laugardagur, ágúst 30, 2003

Ó ÞIÐ YNDISLEGU ÆSKUMINNINGAR...

Hvað er betra en að rifja upp æskuminningarnar þegar maður hefur ekkert að gera á laugardegi? Ég bara veit það ekki... Það er einmitt það sem ég gerði áðan eða gerði heiðarlega tilraun til þess. Á heimilinu eiga að vera til 3 spólur, Fjölskyldumyndir 1-3. Í þetta skiptið fann ég bara tvær af þessum spólum en það varð bara að duga.
Ég setti spóluna í en skjárinn var bara svartur. Neðst á skjánum stóð: 18.12.1997. Síðan heyrði ég falskt hljómborðsspil og þegar því var lokið heyrðist í fjarska: “En það bar við um þessar mundir að Ágústus keisari lét þau boð út ganga að skrásetja skildi alla heimsbyggðina...” Þetta var þá upptaka af helgileiknum sem ég lék í í 7. bekk. Ástæðan fyrir því að allt var svart, var sú að mamma gleymdi að taka lokið af upptökuvélinni og skildi ekkert í því af hverju það var allt svona dimmt! Mamma og rafmagnstæki hafa aldrei verið góðir vinir.

Ég ákvað því að reyna spólu nr. 2. Og við mér blasti saumaklúbburinn hennar mömmu og makar þeirra í partýi heima hjá mér árið 1989. Einn kallinn var að spila á gítar, allir í gúddí fíling og vel í því. Ég nennti ekki að hlusta á þetta gaul og spólaði smá áfram en varð að stoppa þegar ég sá að eitthvað svaðalegt var í gangi. Þá voru kallarnir að reyna að troða smokkum á hausinn á sér... þ.á.m. pabbi minn! Og þarna voru þeir... 4 fullir kallar í jakkafötum með smokk á hausnum, allir nema pabbi því að smokkurinn hans hafði slitnað. Ég gat ekki annað en hlegið en ég steinhætti því þegar einhver öskraði: “Svo það var svona sem að Særún varð til!!!” Vá, þetta fór bara beint í hjartað...

Áfram hélt stuðið... jólin ’89. Aðfangadagur var í aðsigi og pabbi var að taka mynd af jólatrénu... og það gerði hann í 10 mínútur. Svo fannst honum greinilega svo rosalega gaman að láta “smokkaslysið sitt” hverfa (s.s. mig), að hann stillti myndavélinni upp fyrir framan jólatréð og mér líka. Tók mynd af mér að hoppa og slökkti á vélinni. Henti mér svo organdi útúr stofunni og tók mynd af trénu. Henti mér svo aftur inn og tók mynd. Þá var eins og að ég hafi bara gufað upp og poppað upp aftur!! Úff... brellurnar á þessum tíma og skemmtanagildi föður míns eru ólýsanlegar!!

Aðfangadagskvöld rann upp bjart og fagurt, og hele familien var í mat og allir að opna pakka. Pabbi fékk brennivín frá tengdó og ég fékk þríhjól frá mömmu og pabba. Það var sett saman á ganginum og svo fór mín að hjóla. Það gekk eitthvað brösuglega því að kjóllinn minn var alltaf fyrir mér og svo kunni ég bara ekkert að hjóla!!! Það kom samt allt með nokkrum hliðarveltum og blómapottaákeyrslum og á endanum var ég þrællærður hjólakappi. Pabbi fékk líka að finna fyrir því, því að þegar hann var að taka mynd af mér, hjólaði ég BEINT á hann. Hann datt aftur fyrir sig (því að krafturinn var nefnielga svo mikill) og allt í einu var allt farið að snúast því að myndavélin datt þá væntanlega líka. Svo heyrðist lítill sætur prakkara-barnahlátur og: “Djöfulsins helvítis andskotans!!” Og þannig voru þau jól!! :D

Ég meikaði ekki að horfa meira. Ég kæri mig ekkert um æskuminnigarnar. Ég slökkti á sjónvarpinu.

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

MSN SAMTAL DAGSINS!

Guðný says:
særún!
Guðný says:
þú ert ekkert upptekin!!
Særún says:
hey hvenær komst þú?????
Guðný says:
núna
Særún says:
það kom ekki : Guðný has signed in
Særún says:
BLOKKAÐIRÐU MIG???
Guðný says:
nú?
Guðný says:
NEI!
Guðný says:
eða.......
Guðný says:

Guðný says:
fyrirgefðu
Særún says:
Guðný says:
ég þoli þig ekki
Guðný says:
Særún says:
djös.... !"#&/)"&#("%&#
Guðný says:
það þarf svo sterk bein til að vera ég
Særún says:
já því annars á ég léttara með að brjóta þau
Særún says:
íhíhíhíhíhí
Guðný says:
sjitt
Guðný says:
ég fer sko ekki í skólann á morgun!
Guðný says:
omg
Særún says:
og ég sem ætlaði að bíða með beis boll kylfuna mína
Guðný says:
og mér er sko skítsama um beis boll kilfuna þína
Særún says:
iiiiiii
Særún says:
þú átt eftir að elska hana þegar hún hjálpar mér að stytta þitt litla ljóta líf!!!!!
Særún says:
grrrrr...
Særún says:
já farðu að grenja.... veimiltíta!!
Guðný says:
á ég að segja þér?!
Guðný says:
????????????????????????
Guðný says:
!!!
Særún says:
lokaorð þín..... já
Guðný says:
HEI!
Guðný says:
ekkert svona
Guðný says:
!!
Guðný says:
ég var að kaupa efni í nýja kjólinn minn!!!
Særún says:
aha... og hvernig er það??
Særún says:
sirkustjald??
Guðný says:
ókei
Guðný says:
nú blokka ég þig!
Guðný says:
grínlaust

Ég er vond og Guðný er bitur!!

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Það eru ekki margir sem vita að ég er jógúrt- og skyrmanneskja mikil... samt meira svona... fíkill. Og að því tilefni ætla ég að reyna að vera með vikulegan þátt á þessu bloggi; jógúrt vikunnar.

JÓGÚRT VIKUNNAR!

Ég smakkaði þetta jógúrt fyrir svona 2 vikum og gjörsamlega féll fyrir því strax og ég lét það inn fyrir mínar varir. Það var svolítið sætt og væmið en það er ég nú líka!! (já þetta var kaldhæðni krakkar mínir!) Og sem betur fer, á þetta jógúrt sér nafn og það á mörgum tungumálum: 1. Húsavíkur létt-jógúrt með perum og vanillu. 2. Leicht-Joghurt mit Birnen und Vanille 3. Low-fat yougurt with pears and vanilla. Alþjóðlegt jógúrt takk fyrir!!

Að mínu mati eru umbúðir jógúrtsins afar smekklegar og fallegar... voða sæt mynd af peru og svo er lítið vanillublóm sem sveigir sig í kringum peruna og hjúfrar sig að henni. Þá veit ég núna að vanilla er blóm, ekki ístegund. Svo eru aðeins 82 kaloríur og 1,3 grömm af fitu í 100 grömmum þannig að þetta ætti ekki að vera mjög fitandi... enda er þetta líka LÉTT jógúrt, samt alveg 500 gramma dolla...

S.s. bara hið ágætasta jógúrt og ég mæli með því. Húsavík rokkar!!! >:E

fimmtudagur, ágúst 21, 2003

FLOTTASTA LAG Í HEIMI/GEIMI!

Space Oddity - Dawid Bowie

Ground Control to Major Tom
Ground Control to Major Tom
Take your protein pills and put your helmet on

Ground Control to Major Tom
Commencing countdown, engines on
Check ignition and may God's love be with you

Ten, Nine, Eight, Seven, Six, Five, Four, Three, Two, One, Liftoff

This is Ground Control to Major Tom
You've really made the grade
And the papers want to know whose shirts you wear
Now it's time to leave the capsule if you dare

"This is Major Tom to Ground Control
I'm stepping through the door
And I'm floating in a most peculiar way
And the stars look very different today

For here
Am I sitting in a tin can
Far above the world
Planet Earth is blue
And there's nothing I can do

Though I'm past one hundred thousand miles
I'm feeling very still
And I think my spaceship knows which way to go
Tell my wife I love her very much she knows"

Ground Control to Major Tom
Your circuit's dead, there's something wrong
Can you hear me, Major Tom?
Can you hear me, Major Tom?
Can you hear me, Major Tom?
Can you....

"Here am I floating round my tin can
Far above the Moon
Planet Earth is blue
And there's nothing I can do."

þriðjudagur, ágúst 19, 2003

FRÉTTIR DAGSINS!

- Ónei... það er komin ný inneignar-konu-rödd hjá Símanum!!
- Ég ásamt öðrum er huxanlega að fara að syngja í brúðkaupi á Skagaströnd hjá fullri gæs sem varð á vegi okkar á Menningarnótt.
- Ég er byrjuð í “hljómsveit”: Gleðisveitin Ananas.
- Mamma sagði við mig áðan: “Ég drekk allt sem rennur... nema snjóþotu og skíði!!” Hahaha
- Guðný, ræktarfélaginn minn góði, á afmæli í dag!
- Einhver svaka sniðugur gerði símaat í pabba í gær, sagðist vera að hringja frá Byko og að hann hafi verið dreginn úr potti og unnið í einhverjum leik. Pabbi varð svaka glaður (því hann vinnur aldrei í neinu) og ætlaði að fara í Byko og ná í vinninginn. En þegar þangað var komið, var bara hlegið af honum og þá varð pabbi fúll.
- Frænka mín flaug til Ungverjalands í morgun í læknaskóla og verður þar í 6 ár. Ég fékk að vita það í morgun.

sunnudagur, ágúst 17, 2003

SPURNING DAGSINS!

Tekið af vísi.is:

Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir ummæli sjávarútvegsráðherra í Morgunblaðinu í dag stangast á við stjórnmálasáttmála ríkisstjórnarinnar. Hjálmar vill ekki útiloka að línuívilnun verði tekin upp strax nú í haust. Ljóst er því að töluverður ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna varðandi línuívilnun.

HVAÐ ER LÍNUÍVILNUN????

laugardagur, ágúst 16, 2003

STAFSETNINGAHORNIÐ!

Já kæri lesandi, ég er komin með mína eigin stafsetningu. Kannski er þessi stafsetning í notkun einhvers staðar þarna í stóra heiminum en hún er mín!!! Svona er nú mál með vexti:

1. Þegar rita á X í einhverju orði eins og til dæmis: SEX, þá er ritað GS í staðinn fyrir X-ið: SEGS. (Ef það passar betur að hafa: GGS, þá er það í lagi mín vegna en best væri nú að spara það... það er ljótt!!)

2. Þegar ritað er GS í einhverju orði eins og til dæmis: HUGSA, þá er ritað X í staðinn fyrir GS-ið: HUXA.

3. Lengri er þróun stafsetningarinnar ekki komin...


Dæmi: Ugsinn er huxanlega að fara í langferð til Sagselfur. Hann kemur við á hinu víðfræga torgi í Róm, Pags Romanum og hyxt kaupa sér segs bogs með mynd af Magsimusi keisara.

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

NÚNA ER ALLT AÐ FARA Í HUNDANA...

... því að systir mín er í fýlu útí hundinn okkar. Já það er allt ómögulegt sem hann gerir... hann pissar á hamstragrafreitinn í garðinum (beint á krossinn hallelúja!) og hann kúkar fyrir aftan hjólið hennar og hún hjólar ofan í herlegheitin. Svo áðan reif hann nýja gorma-hunda-bómullar-dótið sem hún keypti handa honum á heilar 690 kr. í gæludýrabúð en SAMT var það á tilboði (átti að kosta 890 kr.) Hún varð ekkert smá fúl, fussaði og sveiaði og öskraði á hann: “Þú átt ekki að nota alla kraftana þegar þú ert að leika þér með dótið þitt sem ég gaf þér!!” Það halda sko allir heima hjá mér að hann skilji mannamál bara rosalega vel og fari eftir öllu sem maður segir við hann.
Eins og ef maður spyr: “Hvar er pabbi?” þá kemur hann með svína-dótið sitt. Svo spyr maður: “Hvar er mamma?” þá kemur hann með belju-dótið sitt. Og maður spyr aftur: “Hvar er Særún?” þá kemur hann sko með epla-dótið sitt!! Aha! :) Þetta er talinn vera hæfileiki á mínu heimili og hundurinn skilur svo sannarlega mannamál!!!
Svo er eitt alveg gasalega furðulegt sem allir í fjölskyldunni gera... nema ég. Það er að tala fyrir hundinn. Eins og ef að hann er þreyttur segir mamma kannski: “Ég er svo þreyttur eftir stefnumótið við Snúllu í gær, riðlaðist bara á henni í alla nótt!!” og lætur eins og hann hafi bara sagt þetta. En málið er að hann sagði það ekkert! Pabbi er með meira svona: “Jó fokk off marr og látið mig í friði. Æm træíng tú slíp hjír!” Og svo hlær hann dátt að því hvað hann er fyndinn og góður í ensku!
Svo að ég víki nú aftur að samskiptaörðugleikum systkina minna, þá er þetta ekki búið. Aðalvandamálið er að ég hvert skipti sem systir mín ætlar að klappa hundinum, setur hann upp þennan þunglyndarsvip, sleikir á sér bibbann* og labbar í burtu. Já þetta er ekkert grín, höfnun kemur fólki til að gráta!
Er ekki bara málið að splæsa nokkrum tímum hjá geðlækni á liðið?? Ha...

* = orð sem faðir minn notar yfir lim, typpi, Stefán, göndul, eldflaug o.s.frv.

mánudagur, ágúst 11, 2003

YFIRSTÍGUN HRÆÐSLUNNAR!

Ég gerði heiðarlega tilraun áðan til að yfirvinna hræðslu mína á einni hræðilegustu og morðþyrstustu vofu Íslandssögunnar... Ljósabekkjadraugnum.
Ég gekk hægum skrefum í átt að draugahúsinu sem af óskiljanlegum ástæðum er kallað Fjarðarsól. Á hurðinni stóð með neongulum stöfum: Opið kl. 8-23:30 alla virka daga og kl. 10-18 um helgar. Draugurinn hefur svo sannarlega svartan húmor og notar að mínu mati, frekar nýstárlegar leiðir til að lokka til sín saklausa og sólþyrsta Íslendinga.
Konan sem sat við afgreiðsluborðið var í góðu gervi... var frekar mömmuleg, stórbeinótt og grá í framan eins og að hún væri að fara að æla og við hlið hennar lá nýjasta tölublaðið af Gestgjafanum. Það átti greinilega að vera táningasteik í matinn í kvöld! Á þessum tímapunkti gat ég ekki hugsað um annað en að hringja í mömmu. Ég náði þó að stama út úr mér: “A-a-a-a-a-áttu nokkuð-ð-ð lausan s-s-s-síma... nei ég meina tíma??” Afgreiðslukonan góndi á Gestagjafablaðið og byrjaði sleikja útum... “Ójá og ég á nóg af þeim! Hehehehe” Augun á mér ætluðu útúr augntotunum en ég náði að halda þeim inni. Ég borgaði heilar 690 kr. eftir að mér var bent á að fara í klefa 7... 7... það er óhappatala!!
Þegar í klefann var komið, blasti við mér bekkurinn... Viva 2000!! Ég afklæddist en hafði fötin nálægt mér ef ske kynni að ég... þyrfti nauðsynlega að fara. Bekkurinn fór í gang en áður en ég lagðist, kýldi ég vel og rækilega í glæru plötuna sem ég átti að liggja á. Hún virtist traust og ég lagðist því á hana... varlega. Ummm... þetta er gott og ekki eins slæmt og ég hélt!! En obbobbobb... ekki má gleyma aðalatriðinu... svörtu geirvörtudöllunum!!!! Maður má nú ekki brenna á þessum elskum!
Allt gekk vel og þegar ég var búin að liggja í svona 10 mín. heyrði ég eitthvað suð... suð sem ég kannaðist við. Þetta getur ekki verið.... GEITUNGUR!! Uppi varð fótur og fit þegar ég sá hann sveima inni í bekknum.... feitan, gulan og svartan! Hann settist á geirvörtudallana og suðaði eins og hann væri að reyna að segja eitthvað. En ég dó ekki ráðalaus, heldur greip annan geirvörtudallinn og lagði á hinn og kramdi geitunginn. Geitungamauk!! Hann hlýtur að hafa verið einn af mönnum Ljósabekkjadraugsins. Ég ákvað því að ljúka legu minni á bekknum, klæddi mig og hljóp út. Engin var afgreiðslukonan. Þegar út var komið, fattaði ég að geitungurinn var bara að reyna að segja mér að Ljósabekkjadraugurinn var á leiðinni... leiðinni að ná í hráefnið í táningasteikina sína.
Þrátt fyrir að ég komst ekki yfir hræðsluna á ljósabekkjum, er ég komin í sátt við geitungana. Þetta var þá ekki fýluferð eftir allt saman!!!

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

VINNUHORNIÐ!

Það sem ég heyri hvað oftast á vinnustaðnum mínum... á elliheimili:

1. “Stúlka, geturðu ýtt á takkann fyrir mig?”
2. “Þetta eru ómögulegir sokkar. Farðu bara niður í þvottahús og náðu í hnésokkana mína?”
3. “Sæl elskan. Ertu ekki í stuði? Áttu eitthvað gott að narta í... síld, hangiket eða kæfu?”
4. “Stúlka, hækkaðu höfðalagið!!”
5. “Hverra manna ert þú?”
6. “Hvar er pabbi þinn rafvirki??”
7. “Þú hefur svo fallegan prófíl!”
8. “Ha... ætlarðu að leggjast með mér upp í rúm?”
9. “Ég get ekki neitað því að kynlífslöngunin er alltaf til staðar.”
10. “Það er svo gaman að sjá þig, litla dúfan mín!”
11. "Geturðu rétt mér skæri? Ég þarf að klippa nærbuxurnar mínar í sundur."


Gamalt fólk er yndislegt!!