þriðjudagur, mars 25, 2003

LÍFSREYNSLUHORNIÐ

Ég varð fyrir hræðilegri lífsreynslu í dag þegar ég “stórslasaði” gamalt konugrey í strætó og það í annað skiptið á stuttum tíma... ég er miður mín. Þetta byrjaði allt saman þegar ég var að labba inn í strætó með töskuna mína fulla af bókum, s.s. múrsteinum. Svo sá ég einhvern úti sem ég þekkti og tók svona 180° hopp af gleði en í þessu sama hoppi, slóst taskan mín óvart í höfuðið á gamalli konu sem sat við ganginn. Hún öskraði á mig og blótaði og kallaði mig vandræðaungling og bara allskyns viðbjóð. Svo fannst mér ég sjá nokkur tár streyma niður hrukkóttar kinnar hennar og þá leið mér ennþá verr. Ég er svo vond manneskja... það er greinilega verið að segja mér að mér er ekki ætlað að eiga samskipti við gamalt fólk. Núna á ég örugglega eftir að fara að gráta í hvert skipti þegar ég sé gamlar konur í strætó.
En fyrsta skiptið sem ég næstum því slasaði gamla konu var ennþá hræðilegra. Ég var bara að labba útúr strætó og það var gömul kona á undan mér en hún labbaði svo hægt út að faldurinn á kápunni hennar “varð eftir” og ég steig á hann. Greyið gamla konan féll næstum því fram fyrir sig en vegna skjótra viðbragða ofurkonunnar Núræs, náði hún að koma henni til bjargar. Hún náði einhvern veginn að toga í hnakkadrambið á henni svo að hún dytti ekki kylliflöt ofan í slabbpoll sem var fyrir neðan. Núræs fékk þakkir en ég fékk bara skammir og töskubarningu.
Já... gamalt fólk kann að verja sig þegar því er ógnað, því hef ég komist að. Látum þetta okkur að kenningu verða og stöndum vörð um gamlar konur í strætó!

Engin ummæli: