þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Sögustund

Ég ætla að segja ykkur sögu. Einu sinni var gamall kall sem hét Teddi. Hann var sköllóttur með svona hvítt munkahár og alltaf rauður í framan. Hann átti heima við hliðina á mér þegar ég bjó á Herjólfsgötunni í gamla daga. Svo fluttum við á Hverfisgötu árið 1992 og árið 2001 er hann aftur fluttur við hliðina á okkur í ljóta rauða húsið. Þar bjó hann með ógeðslegri kellingu og þau reyktu bæði eins og strompar og drukku bjór í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Hann var leigubílstjóri en var samt aldrei í vinnunni. Mér fannst hann alltaf frekar viðbjóðslegur en kippti mér ekkert upp við hann því hann gerði mér aldrei neitt. Mömmu og pabba var mjög illa við hann og einu sinni sagði pabbi: "Það eina sem getur gerst til að við losnum við hann sem nágranna er að hann deyi." Og viti menn, Teddi sagði pabba stuttu seinna frá því að hann væri kominn með krabbamein og að það þyrfti að skera hann upp. Nokkrum vikum seinna dó hann og pabbi fékk það sem hann vildi. Hann átti fullt af börnum um hvippinn og hvappinn en ekki sást tangur né tetur af þeim þegar hann bjó hliðina á okkur, hvað þá í jarðarförinni hans. Núna veit ég af hverju.

Mamma var að lesa bókina Myndir af pabba eftir Gerði Kristnýju því þetta er skyldulesning á leikskólanum sem hún vinnur á. Bókin er saga nokkurra systra sem áttu heima í Hafnarfirði og segja þær frá því þegar faðir þeirra og fleiri menn misnotuðu þær kynferðislega á yngri árum. Áðan sagði hún mér að einn mannanna sem misnotaði aðra systurina oftar en einu sinni var Teddi. Hann var vinur föður stúlknanna og jafnframt nágranni þeirra og misnotaði eina þeirra oft. Þetta er rosalega óþægileg tilfinning þar sem hann misnotaði hana þegar hún var í kringum 6 ára en það er einmitt sá aldur sem ég var á þegar hann var nágranni okkar í fyrsta skiptið. Næst misnotaði hann hana aftur þegar hún var 15 ára í skiptum fyrir mótorhjól og já, ég var 15 ára þegar hann flutti við hliðina á okkur í annað sinn. Og núna hugsa ég: Hvað ef þetta hefði verið ég? Væri ég hér í dag? Það er endalaust hægt að velta sér fyrir svona spurningum en það þýðir ekkert. Ég er ánægð með að þetta var ekki ég en finn mjög til með stúlkunum sem lentu í þessu. Teddi fékk víst lítinn sem engan dóm fyrir allt þetta hræðilega sem hann gerði og ég skil ekki af hverju hann mátti vinna sem leigubílstjóri. Réttarkerfið á Íslandi ætti að skammast sín!

Engin ummæli: