þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ég á mér litla fantasíu

sem mun, ef ég þekki mig rétt, ekki rætast á næstunni. Ég er komin með afar mikinn strætisvagnaleiða og fór því að íhuga nýjan fararskjóta. Ekki á ég bíl eða pening fyrir bíl og því vantar mig eitthvað minna. Ekki reiðhjól því þau eru með óþægilegan hnakk sem skerst lengst upp í botnalanga og svo er afar hættulegt að hjóla á því yfir vetrartímann. Ekki mótorhjól því að ég er hálf hrædd við þau. En skellinaðra, það er allt önnur ella. Hún er lítil og nett og eyðir eflaust litlu bensíni. Svo er hún kvenleg og með flott nafn. Það eina sem vantar er búningurinn. Rauður, þröngur leðurgalli sem þrýstist upp að stinnum líkamanum en gefur jafnframt vörn gegn bolabít. Í gallanum bruna ég svo í skólann og hía á allt fólkið í strætó. Þegar ég kem í skólann fer ég svo beint í Cösu en tek ekki hjálminn af mér, heldur bíð ég. Ég bíð eftir því að nafn mitt er lesið upp í fyrsta tíma. ,,Særún?" ,,Já kennari" Og svo tek ég hjálminn af mér og sveifla síðu hárinu í allar áttir. Strákarnir fimm í bekknum mínum taka andköf og slefa á borðið yfir kynþokka mínum. Síðan fer ég úr gallanum og undir er svart korsilett og sokkabönd. Ég fer úr rauðu leðurstígvélunum og fer í staðinn í svörtu pinnahælana. Að skóla loknum smeygi ég mér svo aftur í gallann og bruna heim í Hafnarfjörðinn og nýt ástríðufullra ásta með Pablo mínum. Og svona er fantasían mín.

Engin ummæli: