mánudagur, júní 07, 2004

Væmna færslan

För minni var heitið í Bláa lónið í gær í góðra vina hópi sem mér þykir svo vænt um að orð geta ekki lýst því. Á leiðinni horfði ég á úfið hraunið sem heillaði mig svo þótt ég hef búið í kringum það alla mína ævi. Kraftur þess er svo mikill og áþreifanlegur að það er ekki annað hægt en að dragast að því líkt og segull á ísskápshurð. Kvöldsólin blindaði okkur með sínum hlýju geislum og guli litur hennar enduspeglaðist í rennislétta hári okkar. Vegaframkvæmdirnar í kring voru mér einnig huglægar. Að hugsa sér alla þá verkamenn sem hafa unnið dag og nótt til þess eins að við getum keyrt hraðar, öll börnin sem hafa grátið sig í svefn á kvöldin vegna þess að pabbi hefur ekki komið heim í marga daga og ekki einu sinni til að breiða yfir þau sænginni og fara með bænirnar. Ég fékk kökk í hálsinn við tilhugsunina eina.
Þegar ég kom í Bláa lónið tók dýrðin við. Þvílík náttúruperla! Þvílíkir töfrar! Þvílík blá armbönd! Ég faðmaði að mér eina súlu þegar ég kom inn því svona glöð hafði ég aldrei verið. Brosið náði út á kinnar og er ekki enn farið. Inni á veitingastaðnum var ráðstefna mjólkurfræðinga á Norðurlöndum. Mjólk, mjólkurfræðingar og Norðurlönd eru þrjú stórkostleg fyrirbæri sem ég dýrka af öllu mínu hjarta og gæti ekki lifað án. Og verðið... aðeins krónur 1200! Þetta er auðvitað bara gefins og það líkar mér! Búningsklefinn var eitt stórt himnaríki og fullur af allsberum, misstórum englum. Og sturturnar! Guð minn góður, svona sturtur hef ég aldrei séð. Það að eyða mörgum krónum í sturtuhengi fyrir allar sturturnar sýnir svo mikið örlæti! Já, ég sagði örlæti!
Þegar út var komið blasti við mér ný pláneta, full af kristalbláu vatni, vatni sem var blessað af Guði sjálfum.

Æi, ég nenni þessu nú ekki. Þetta er ekki alveg minn síll. Í stuttu máli fór ég í Bláa lónið með vinum mínum þar sem ég fór m.a. í keppni við Björk um það hvor gat farið fljótar úr bikiníbuxunum. Ég vann. Við fórum líka í bregðuleik sem var leiðinlegur. Ég drakk svona lítra af kísilvatni því það var alltaf verið að drekkja mér. Jájá þetta var gaman en nú er ég 1200 krónum fátækari. Helvítis okur!Af hverju ætli konan sé alltaf nakin í Bláa lóninu? Kannski fær hún eitthvað kikk út úr því.

Engin ummæli: