þriðjudagur, september 09, 2003

Ó-JÓGÚRT VIKUNNAR!

“Til eru mörg ó-jógúrtin Dæda mín”, var afi vanur að segja við mig áður en ég fór að sofa þegar ég var hjá honum og ömmu í sveitinni á sumrin. Ég er hætt leit minni að hinu eina sanna ó-jógúrti afi minn, því að ég hef heldur betur fundið það. Frá belju á Skerðingsstöðum í Eyjafirði, mjólkurbíl til Akureyrar, safapressu og áfyllingarvél hjá KEA, vörubíl til Reykjavíkur, hillu í Fjarðarkaupum og innkaupakerru móður minnar hefur það ferðast og endaði ferð sína beint í ísskápnum mínum. Og af einhverjum ástæðum rambaði það í nestispakkann minn í morgun, mér til mikillar mæðu.

Best að vera ekki að tvínóna við hlutina heldur skella gusunni á ykkur: Ó-jógúrt vikunnar er KEA skyr með blóðappelsínum. Meira að segja nafnið skerst inní hjarta mitt því að aldrei myndi ég leggja það á vana minn að borða eitthvað með orðinu blóð- í. Mér fer að svima þegar ég heyri talað um blóð og ekki minnkar sviminn þegar ég sé blóð. T.d. þá snýst allt herbergið núna og bráðum dett ég á gólfið....

(2 mínútum seinna) Jæja, þarna leið yfir mig í smástund. En svo að ég snúi mér nú aftur að skyrinu, þá er þetta frekar ógeðslegt skyr, með svona appelsínu-hýðis-tætlum útum allt. Það inniheldur líka 98 kaloríur í 100 g sem er ekki gott... held ég. Ég ætla ekki að fara yfir í neina næringarfræði hérna en ég ætlaði bara að vara þig við þessu skyri, lesandi góði, því að mér er annt um þig... í alvörunni. En allir hlutir með marga galla hafa a.m.k. einn kost og kostur blóðskyrsins er sá að með dollunni fylgir svona handhæg skeið í 2 hlutum sem er tvímælalaust til mikilla þæginda.

Ef ég ætti að velja Húsavík eða Akureyri þá væri það Húsavík. Potter!!

KEA skyr með blóðappelsínum= 1 logsuðutæki

Engin ummæli: