laugardagur, ágúst 30, 2003

Ó ÞIÐ YNDISLEGU ÆSKUMINNINGAR...

Hvað er betra en að rifja upp æskuminningarnar þegar maður hefur ekkert að gera á laugardegi? Ég bara veit það ekki... Það er einmitt það sem ég gerði áðan eða gerði heiðarlega tilraun til þess. Á heimilinu eiga að vera til 3 spólur, Fjölskyldumyndir 1-3. Í þetta skiptið fann ég bara tvær af þessum spólum en það varð bara að duga.
Ég setti spóluna í en skjárinn var bara svartur. Neðst á skjánum stóð: 18.12.1997. Síðan heyrði ég falskt hljómborðsspil og þegar því var lokið heyrðist í fjarska: “En það bar við um þessar mundir að Ágústus keisari lét þau boð út ganga að skrásetja skildi alla heimsbyggðina...” Þetta var þá upptaka af helgileiknum sem ég lék í í 7. bekk. Ástæðan fyrir því að allt var svart, var sú að mamma gleymdi að taka lokið af upptökuvélinni og skildi ekkert í því af hverju það var allt svona dimmt! Mamma og rafmagnstæki hafa aldrei verið góðir vinir.

Ég ákvað því að reyna spólu nr. 2. Og við mér blasti saumaklúbburinn hennar mömmu og makar þeirra í partýi heima hjá mér árið 1989. Einn kallinn var að spila á gítar, allir í gúddí fíling og vel í því. Ég nennti ekki að hlusta á þetta gaul og spólaði smá áfram en varð að stoppa þegar ég sá að eitthvað svaðalegt var í gangi. Þá voru kallarnir að reyna að troða smokkum á hausinn á sér... þ.á.m. pabbi minn! Og þarna voru þeir... 4 fullir kallar í jakkafötum með smokk á hausnum, allir nema pabbi því að smokkurinn hans hafði slitnað. Ég gat ekki annað en hlegið en ég steinhætti því þegar einhver öskraði: “Svo það var svona sem að Særún varð til!!!” Vá, þetta fór bara beint í hjartað...

Áfram hélt stuðið... jólin ’89. Aðfangadagur var í aðsigi og pabbi var að taka mynd af jólatrénu... og það gerði hann í 10 mínútur. Svo fannst honum greinilega svo rosalega gaman að láta “smokkaslysið sitt” hverfa (s.s. mig), að hann stillti myndavélinni upp fyrir framan jólatréð og mér líka. Tók mynd af mér að hoppa og slökkti á vélinni. Henti mér svo organdi útúr stofunni og tók mynd af trénu. Henti mér svo aftur inn og tók mynd. Þá var eins og að ég hafi bara gufað upp og poppað upp aftur!! Úff... brellurnar á þessum tíma og skemmtanagildi föður míns eru ólýsanlegar!!

Aðfangadagskvöld rann upp bjart og fagurt, og hele familien var í mat og allir að opna pakka. Pabbi fékk brennivín frá tengdó og ég fékk þríhjól frá mömmu og pabba. Það var sett saman á ganginum og svo fór mín að hjóla. Það gekk eitthvað brösuglega því að kjóllinn minn var alltaf fyrir mér og svo kunni ég bara ekkert að hjóla!!! Það kom samt allt með nokkrum hliðarveltum og blómapottaákeyrslum og á endanum var ég þrællærður hjólakappi. Pabbi fékk líka að finna fyrir því, því að þegar hann var að taka mynd af mér, hjólaði ég BEINT á hann. Hann datt aftur fyrir sig (því að krafturinn var nefnielga svo mikill) og allt í einu var allt farið að snúast því að myndavélin datt þá væntanlega líka. Svo heyrðist lítill sætur prakkara-barnahlátur og: “Djöfulsins helvítis andskotans!!” Og þannig voru þau jól!! :D

Ég meikaði ekki að horfa meira. Ég kæri mig ekkert um æskuminnigarnar. Ég slökkti á sjónvarpinu.

Engin ummæli: