laugardagur, mars 04, 2006

Afsakið dónaskapinn

en mikið er ég fegin að þessir vetrarólympíuleikar eru loksins búnir!

En að öðrum mikilvægari málum. MR vann vessló í MorfÍs í gær. Það var sætur sigur, sá sætasti hingað til að ég held. Ég var tímavörður eins og alltaf og viti menn, samtímavörður minn frá vessló var drukkinn. Og fundarstjórinn líka. Ég var alltaf að fá miða frá honum: "Ég þarf svo að míga!" Ég bara hló. Og ég fékk skólablaðið þeirra sem er eiginlega bara bók. Núna á ég tvö svona en þau taka svo mikið pláss að ég held að ég hendi þessu bara eða noti sem jólapappír.

Svo gerðist svolítið fyndið í gær. Þannig er mál með vexti að þegar að móðir mín fékk farsíma í fyrsta skipti fyrir ca. 4-5 árum var ég með svona talhólfaæði og gerði talhólfskveðju fyrir alla í fjöskyldunni. Svo var búið að hringja í mömmu rosalega oft úr númeri sem hún vissi ekki hvað var og jafn forvitin og mamma er, hringdi hún í umrætt númer. Í símann svaraði maður:

Mamma: "Halló, þetta er Agnes. Varst þú að reyna að ná í mig?"
Maður: "Uuu, sko. Ég hringdi fyrst í vitlaust númer en svo heyrði ég talhólfið þitt og fór að hlusta. Svo fór ég að hlæja og þá vildu vinnufélagarnir líka heyra og allt í einu voru allir farnir að hringja og lágu í hláturskrampa. Mikið er þetta sniðugt talhólf hjá þér."
Mamma: "Ég skal sko segja þér það að ég gerði þetta ekki heldur dóttir mín."
Maður: "Nújæja. En mætti ég nokkuð fá að hringja í þig aftur og þú svarar ekki því mig langar svo að leyfa konunni minni að heyra þetta."

Ekki veit ég hverju mamma svaraði en henni fannst þetta ægilega fyndið. Leyfði svo nokkrum útvöldum að heyra talhólfið á Aktu taktu við eflaust lítinn fögnuð annarra viðskiptavina. Ef þið viljið hlusta getið þið hringt í síma 685-9252 en það númer flytur ykkur beint í talhólf móður minnar. En athugið, ég var 15 ára og já, ég ætla ekkert að afsaka aulahúmorinn minn. Of seint í rassinn gripið.

Engin ummæli: