sunnudagur, mars 02, 2008

Allir voru í karate

í Hong Kong enda ekkert annað í stöðunni. Tónleikarnir voru þrusustuð og var aðeins meira líf í Hong Kong-fólki en Tokyobúum. En við píur vorum heldur fúlar þegar við komumst að því að engir aðrir en drengirnir í Backstreet Boys voru með tónleika á sama stað kvöldið eftir og var ekki séns að berja þá augum því við fórum til Shanghai þann sama morgun. Úff hvað ég hefði fengið mikið nostalgíukast og rifjað upp dansinn sem við sömdum í 6. bekk við eitt lag þeirra og dansað og píkuöskrað af mér alla limi. En minn tími með Afturstrætisdrengjum mun koma! Ég held því samt fram að þeir hafi allir verið á tónleikunum okkar og líka í eftirpartíinu en ég sá þá bara ekki. Því miður. Já svona er lífið.

Hér í Shanghai er allt á iði. Alltof mikið af fólki og já, þau eru ekkert svakalega kurteis. Bara ýta manni í burtu ef maður er eitthvað fyrir þeim. Lítið sem ég get gert við því annað en að sýna einhvern fingur. Í gær gerðumst við nokkur agalega menningarleg og skelltum okkur á kínverska óperu. Sagan var víst í stuttu máli um prinsessu sem ákvað að giftast betlara sem fór í stríð og hún beið eftir honum í 18 ár en þá var hann bara kominn með aðra konu karlpungurinn og hún varð keisarynja. En eftir 2 klukkustunda rassasetu var sagan bara hálfnuð og enginn skildi neitt. En menningarlegt var þetta og spes. Næst var etið og svo hoppað á svakalegan prúttmarkað sem minnti svolítið á gamla góða Kolaportið. ‘Survival of the fittest’ er greinlega mottó sölumanna og var gripið í mann og potað að manni allskyns feik-drasli og auðvitað kolféll ég fyrir því en var nokkuð góð í prúttinu. Keypti til dæmis Gucci úr á 1000 kall. Elveg ekta sko.

Á eftir er okkar síðasta gigg á þessum túr og ef ég tel rétt voru þau alls 12 talsins. Okkur bíða þó þrjú ógeðisflug snemma í fyrramálið en það er bara kökusneið. Get samt ekki beðið eftir að koma heim því þetta er orðið alveg ágætt.

Sjáumst heima og hérna koma menningarlegustu myndir í heimi!


Valdís og Erla voru fegnar rúllustigunum í Soho-hverfinu í Hong Kong


Þessir héldu á þessari flottu platköku


Engihjalli hvað?


Þessi ákvað bara að viðra sængurnar sínar í strætóskýlinu


Hressar skvísur fyrir sýningu. Já FYRIR sýningu


Við auðvitað líka og eins og sést var múgur og margmenni á sýningunni.


Allt að gerast en ekki spyrja mig hvað…

Engin ummæli: