þriðjudagur, desember 07, 2004

Dýralífsmyndir

Það er eitthvað sem ég hef ekki haft mikinn áhuga á fyrr en nú. Þannig er mál með vexti að pabbi er afar mikill áhugamaður um dýr og á örugglega flest alla þættina hans David Attinborough. Hann horfir líka rosalega mikið á Animal Planet og hann vill endilega að við hin í fjölskyldunni sameinumst honum um þetta áhugamál. Til að gera honum til geðs, tók ég mér smá frí frá lærdómnum og skellti mér fyrir framan imbann. Á dagskrá var heimildarmynd um ljón, allt í lagi með það. En þetta var bara alveg rosalega merkileg mynd. Hún fjallaði um ljónynju sem hafði nýlega misst afkvæmi sitt. Á vegi hennar varð antilópukálfur sem hafði misst móður sína og venjulega hefði ljónynjan gripið gæsina og fengið sér einn kálf en nei, ljónynjan tók hann að sér og var honum sem móðir. Hún meira að segja svelti sig í hálfan mánuð svo hún gæti passað hann. Þetta fannst pabba svo merkilegt og fallegt að hann fór næstum því að gráta, allavega felldi hann tár. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem að ég hef séð faðir minn gráta þannig að þetta var stór stund í lífi mínu. En svo versnaði það. Ljónynjan leit af antilópukálfinum í nokkrar sekúndur og þá kom ljón og tók kálfinn. Í kálfinum heyrðust mikil sársaukahljóð og ljónynjan horfði á á meðan ljónið át hann. Hún gat auðvitað ekki gert neitt því að þá yrði hún líka étin.
Þetta virðist kannski ekki vera merkilegt þegar um þetta er lesið en ef þið mynduð sjá þetta með eigin augum, þá væruð þið eflaust sammála mér. En ég hef skipt um skoðun hvað varðar dýralífsmyndir. Þær enda oftast með blóðúthellingum en inn á milli er mikil ást. Mikil ást.

Engin ummæli: