miðvikudagur, janúar 19, 2005

Pabbasögur

-Mamma sagði mér í gær að þegar hún var að rembast við að koma mér í heiminn fyrir 18 árum, svaf pabbi minn á grjónapúða inni í fæðingarherberginu. Hann er svo harður kall hann pabbi minn. Og þreyttur.

-Hann er líka maðurinn sem kynnti mig fyrir Bakkusi á mínum yngri árum. Þegar ég var ca. 2 ára fór hann með mig í kerru til bróður síns sem átti heima skammt frá okkur. Þar var hann að drekka bjór og gaf mér marga sopa af því að mér fannst víst svo gaman að drekka úr flöskum. Á leiðinni heim, steinrotaðist ég í kerrunni og slefaði yfir mig alla. Þetta er voðasvipað þegar ég er í leigubíl eftir skólaböll og bæjarferðir, steinrotuð og slefandi.

-Pabba fannst líka gaman að fara með mig á róló, þá helst að ramba. (Vega salt fyrir ykkur ó-hafnfirðinga) Eitt sinn skaut hann mér af römbunni og ég lenti í sandkassanum. Fékk mikið högg og er það kannski ástæðan fyrir því að ég er svona eins og ég er enn þann dag í dag; ringluð.

-Pabba finnst líka gaman að fara á geisladiskamarkaði. Í fyrra kom hann færandi hendi og gaf mér diskinn með Ronan Keating. Vitaskuld hoppaði ég hæð mína af gleði. Mömmu gaf hann Kenny G og Richard Kleidermann, fyrir saumaklúbbinn. Tónlistarsmekkur mannsins er hreint ótrúlegur!

Engin ummæli: