sunnudagur, janúar 18, 2009

Snjómokstur

Í hverfinu mínu eru göturnar frekar þröngar og stundum erfitt að keyra um. Ég reyni því eins og ég get að forðast að keyra innan þess, sérstaklega þegar ég er að flýta mér. Það er þó ein gata sem mér finnst hvað leiðinlegust. Bæði þröng og fjölfarin.

Ég hef þó tekið eftir því að eftir að það byrjaði að snjóa nú í vetur, sé ég oft 2 litla stráka vera að moka snjó af umræddri götu fyrir framan húsið sitt (geri bara ráð fyrir að þeir eigi heima þar). En þegar ég var farin að sjá þá gera þetta ansi oft fannst mér þetta meira skrítið en sætt. Einn daginn varð ég að keyra þarna í gegn til að fara í Nóatún og styðsta leiðin þangað er að keyra um þessa götu. Þá sá ég strákana alveg á fullu að moka snjó með stórum skóflum af litlum part af götunni og færðu sig svo alltaf frá ef bíll var að koma. Mér fannst þetta frekar fyndið en hló mig máttlausa á leiðinni til baka. Um 5 mínútum seinna voru strákarnir mættir með garðslönguna og voru farnir að sprauta heitu vatni á hálkuna til að hún færi. Alveg magnað!

Og það sem mér finnst mest áhugavert er: hvað fær svona litla stráka til að gera þetta svona oft? Það eina og fyrsta sem mér dettur í hug eru foreldrarnir. Það getur vel verið að þeim sé verðlaunað með þessu eða að þetta sé refsing fyrir eitthvað sem þeir gerðu af sér. Þá væri það frekar asnaleg og skrýtin refsing því ég stórefa að foreldrarnir græði eitthvað á þessu annað en snjó- og hálkulausa götu fyrir framan húsið sitt. Svo er þetta eiginlega bara hættulegt fyrir strákana því þegar ég hef séð þá gera þetta er oftast myrkur og oft erfitt að sjá þá. Svo datt mér í hug afar andstyggilega ástæðu: kannski hafa foreldrarnir sagt þeim að afi þeirra hafi dáið þegar hann rann í hálku eða frændi þeirra kafnað í snjóskafli. Langsótt en maður veit aldrei...


Bráðum fara þeir að biðja um svona í jólagjöf