þriðjudagur, maí 02, 2006

Gefum frat í orkudrykki!

Þar sem ég var í mikilli tímaþröng í gær vegna Macbeths nokkurs Shakespearessonar ákvað ég að taka hraðbrautina á þetta og skundaði í 10-11 um eitt leytið í Magic-leit. Ég var ekki sú eina í þeirri leit því allir voru að kaupa Magic. Uppi varð fótur og fit þegar upp komst að allir Töfrar voru uppurnir innan veggja búðarinnar og næstu Töfrar kæmu ekki fyrr en daginn eftir. Þá var bara eitt í stöðunni: hringja í Galdrakarlinn í Oz en hann var í sturtu þannig að hann gat ekki reddað mér. Neyddist til að kaupa einhvern Söfnuð (e. Cult) á 200 kall stykkið. Bara bankarán. Þar sem ég er amatör í orkudrykkjadrykkju og andvökunóttum, drakk ég bara 2 dósir á innan við klukkutíma og var bara sátt. Fór svo að líða hálf skringilega, titraði öll og bara eitthvað sjitt. Hringdi þá í meistarann í þessum málum og hann bara hló að mér og sagði mig vera kjánaprik.

Þar sem ég gat ekki sofnað bjó ég til geðveikan aulabrandara. Hann Atli sæti er alltaf að læra sögu á næturna þannig að ég sendi honum eftirfarandi sms: "Sko, af því að þú heitir Atli og ert að læra sögu, þá geturðu sagt að þú sért að 'sögu-atlast' Haha!" Svo hló ég eins og vitleysingur af minni eigin "fyndni" í langan tíma þangað til Atli hringdi og skildi ekkert í þessum brandara. Hann veit ekki einu sinni hvað sögu-atlas er og þá var brandarinn eiginlega ónýtur.

Minnir mig á rosalega lélegan brandara sem ég bjó til á úrslitakeppninni í Morfís. Ætti ekki að vera að segja hann bara svona til að verja orðspor mitt en what the hell! Sko, það var alltaf svona pallur eða kollur sem átti að stíga á upp í pontu ef fólk sá ekki neitt. Og ég svona: "Hey, þetta er kollur. Hár-kollur." Og svo hló ég innan í mér það sem eftir var af keppninni en brandarinn varð til í fyrri umferð. Spurning hvenær brandarabókin kemur í verslanir...

Núna ætla ég að klára söguna frá því þarna lengst uppi. Það endaði á því að ég sofnaði ekki fyrr en kl. 5 í nótt og vaknaði kl. 7 til að læra og fór í prófið kl. 9. Og svo er ég að fara í atvinnuviðtal kl. 14:30 í Garðabæ og get núna ekkert sofnað aftur þannig að ég verð bara rosalega mygluð í viðtalinu sem verður bara hresst!

Boðsköp: Drekka orkudrykki í hófi, ekki senda kærastanum sínum heimatilbúna aulabrandara í orkudrykkjavímu og ekki deila aulabröndurum með öðrum, hvað þá á blogginu sínu. Takk.


Sögu Atlas fyrir mýs?

PS. Ég ætla að vera ýkt mikið egó þessa vikuna og því er ÉG plata vikunnar þegar ég var 5 ára . Þeir sem hafa áhuga á að vera næsta plata kommenta bara og sé til hvað ég get gert í því. Unsex me here!

Engin ummæli: