fimmtudagur, september 30, 2004

Trúir þú á álfasögur?

Á hverjum degi fæ ég dágóðan skammt af vinnusögum frá mömmu. Hún vinnir á leikskóla og því er ekki við öðru að búast en að þær séu ýktar og allsvakalegar. Ég fékk eina góða í dag sem hljómar svona og er bara nokkuð skondin. Nokkrar leikskólakonur eiga heima í sömu skuggalegu götunni og í morgun tóku þær allar eftir því að skuggalegur maður á skuggalegum bíl lét eitthvað skuggalega. Hann hafði lagt skuggalega bílnum sínum upp á skuggalegan grasblett og sat skuggalega í bílnum sínum og beið eftir einhverju skuggalegu. Konurnar bjuggust við hinu versta og héldu að hann væri að bíða eftir því allir færu í vinnuna sína og myndi svo taka til hendinni og ræna öll húsin og börnunum í verkfallinu með. Þær sögðu frá þessu allar á innsoginu og voru að fríka skuggalega mikið út. Þær ákváðu því að gera hið skuggalega og hringdu í lögregluna til að láta hana líta á skuggalega manninn á skuggalega bílnum á skuggalega grasblettinum. Lögreglan fór í málið því að ekki höfðu þeir neitt annað skuggalegt að gera og síðan hringdu þeir aftur í leikskólann með niðurstöðu málsins. Þetta var þá bara háskólanemi sem var að telja bíla á Hringbrautinni fyrir eitthvað umferðarverkefni. Og svo hlógu konurnar allan daginn við þá tilhugsun að núna þurfti greyið kallinn að byrja upp á nýtt að telja. "Einn gulur bíll, einn blár bíll..."

Já, boðskapur þessarar sögu er að þótt að skuggalegur maður á skuggalegum bíl á skuggalegum grasblett sé fyrir utan skuggalega húsið þitt, þá er hann bara að telja bíla.

Orð dagsins: Skuggalegur

Engin ummæli: