The Icelandic Yule lads
Ég gleymdi víst að minnast á það að ég fékk möndlugjöfina þetta árið. Það er kannski ekki frásögum færandi því að ég hef fengið hana síðastliðin þrjú jól af þremur jólum sem þessi siður hefur verið viðhafður á mínu heimili. Möndlugjöfin þetta árið var Eftir-átta-nammi og spilin með íslensku jólasveinunum þar sem Brian Pilkington ljáir þeim penna sinn. Í gær fór ég fyrst að skoða þessi spil og sést það vel að þau eru einnig ætluð túristum og útlendingum. Á kassanum stendur á ensku: The Icelandic Yule lads. Jahá, hver hefur ekki heyrt um hinu frægu Yule lads? Jæja, ég sætti mig nú alveg við eina asnalega þýðingu en þegar mér var litið inn í pakkann... fór ég bara að hlæja. Þetta er ástæðan:
Stekkjastaur: Sheep Worrier (Síðan hvenær hefur hann haft áhyggjur af kindum?)
Giljagaur: Gully Gawk (Minnir helst á trúðsnafn. Gully þýðir reyndar gil en gawk þýðir klunnalegur. Gully Dude væri kannski betra)
Stúfur: Stubby
Þvörusleikir: Spoon Licker (Engin er skeiðin)
Pottasleikir: Pot Licker
Askasleikir: Bowl Licker (Engin er skálin)
Hurðaskellir: Door Slammer
Skyrgámur: Skyr Glutton (Kjánalegt)
Bjúgnakrækir: Sausage Stealer (Tíður gestur á Bæjarins bestu að næturlagi.)
Gluggagægir: Window Peeper (Perralegt)
Gáttaþefur: Door Sniffer (Minnir á eiturlyfjaneytanda)
Ketkrókur: Meet Hook
Kertasníkir: Candle Beggar (Ég held að Kertasníkir færi aldrei að grátbiðja um kerti)
Grýla: Joker (Ég þori að veðja upp á augasteina langaömmu minnar, að hún Grýla er ekki mikil brandarakelling)
Ef ég væri útlendingur og myndi sjá þessi spil, myndi ég hiklaust kaupa fullt af þeim, gefa ættingjum mínum og sýna þeim hvað Íslendingar eru miklir kjánar og hafa skrýtna siði.
Á nýju ári ætla ég að hætta þessu daglega bloggi mínu, nenni ekki að standa í þessu.
En ég vil óska lesendum gleðilegasta árs hingað til og þakka fyrir það gamla. Gangið hægt um gleðinnar dyr, notið hlífðargleraugu og munið: Hjálparsveit skáta skaffar dótið!
miðvikudagur, desember 31, 2003
þriðjudagur, desember 30, 2003
Post jucundam juventutem
Já, æskan líður svo sannarlega ung og fjörleg. Ég komst að þeirri niðurstöðu áðan en þá braust fram barnið í mér og varð að fallegu blómi. Ég fór nefnilega út að renna mér í snjónum ásamt Sóleyju, Snorra og Eiríki. Við skunduðum við glöð í bragði í átt að brekkunni fyrir neðan kirku Víðistaða með þoturassa, plastpoka og snjóþotu og æskan og kynþokkinn skein af okkur. Hvað er meira kynæsandi en að vera í monnboots, í alltof stórum snjóbuxum og með skærgrænt ennisband? Ekki veit ég það.
Ég og Sóley bjuggum til þessa fínu pomsubrekku sem var ekki mikill rassavinur. Strákarnir bjuggu svo til stökkpall sem var bara samanþjöppuð snjóhrúga. Svo var aðalmálið að hitta á pallinn, það gekk ekki vel en gekk þó. Til að gera langa sögu stutta, fórum við heim til Bjarkar eftir kaffæringar og englagerð og fengum kakó. Það var gaman.
Ég mæli eindregið með því að þið drattist af ykkar ***** rassi, hendið ykkur í Kraft-gallann, grípið í Stiga-sleðann og gerist börn á ný! Væri lífið ekki öðruvísi ef allir hugsuðu eins og Pétur Pan? Jú, því þá létu allir eins og börn!
Svo er þetta líka ókeypis skemmtun. Hver þarf bíó, keilusali, spilakassa og súlustaði þegar maður hefur snjó í brekku?
Birt af Særún kl. 01:04 0 tuðituðituð
mánudagur, desember 29, 2003
Í gær...
...náði nördinn í mér yfirhöndinni. Já þið giskuðuð rétt, ég fór nefnilega á Lordarann í annað skipti í sömu vikunni. En það er ekki mér að kenna, ekkert annað en hópþrýstingur! Nú jæja, það slæma við að fara aftur á sömu sýninguna tvisvar sinnum er það að nú er ég 990 kr. fátækari en ég var deginum áður. Það góða er að í annað skiptið þarf maður ekki að vera að fylgjast mikið með söguþræðinum, heldur fer athyglin í öll smáatriðin sem á vegi manns verða. Ég tók eftir nokkrum:
- Kyntröllið og kallinn Jómar er með þessa svakalegu vörtu fyrir ofan aðra augnbrúnina. Ekki mjög sjarmerandi.
- Viggo Mortensen hleypur asnalega.
- Stuttlingurinn Kátur opnar munninn ískyggilega mikið þegar hann talar.
- Fróði stynur unaðslega en hlær aftur að móti kjánalega.
- Orðið: "Ríðum!" er mikið notað í þessari mynd. Sóðabrækur!
- Gandalfur væri ógeðslega flottur með tígó.
- Ég hefði ekkert á móti því að greiða skeggið á Gimli, kannski setja nokkrar fléttur.
- Hárið á Aragorn er alltaf að síkka og styttast svo aftur. Hvaða sjampó ætli hann noti?
- Í einu atriði sést lítil stelpa henda blómum á götu í Mínis Tíríð og þá er hún mannsbarn. Í öðru atriði í Hobbitabrúðkaupi, sést þessi stelpa aftur en þá sem Hobbiti. En kannski er hægt að klóna fólk þarna, veit það ekki.
Ég er nú að pæla í að fara bara aftur og þá í þriðja sinn. Best að skella sér bara...
Vartan sést víst ekki hérna, hjálmurinn fyrir og svona. Svo er hann líka svo mikið meikaður að hún myndi hvort eð er ekkert sjást.
Birt af Særún kl. 13:46 0 tuðituðituð
sunnudagur, desember 28, 2003
Nokkrar gullmolaspurningar úr Trivial Pursuit:
- Þegar María Antonette heyrði um brauðskort í Frakklandi sagði hún: ,,Gefum þeim bara kökur í staðinn." En hún sagði þetta auðvitað á frönsku.
- Ben Stiller er sonur kallsins sem lék föður George í Seinfeld-þáttunum.
- Loftskipið Graf Zeppelin kom til Íslands árið 1930.
- Sterkasta beinið í fætinum er hælbeinið.
- Silvester Stallone fór úr Armani jakkanum sínum og vafði nýfætt barn sitt í hann þegar frú Stallone fæddi fimmta barn þeirra í lyftu hér um árið.
- Leikarinn og leikstjórinn Mel Brooks heitir í alvörunni Melvyn Kaminsky.
- Fljótasta landspendýrið er blettatígur.
- Stjórnmálamaðurinn og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna Al Gore telur sig hafa fundið upp internetið.
- Þorpið Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwillantysiliogogogoch er í Wales. Þetta er líka lengsta staðarnafn í heimi.
- Afkastamesti uppfinningamaður sögunnar var Thomas Alva Edison.
- Í Kína eru flest svín í heiminum.
- Moskítóflugur laðast mest að bláum lit.
Kópavogsbúinn Fannar í 3.G. fær link fyrir að vera hann sjálfur.
Birt af Særún kl. 18:50 0 tuðituðituð
laugardagur, desember 27, 2003
Mig dreymdi draum...
... og draumurinn var sá að ég fékk 10 flísteppi í jólagjöf. Ég var bara nokkuð ánægð með það og varð enn ánægðari þegar ég komst að því að teppin voru frá engum öðrum en Fídel Kastró. Hann kom með þau í eigin persónu og sagði að ég myndi skilja gjöfina seinna. En það gerði ég ekki af því að ég var vakin. Síminn minn hringdi kl. 4 í nótt og ég svaraði: "Fídel?" Síðan var skellt á. Ég mun finna þig í fjöru, mörðurinn þinn!!
Teppin voru svona nema í mismunandi litum. Núna vildi ég að ég ætti svona teppi.
Birt af Særún kl. 16:48 0 tuðituðituð
föstudagur, desember 26, 2003
UPPGÖTVANIR SÍÐUSTU DAGA:
1. Rauðsokka þýðir víst kvenréttindabaráttukona, ekki indíánakona eins og ég hélt.
2. Ástæðan fyrir því að maður kallar höfuðverk eftir fyllerí, timburmenn er sú að það er hægt að líkja verknum við smiði að hamra í timbur. Alltof langsótt fyrir mig.
3. Rauðkál er vont.
4. Líka bláu molarnir í Gæðastrætis konfektinu.
5. Það er ekkert sniðugt að pakka inn kassakvittuninni með jólagjöfinni.
6. Það er líka ekkert sniðugt að senda tóm jólakort en nú þegar vitum við að þau eru 2 þessi jól og þau eru örugglega fleiri.
Birt af Særún kl. 13:33 0 tuðituðituð
fimmtudagur, desember 25, 2003
GLEÐILEG JÓL!
Ég vona svo sannarlega að þau verði það. Jólin byrjuðu svo sem ágætlega hjá mér. Gott dæmi um það er Þorláksmessukvöld en þá skundaði ég ásamt 9 öðrum vitleysingum á vit ævintýranna á veg laugarinnar í Reykjavík. Fórum í strætó með túbu, bassatrommu, sneriltrommu, 2 horn, 2 trompeta, saxófón og jólabjöllur. Jú og nótur og jólaskapið. Leið okkar lá svo í Kolaportið þar sem jólalögin voru kyrjuð í gegnum hljóðfærin en lítil var stemningin þannig að við fórum á Laugarveginn í staðinn. Þar var nóg um að vera og mikið um manninn. Okkur var tekið vel og fólk var greinilega í stuði af því að það tók óhikað þátt í leiknum okkar, að kasta pening í húfu. Verðlaunin fyrir þátttökuna voru ekki af verri endanum, hyllingaróp. Svo þegar við sáum einhverja sem við þekktum spiluðum við eitt frægasta lag í heimi fyrir það, afmælislagið. Engu máli skipti þótt að þau áttu afmæli eða ekki. Við komumst svo að því að Skífan er fýlupúkabúð sem kann ekki að meta góða tónlist og jólaandann því að við vorum rekin út þegar við buðumst til að spila þar. Heimildir herma að þar hafi Jón Ólafsson verið að verki. Við létum það ekki aftra okkur frá því að spila, en við spiluðum s.s. um allan Laugarveginn og með leiknum okkar söfnuðum við ca. 10.000 kr. sem er samt helmingi minna en við söfnuðum á Menningarnótt. Það var líka ekki mikið af fullu fólki í þetta skiptið sem gáfu okkur heilu 1000 kallana.
Aðfangadagur byrjaði nú rólega. Ég vaknaði seint og fékk grjónagraut. Síðan var hin árlega pakkaferð og heima hjá frænda mínum og frænku voru reyttir brandarar á fullu spani:
Hafið þið heyrt um bóndann sem tók inn heilt pilluglas af viagra? Honum er haldið sofandi í mjaltarvél!
Hvað kallast maður af amerísk-afrískum uppruna sem hefur borðað nokkur biðskyldumerki? Toblerone!
Eftir mikil hlátrasköll var haldið heim í von um að finna ilminn af hamborgarahrygginn í ofninum. En enginn var ilmurinn. Pabbi hafði þá stillt klukkuna vitlaust og núna var klukkan hálf fimm og hryggurinn hrár. Því varð að fresta máltíðinni um nokkra klukkutíma en það var nú allt í lagi fyrir mig en ekki systur mína því að hún var að farast á taugum og hélt að hún myndi ekki fá að opna neina pakka í ár. Sem betur fer voru amma og afi fjarri góðu glensi frá þessum hremmingum því að þau ákváðu að fara í 3 mánaða rómantíska ferð... til Noregs og búa þar hjá dóttur sinni og 3 brjáluðum börnum sem tala ekkert nema norsku. Tuttebærjahulte! Afi hefði svo sannarlega ekki sætt sig við svona uppákomu. En klukkan 9 voru allir búnir að borða og pakkarnir voru tættir í sundur. Ég fékk margt skemmtilegt og óskemmtilegt en það skemmtilega var tvímælalaust úr án tölustafa sem ég fékk frá foreldrum mínum. Því verður skipt fyrir betra úr. Svo fékk ég náttbuxur með ilm frá systur minni en ilmurinn á víst að fara úr í næsta þvotti. What a pitty it is! Svo fékk ég 3 geisladiska og tvo vildi ég alls ekki fá. Þeim verður því skipt líka. Rúsínan á pysluendanum var svo hið ágæta spil Trivial en það var spilað seinna um kvöldið þrátt fyrir öll boð og bönn. Pabbi fékk jólasveina g-strenginn frá systu og frændi minn fékk risastóra tréstyttu af svínum að ríða frá systur sinni. Á styttunni stendur: 'Making bacon' Haha! Svekkelsi kvöldsins átti án efa hún móðir mín en ég fékk þá hugmynd að hrekkja hana aðeins. Hún hafði s.s. sýnt mér þennan svakaflotta hring sem hana langaði svo mikið í og ég átti að sjá til þess að hann yrði keyptur. Hann var keyptur en einnig keyptum við í 10-11, ísskeið, hræripísk og geisladisk. Þessum þremur hlutum var fallega pakkað inn og mamma ætlaði að missa augun þegar hún sá að þetta var ekki lítill kassalaga pakki sem var pakkað inn í búðinni. Það var svo algjört kodak-móment þegar hún svo opnaði pakkann því að hakan var komin niður á maga af undrun og svekkelsi. Allt kvöldið var hún fúl og sagði að það yrði ekkert gaman að segja vinnufélugunum frá því hvað hún fékk í jólgjöf frá eiginmanni og börnum. Eftir nokkurra klukkustunda píningar og fýlu gáfum við henni svo rétta pakkann. Þá varð hún svo glöð, kyssti okkur og knúsaði og sagði: "Eins gott!" Vanþakkláta kona. Síðan var Trivial spilað og svo fóru allir að sofa.
Jóladagur byrjaði ekki vel. Kl. 7 um morguninn þurfti ég að dröslast framúr rúminu og fara að vinna á elliheimilinu, þvílík pína var það! Þegar ég kom á staðinn voru fá kunnuleg starfsfólksandlit og um helmingurinn voru útlendingaandlit. Ég var svo heppin að fá að vinna með leiðinlegu filipeysku-konunni sem kann ekki að tala almennilega íslensku og lætur mann gera allt það erfiða og leiðinlega. Orðin 'ha?' og 'ég skil þig ekki!' voru því óspart notuð þennan vinnudag. Í þokkabót mætti hún með jólasveinahúfu dóttur sinnar og var alltaf síhrópandi: "Hóhóhóhóhóhó!" Greyið gamla fólkið hrökk alltaf í kút og það lá við að það dytti úr rúmunum og gleypti gervitennurnar sínar. Það var líka mikið þreifað á mér þennan vinnudag því að dónakallinn á deildinni var svo sannarlega í jólastuði og ávallt ungur í anda. Ég var svo heppin að fá að klæða hann og fékk því mikið hól fyrir lögulegan líkama og fallegt nafn. Filipeyska konan setti líka út á nafnið mitt og tjáði mér það að á filipeysku þýddi það strútur! Og svo hló hún. Mér var ekki skemmt. Eftir vinnu fór ég heim, skóflaði í mig einu hangiketslæri og hér sit ég og þjappa matnum niður með því að hossast á stólnum. Virkar bara heldýpis vel. Neih, eftirrétturinn tilbúinn!
Það var kannski vitleysa af mér að óska ykkur gleðilegra jóla því í mínum huga eru þau alltaf búin á jóladag en ekki tek ég orð mín til baka. Þetta voru þá bara ágætis jól.
Birt af Særún kl. 18:18 0 tuðituðituð
þriðjudagur, desember 23, 2003
Fídel Kastró - góður gaur!
Ég hef alltaf haldið að hann væri vondur kadl en svo er bara ekki. Pabbi sagði að það væri útaf því að ég hafi blindast af áróðri Bnadaríkjamanna. Það er líka alveg satt og svo er kannski líka ein önnur ástæða fyrir því. Þegar ég var yngri hlustaði ég rosalega mikið á Tvíhöfði og eini geisladiskurinn sem ég á var ofspilaður og það er óhugnalegt að ég geti hlustað á hann ennþá. Á disknum er leikrit sem kallast 'Bylting á Kúbu' og það hljóðar svo:
*Bank bank*
Móðir Fídels: Nei komdi sæll og blessaður Djeminn
Tjé: Hæ, er Fídel heima?
MF: Já. FÍDEL!
Fídel: Hvað?
MF: Hann Tjé er að spurja um þig
F: Já hæ.
T: Hæ, viltu vera memm?
F: Gera hvað?
T: Byltingu.
F: Byltingu... hvar?
T: Á Kúbu.
F: Kúbu... hvar er það?
T: Æi það er eyja.
F: Hmmm, af hverju?
T: Bara, arfarán.
F: Jájá, æi ég veit það ekki. Ég á eiginlega eftir að læra.
T: Þú mátt vera forseti.
F: Vá, lofarðu því?
T: Jájá
F: Ja það er kannski þokkalegt.
T: Ég held að það geti verið ógeðslega gaman.
F: Jæja ókei. Mamma, ég er farinn út!
MF: Hvert ertu að fara elskan?
F: Fara til Kúbu, í byltingu.
MF: Ekki vera lengi, passaðu að þér verði ekki kalt.
Nokkru síðar í skógum Bólivíu:
Báðir (syngjandi): Óleóleóleóle, óleóle, óleóleóleóle, gera byltingu, gera byltingu!
T: Nú skulum við fara til Kúbu að gera byltingu.
F: Ókei.
Nokkru síðar á Kúbu:
T: Þá erum við búnir að gera byltingu og þú ert orðinn forseti Kúbu, Fídel. Hvernig lýst þér á það?
F: Þokkalega!
T: Fáðu þér vindil.
F: Nei reykingar eru óhollar maður.
T: Nei kommon maður, einn vindill getur ekki sakað.
F: Jæja ókei.
Öðruvísi fór en áætlað var, Tjé Gúvara reykti svo mikið að leyniþjónusta Bandaríkjanna neyddist til þess að drepa hann og Fídel Kastró hélt áfram að reykja eftir sinn fyrsta vindil og varð háður nikótíni. Hann varð þekktur sem einn hræðilegasti harðstjóri mannkynssögunnar og heldur Kúbu enn í heljargreipum kommúnisma og nikótínfíknar. Stöndum saman, verum reyklaus! Hötum kommúnista og illaþefjandi byltingarhyski!
Það sem er feitletrað hér að ofan er einmitt gott dæmi um það hvað usa-menn geta smitað út frá sér alls konar lygum og dóti. Ég man ekki alveg hvað Fídel átti að hafa gert... jú hann fór til Suður-Afríku og leysti fólk undan aðskilnaðarstefnunni, man ekki meira. Hann er líka eini maðurinn sem hefur staðið í hárinu á usa-mönnum og komist upp með það. Usa-menn settu líka hafnarbann á Kúbu og eitthvað svona leiðinlegt. En Fídel er þá góður gaur, það segir pabbi að minnsta kosti.
Mig langar til Kúbu
Hann Fídel er ekki bara góður gaur, hann er líka góður gaur í hafnarbolta og tekur sig ógeðslega vel út í þessum búning. Nettur!
Birt af Særún kl. 18:33 0 tuðituðituð
mánudagur, desember 22, 2003
Það er...
...slabb úti.
Það er meira að segja til slabb-borg fyrir einstæða!
Birt af Særún kl. 16:38 0 tuðituðituð
sunnudagur, desember 21, 2003
Ég fór á...
... Lordarann í gær í Laugarásbíó. Ég og Björk skunduðum glaðar í bragði í átt að bíóhöllinni hálftíma áður en sýningin átti að byrja í von um að fá góð sæti. En nei, var þá ekki biðröð út á götu. Þar biðum við í korter, hríslandi af kulda og höfðum bara kynþokkann til að hlýja okkur. Svo var hleypt inn og múgurinn breyttist í rolluhjörð á leið í réttir á svipstundu þegar það henti saklausu fólki í gólfið til þess eins að vera nálægt hurðinni. Ég og Björk lentum í miðri hrúgunni og eftir ca. 20 mínútna bið var orðið ansi heitt í hamsi. Fólk var að fara yfir um af æsingi og súrefnisskorti og þar sem ég þoli hita illa var mér farið að svima ansi mikið og þegar yfirliðið var að svífa yfir var opnað. Fólk byrjaði að froðufella af blóðþorsta og þeyttist í átt að hurðinni, ýtandi á fólk fyrir framan sig því að það hélt greinilega að það fengi ekki sæti. Þegar ég loksins steyptist inn í salinn var ég næstum búin að drepa mig eða kannski réttara sagt Laugarásbíó var næstum búið að drepa mig. Hvað er málið með að vera með skautasvell á gólfinu og það í brekku? Ekki veit ég það en sem betur fer urðu engin slys á mér og vonandi ekki á öðrum. Myndin byrjaði að byrjaði vel. Ég vil nú ekki segja frá innihaldi myndarinnar en það sem ég tók eftir var að í hvert skipti sem litli skeggjaði dvergurinn Gimli kom fyrir, var eins og að fólk væri búið að ákveða að hann ætlaði að segja eitthvað fyndið og hló meira að segja áður en hann sagði stakt orð. Hann var nú reyndar fyndnasta persónan í myndinni að mínu mati en þegar hann sagði eitthvað sem var ekki einu sinni fyndið, fór fólk samt að hlæja. Í hlénu var mikil húllumhæ. Á vegi mínum urðu nokkrir verslingar sem mér er ekkert svakalega vel við en ég er kurteis og skvetti framan í þá einu hæ-i líkt og kaldri gusu úr koppi að morgni dags. Þegar hléið var búið og ég sest niður fór verslópía sem sat í sömu röð og ég að kaupa sér eitthvað. Þegar hún kom til baka og ég ætlaði að standa upp fyrir henni, rak Björk óvart fótinn í hana og stelpan steyptist á mig með nachos í hendinni. Sem betur fer fékk ég enga sósu yfir mig en ég fékk nachos og það mikið af því. Ég vildi samt ekki borða það af því að fólk í verlsó er eitrað mjög.
Endirinn á myndinni var væminn og eilítið langdreginn en góður endir samt því að allir urðu glaðir til æviloka.
Bingókúlur: 4 af 5
Birt af Særún kl. 14:05 0 tuðituðituð