fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Örsaga

Lónið var hálftómt. Aðeins plástrar og bikinítoppur flutu á yfirborðinu og hárteygjur og snæri grófu sig ofan í kísilinn sem var síðan makað á þreytt og saltlegin túristaandlit. Gæslumennirnir gengu ákveðnum skrefum með volkítolkístöðvarnar í plastpoka. "Allt seif í vestur. Roger. Er að fara suður. Yfir og út." Skærgulu úlpurnar létu túristana fá ofbirtu í augun í myrkrinu. Aðeins stjörnurnar og flóðljósin lýstu leiðina. Einn túristinn fór úr spídósundskýlunni sinni og veifaði til félaganna til að sýna hvað hann er rosalega flippaður. Hann fékk kísil í sparigatið fyrir vikið. Parið vafði örmum sínum um hvort annað og engin önnur manneskja var til í heiminum. Bara ég og þú. Kossinn var saltur en hverjum var ekki sama. Ung stúlka bjó til væna kísilkúlu og skellti innan á bikinítoppinn sinn. Alveg eins hinum megin. Brjóstin stækkuðu um helming og voru raunverulegri en nokkru sinni fyrr. Hún kallaði þetta kísílíkon og er búin að fá einkaleyfi. Stúlkan hét Særún.

Engin ummæli: