miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Ég og trúðar

Ég og trúðar höfum aldrei náð vel saman. Ég hef átt margar óþægilegar reynslur sem tengjast trúðum og við erum bara ekki góðir vinir.

Mín fyrsta reynsla var þegar það kom einu sinni sirkus í Hafnarfjörðinn á Víðistaðatún í tjaldi og læti. Mamma fór með mig þegar ég var sirka 5 ára og ég var að drepast úr spenningi. Svo varð ég auðvitað að smakka bleika skýið sem allir voru með, sem sagt kandí floss. Mamma lét mig fá pening og ég valhoppaði að söluvagninum. Þar var útlenskur trúður að afgreiða þannig að ég gat ekkert spjallað við hann eins og ég var vön að gera í þá daga. Við hvern sem er. Fékk kandí flossið og labbaði í burtu. Þá sá ég að trúðurinn var að labba á eftir mér. Ég var ekkert sátt við það þannig að ég fór að hlaupa og trúðurinn á eftir. Þá fór ég að hágrenja enda orðin drulluhrædd við trúðinn. Kom til mömmu og trúðurinn náði að útskýra fyrir henni að ég hafði gleymt að borga. Samt.

Svo vorum við með ógeðslega margar sjónvarpsstöðvar á mínum yngri árum og var ég alltaf að horfa á Cartoon Network. En á kvöldin var alltaf einhver stöð á sömu stöð og Cartoon Network sem hét TMT eða TNT eða eitthvað. Þar var alltaf verið að sýna einhverja mynd sem fjallaði um stelpu sem fékk gefins trúðabrúðu og svo lifnaði hún alltaf við á nóttunni og herjaði á fjölskylduna, kyrkti þau og svoleiðis skemmtilegt. Já og gróf þau í drullupolli. Hræðslan skánaði ekki við þetta áhorf.

Svo er það rúsínan á pylsuendanum (oj, örugglega mjög vond pylsa) Þegar ég var 7 ára vann ég í getraun í Stundinni okkar og fékk í verðlaun að draga nöfn næstu vinningshafa úr risastórri kúlu og vera með skemmtiatriði og læti. Jæja, mætti upp í gamla RÚV húsið á Laugarveginum með mömmu í fína köflótta skokknum mínum og í púffskyrtunni minni. Og það fyrsta sem ég sá þegar ég kom inn var trúður í nærbuxum einum fata. Svona þröngum spídónærbuxum. Hann tók í höndina á mér og svo þurfti ég að vera með þessum trúð í upptökunni og hélt mér í góðri fjarðlægt frá honum það sem eftir var. Perratrúður.

Hræðslan hefur sem betur fer minnkað með árunum enda hef ég ekki lent í neinu slæmu upp á síðkastið þar sem trúður kemur við sögu. Hef einu sinni farið í sirkus og það í Köln en sem betur fer náði ég að halda kúlinu. Ætli ég verði ekki bara að fara í trúðaskóla ef ég vill virkilega losna við þessa fóbíu. Veit ekki.

Engin ummæli: