föstudagur, september 26, 2008

Reglur morgunökumannsins

Nú þegar skóli og vinna tekur við sumrinu þyngist umferðin um aðalgötur bæjarins. Hjá því verður ekki komist. Ég er svo heppin að hafa kynnst þessu allvel upp á síðkastið enda þarf ég að mæta í skólann kl. 8:15 á hverjum degi. Ef ekki væri fyrir reglurnar sem ég hef búið til handa sjálfri mér, væri ég eflaust ennþá föst í viðjum umferðarinnar.

1. Leggja 5 mínútum fyrr af stað en þú gerir venjulega
. Það gerir gæfumuninn því fyrstu skóladagana lagði ég af stað kl. 7:45 og var stundum mætt of seint. Nú legg ég af stað kl. 7:40 og hef nokkrum sinnum komið 20 mínútum of snemma (sem er reyndar svolítið lúðó) en það er víst betra að mæta snemma en seint. Eða það finnst mér.

2. Aldrei hafa mikið bil á milli þín og bílsins fyrir framan þig í umferðarteppunni
. Því með því nýtir ökumaðurinn á hinni akreininni sér það til fulls og svínar fram fyrir þig þegar hann getur. Það leiðir til þess að fleiri bílar verða fyrir framan þig og þú verður lengur á leiðinni. Einföld stærðfræði. Bilið sem um er að ræða má ekki verða meira en sirka 2 metrar því annars verður allt vitlaust.

3. Ef einhver bíll reynir að troða sér fyrir framan þig og bilið er mjög lítið, ekki leyfa hinum sama að komast upp með það. Sá ökumaður er bara frekja og við þolum ekki frekjur. Frekar skrúfa niður bílrúðuna og sýna viðkomandi puttann og/eða öskra eitthvað skemmtilegt fúkyrði á viðkomandi. Afar hressandi svona í morgunsárið.

4. Aldrei mynda augnsamband við þann sem þú sérð að ætlar að koma inn á þína akrein.
Því ef það gerist tekur hinn ökumaðurinn augnsambandinu sem samþykki og oftar en ekki endar það illa, svo sem með dauðsföllum eða limlestingum. Frekar láta eins og þú sjáir ekki viðkomandi og þá getur hann lítið gert annað en verið áfram á sinni fúlu akrein.

5. Oft getur verið gaman að fylgjast með öðrum ökumönnum í umferðinni. Ekki er leiðinlegt að sjá manninn í bílnum við hliðina á bora í nefið eða kreista fílapensil í baksýnisspeglinum. Þegar hann lítur svo á þig og sér þig, er alltaf skemmtilegt að skella upp úr og láta manngreyið alveg fara hjá sér. Góð byrjun á ef til vill afar góðum degi.

Prófið bara og þið munuð trúa mér.

Smá pæling:
Væri ekki fyndið að heita Benjamín, vera handrukkari og vera kallaður Berjamín?

1 ummæli:

Vala sagði...

Ég hjóla bara og slepp við þetta allt..
en annars er ég ánægð með þessar reglur ;)

Kv. Valamín