti Særún.
K: Pétur. Ertu í annarri vinnu?
É: Nei ég er í skóla.
K: Hvaða skóla?
É: MR
K: Ég á heima á Þingholtsstrætinu.
É: Jájá.

-Og ekki hætti það. Eftir vinnu þegar ég sat í makindum mínum að klæða mig í nýju skóna mína, tók hann annan skóinn og reyndi að klæða mig í hann. Ég veit ekki hvað er að þessum manni. Kannski hefur hann andað að sér of mikið af steikargufu.

Laugardagur:
- ég klessti á minn fyrsta hliðarspegil. En ég beygði hann bara til baka þannig að það reddaðist. Svo var þetta líka bara drusla.
- Brjálaði kokkurinn tók aftur til hendinni þetta kvöldið. Á meðan ég var að raða skítugum diskum í uppþvottadótið, beygði hann sig svona fram fyrir mig og horfði á mig. Ég setti vitaskuld upp undrunarsvip og þá sagði hann:

K: Nei bara að skoða. Ég er bogamaður, þess vegna er ég svona skrítinn.
É: Ég er líka bogamaður.

Svo gekk ég í burtu og forðaðist að tala við hann allt kvöldið.

Afsakið kvörtunarpistilinn, ég varð bara að létta þessu af mér. Nú líður mér miklu betur.

.

Þarna glittir í brjálaða kokkinn.

laugardagur, nóvember 13, 2004

Ég á hund

og hann er 10 ára í dag. Upp á það verður haldið með herlegheitum, nefnilega með kaffiboði með aragrúa af hnallþórum. Margt verður um manninn í þessu boði og eru foreldrar mínir búnir að búa til slædsjóv með myndum af helstu viðburðum í lífi hans. Fyrsta baðið, fyrsta leikfangið, fyrsta árásin á hann, fyrsta aðgerðin hans og svo fram eftir götunum. Vitaskuld fer afmælisbarnið í sparifötin, rauðu slaufuna sína. Í mannsárum er hann sjötugur í dag, áfangi sem ekki allir ná. Ég vil því hrópa þrefalt húrra fyrir honum Sókrates og bið þig, lesandi góður, að gera slíkt hið sama. Einn, tveir og: Húrra! Húrra!

Ekki var mögulegt að birta mynd af afmælisbarninu því að Hello á birtingarréttinn.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Yawning Chasm

er uppáhaldsleikurinn minn um þessar mundir.

Tæki og tól: margir blakboltar, einn körfubolti og flatur flötur.

Tilgangur: að vinna hitt liðið!

Framkvæmd: Fólkinu er skipt í 2 jafnstór lið og hver fær í sínar hendur blakbolta. Gerð er lína sitthvorum megin við flata flötinn og þurfa keppendur að vera fyrir innan línu síns liðs. Á miðju flatarins er settur körfubolti og planið er að koma honum yfir línu óvinaliðsins. Það er gert með því að reyna að skjóta blakboltanum í körfuboltann og einnig reyna að koma í veg fyrir að körfuboltinn komist inn fyrir línu þíns liðs með sama móti, sem sagt að koma körfuboltanum í burtu með því að skjóta blakboltanum í körfuboltann. Ef boltinn fer yfir línu óvinaliðsins, fær þitt lið stig. Og svona heldur þetta áfram þangað til að allir eru að niðurlútum komnir og geta ekki meir.

Niðurstaða: Æst mikið skemmtilegur leikur. Æst mikið.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ég á mér litla fantasíu

sem mun, ef ég þekki mig rétt, ekki rætast á næstunni. Ég er komin með afar mikinn strætisvagnaleiða og fór því að íhuga nýjan fararskjóta. Ekki á ég bíl eða pening fyrir bíl og því vantar mig eitthvað minna. Ekki reiðhjól því þau eru með óþægilegan hnakk sem skerst lengst upp í botnalanga og svo er afar hættulegt að hjóla á því yfir vetrartímann. Ekki mótorhjól því að ég er hálf hrædd við þau. En skellinaðra, það er allt önnur ella. Hún er lítil og nett og eyðir eflaust litlu bensíni. Svo er hún kvenleg og með flott nafn. Það eina sem vantar er búningurinn. Rauður, þröngur leðurgalli sem þrýstist upp að stinnum líkamanum en gefur jafnframt vörn gegn bolabít. Í gallanum bruna ég svo í skólann og hía á allt fólkið í strætó. Þegar ég kem í skólann fer ég svo beint í Cösu en tek ekki hjálminn af mér, heldur bíð ég. Ég bíð eftir því að nafn mitt er lesið upp í fyrsta tíma. ,,Særún?" ,,Já kennari" Og svo tek ég hjálminn af mér og sveifla síðu hárinu í allar áttir. Strákarnir fimm í bekknum mínum taka andköf og slefa á borðið yfir kynþokka mínum. Síðan fer ég úr gallanum og undir er svart korsilett og sokkabönd. Ég fer úr rauðu leðurstígvélunum og fer í staðinn í svörtu pinnahælana. Að skóla loknum smeygi ég mér svo aftur í gallann og bruna heim í Hafnarfjörðinn og nýt ástríðufullra ásta með Pablo mínum. Og svona er fantasían mín.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Þegar ég kveikti á sjónvarpinu í gær

blasti við mér inúítakynlíf

.

laugardagur, nóvember 06, 2004

Nú er þessi blessaða embættismannaferð á enda. Hún er nú afar móðukennd verð ég að segja. Þegar ótakmarkað áfengi er í boði, þá er lítið sem stoppar mann nema kannski ef upptakarinn týnist. Ótrúlegt en satt, þá fór ég aldrei á trúnó heldur fékk annað fólk til að fara á trúnó við mig. En það sem sagt var varð eftir í félagsheimilinu Dreng aðallega sökum gleymsku. Það mætti segja að allt hafi gengið á afturfótunum í þessari ferð. Til að byrja með var rútan allt of lítil og skottið opnaðist á miðri leið. Sem betur fer hentist bjórinn ekki út. Svo þegar það var verið að afferma rútuna fauk það sem ég hélt að væri dýnan mín og ég hljóp eins og elding út í myrkrið á eftir henni. Ég datt. Svo fann ég loksins dýnuna en svo var þetta bara ekki dýnan mín. Um nóttina var svo svefnpokanum mínum stolið af mér og hef ekki ennþá komist að því hver sökudólgurinn er. Svo um morguninn fann ég hann aftur og þá var hann allur rifinn. Mig langar ekki að vita hvað var gert við hann eða í honum um nóttina og ætla ég að brenna hann. Ég vaknaði með kúlu á hausnum, risastóran marblett á rassinum og er öll útklóruð til blóðs á bakinu. Gaman væri að fá að vita orsökina, sérstaklega á klórinu. Einnig var hægri hendi mín öll útötuð í einhverju svörtu, örugglega olíu. Ég ætla að fá mér þynnkumat.

Sorrí Erla að ég beilaði á æfingunni í morgun.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Hvað varð um Janet Reno?

.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Kaldhæðni

Í gær fór ég á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit áhugamanna en samt hef ég engan sérstakan áhuga á sinfóníuhljómsveitum.

Svo er ég líka að fara að spila með Kammersveit Hafnarfjarðar en hann Kammer er hvergi sjáanlegur.

Ég er svo upptekin alltaf hreint. Það er alltaf verið að taka mig upp úr gólfinu.