laugardagur, febrúar 26, 2005

Prakkarastrik

Ég var að rifja upp prakkarastrik mín sem barn og komst að því að þau eru bara þónokkuð mörg.

- Þegar systir mín var nýfædd var ég 5 ára. Eins og öllum eldri systkinum þá vantaði mig athygli. Ég tók því upp á því að hoppa jafnfætis yfir krakkann þegar hann lá á gólfinu. Gerði það nokkrum sinnum og mamma fékk næstum því hjartaáfall þegar hún sá það. En ég fékk athyglina eins og ég vildi.

- Ég var svona 7 ára þegar ég og fjölskylda mín fórum ásamt saumaklúbbnum hennar mömmu á tjaldsstæði út á land. Ég fór eitt sinn út í skóg og fann hrúgu af lambaspörðum. Fór til baka og náði í fullt af tómum smartís-pökkum, fyllti þá af lambaspörðum og gaf krökkunum á tjaldstæðinu bingó-kúlur. Ég held að ég hafi aldrei verið skömmuð svona mikið á ævinni.

- Í fyrsta bekk var ég algjör prakkari. Var í þeim pakka að reyna að kyssa strákana og svona. Einu sinni var ég að elta einn strák og til að stoppa hann, ákvað ég að taka rólu og sveifla henni á hann. Jújú það stoppaði hann og hann fékk gat á hausinn fyrir vikið. Ég grét samt meira en hann. Þegar ég hitti hann núna, 13 árum síðar, minnir hann mig alltaf á þetta og sýnir mér örið. En sú illska.

- Í 5. bekk var stríð milli stráka og stelpna í bekknum mínum. Strákarnir kölluðu okkur kvenrembur og við kölluðum þá karlrembur á móti. Efast að við vissum hvað þetta þýddi en við urðum alltaf rosalega móðguð ef við vorum kölluð þetta. Einu sinni fékk ég fullkomið tækifæri til að ýta aðeins við bekkjarbróður mínum en það vildi svo skemmtilega til að ísilagðar tröppur voru fyrir neðan okkur. Ég ýtti aðeins við honum og hann rúllaði niður. Þegar mér var svo kennt um þetta, sagði ég bara að ég hefði rekist í hann og hann dottið í hálkunni. Svo kom það í ljós að strákurinn tognaði í hendinni en ég held nú að hann hafi fyrirgefið mér á endanum og hélt áfram að kalla mig kvenrembu.

Þetta voru góðir dagar

Engin ummæli: