fimmtudagur, desember 09, 2004

Undur og stórmerki

Ég fékk bílinn í morgun til að fara í málvísindapróf. Það verður í fyrsta og síðasta skipti sem það gerist. En ég naut þess líka í þetta eina skiptið. Það er svo svalt að fara á bíl í skólann, sérstaklega þegar bíllinn inniheldur jólaseríur. Prófið gekk á afturfótunum. Ef mér hefði gengið vel, þá hefði prófið gengið á framfótunum. En svo var ekki. Hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja það að í máli sem er náskylt íslensku geti hestur þýtt kýr og kýr þýtt hestur? Og að hestar bauli og kýr hneggi? Það svar vil ég fá í jólagjöf.
Ekkert er betra en að setjast niður eftir svona hrakfallapróf og rita í nokkur jólakort. Þau voru ekkert nokkur, heldur 15. Og ekkert kort er eins og já, bara bull. En þau eru skemmtilegust. Ég fór samt ekki svo langt að semja 6 erinda ljóð fyrir tvær vinkonur mínar eins og ég gerði í fyrra.

Ég hef átt rosalega erfitt með svefn upp á síðkastið. Annaðhvort dotta ég yfir bókum oft á dag eða get einfaldlega ekki með nokkru móti sofnað. Í gærkvöldi fór ég til dæmis í háttinn kl. 12 en gat ekki sofnað. Prófaði allt: að telja kindur, búa til runur þar sem ég byrja á einu orði og finn annað orð sem tengist því fyrsta og koll af kolli þangað til að ég enda aftur á upphafsorðinu. Þetta gerði ég 3 sinnum en ekkert gekk. Ég prófaði líka að hlusta á jólastöðina í von um að lenda á hugljúfu jólalagi sem myndi syngja mig í svefn. En allt kom fyrir ekki því að annað hvert lag var með Helgu Möller eða Andreu Gylfa. Lenti eiginlega bara á öllum verstu jólalögunum: Little Drummerboy með Siggu Beinu en þar er búið að setja lagið í poppbúning og inn á milli kemur salsasóló og ofan í það gítarsóló. Svo líka júróvisjónlag með einhverjum ítala sem var gert að jólalagi og kall í Skítamóral syngur. Líka Morning Has Broken í jólabúningi. Ullabjakk segi ég bara. En eftir 3 tíma sofnaði ég loksins og 2 tímum seinna vaknaði ég til að læra. Ég er dugnaðargaffall.

Engin ummæli: