sunnudagur, apríl 29, 2007

Aftur í litlu appelsínunni

Nei djók, í stóra eplinu. Var að lenda fyrir stuttu og er bara að tjilla í hótelherberginu á Times Square brúkandi dýrustu nettengingu fyrr og síðar. Er með nett bólgna fætur eftir allt þetta flug fram og til baka. Jibbí. En þá er bara málið að hætta að kvarta og segja eitthvað af viti.

Síðastliðnu daga var ég sem sagt í Palm Springs á suddalega flottu spahóteli. Byrjaði vel. Ónefndur herbergisfélagi fór út í garð og garðúðinn fór af stað. Ekki skánaði það því á leið minni út í sama garð klessti ég á flugnanetið. 1 - 0 fyrir flugnanetinu. Fórum svo fljótlega í hljóðathugun (e. sound-check) og blabla. Okkur var keyrt út um allt, meira að segja fimm metrana. Kaninn alltaf á taugum. Greyin. Um kvöldið bauð hann Damian tölvudúddi okkur í partí til vinna sinna í úthverfi þar rétt hjá. Samanstóð teitið af 50' húsi, DJ, diskókúlu, hassreykingum, sundlaug, ekta amerískum peyjum og uppáþrengjandi konum. Þar var sprellað mikið og ég og Erla gerðumst svo kræfar að henda okkur í laugina. Vakti það lukku mikla. Síðan kom víst löggan og þá fóru allir bara um eitt leytið. Isspiss. Þá fórum við bara heim að lúlla, nema ég. Ég fór á netið á klóinu. Gamangaman.

Daginn eftir var það ferð í Best Buy í myndavéla- og tölvukaup. Skellti mér á eina nýja Canon. Megaflott. Henti líka minni gömlu í morgun. Jess. Svo varð maður auðvitað að fara í Target og skoða sig um. Eftir það var klullabið eftir bíl sem átti að ná í okkur. Oj. Svo fór maður bara á sundlaugarbakkann að synda smá og svona. Þá var það stóra stundin, Coachella! Komum á pleisið og það fyrsta sem ég sá: Cameron Diaz! En hverjum er ekki sama. Jæja, fórum á treilerpleisið okkar að það var svo suddalega töff. Fengum okkar eigið málverk og læti. Og haha, svo vantaði okkur hársprey og kom þá ekki Ragga, aðstoðarkona Bjarkar: "Kelly Osbourne lánaði ykkur hársprey." Það er bara ekkert minna! Svo bara kom að því: spilamennskan. Og aldrei hef ég séð svona mikið af fólki áður. Giska að þetta hafi verið svona 80.000 manns. Aðeins. Og svo var það bara allt í einu búið. Getið tékkað á myndbrotum á youtube. Og þegar við komum tilbaka beið Ron Jeremy eftir okkur fyrir utan pleisið okkar. Hann heyrði víst að það væru 10 stelpur að spila. Nei segi svona. Hann var víst alltaf að reyna að komast inn en fékk það ekki. Hí á hann. Skáliskál og allir heim að pakka fyrir flugið. Þriggja tíma rútuferð á flugvöllinn og svo 5 tíma flug. Ojojoj. Og núna er ég hér. Á 21. hæð. Og ég sem er bara smá lofthrædd. En hérna kemur allavega smá myndablogg:


Mín og herbergisfélaginn á leið á Coachella.


Sviðið tekið aftan frá. Haha. Smá orðadjók.


Dolly Parton búningakassinn okkar
Síðan var okkur hent í bíl og beint í Gúlagið


Erlan og ég að sprella fyrir sjóvið


Það búa bara sjálflýsandi píur í Hafnarfirði


Svo "stal" ég þessari grímu af pleisinu. Maður er orðinn svo harður í Ameríkunni sko.


Og myndin af mér og Davie Chapellie vini mínum. Erum við ekki flott?

Bæ esskurnar og verið dugleg við að kommenta. Ég þarf líka alveg smá umhyggju...

mánudagur, apríl 23, 2007

Billy og Alison

Já þá er ég komin í Beverly Hills og það dót. Flugið tók aðeins 6 tíma og var það ömurlegasta sem ég hef farið í. Ojojoj. Svo aftur sami pakkinn um helgina. En við spiluðum sem sagt í SNL á laugardaginn já og sungum líka. Þetta var rosalega skrýtin tilfinning og upplifun. Fullt af lærlingum voru í því að leiða okkur út um allt og gefa okkur að borða og svona. Litlu munaði að þau mötuðu okkur og skeindu. Svo var rennsli um daginn en allt var tekið upp ef eitthvað skyldi klikka. Þá var þátturinn 2 tímar en alvöru þátturinn 1 og 1/2 tími. Þannig að við fengum að sjá fullt af atriðum sem voru klippt út eða breytt. En þið VERÐIÐ að sjá þetta atriði. Við stelpurnar tölum ekki um annað. Svo spiluðum við bara og aldrei þessu vant var ég ekkert stressuð. Skrýtið.

Síðan var eftirpartí á rosa fansí stað og við nokkrar fengum far með Björk og manninum hennr. Þá voru fullt af papparössum sem biðu eftir henni og hey, kannski er bara mynd af mér í einhverjum pappapésanum. Og var þá ekki bara snillingurinn hann Dave Chapelle þarna inni og þá var bara málið að drekka í sig kjark til að fá að taka mynd með mér og kjeppanum. Það gekk lítið en Brynja var svo mikið yndi að spyrja hann fyrir mig og Valdísi. Myndin er reyndar á annarri myndavél og set ég hana hérna þegar ég er búin að fá hana. Hann var svaka hress og gaf mér svona homie handshake eins og ég kalla það. Hehehe. Og hann talaði eitthvað um það að koma á tónleikana okkar í Harlem í maí. Vei. Svo var eftir-eftirpartí á einhverjum spúkí stað og allt liðið þarna, líka Scarlett Johansson. Ætlaði að reyna að taka mynd af henni. Hérna kemur hún:


Sjáið þið hana ekki? Nei það er útaf því að þessa hendi á lífvörðuinn hennar sem elti hana út um allt og bannaði mér að taka mynd. Dísús.

En jæja, svo vaknaði maður hálfþunnur næsta morgun og beint í ógeðisflugið. Bílferðin á JFK var samt frekar spes. Bílstjórinn leyfði okkur að horfa á einhverja ísraelska boxmynd enda var hann sjálfur frá Ísrael. Svo talaði hann mest um brúðkaup þar í landi alla ferðina. Skrýtna fólk. Og já, ekki má gleyma honum Benna. Hann fékk núna eðalstað í vélinni. Eitthvað sérhólf í farangursgeymslunni og beið svo eftir mér við innganginn, bæði blautur og svangur því það var smá rigning þegar við komum. Greyið. Hann er ennþá að jafna sig. Og hótelið sem við erum á er klikkað flott. Sundlaug og læti bara. Svo er planið að skella sér í nudd og handsnyrtingu þegar tími gefst. Dekra smá við sig. Svo fórum við nokkur á ekta amerískan diner í gærkvöldi og fengum okkur sveittan mat. Ojá. Ég og Valdís keyptum okkur svo limesafa og fórum í sólbað í morgun og skelltum smá í hárið. Ég er nefnilega ekki lengur ljóshærð en sakna þess smá. Og svei mér þá, hárið lýstist bara bönns. Og núna er ég bara að tjilla þangað til ég fer á æfingu í Burbank. Svo er það bara Coachella á föstudaginn! Ví!

Sakna ykkar allra og þið megið alveg senda mér sms ef þið viljið. Munið bara að það er 7 tíma mismunur þannig að engin sms þegar ég á að vera sofandi. Takk. Bless.

Og hérna getið þið séð SNL atriðin. Tékkið á klósöppinum á mér. Ég er eins og api á þeim. Tíhíhí.föstudagur, apríl 20, 2007

Í Litlu appelsínunni

Nei djók, í Stóra eplinu. Kannski kominn tími á eitt blogg fyrst ég er komin til US and A. Allavega, flaug út á miðvikudaginn og var samfó ma og pa sem voru að fara til Barcelona á sama tíma og ég. Og þvílíkt flug. Hornið mitt, Benni þurfti að vera ólaður niður í sæti því hann komst ekki í hólfið. Greyið. Svo fékk hann ekkert að borða. Dísús. Og þessi ameríska terroristageðveiki. Dísús í öðru veldi.


Benni í frekar óþægilegri stellingu

Já ég gleymdi alltaf að segja frá því þegar ég þurfti að fara í bandaríska sendiráðið um daginn... var látin gefa fingraför og eitthvað og svo sagði gaurinn hinum megin við skothelda glerið: "We suspect you of terrorism so we have to take a bloodsample." Og augun á mér ætluðu út úr hausnum á mér og tungan fór niður í kok. Svo bara: "Just kidding!" og hló. Oj, má þetta? Oj.

Ókei, svo komum við á hótelið sem er bara megalúxushótel. Ég sef í risastóru rúmi, reyndar hörðu, og fékk 4 kodda. Svaf eins og steinn en svo vöknuðum við Brynja við vekjaraklukku í herberginu okkar kl. 4:30 og ég hélt að það væri bara að kvikna í. Freeeeekar óþó. Svo næsta morgun fórum við í NBC stúdíóið og æfðum fyrir Saturday Night Live sem við spilum í já á laugardagskvöldið. Scarlett Johanson verður (kíg)hóstinn og ég sá hana... oft! Síðan fórum við aftur á hótelið og svo í tónlistarbúðaráp. Svo á Times Square að rölla og fengum okkar að éta.

Í morgun fórum við svo á einhverja skattstofu til að fá bandaríska kennitölu. Allt mjög formlegt og við urðum að sitja og máttum helst ekki hreyfa okkur. Og blabla, fórum svo að versla. Ég missti mig í H&M og Victoria's Secret enda mín fyrsta ferð í þá búð. Keypti fullt af sexí undirfötum og bara nefndu það. Og núna er ég á hótelinu að pikka inn á nýju tölvuna mína sem ég keypti daginn áður en ég fór út. Þannig að ég ætti oftast að vera í netsambandi og læti. Hafið það gott á klakanum og ég kveð úr sólinni í NY. Set svo myndir þegar ég er búin að kaupa nýja kameru. Jei. Bless og ekkert stress!


Oooog hérna erum ég og Björk að deyja úr gimpamennsku á tónleikunum um daginn. Og að sjá þennan búning! Snilldin ein.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Pjúkket

Stórtónleikarnir afstaðnir. Ógeðslega var þetta tussugaman! Skondin tilfinning að vera fyrir framan 5.500 manns í neonbúning sem gæti rúmað 2 Særúnir í viðbót. Og aðalstuðið var þegar allir fóru að hlæja þegar þau sáu okkur. Öfundin að fara eitthvað vitlaust með fólk. Haha. Svo fékk ég eitt svona skemmtilegt svimakast eins og í gamla daga í einu laginu. Ég var við það að detta niður eða hlaupa út en náði að telja sjálfri mér trú um það að það væri ekki mjög kúl að lenda í yfirliði eða hendast út af sviðinu í miðju lagi. Heldur betur neikvæð athygli þar á ferð. Þannig að ég beit bara á jaxlinn og þetta fór. Er nú soldið hrædd um að þetta verði tíður gestur þarna úti en ég held bara í vonina. Það leið nú samt yfir eina sem var fremst við sviðið. Greyið. Og svo var hún Oddný mín fremst og ó, það var svo gott að hafa kunnuglegt andlit til að brosa til. Og svo er hann Antony úr Antony and the Johnsons svo mikið krúttíbútt. Langaði helst að knúsa hann. Svo var bara skálað og læti eftir giggið og mín skipti um föt og fór að hoppa með Heitri flögu.
Síðan var allt búið og allt liðið flykktist á Boston niðrí bæ. Þar lenti ég nú í ansi skondnu atviki. Var að koma af barnum og var á leiðinni upp. Fékk mér sopa og BÚMM! Leikkona sem byrjar á B og endar á R var í einhverju spassakasti á dansgólfinu og dúndraðist beint í glasið og upp í tennurnar á mér. Og sjitt, ég hélt bara að tennurnar væru dottnar úr mér og túrinn bara fokinn. Hún var greinilega svo drukkin að hún fattaði ekki neitt, sagði bara: "sorrí" og hélt áfram að leika þroskaheftan dansara. En sem betur fer eru tennurnar heilar, kvarnaðist bara smá úr þeim og verður reikningurinn sendur á kellinguna. Jæja, svo náði ég að slá fulli bjórglasi upp í vegg með mínum stóra handapati og fór ég því aftur á barinn. Var ekki bara ein svona fimmtug sem fór svona hrikalega að reyna við mig. Var alltaf að kyssa mig á kinnina og það blautum kossi. Jæja, djammið stoppaði ekkert fyrr en kl. 1 en þá lokaði pleisið. Liðið fór þá á Sirkus en við fórum bara heim. Skynsamar. Góður dagur. Og hérna koma nokkrar myndir sem ég tók. Ekki margar samt:


Allir reddí


Haha, ein fersk á klóinu


Við hornin. Kannski úti í horni? Hohohoho.

Svo erum við víst bara að fara út eftir viku. Góðir hlutir gerast hratt.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Góðir páskar

Fínir. Var í fríi á laugardaginn OG í dag. Ha, frí... hvað er það? En allavega, fékk lakkríspáskaegg frá Góu, þrusugott. Þetta árið var ekki leitað að páskaegginu enda er sá siður orðinn svolítið þreyttur. Risamatarboð hérna heima með purusteik og læti. Var samt eitthvað að drepast í maganum þannig að það var lítið borðað. Þá sagði Mundi frændi allt í einu: "Fáðu þér sílíkol" (einhver magadrykkur) og mín auðvitað rak upp stór augu og heyrðist hann auðvitað vera að segja mér að fá mér sílíkon. En svo var ekki sem betur fer. Hræðilegt ástand ef föðurbróðir minn er farinn að kvarta yfir litlum barmi mínum. Heyrnin mín er ekki upp á marga fiska þessa dagana sökum þess að ég er búin að vera með blastandi tónlist í eyrunum núna í nokkrar vikur. En vonandi venst það. Vont en það venst eins og segir í laginu.

Hvaða dagur er á morgun? Jú geðveikur dagur! Tónleikadagur! Er búin að bjóða fullt af fólki og ef þú ert ekki ein/n af þeim þá bara... aumingja þú! Haha. Þetta verður mergjað stuð. Fer í fyrsta skipti í flotta feita búninginn minn á svið og blabla. Svo verður bara feitt partí eftir á með Heitri Flögu. Hún er geðveik. Vonast til að sjá sem flesta. Jei!

Gleiða páska og allt það.

Já svo má ekki gleyma málshættinum sem ég fékk ef málshátt má kalla: Hugsaðu ekki með annarra hugsunum. Notaðu þínar eigin, annars ryðga þær. Uss, þetta er nú bara eitthvað bull. Tek þetta allavega ekkert inn á mig. Ufffpufff.

mánudagur, apríl 02, 2007

Ástæða til að gleðjast

Nú megið þið það því ég ætla að segja ykkur frá því vandræðalegasta sem hefur gerst fyrir mig. Bara af því að mér finnst þetta sjálfri svo fyndið. Ef ég yrði spurð um vandræðalegasta atvik lífs míns þá verður þetta án efa fyrir valinu. Ókei, hérna kemur þetta:

Ég var sem sagt að spila með Björk og stelpunum á styrktartónleikum á NASA í gær. Voða gaman. En áður en við áttum að spila vildi ég nú tæma mig því ég er ekki þekkt fyrir að vera með mikla partíblöðru. Gekk upp stigann baksviðs en þá var troðið af fólki fyrir framan klósettið, borgarstjórinn og svona sem átti að halda ræðu. Tek mér það bessaleyfi að kalla hann Villa borgó. Ákvað nú að vera ekkert að troðast fyrir framan hann og fór niður og sagði stelpunum það. Nokkrum mínútum seinna ákvað ég þá að gá aftur og sjá hvort eitthvað væri búið að minnka af fólki. Jú mikið rétt, Villi borgó var bara þarna. Létti af mér þungu fargi og kom fram glöð í fasi. Var á leið niður þegar Villi segir: "Afsakið" Ég sný mér við og hann heldur áfram: "Kjóllinn er ofan í sokkabuxunum."

Hlæjupása

Svo rauðar kinnar hafa ekki sést á margar aldir. Lagaði kjólinn, þakkaði pent fyrir viðvörunina og gekk þunglamalegum skrefum aftur niður. Þá sprakk ég bara úr hlátri og sagði söguna við mikla kátínu stelpnanna. Og við sem vorum einmitt að tala um það um daginn að sumar tékka alltaf á sokkabuxnagyrðingum eftir klósettferðir. Ég var ekki í þeim hópnum en trúið mér, ég er það núna.

Vandræðalegt?


Var bara að taka þessa áðan. Tæknin marr.

Og allir að horfa á Kastljós á morgun eða miðvikudaginn. Viðtal við...?