mánudagur, október 27, 2008

Draumastarfið mitt

Um daginn píndi ég sjálfa mig til að taka til í geymslunni og í gömlu menntóskóladóti um leið. Mátti þar finna margt skondið og skemmtilegt og var heldur betur gaman að skoða gömul verkefni. Má þar helst nefna ritgerðirnar: "Er Harry Potter slæmur fyrir umhverfið?" og "Af hverju eru strákar svona leiðinlegir?". Fann líka nokkra spjallmiða, þá aðallega milli mín og Móu. Það sem við gátum talað um... En upp úr stóð fyrirlesturinn Draumastarfið mitt fyrir lífsleiknitíma hjá Knúti árið 2003:

Ég á mér lítinn draum. Draum um gott framtíðarstarf. En leitin að þessu starfi er ekki auðveld. Hindranirnar eru margar líkt og gallarnir. Á tímabili hélt að ég væri búin að finna rétta starfið. En allt kom fyrir ekki því ég sá að ég gat bara ekki unnið við tannréttingar því ég er með viðkvæmt nef og þoli því andfýlu illa.
Ég lét þó ekki bugast, heldur leitaði og fann. Flugfreyja, það er eitthvað fyrir mig! Það er afar heillandi starf; flottur hattur, sætir flugmenn og flugþjónar, ef þeir eru ekki hýrir. Svo get ég verslað í Fríhöfninni hvenær sem ég vil og heimsótt framandi lönd.
Ég vil halda því fram að ég hef marga kosti sem eru nauðsynlegir í þessu starfi. Ég er ljóshærð, leggjalöng og get nokkurn veginn bjargað mér á 4 tungumálum. Svo er starfið líka þokkalega vel borgað miðað við að það eina sem þarf að gera er að labba milli farþega, brosa, sýna þjónustulund og spyrja með móðurlegu röddinni sinni: "Má nokkuð bjóða þér djús?"
Þar sem ég er afar fyrirferðamikill og plássfrekur kvenmaður, væri nú ekki gott að mæta mér á þröngum gangi. Af þeim ástæðum er þetta kannski ekki mjög hentugt starf fyrir mig en oft má kenna gömlum hundi að sitja.
Segjum sem svo að ég nái að komast í gegnum flugfreyjuskólann og gerist atvinnuflugfreyja, þá verður það mitt takmark að láta stækka klósettin og fótaplássið og í leiðinni verða þjóðinni til sóma!

Stór orð fyrir svo unga mannsveskju. Ég man samt mjög vel eftir flutningi þessa fyrirlestrar. Í salnum í Gamla skóla þar sem Jón Sigurðsson sagði hin frægu orð í gamla daga, stóð ég upp í pontu og frussaði yfir hana alla af hlátri. Stundum var ég bara alltof fyndin. Knútur kennari varð að reyna að róa mig niður svo ég gæti nú klárað þetta en mér fannst öndunaræfingarnar hans bara meira fyndnar og hélt því áfram að grenja af hlátri. Af tvöföldum krafti. Sem betur fer var ég ekki ein um það að hlæja því bekkjarfélagarnir gerðu mér þann greiða að hlæja með mér. Og að mér.

Mín fyrstu ræðuhöld voru því afar misheppnuð en svona er þetta víst. Og sem betur fer gerðist ég ekki flugfreyja því þá væri ég kannski bara ekki með vinnuna mína lengur í dag.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahahahahahah þetta var nú meiri snilldin :D en getum við ekki sagt að þú hafir komist nálægt draumastarfinu ;) - varst ALLTAF í útlöndum og gast verslað í fríhöfninni í öll skiptin ;) !

ef ég hefði verið kennarinn þá hefði ég klárlega dáið úr hlátri - þetta er svo fáránlega skemmtilega orðað :D

luv þig sæta :*

kv. Tryggur hinn ódauðlegi :D

Nafnlaus sagði...

Hæ!

Vá...ég man eftir þessu eins og það hefði gerst í gær, þegar þú fluttir þennan fyrirlestur!
ég man líka að Knúti fannst þetta ekkert fyndið!!
Snillingurinn þinn;)
Endilega BRENNDU þessa miða okkar enda heilaskemmandi mas og slúður þar á ferð! ;)

kveðja

Móa