Draumastarfið mitt
Um daginn píndi ég sjálfa mig til að taka til í geymslunni og í gömlu menntóskóladóti um leið. Mátti þar finna margt skondið og skemmtilegt og var heldur betur gaman að skoða gömul verkefni. Má þar helst nefna ritgerðirnar: "Er Harry Potter slæmur fyrir umhverfið?" og "Af hverju eru strákar svona leiðinlegir?". Fann líka nokkra spjallmiða, þá aðallega milli mín og Móu. Það sem við gátum talað um... En upp úr stóð fyrirlesturinn Draumastarfið mitt fyrir lífsleiknitíma hjá Knúti árið 2003:
Ég á mér lítinn draum. Draum um gott framtíðarstarf. En leitin að þessu starfi er ekki auðveld. Hindranirnar eru margar líkt og gallarnir. Á tímabili hélt að ég væri búin að finna rétta starfið. En allt kom fyrir ekki því ég sá að ég gat bara ekki unnið við tannréttingar því ég er með viðkvæmt nef og þoli því andfýlu illa.
Ég lét þó ekki bugast, heldur leitaði og fann. Flugfreyja, það er eitthvað fyrir mig! Það er afar heillandi starf; flottur hattur, sætir flugmenn og flugþjónar, ef þeir eru ekki hýrir. Svo get ég verslað í Fríhöfninni hvenær sem ég vil og heimsótt framandi lönd.
Ég vil halda því fram að ég hef marga kosti sem eru nauðsynlegir í þessu starfi. Ég er ljóshærð, leggjalöng og get nokkurn veginn bjargað mér á 4 tungumálum. Svo er starfið líka þokkalega vel borgað miðað við að það eina sem þarf að gera er að labba milli farþega, brosa, sýna þjónustulund og spyrja með móðurlegu röddinni sinni: "Má nokkuð bjóða þér djús?"
Þar sem ég er afar fyrirferðamikill og plássfrekur kvenmaður, væri nú ekki gott að mæta mér á þröngum gangi. Af þeim ástæðum er þetta kannski ekki mjög hentugt starf fyrir mig en oft má kenna gömlum hundi að sitja.
Segjum sem svo að ég nái að komast í gegnum flugfreyjuskólann og gerist atvinnuflugfreyja, þá verður það mitt takmark að láta stækka klósettin og fótaplássið og í leiðinni verða þjóðinni til sóma!
Stór orð fyrir svo unga mannsveskju. Ég man samt mjög vel eftir flutningi þessa fyrirlestrar. Í salnum í Gamla skóla þar sem Jón Sigurðsson sagði hin frægu orð í gamla daga, stóð ég upp í pontu og frussaði yfir hana alla af hlátri. Stundum var ég bara alltof fyndin. Knútur kennari varð að reyna að róa mig niður svo ég gæti nú klárað þetta en mér fannst öndunaræfingarnar hans bara meira fyndnar og hélt því áfram að grenja af hlátri. Af tvöföldum krafti. Sem betur fer var ég ekki ein um það að hlæja því bekkjarfélagarnir gerðu mér þann greiða að hlæja með mér. Og að mér.
Mín fyrstu ræðuhöld voru því afar misheppnuð en svona er þetta víst. Og sem betur fer gerðist ég ekki flugfreyja því þá væri ég kannski bara ekki með vinnuna mína lengur í dag.
mánudagur, október 27, 2008
föstudagur, október 10, 2008
Vasareiknaglens
Í tilefni þess að ég var í stærðfræðiprófi í gær kemur hér smá vasareiknaglens sem fróðir menn geta stundað á þessum síðustu og verstu tímum. Nú hefur enginn efni á að fara í bíó og því er þetta tilvalin skemmtun og alveg ókeypis.
Vasareiknar eru skemmtileg tól. En það er ekki einungis hægt að reikna með þeim, heldur einnig er hægt að hlæja að þeim. Hér koma nokkur dæmi sem hægt er að framkvæma með t.d. Casio reiknivélum:
- Pressa 2x á samasemtakkann (=) Þá stendur efst á skjánum: AnsAns
- Pressa á "svigi opnast" takkann, síðan á kommutakkann. Síðan á "svigi lokast" og endurtaka undanfarandi rullu. Þá kemur þetta: (.)(.) Þá ertu kominn með þessar fínu júllur til að dást að; þér að kostnaðarlausu.
- Pressa á "svigi opnast" og síðan á sinnummerkið x. Loka sviganum með "svigi lokast." Þá er útkoman (x) Og nú hefurðu beygjandi rassgat til að horfa á, daginn út og daginn inn.
- Svo þessi klassíski. Pressa á 170.55378. Svo einfaldlega snýrðu reiknivélinni 180° og þá hefurðu orðin Bless Óli. Góð kveðja ef þú þekkir einhvern Óla.
Stærðfræði getur nefnilega líka verið skemmtileg krakkar. Yfir. Sæjó.
Birt af Særún kl. 13:45 7 tuðituðituð
föstudagur, september 26, 2008
Reglur morgunökumannsins
Nú þegar skóli og vinna tekur við sumrinu þyngist umferðin um aðalgötur bæjarins. Hjá því verður ekki komist. Ég er svo heppin að hafa kynnst þessu allvel upp á síðkastið enda þarf ég að mæta í skólann kl. 8:15 á hverjum degi. Ef ekki væri fyrir reglurnar sem ég hef búið til handa sjálfri mér, væri ég eflaust ennþá föst í viðjum umferðarinnar.
1. Leggja 5 mínútum fyrr af stað en þú gerir venjulega. Það gerir gæfumuninn því fyrstu skóladagana lagði ég af stað kl. 7:45 og var stundum mætt of seint. Nú legg ég af stað kl. 7:40 og hef nokkrum sinnum komið 20 mínútum of snemma (sem er reyndar svolítið lúðó) en það er víst betra að mæta snemma en seint. Eða það finnst mér.
2. Aldrei hafa mikið bil á milli þín og bílsins fyrir framan þig í umferðarteppunni. Því með því nýtir ökumaðurinn á hinni akreininni sér það til fulls og svínar fram fyrir þig þegar hann getur. Það leiðir til þess að fleiri bílar verða fyrir framan þig og þú verður lengur á leiðinni. Einföld stærðfræði. Bilið sem um er að ræða má ekki verða meira en sirka 2 metrar því annars verður allt vitlaust.
3. Ef einhver bíll reynir að troða sér fyrir framan þig og bilið er mjög lítið, ekki leyfa hinum sama að komast upp með það. Sá ökumaður er bara frekja og við þolum ekki frekjur. Frekar skrúfa niður bílrúðuna og sýna viðkomandi puttann og/eða öskra eitthvað skemmtilegt fúkyrði á viðkomandi. Afar hressandi svona í morgunsárið.
4. Aldrei mynda augnsamband við þann sem þú sérð að ætlar að koma inn á þína akrein. Því ef það gerist tekur hinn ökumaðurinn augnsambandinu sem samþykki og oftar en ekki endar það illa, svo sem með dauðsföllum eða limlestingum. Frekar láta eins og þú sjáir ekki viðkomandi og þá getur hann lítið gert annað en verið áfram á sinni fúlu akrein.
5. Oft getur verið gaman að fylgjast með öðrum ökumönnum í umferðinni. Ekki er leiðinlegt að sjá manninn í bílnum við hliðina á bora í nefið eða kreista fílapensil í baksýnisspeglinum. Þegar hann lítur svo á þig og sér þig, er alltaf skemmtilegt að skella upp úr og láta manngreyið alveg fara hjá sér. Góð byrjun á ef til vill afar góðum degi.
Prófið bara og þið munuð trúa mér.
Smá pæling: Væri ekki fyndið að heita Benjamín, vera handrukkari og vera kallaður Berjamín?
Birt af Særún kl. 16:50 1 tuðituðituð
þriðjudagur, september 16, 2008
Heitt
Hundaástir
Svo langt frá því að vera heitt
Jónsi með ljótasta dú sem ég hef séð. Og þá er mikið sagt.
Egg, beikon og knús,
Sæbba
Birt af Særún kl. 17:45 3 tuðituðituð
þriðjudagur, september 09, 2008
Stuð að eilífu
Ég sit hérna í lesstofunni og svitinn lekur ofan á stærðfræðibókina mína. Ég held að ég stofni sjóð fyrir skólasystkini mín, sjóð fyrir kommúnusvitaspreyi því lyktin er GASAleg í orðsins fyllstu merkingu. Ég held að hún komi aðallega frá manninum á móti mér sem er með EVE online belti. Maður kann að velja sér mótsessunauta krakkar. Annars eru allir hressir hér, gleðin skín úr hverju andliti yfir sömu stærðfræði og ég. Jess-in óma í loftinu og þá veit ég að einhver gat gert dæmið rétt og aðrir samnemendur flykkjast í átt að jess-inu í von um hjálp. Samskiptamóti okkar krakkanna er ekkert flókinn skal ég ykkur segja.
Útsendingu héðan úr mbl-húsinu er lokið. Þangað til næst, hittumst heil - alaus.
Bæjó, Sæjó
Birt af Særún kl. 13:03 6 tuðituðituð
laugardagur, ágúst 30, 2008
Já ég veit
ég er ömurlegur bloggari. En ég hef bara ekki nennt að blogga, svo einfalt er það. En núna kemur þetta. Já, komin heim fyrir fullt og allt og er því ekkert á leiðinni til útlanda á næstunni. Nema að einhver bjóði mér sem væri vel þegið. Það gerðist bara allt of mikið á Spáni að það er ekki hægt að tala um það hér, skulum því bara segja að þar hafi verið mikið gaman, mikið grín og mikið tanað. Svo voru WB tónleikar bara rétt eftir að við komum heim, góð mæting, mikið af kökum og freyðivíni. Svo voru aðrir Bjöllutónleikar í vikunni og það var stuð. Ríkur kall var á svæðinu en ekki var hann mikið að gefa mér monní. Nánösin. Mín bara byrjuð í skóló og læti og allt að gerast! Hef þetta ekki lengra því ég er að fara á ættarmót. Mamma verður með leiki og kannski les afi ljóð. Smá kennsla í fullri varalitun frá mér og Sóley:+
Respect!
Birt af Særún kl. 12:19 2 tuðituðituð
mánudagur, ágúst 18, 2008
Ef þú hefur ekkert að gera í kvöld...
Málmblásarasveitin Wonderbrass heldur sína fyrstu opinberlegu tónleika mánudaginn 18. ágúst í Hásölum Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Strandgötu 51 klukkan 20:30.
Wonderbrass samanstendur af 10 íslenskum brassmeyjum sem hafa nýverið lokið við 18 mánaða tónleikaferðalag með Björk Guðmundsdóttur.
Á efnisskránni má m.a. finna brassverk eftir G. Gabrielli, Chris Hazell, Pál Ísólfsson og fleiri.
Aðgangur ókeypis meðan húsrúm leyfir.
Birt af Særún kl. 02:33 1 tuðituðituð
laugardagur, ágúst 09, 2008
Letilíf í svitapolli
Í Istanbúl var heldur betur líf og fjör. Sprengjuleitartæki í lobbíinu og svona. Við skvísurnar fórum í túristagallann og vöppuðum glaðar í bragði að berja bláu moskuna og Hagia Sofia augum. Konur í svörtum búrkum voru út um allt og sömuleiðis tyrkneskur karlpeningur sem súmmuðu á rassinn á okkur með myndavélunum sínum sí og æ. Línurnar þeirra voru heldur ekki af lakari endanum. Þið íslensku strákarnir ættuð kannski að taka ykkur þá til fyrirmyndar. Hér koma nokkur sýnishorn fyrir ykkur, esskurnar mínar og þessir frasar spruttu upp eftir aðeins nokkurra mínútna labb:
- I scream, you scream. Let’s see who can scream more… (ég var sem sagt að borða is)
- Want to share your ice-cream with me?
- Aaaa… Spice Girls!
- How can I rip you off?
Lesið og skælið! Af hlátri eða gráti, mér er sama. Svona á sko að gera þetta. En af einskærri tilviljun hittum við tvær íslenskar stelpur á interraili og reyndist önnur þeirra vera gömul skólasystir mín úr MR og hin vinkona Valdísar. Og nokkrum mínútum seinna mættum við íslensku pari. Heimurinn er nú heldur betur lítill, krakkar mínir.
Tónleikarnir voru svo við ána Bosphorus og voru um 17.000 manns á svæðinu og voru þetta okkar síðustu einkatónleikar á þessu tónleikaferðalagi. Það var því mikið sprellað í síðasta sándtékkinu og fékk krúið heldur betur að njóta sín í stað okkar brassstelpna.
Næsta dag var fluffast til Lissabon í tveimur heldur löngum flugum. Daginn eftir hélt Chris trommari tónleika með sópran saxófónleikara sem var afar góð skemmtun. Djammað fram eftir kvöldi enda ekkert annað hægt þegar stuðið er í hámarki. Spiluðum síðan á festivalinu Sudoeste í fyrradag og tók næstum 3 tíma að komast þangað. Allt gekk voða vel og einkenndist heimferðin af endalausum pissuspreng á mínum bæ.
Hér erum við svo mætt til Almería, eins heitasta staðar Spánar enda ein eyðimörk. Hér voru líka teknir upp nokkrir spaghettí-vestrar á sínum tíma og svona. Veit ekki um hina en ég ætla allavega að sleikja sólina í viku áður en ég kem heim og hafa það náðugt. Ef til vill verður þetta síðasta blogg þessa túrs og verður eflaust mikið grátið á næstum dögum því helvíti á maður eftir að sakna allra.
Dass af myndum:
Brynja þurfti að hylja axlirnar og ég fæturnar með þessu forláta efni til að fá inngöngu í bláu moskun
Píur
Og Chris bara trommaði og trommaði og blés og blés
Framtíðardyraverðir þarna á ferð…
Monseur Anthony og æi, þessi leiðinlega þarna
Mín bara mætt í ullarnaríurnar fyrir veturinn
Við í bandinu gáfum krúinu áritaðar myndir af þeim við störf sín og sáust nokkur gleðitár á hvörmum þeirra
Næsta helgi: Olá-festivalið og heimkoma. Fokk já.
Smá jútjúb af Overture sem við stelpurnar spilum.
Adios y hasta luego,
-Sæbba rokk
Birt af Særún kl. 16:33 1 tuðituðituð
laugardagur, ágúst 02, 2008
Dobbúl blogg
Sorrí krakkar mínir en það er bara búið að vera svo gaman hjá mér að ég hef ekki haft tíma né rænu í að blogga fyrr en nú. Hér kemur það:
Verona
Þar var nú heldur betur stuð á okkur. Valdís og fjölskylda eru gamalreyndir Verónusérfræðingar og fyrsta kvöldið fór mestallur hópurinn á þennan flotta veitingastað. Maturinn var í einu orði sagt yndislegur og hef ég sjaldan verið jafn södd. Daginn eftir bauð vinafólk Valdísar okkur í garðinn sinn í úthverfi Verona og auðvitað voru ítalskar kræsingar í boði. Einnig afnot af sundlaug sem var heldur betur freskandi í steikjandi sólinni. Um kvöldið var spilað í Arenu fyrir um 12.000 manns og mátti sjá hvern einasta Ítala dilla sér í takt við tónlistina.
Fallegur hópur í vínkjallaranum... hvar annars staðar?
Greyið Jez var með einhvern aðskotahlut í auganu
Engin miskunn í vatnsslagnum
Aþena
Fyrsta deginum þar eyddi mín nú bara við sundlaugarbakkann og var ekki alveg að nenna að klöngrast upp á Akropolis. Gat séð það ágætlega frá sundlauginni ofan á þakinu...
Ekki gerði ég mikið þar annað en að versla og fór jú í þetta svakafína baknudd enda kroppurinn ekki alveg að sætta sig við þetta brölt á manni. Tónleikarnir þar voru í risastórri ólympíuhöll og gengu bara glymrandi vel.
Nú erum við mætt í dýrðina til Istanbúl í Tyrklandi og fann ég alveg svakalega tengingu við Ísland af því tilefni. Tyrkir réðust jú einmitt á Vestmannaeyjar forðum daga og nú stendur yfir Þjóðhátíð. Og hver er þar? Jú pabbi. Ókei þetta var lélegt. Spilum svo á morgun og í næsta bloggi skal ég taka ykkur í tyrkneska frasakennslu. Þeir eru svakalegir kallarnir hérna...
Jæja nóg af blaðri. Ég er farin í froðubað.
Smá augnakonfekt... bara af því að það er laugardagur
Birt af Særún kl. 15:29 2 tuðituðituð
föstudagur, júlí 25, 2008
Teflt við páfann
Á mánudaginn mættum við hingað í Róm og síðan þá erum við heldur betur búnar að ofurtúristast. Á þriðjudaginn löbbuðum við ansi mikið og skoðuðum meðal annars Panþeon, Fontana di Trevi og Spænsku tröppurnar. Gangan tók vel á en næsta dag var heldur engu til sparað og örkuðum við á Forum Romanum. Ekki var þolinmæðin mikil því við nenntum engan veginn að bíða í endalausri túristaröð til að komast inn á svæðið. Ég fékk því ekki að ganga þann sama veg og Quintus gerði þegar hann mætti leiðindarskjóðunni á Via Sacra fyrir þúsundum ára. Við á fornmáladeildinni skiljum þetta. Colosseo var hinum megin við hornið og létum við okkur það nægja að horfa í fjarlægð.
Í gær var heldur betur teflt við páfann því Vatikanið var arkað fram og til baka og list Michelangelos sogin í sig. Því næst fórum við í San Lorenzo hverfið, fjarri öllum túristum og eyddum restinni af deginum þar. Við náðum því að skoða alla helstu staði Rómar á þremur dögum sem telst ansi gott að mínu mati.
Í dag spilum við hér í Róm í Arcadium tónleikahöllinni og á morgun tökum við lest til Verona.
Nokkrar myndir frá Melt! festivalinu í Þýskalandi og Róm:
Tónleikastaðurinn var ansi magnaður. Minnti helst á pólskan slipp.
Ég fór í einhvers konar flugjóga hjá Sylvíuvini sem var ansi magnað
Þetta kann maður
Hafiði komið til Rejkyavik?
Sprellað í Pantheon
Ví!
Kannski fer páfinn í djakúsí þarna eftir erfiðan vinnudag...
Svo er ekki mikið stuð að vakna við það um miðja nótt að fólkið í herberginu við hliðina á sé að gera dodo...
-Særún
Birt af Særún kl. 18:04 2 tuðituðituð