mánudagur, febrúar 28, 2005

28. febrúar

er í dag. Ég fór að pæla í því hvað ég væri gömul ef ég hefði fæðst 29. febrúar. Þá væri ég 5 ára. Þá væri ég bara ennþá í leikskóla að skríða í grunnskóla. Ég sé það svo í anda. Allir þeir sem eru fæddir 29. febrúar þurfa að gera allt 4 sinnum hægar en allir aðrir. Fara fjórum sinnum í 2. bekk og þar fram eftir götunum. Svekkjandi. Þá myndi hið sama fólk útskrifast úr menntaskóla um áttrætt ef það nær svo langt.

Ég er að komast að því að ég er ekki ein í heiminum. Ég er t.d. ekki sú eina sem hefur dreymt að vera að pissa, líða bara vel og vakna svo í pissublautu rúminu. Það er reyndar mjög langt síðan (Sumarbúðir á Úlfljótsvatni '98) en ég mun alltaf muna eftir þessu atviki. Atvikinu sem breytti mér úr unglingi í gamla konu sem getur ekki haft stjórn á þvagláti sínu. Neinei, nú ýki ég. Ég er allavega búin að finna 5 aðra sem hafa lent í þessu. Eflaust þora hinir ekki að viðurkenna þetta.

laugardagur, febrúar 26, 2005

Prakkarastrik

Ég var að rifja upp prakkarastrik mín sem barn og komst að því að þau eru bara þónokkuð mörg.

- Þegar systir mín var nýfædd var ég 5 ára. Eins og öllum eldri systkinum þá vantaði mig athygli. Ég tók því upp á því að hoppa jafnfætis yfir krakkann þegar hann lá á gólfinu. Gerði það nokkrum sinnum og mamma fékk næstum því hjartaáfall þegar hún sá það. En ég fékk athyglina eins og ég vildi.

- Ég var svona 7 ára þegar ég og fjölskylda mín fórum ásamt saumaklúbbnum hennar mömmu á tjaldsstæði út á land. Ég fór eitt sinn út í skóg og fann hrúgu af lambaspörðum. Fór til baka og náði í fullt af tómum smartís-pökkum, fyllti þá af lambaspörðum og gaf krökkunum á tjaldstæðinu bingó-kúlur. Ég held að ég hafi aldrei verið skömmuð svona mikið á ævinni.

- Í fyrsta bekk var ég algjör prakkari. Var í þeim pakka að reyna að kyssa strákana og svona. Einu sinni var ég að elta einn strák og til að stoppa hann, ákvað ég að taka rólu og sveifla henni á hann. Jújú það stoppaði hann og hann fékk gat á hausinn fyrir vikið. Ég grét samt meira en hann. Þegar ég hitti hann núna, 13 árum síðar, minnir hann mig alltaf á þetta og sýnir mér örið. En sú illska.

- Í 5. bekk var stríð milli stráka og stelpna í bekknum mínum. Strákarnir kölluðu okkur kvenrembur og við kölluðum þá karlrembur á móti. Efast að við vissum hvað þetta þýddi en við urðum alltaf rosalega móðguð ef við vorum kölluð þetta. Einu sinni fékk ég fullkomið tækifæri til að ýta aðeins við bekkjarbróður mínum en það vildi svo skemmtilega til að ísilagðar tröppur voru fyrir neðan okkur. Ég ýtti aðeins við honum og hann rúllaði niður. Þegar mér var svo kennt um þetta, sagði ég bara að ég hefði rekist í hann og hann dottið í hálkunni. Svo kom það í ljós að strákurinn tognaði í hendinni en ég held nú að hann hafi fyrirgefið mér á endanum og hélt áfram að kalla mig kvenrembu.

