föstudagur, janúar 31, 2003

Í gær var ég kölluð ballerína... er það gott eða slæmt?? Humm.....

fimmtudagur, janúar 30, 2003

Ég komst að því að ég er MJÖG auðtrúa manneskja. Hún Björk "laug" að mér í gær að þegar sveitin okkar færi til Þýskalands næsta sumar... ættum við að vinna í kolanámu heilan dag og kynnast lífi hins almenna þýska verkamanns. Ég sá strax fyrir mér e-ð Zoolander atriði... sveitt og skítug ungmenni í hlýrabolum með hjálma og munda hakann með sínum alræmda þokka. Og auðvitað trúði ég þessu.... var reyndar ekkert sátt við þetta en fannst þetta soldið spennandi bara!! Ég sagði líka allri fjölskyldunni frá þessari áætlun og lét þau vita að húsið yrði bráðum fullt af kolamolum. Mamma var samt ekki paránægð með þessa kolanámuferð og ætlaði að láta stjórnina svo sannarlega heyra það!! Svo í morgun fór ég að spurja Björk meira út í þetta. Hún náði að halda andlitinu í nokkra stund en sprakk svo úr hlátri þegar ég var að fussa og sveia yfir þessum áformum.En við förum sat inní e-a kolanámu í Þýskalandi en þurfum... sem betur fer... ekki að vinna í henni! :) En jæja gott fólk... þarna missti ég útúr mér hvað ég er auðtrúa og endilega notið ykkur þann galla gegn mér. Því ég er til! :)

þriðjudagur, janúar 28, 2003

Það er merkilegt hvað það leynist mikið af skrýtnu fólki í strætó. T.d. gamall kall sem gengur um í rauðum háhæluðum skóm og er með rautt naglalakk. En ég hef líka lent í skrýtnu fólki í strætó og hef ég eina sögu að segja um það... Á föstudaginn var söngkeppni MR og auðvitað skundaði ég þangað til að styðja mína menn og konur. Ég er nú kvenmaður þannig að það tók sinn tíma að taka sig til og það endaði með því að ég gat ekki borðað neitt áður en ég fór og því kastaði mamma til mín grænu, safaríku epli um leið og ég þaut út og hljóp mitt fræga strætóhlaup á eftir strætó. Strætóbílstjórinn var greinilega í óvenjugóðu skapi því að hann gaf sér það bersaleyfi að stoppa fyrir mér þótt að hann væri 1 mínútu á eftir áætlun. Takk góði strætóbílstjóri!! Ég hlammaði mér niður í sæti og byrjaði að gæða mér á græna, safaríku eplinu mínu. Svo tók ég eftir því að maðurinn sem sat á móti mér, fannst greinilega mjög kynæsandi að horfa á 16 ára gamla smástelpu borða grænt, safaríkt epli því hann starði á mig með tunguna lafandi niður á höku og reyndi að éta mig og eplið með augnaráðinu. Mér fannst þetta nú ekki sniðugt þannig að ég lauk áti mínu á grænu, safaríku eplinu mínu og varð bara hálfhrædd. Ég var soldið hrædd um að hann myndi setjast hliðina á mér og segja seiðandi röddu: “Haltu áfram að borða græna, safaríka eplið þitt.... elskan!” Sem betur fer gerði hann það ekki. En hvað ætli hann hefði gert ef ég hefði verið að borða banana??? Ullabjakk... ætla ekki einu sinni að pæla í því!! Ég hoppaði úr strætó og fór inn á skemmtistað geimfaranna (NASA) og skemmti mér konunglega það sem eftir var af kvöldinu. Já gott fólk, það sem ég vil segja við ykkur með þessari sögu er að það er ekki sniðugt að borða ávexti í strætó því til er hellingur af ávaxtaperrum þarna úti!!! Passið ykkur... því að þú gætir orðið næsta fórnarlamb þeirra!!!!!

laugardagur, janúar 25, 2003

VEITINGASTAÐAGAGNRÝNI SÆRÚNAR!!

Í gær ákváðu foreldrar mínir að bjóða allri familíunni út að borða á A.Hansen... eina skemmtistað okkar Hafnfirðinga. Það var nú ástæða fyrir því að gamla settið tók upp á að splæsa máltíð á alla og hún er sú að mamma vann máltíð fyrir 2 í einhverju jólahappdrætti í vinnunni sinni og hafði svo keypt blóm handa kallinum og fengið 2 fyrir 1 á A.Hansen miða með. Þannig að það eina sem þau þurftu að borga var ein máltíð og eitthvað að drekka. Hún laumaði samt einni kók í bauk í veskið sitt handa systur minni og var að fara að stinga Svala niður líka fyrir mig en ég harðneitaði að láta sjá mig drekka Svala á fínum veitingastað!! Ég hef mitt reputation sko!! :) Það tekur bara 2 mínútur að labba þangað en mamma og pabbi voru í góðu skapi og ákváðu að eyða bensíni í að skutlast á bílnum niður í bæ. Þegar inn var komið, hneykslaðist mamma á því að það voru engin herðatré laus í fatahenginu og fór að ná í þjón og bað hann um að koma með fleiri. Eftir mikla leit að fleiri herðatrjám gátum við loksins sest niður. Í forrétt var sveppasúpa sem var bara helvíti góð að mínu mati fyrir utan nokkra hráa sveppi sem í henni voru. Í aðalrétt var svo svínasteik með einhverju gumsi sem ég gat bara ekki látið ofan í mig!! Eins og t.d. eitthvað salat sem var með appelsínubáti ofan á og einni svartri ólívu. Ekki góð samsetning!! Systir mín hafði aldrei séð ólívu áður og leist ekkert á hana og spurði því mömmu hvort að hún vildi ekki borða hana:

Systir mín: “Mamma, viltu borða ólivíuna mína??”
Mamma: “Ha... Olivia Newton-John???” (Ahahahah)
Pabbi: “Nei... Olivía Nítján-Tonn!!” (AHAHAHHAHAH)

Þarna gerði ég mér ljóst að fjölskyldan mín er ekki venjuleg fjölskylda... heldur aulahúmorsfjölskylda. Ég tók nú samt þótt í þessum hrossalátri þeirra... bara svona til að vera kammó en það ætla ég aldrei að gera aftur!!! En jæja... svo í eftirrétt átti að vera ístvenna með ávaxtasósu! Þá varð mín sko spennt!! En þegar ég fékk ísinn á borðið varð ég fyrir miklum vonbrigðum... á disknum voru bara 2 ískúlur og slikja af jarðaberja- og sítrónu útúrkreistingi sem átti að vera þessi fræga ávaxtasósa!! Ég ákvað samt að gefa þessu séns og þetta var bara alveg skítsæmilegt!! Á meðan við vorum að skófla í okkur ísnum, benti mamma okkur á skakka mynd sem var á veggnum sem hafði farið svo í taugarnar á henni allt kvöldið!! Þessar mömmur... OHH!! En þjónustustúlkurnar voru ekki alveg að standa sig.... því að ég fékk tvisvar sinnum disk í hausinn og í annað skipti sósu í hárið á mér í kaupæti!! En hey... er ekki sósa berti í hári en flasa?? En þegar máltíðinni lauk var það svo að borga reikninginn. Maður hálfskammaðist sín þegar mamma fór með alla þessa miða til að borga matinn. Maður sá það líka á svipnum á konunni sem afgreiddi okkur að hún var ekki vön að fá svona nískt fólk á staðinn til sín. Á leiðinni út stóðst mamma mín ekki mátið, tók einhvern sá svakalegasta snúning sem ég hef á ævinni séð, sneri við og lagaði myndina á veggnum sem hafði farið SVO mikið í taugarnar á henni!! Fólk á staðnum var ekki alveg að fatta hvað þessi ruglaða kona væri að gera og með hausinn í buxunum gengum við út. Það er ástæða fyrir því að við förum ekki oft út að borða!! En samt... mæli eindregið með þessum ágæta stað!!

A.Hansen: 2 ½ bingókúlur

fimmtudagur, janúar 23, 2003

Jedúddamía!! Hvert hef ég ungmeyjarylinn misst?? Það er spurning... kannski datt hann í kolakassan!!

En vegna margra skemmtilegra kommenta á pjötlubuxna greininni minni... hef ég ákveðið að halda áfram með þessa umræðu... og hér kemur hún:

Fyrsta kommentið sem ég fékk var frá karlmanni. Hann hneykslaði sig mikið á því að ég talaði einungis um kvenkyns pjötlubuxur því að allir vit ap karlmaðurinn notar líka þennan fatnað. Mín kenning er sú að karlmenn urðu svo hrifnir af þessum nærfatnaði að þeir hönnuðu líka svona fatnað fyrir sig. Þeim hefur samt ekki alveg tekist áætlunarverk sitt því að mínu mati eru þessar pjötlubuxur afar asnalegar á miðhluta karlmannsins. Ekkert pláss er fyrir stóran og stæðilegan liminn og verða því mjög kjánalegar í útliti. En þeir láta það ekki á sig fá og eru ekkert að fela sig þegar þeir spranga um og valahoppa í búningsklefum sundlauga og líkamsræktarstöðva. Gott dæmi um karlmanns g-strengi er forláta g-strengurinn sem ég og hún Björk Bond fundum í þeirri ágætu búð Hókus Pókus handa vini okkar í afmælisgjöf. Framan á pakkanum var mynd af manni sem stóð stoltur í pjötlubuxunum (sem átti að vera einhvers konar poki með augu í bananalíki) og var með kíki. Af þessari mynd gat ég lesið að landkönnuðir eru greinilega mikið fyrir að klæðast pjötlubuxum einum fata á leiðangrum sínum. En hann Einar var mjög glaður og var í pjötlubuxunum (yfir buxurnar auðvitað) allt partíið og vakti mikla lukku þótt að ekkert var í banananum. Þarna sést að karlmenn eru bara hermikrákur og voru það ekki þeir sem fussuðu og sveiuðu þegar hitt kynið fór að klæðast jakkafötum og nota bindi???? Jæja strákar... þarna skutuð þið ykkur svo sannarlega í fótinn.... og þið megið alveg mín vegna skjóta ykkur í hausinn líka!!!! En ekki allir.... bara nokkrir því hvar værum við án ykkar??! :)

P.S. Það er komið svona comment dót sem hún Eva stuðgella setti upp fyrir mig með hjálp síns yndisþokka og sjarma. Takk Evulíus!!!! :)

þriðjudagur, janúar 21, 2003

G-strengir.... það er fatnaður sem hefur vakið upp mikla umræðu í íslensku samfélagi. Þessi nærfatnaður, öðru nafni pjötlubuxur eða thong, kom hingað til landsins að ég held með strippbúllufárinu sem greip landann hér um árið. Karlmenn dáðust að þessum pjötlubuxum og síðan þá hafa íslenskir kvenmenn fest kaup á þennan fatnað af miklu kappi til að æsa hitt kynið upp sem hefur greinilega tekist nokkuð vel. En aðrir kvenmenn kaupa þennan fatnað einungis vegna “þægindanna” sem eiga víst að vera til staðar. Meira að segja stelpur í 6. bekk eru ekki feimnar við að toga skærbleiku pjötlubuxurnar sínar upp á bak til að fá jákvæða athygli hjá karlpeningnum. Viðbrögð karlkynsins eru þó oft misgóð, sumir fyllast viðbjóði og hlaupa grenjandi í hálsakot mömmu sinnar, aðrir sperra upp skottið eins og hundar í kringum tíkur á lóðaríi, verða mjög æstir og eiga mjög erfitt með að slíta augunum af þessari “fallegu” sýn. Mæður komnar á besta aldur, eru heldur ekki að leyna skoðunum sínum á þessum litla nærfatnað. Bölva og dansa nokkurs konar djöfladýrkunardans þegar g-strengurinn festist í þvottavélinni og skilja ekki af hverju þær leyfa dætrum sínum að klæðast nærfötum djöfulsins. Ef þær myndu fá að ráða myndu þær klæða dætur sínar í ullarnærboli og síðar nærbuxur með Barbie-myndum á hverjum morgni... og ekkert múður með það!!!

Persónulega hef ég ekkert á móti g-strengjum en hef lengi verið að pæla í uppruna nafnsins. Systir mín sem spilar á fiðlu þurfti eitt sinn að spila lag sem hét einfaldlega: G-strengur. Ég skildi ekki í fyrstu af hverju það er verið að skíra lag eftir nærfötum en fattaði svo, mér til mikillar undrunar að þetta var heiti á streng á fiðlunni!!! Kjánaprik get ég verið!!! En svo þegar hún átti svo að spila þetta sama lag á tónleikum og kynnti kennarinn lagið: “Og núna er komið að laginu G-strengur” Kennarinn komst ekki lengra því að einhver gelgja á aftasta bekk sprakk úr hlátri og fékk meiri athygli en hún sjálf!!! Stúlkan gerði sér ljóst nógu tímanlega að þetta var ekki mjög þroskuð hegðun, tók sig saman í andlitinu, seig niður í sætið sitt, lokaði fyrir túllann og sagði ekki orð það sem eftir var af tónleikunum. Og alveg síðan þá hefur þessi sama stúlka fengið vont augnaráð frá þessum sama kennara í hvert skipti sem þær mætast. Stúlkan vill ekki geta nafns síns!!

sunnudagur, janúar 19, 2003

Það er alveg merkilegt hvað þessar sjampóauglýsingar eru pirrandi. Sjampófyrirtækin eru greinilega að reyna að heilaþvo heiladofna sjónvarpsáhorfendur með þessari sýru. Þegar ég fór að pæla í þessu þá brunnu nokkrar spurningar á vörum mér:
1) Af hverju eru alltaf bara “sætar” stelpur látnar leika þessa flösulausu kvenmenn?? Við “ljóta” fólkið fáum alveg líka flösu!!! Ég bíð eftir þeim degi þegar fyrirtækin fara að skrifa á sjampóbrúsana : “Only for beautilful people”
2) Ætli þessar konur séu ekki með hálsríg eða einhver bakmeiðsli útaf þessum sífellu hárflippingum sem þær eru alltaf að gera?? Ættu þær ekki bara að vera á styrk hjá sjúkraþjálfurum og nuddurum??
3) Svo er það líka alltaf sama konan sem talar fyrir þessar reynslumiklu konur því að þær höfðu prófað öll sjampó á markaðnum en ekkert virkaði fyrr en þær prófuðu nýja Wella sjampóið með súkkulaðilykt sem er bæði E-, D- og A-vítamínbætt! Það mætti halda að hún sé eina konan á Íslandi sem hefur þann hæfileika að geta talið inná svona auglýsingar!
4) Ætli það sé til eitthvað námskeið í útlandinu sem kennir konum að tala inná sjampóauglýsingar?? Ég ætla að koma með eitt dæmi af sjampóauglýsingu sem var einmitt sýnd í sjónvarpinu fyrir nokkru svo að þið sjáið þetta með svipuðum augum og ég:

(Kona með hatt kemur inn á hárgreiðslustofu)
Hárgreiðslukonan: Hva... af hverju ertu með þennan viðbjóðslega hatt, elskan mín??
Konan: Æi þessi flasa er að gera útaf við mig!!
H: Hvaða hvaða... það er ekkert sem nýja Head and Shoulders sjampóið með aukinni sýruvörn og fitueyði getur ekki lagað!!
K: Hey frábært, ég prófa það!! Takk góða hárgreiðslukona!! :)

(Konan kemur aftur næsta dag... með hattinn)
H: Jæja, hvernig gengur svo??
K: Alveg æðislega! Flasan er bara öll farin! Líf mitt er orðið eðlilegt á ný þökk sé Head end shoulders! Takk góða hárgreiðslukona!! :)
H: Ekki gleyma hattinum!!
K: Þarf hann ekki!!

Æi fokk!! Sjampófyrirtækjunum hefur tekist áætlunarverk sitt!! A.m.k ein manneskja er orðin heilaþvegin af þessum viðbjóði... þ.e.a.s. ég!! :o/

laugardagur, janúar 18, 2003

Dagurinn byrjaði bara ágætlega. Eftir minn vikulega laugardagsfegurðarblund, ákvað ég að taka smá til í mínu værelse. Fyrsta stoppustöð var skúffan á skrifborðinu mínu. Þar fann ég marga kynngi magnaða hluti sem ég hafði ekki séð í mörg ár eins og gamlan smokk sem ég fékk með HIV drykknum ágæta, nærbuxur af systir minni sem ég hafði einhvern tíma falið fyrir henni og hundabein. En það sem fékk mig til að veltast um af hlátri var bréf sem ég hafði skrifað þegar ég var 12 ára. Á því stóð að ég ætti að opna það 27. nóvember 2000 (s.s. á 14 ára afmælisdegi mínum) Umslagið var óopnað og því stóðst ég ekki mátið og reif það í tætlur. Inni í því fann ég bréf sem var skrifað á Tweety bréfsefni og í því stóð:

Halló Særún

Þegar þú verður orðin 14 ára átt þú kærasta. Hann er með ljóst sleikt hár, gengur í kúkabuxum, á heima á Akranesi, æfir handbolta, heitir Aggi og þið giftist. Hann er 4. kærastinn þinn á þessu ári því að þú ert alltaf að byrja og hætta með strákum. Þú verður orðin þokkalega rík því að þú vannst í lottóinu og átt bönns af fötum og meiköppi.

Já... þetta kom mér svo sannarlega í gott skap! Þessi Aggi átti víst að vera einhver strákur sem ég kynntist á tjaldstæði á Ströndum (að mig minnir) og heillaði mig greinilega svo mikið upp úr skónum að ég ákvað að gera hann að framtíðareiginmanni mínum. Fegurðarmat mitt var greinilega eitthvað brenglað þetta sumar því að ég tel það mjög ólíklegt að ég myndi kolfalla fyrir gaurum með ljóst, sleikt hár og búa á Akranesi á árinu 2003... ónei!! Og boðskapurinn með þessari sögu er: Takið til í skúffunum ykkar! :D

föstudagur, janúar 17, 2003

Ég missti algjörlega andlitið þegar ég sá fyrirsögn í ónefndum fréttasnepli um daginn. Og hún var: Hani drepur mann.... Þetta atvik átti sér víst stað einhvers staðar í Asíu á hanaslag. Aumingja maðurinn lést samstundis of einhverjum ástæðum sem eru mér ókunnar. Ég lét strax frá mér kjúklingasamlokuna sem ég var að japla á og fór að hugsa!! Eiga hanar og hænur kannski eftir að stjórna heiminum í framtíðinni??? Verðum við manfólkið þá kannski þrælar þeirra?? En svo tók ég mig saman og tróð ofaní mig samlokunni minni, því ég myndi segja að það séu mikil forréttindi að geta étið tilvonandi húsbónda sinn.

fimmtudagur, janúar 16, 2003

UPPGÖTVUNARHORN SÆRÚNAR!

Uppgötvun #1: Froðubað bragðast ekki vel þótt að það sé með jarðaberjalykt

Uppgötvun #2: Drullusokkur er verkfæri.... ekki köttur nágrannans. Tölum ekki meira um það!

Uppgötvun #3: Ef maður segir: "eina með öllu" mjög hratt og oft getur maður greint orðin: "eina mellu"!! Endilega prófið það! Prófið að segja þetta við afgreiðslumanninn/konuna á Bæjarins bestu.... það vekur mikla lukku og kátínu!! Trúið mér... því ég veit!!



þriðjudagur, janúar 14, 2003

Jæja börnin góð.... the Særúnator has returned! :) Ég ætla að byrja á að segja ykkur litla sögu sem lýsir fjölskyldulífi mínu vel.... (ræsk ræsk) Eitt kvöld við matarborðið kom faðir minn upp úr kjallaranum (sem er hans cryb) og var ekki paránægður.... því að einhver hafði STÍFLAÐ KLÓSETTIÐ í kjallaranum.... með ákveðnum þykkum líkamsvessa. En svo kom stóra spurningin....HVER SKEIT Í KLÓSETTIÐ????? Mikið uppþot varð í borðstofunni og allir ruddust niður til að berja "gripinn" augum. Þegar þangað var komið hrópaði systir mín: VÁ.... SJITT!!!! En það var akkurat það sem ég hugsaði... á minni löngu ævi hafði ég aldrei séð jafnstóra drullu!!! Þannig að þarna var komin fyrsta vísbendingin: Einhver stór manneskja hafði gert hægðir sínar í klóið! Þannig að þá var hægt að útiloka systur mína og hundinn minn... en þá voru 3 eftir: ég, móðir mín og faðir!! Faðir minn hélt því fram að þetta væri minn skítur en ég hélt ekki!!! Minns er ekki jafn dökkur og þessi og hefur meiri gulgrænan blæ yfir sér. Ég og pabbi ásökuðum svo mömmu en hún harðneitaði. Sagðist hafa verið á fundi hjá Hjálpræðishernum í allan dag. Sökudólgurinn var því ekki fundinn enn þrátt fyrir tveggja tíma andleg og líkamleg slagsmál! Enda sést það líka á mér,,, ég er öll útklóruð og marin eftir platkaratehögg föður míns og heilinn minn er að springa vegna ofhleðslu af "useless information" frá móður minni, s.s. leikskólasálfræði! En sókudólgurinn fannst á endanum... það var FAÐIR MINN!!! Hann viðurkenndi það eftir 3 tíma ljósaperuklíningu og alls konar pyntingum m.a. hótaði ég að ég myndi pissa á DVD spilarann hans og ata hátalarana hans útí tómat og sinnep! Það virkaði bara helvíti vel og kallinn grátbað mig um að hlýfa sér og elskunum hans. Ég er nú ekki vond manneskja en hvað verður maður ekki að gera þegar maður er einkaspæjari??? ;)

mánudagur, janúar 13, 2003

Vei... þetta tókst! Kann reyndar ekkert á þetta apparat því að tölvukunnátta er ekki í hávegum höfð á minni plánetu. Aðeins ormasteikingar og sólblómaræktun. Humm.... hvað á ég að gera núna?? Svona er þetta alltaf.... þegar maður er búinn að fá það sem maður vill... er bara ekkert gaman að eiga það og maður veit ekkert hvað maður á að gera við það!! Núna ætti ég að segja eitthvað eins og : "Halló! Ég heiti Særún og er 16 ára. Þetta byrjaði allt saman þegar mamma og pabbi...... og þannig er ævisaga mín" en ég ætla ekki að gera það... vil hlífa ykkur greyin mín!! =) En fyrsta pælingin mín kemur örugglega á næstu dögum þannig að bíðið spennt við skjáinn, góðir hálsar!! Því þið sjúgið feita ömmu!

Testing... one... two... one two.... three.... one two