Þetta voru góðir dagar

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Antík tellevisjón-þættir

Ég átti ágætis spjall með strætófélugunum mínum góðu um gamla sjónvarpsþætti sem við öll söknum svo mikið. Hér koma þeir allra helstu og söknuðustu: (Jájá það má segja það)

Breaker High: Ástralskur þáttur um krakka í menntaskóla og vandamál þeirra. Þau höfðu gaman af því að hanga á einhverri billjardstofu og við höfrungasundlaugar.

Biker Grove: Breskur þáttur um krakka í félagsmiðstöð. Leiðinlegir en samt svo gaman að horfa á þá. Og hver getur gleymt laginu: Ú biker biker, biker grOOOve!

Ráðagóðir krakkar: Franskur þáttur um systkin sem eru með leynilega útvarpsstöð í herberginu sínu. Í þáttinn hringja krakkar með ýmis vandamál sem systkinin leysa síðan... alltaf. Skemmtilegur þáttur á sínum tíma en ekki lengur.

Molly: Annar franskur þáttur um stelpuna Molly sem fer á eitthvað heimili og hlustar alltaf á gult vasadiskó. Svo hjólar hún mikið. Ég man þó eftir því að stundum var þátturinn á ensku og stundum á frönsku. Hah.

Undrabarnið Alex: ó og æ hvað ég var límd við skjáinn á miðvikudögum kl. 6 þegar Undrabarnið Alex var í sjónvarpinu. Ég man meira að segja hvenær hann var sýndur. Ég man samt ekki alveg um hvað hann fjallaði en það var eitthvað grænt.

Sabrina: Ég festi mig við sjónvarpið með sogskálum þegar Sabrina var í imbanum. Kötturinn Salem var nefnilega svo sexí.

Spegill spegill: Ástralir eru góðir í að búa til þætti, það er víst. Þessi fjallaði um töfraspegil þar sem stelpa fer í gegnum hann og fer þá aftur í tímann. Vó!

Man ekki en þetta var teiknimynd um 2 rokkstráka sem fóru í símaklefa og fóru aftur í tímann. Vó! Ég prófaði nú þetta símaklefadæmi einu sinni en það virkaði ekki. Fékk bara gat á hausinn fyrir vikið.

Man ekki en þátturinn fjallaði um stelpu í Ástralíu sem átti heima í húsi þar sem 2 dauðir feðgar komu alltaf í heimsókn. Náði ekki alveg söguþræðinum á mínum yngri árum.

Man ekki en þátturinn var um eitthvað lítið tröll í sandi sem lét óskir krakka rætast. Ég fékk alltaf martraðir útaf þessu trölli. Slæmir tímar.

Eruð þið myrkfælin?: Óó, mér líður illa yfir að tala um þennan þátt. Ef ég hef skaddast andlega sem barn, þá var það útaf þessum þætti. Martraðirnar poppuðu upp eins og örbylgjupopp. Sérstaklega þegar þátturinn um stelpuna sem festist í dúkkuhúsinu sínu var sýndur. Ég þorði ekki að leika með mitt dúkkuhús eftir það. Ekki það að ég lék mér með dúkkuhús...

Úrið hans Bernharðs: Bernharður átti úr sem gat stoppað tímann. Svoleiðis úr var á afmælisgjafaóskalistanum mínum eftir það. En ég fékk það aldrei...

Hafgúan: Þáttur frá Ástralíu um hafmey úr geimnum. Svo kynntist hún krökkum sem voru í einhverjum kafbát. Besti vinur hennar var hvalur. Lúser!

Jeg kan ikke huske men showen handlede om en dreng som udvikledes til en hund. Det var så sjovt! Og jeg grinede og grinede hele tiden! Oh det var gode dage.

Er ég að gleyma einhverjum?

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Hay niebla

eins og vinir mínir Spánverjar segja alltaf. Já það er þoka um lönd og sæ og við því segi ég ræræræ. Þetta var rím, mikið rétt. Ég kýs að kalla þokuna dauðaþoku því bráðum fer þokan að smjúga milli hurðakamra og kæfa mann og annan. Nei bara svona pæling. En Þokubaninn fær þetta mál í hendur, ekki spurning.

Ég hef orðið fyrir barðinu á hverju svekkelsinu á fætur öðru síðustu daga. Númer eitt: mér var boðið að fara til Þýskalands á tveggja vikna spileríisnámskeið FRÍTT og plús það þá fæ ég vasapening, en nei, það er á nákvæmlega sama tíma og Portúgalferðin með 5. bekk. Aðstoðarskólastjórinn hringdi í mig í dag og ég varð að tjá honum það að ég gæti ekki farið, væri búin að skrá mig í hina ferðina og væri við það að borga staðfestingargjaldið. Hann sagði rosalega oft í símann: helvítis djöfullsins vesen, og dæsti svo. Ég varð bara hálfhrædd. Svo byrjaði hann að múta mér með því að bjóðast til að borga mér staðfestingargjaldið til baka. Hann var bara að plata mig, ég veit það. En svona er að vera ómissandi krakkar mínir. Ahahaha. Númer tvö: ég er búin að gleyma því af því að ég er svo svaka svekkt yfir númer eitt. Læt vita þegar ég man það.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Fjalladúfan hressa

Fjalladúfan fríða
flýgur hátt og víða
hún þarf þó ekki frekari boða að bíða
ef þú blístrar og kallar til hennar: komdu að ríða

fjalladúfan frama
hvorki firtist né byrjar að stama
þó svo folinn klikki þetta er þvílík dugnaðardama
og dæmir ekki hart - henni er sama

fjalladúfan fína
fer bara undir sængina sína
og lætur hugann draga á tálar keisarann í kína
hún kann á sína pullu - þekkir þú þína?

dúfa fjalls og flóa
lætur fíflarana bara róa
ef þeir eiga ekki til í sér náttúru nóga
næturlangt þá vill hún sér miklu frekar fróa

dúfan fjalla firna sæta
veit að fiðring eltir væta
og hún hugsar með sér öll má bölin bæta
og beinir flugi í átt að strætinu sæta

og 15 erindi í viðbót...

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Aldrei hef ég orðið svo skelkuð

Ég sat í makindum mínum yfir imbanum, japlandi á ridds-kjeggsi. Heyrði ég því næst hamagang á neðri hæðinni en kippti mig ekkert upp við það því hamagangur er algengt fyrirbæri á heimili mínu. Síðan ruddust upp í stofu 4 hettuklæddar verur í skíðaúlpum og sást ekki í andlit þeirra. Verurnar settust í sófann á móti mér og horfðu á mig (geri ráð fyrir því) Ég horfði á móti með skelfingarsvip og fór að pæla í því hvar falda myndavélin væri. Ég hafði ekki hugmynd um hverjir þetta voru því vinir mínir eru ekki svona litlir og ganga ekki í nælonsokkum eins og önnur veran gerði. Sökum skelfingu ákvað ég að flýja niður og ná í hjálp en verurnar eltu mig. Síðan tóku þær upp á því að opna ísskápinn og drekka mjólk og safa af stút. Þá kom systir mín upp og varð jafnhissa og ég. Ég sagði við hana að það væri einhver í húsinu okkar. Hún sagðist sjá það. Afi kom næst röltandi inn og fattaði ég þá hverjar verurnar voru. Þá var þetta systir hans pabba sem er búsett í Noregi og börninn hennar þrjú sem voru að koma í óvænta heimsókn sem enginn vissi af. Fagnaðarlæti mikil urðu þá. Já helvíti var þetta sniðugt uppátæki. Eftir á. Ég ætla alltaf að læsa útudyrahurðinni eftir kl. 8 á kvöldin hér eftir. Maður veit aldrei hvaða hettuklæddu verur búa í myrkrinu.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Ef

- sonur minn myndi heita Jón, myndi ég alltaf kalla hann Mill-Jón.
- ég gæti, myndi ég breyta öllum stelpuvinkonum mínum í strákavini. Minna vesen á þeim.
- ég bara vissi hvað ég ætti að skrifa meira.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Súri dagur

var laugardagurinn 12. febrúar. Ég neyddist til að fara í eitthvað fimmtugs afmæli í Borgarnesi með familíunni og í afmælinu var samansafn af skrítnasta og leiðinlegasta fólki sem ég hef séð. En það var allt í lagi því það var ókeypis bjór! Planið var nú ekki að fá sér en þegar ég komst að því í hvurslags klípu ég var komin í við það eitt að vera á staðnum, gat ég ekki annað en fengið mér nokkra öllara. Svo var hringt í mig og mér boðið á generalprufu hjá Herranótt. Vitaskuld var ég föst í Borgarnesi og til að reyna að bæta upp svekkelsið, fékk ég mér bara nokkra bjóra í viðbót. Á leiðinni heim kom pabbi með slæman brandara. Hann gaf mér fokkjú merki og spurði hvað þetta væri. Ég svaraði: "Uuu, typpi?" Þá sagði pabbi: "Neeeei, Hús verslunarinnar"! Svo hló hann dátt. Himinninn var stjörnubjartur og fór því heimferðin í það að búa til mín eigin stjörnumerki eins og Vigtin, Beisbollkylfan og Stangastökkvarinn. Ég var því illa stödd þegar komið var í göngin. Engar stjörnur þar. Ég sofnaði því og vaknaði þegar ég var komin heim til Oddnýjar. Þar skutluðumst við í súrasta teiti sem ég hef farið í og eru mörg teitin súr fyrir. Þar voru 5 strákar og við og þeir voru allir að reykja einhvern andskotann, drekka tælenskt viskí og fá sér eitthvað guarana-dót í skeið. En það var allt í lagi nema að þegar ég skrapp frá í smástund og kom aftur, fann ég símann minn allan útí kertavaxi og kóki. Eftir dans uppi á stólum og gítarspil fórum við heim. Heim var ég komin um hálf 8 og mamma alveg klikk. Þá fattaði ég að ég verð að hætta þessu rugli, vera bara heima um helgar, horfa á Idolið og Gísla Martein. Já það er góður lífstíll. Þar hafið þið það!

laugardagur, febrúar 12, 2005

Það er stutt í spunann

- er einhver munur á harla og varla?
- en á tónlist og hljómlist?
- ég fór á Hjálmatónleika í gærkvöldi. Það var æði þrátt fyrir eymsli í fótum.
- það er hættulegt að opna fjúkandi svalahurðir undir áhrifum.
- eftir 2-3 bjóra verður fólk skyndilega rammfalskt.
- það er munur á því að skalla og kýla.
- háhælaðir skór eru dauðinn í skólíki.
- það er ekki gott að sofa í kuðli.
- það er ekki eins að horfa á Idolið með Lays snakk.
- það er ekki gáfað að leggjast á dansigólf á balli til að fara að sofa.
- það er rosalega gaman að koma heim og sjá að 23 hringingum var ekki svarað á símanum sínum.
- letibloggarar eiga ekki skilið að vera hrútspungar.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Fólksflokkun

Ég hef komið upp mínu eigin fólksflokkunarkerfi. Flokkarnir eru hunda- eða kattafólk. Til dæmis ef ég spyr hann Palla (sem ég hef ekki hugmynd um hver er) hvort hann fíli meira ketti eða hunda og hann segir að hann fíli meira ketti, þá veit ég hálfpartinn hvernig manneskja hann er.

Hundar

eru hinir sterku. Þeir láta engan vaða yfir sig á skítugum loppum og eru því alltaf á varðbergi. Sérstaklega þegar um er að ræða hitt kynið. Þeir eru eins og 10-11, snöggir að því. Ókostur þeirra er að stolt þeirra getur valtið yfir þá og eftir það verður engu við bjargað. Þeir eru trúir vinum sínum og leggja sig því oft á tíðum í mikla hættu við það að bjarga þeim úr hinum ýmsu vandamálum. Áhugamál þeirra eru hinar ýmsustu boltaíþróttir og skór, þá helst dýrir skór.

Kettir

eru hinir sjálfstæðu. Þeir lifa eins og kóngar/drottningar í ríki sínu, skíta og spritza hver sem þeim sýnist og eru stoltir af því. Bæði eru þeir tignarlegir og uppréttir og gefa almúganum lang nef. Ef hætta steðjar að, verja þeir sig með kjafti og klóm, þó einungis ef þeir sjálfir eru í hættu. Ókostur þeirra er því hið gríðarlega egó sem hleypur oft með þá í gönur. Áhugamál þeirra eru prjónaskapur, baðferðir og að kúra með sínum nákomnustu fyrir framan sjónvarpið með popp og kók. Eða Pussy kattamat, fer eftir skapi.

Ég spyr því: hvort ert þú hundur eða köttur?

mánudagur, febrúar 07, 2005

Ég heyrði alveg ógeðslega fyndinn brandara um daginn:

Hvernig vigtarðu selsunga?

- Með kópavog!

Úff hvað ég hló lengi og mikið og leið þúsund sinnum betur eftir það. Fyndið að hlátur rímar við grátur. Haha.

Ég var að kaupa mér svo flotta skó áðan fyrir árshátíðina. Mmm nammi namm. Þeir eru svo girnilegir að ég gæti étið þá. Á þeim verður tjúttað þótt á hælum þeir séu. Ég get því leitað uppi truntuna sem steig á mína rist (ekki brauðrist) á síðustu árshátíð og traðkað vel og rækilega á henni. Verð bara að vona að hún sé ekki í skóm með stáltá eða sé á túr og lemji mig í köku.

Ógeðiskokkurinn eykur ógeðleika sinn með hverri vaktinni. Á föstudaginn spurði hann mig hvort ég ætlaði ekki að taka hann með mér á næsta ball. Reiknaði með að hann væri að djóka og því sagði ég að hann mætti vera dræverinn minn. Á laugardaginn var mælirinn fylltur. Hann bauð mér í bíó og í þetta skipti var ég viss um að hann var ekki að grínast. Ég fór í kleinu og sagði það fyrsta sem mér datt í hug: að ég þyrfti að læra. Maðurinn er að nálgast fertugt og gæti þess vegna verið pabbi minn. Blööö!

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Varúð!

Þynnkan er allstaðar. Í blóðhlaupnum augunum, í höfðinu, í jafnvægisskyninu, í blóðinu, í hjartslættinum, í fötunum. Hver og hvað verður næsta fórnarlamb þynnkunnar? Verður það þú? Eða verður það hundur nágrannans? Allt um það í næsta þætti af The X-files.


föstudagur, febrúar 04, 2005

Sjallalaaaaaaaaa lalalalaaaaaaaa

Hvurt er lagið?

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Heimilistækjaógöngur - II. hluti

Ég man eftir öðru mjög minnisstæðu atviki. Ég var svona 4 ára og notkun vöfflujárna var "inn" það árið. Ekki svona matarvöfflujárn, heldur hárvöfflujárn. Ég var afar óþægur krakki með njálg í rassinum og því gat ég ekki verið kyrr. Eitt sinn var ég að fara í afmæli hjá læknisdóttur sem átti heima í götunni minni og mamma vildi hafa mig fína með vöfflur í hárinu. Svo gerðist það. Njálgurinn tók sér festu í rassinum mínum og því klemmdi mamma eyrað mitt með vöfflujárninu. Ég var því með vöfflueyra. Mamma sýndi svo lækninum eyrað mitt og hann sagðist aldrei hafa séð jafn skrítið á sinni löngu læknisævi. Vöfflurnar fóru svo úr eftir svona ár og má enn sjá nokkur vöffluummerki.

Boðskapur:
Vöfflur eru af hinu illa.