laugardagur, desember 25, 2004

Jól í bæ

Hátíðirnar hafa verið góðar. Betri en í fyrra. ,,Smá" upptalning:

Þorláksmessukvöld var stuð. Ég ásamt nokkrum krökkum úr tónó skelltum okkur niður í bæ með hljóðfæri og læti og spiluðum fyrir mannmergðina. Það var skítakuldi þótt að ég viti ekki hvort að skítur sé kaldur eða ekki. Langar bara ekki að vita það. Hrafn Gunnlaugsson var dyggur aðdáandi okkar. Til gamans má geta að ég hef komið í bústaðinn hans sem brann fyrir skömmu. Gaman að því. Svo fengum við kakó og allir fóru heim.

Aðfangadagur byrjaði með uppvakningu í gegnum fartól. Ég var boðuð á bjöllukórsæfingu þótt ég hafi aldrei áður spilað á bjöllu. Staulaðist niður í tónó og fékk hvíta hanska. Svo fór ég í gjafaleiðangur. Hann var nú bara eins og alltaf: pabbi fær kaffi og koníak og verður hálfvaltur. Ákvað að nýta mér valtleika hans þegar hann var að dást að fullu tungli. Ég sagði honum að það væri ekkert tungl þarna, hann væri bara að ímynda sér það. Og hann trúði mér. Spurning hvenær ég ætla að segja honum sannleikann. Á leiðinni heim urðum við vitni að þriggja bíla árekstri. Aumingja þau. Þegar heim var komið var komið að jólabaðinu. Fór svo í sparifötin og tveir fráskildir frændur mínir komu í mat. Hann var góður. Sem sagt maturinn. Svo voru pakkarnir opnaðir. Ég fékk margt og mikið. 3 geisladiska og á meðal þeirra var Pottþétt 36 sem ég ætla pottþétt 36 að skila. Ögrandi náttföt. Takk fyrir þau Oddný mín. Önnur náttföt en í þetta skiptið var það afar efnislítill náttkjóll. Hann var frá einum af fráskildu frændum mínum og sagðist hann hafa fengið hjálp við að velja hann. Ég spurði hvort það hefði verið vændiskona sem hjálpaði honum og ég fékk olnbogaskot frá mömmu. En frændi fór bara að hlæja. Við höfum nefnilega svo svipaðan húmor. Frændi er mikill brandarakall og er oft að leika sér í Kína en enginn veit hvað hann er að gera þar. Hann sýndi mér myndir af öllum konunum sem voru alltaf að elta hann þar af því að þær héldu að hann væri milljóner. Hann er það samt ekki. En ég skal halda áfram með gjafirnar. Fékk vettlinga frá hundinum mínum sem hann er búinn að vera heilt ár að prjóna. Hann er hæfileikaríkur hann Sókrates. Fékk einnig bók um dauðan hund. Takk fyrir hana Guðný. Vonandi ertu ekki að gefa það í skyn að þú ætlir að drepa minn hund með garðgaffli. Nenni ekki að telja upp fleiri pakka. Systir mín fékk déskotans hljómborð sem ég ráðlagði foreldrum mínum að kaupa ekki. Það verður ekki stundarfriður á heimilinu það sem eftir er. Talandi um stundarfrið. Ég samdi einu sinni lag sem heitir Stundarfriður þegar ég var 11 ára af því að það var eitthvað sem ekki var á heimilinu. Sendi lagið í keppni en vann ekki. Bömmer. En svo var það eftirrétturinn. Einn fráskildi frændi minn er afar þykkvaxinn og rak afturendann í borðstofuskápinn og upp á skápnum er vínrekki með 8 vínflöskum sem pabbi heldur mikið upp á. Skápurinn byrjaði að vagga og svo búmm. Vínrekkinn plús flöskurnar smölluðust í gólfið og timburgólfið var rauðvínslegið. Þá var byrjað að þrífa í 4. skiptið í þessari viku en rauðvínið fór á hæðina fyrir neðan og í gegnum loftið á tilvonandi herbergi mínu. Ég verð því með rauðvínsloft. Nammi namm. En pabbi fór ekki að gráta eins og yfir dýralífsmyndinni, sem betur fer. Þoli það ekki þegar að fólk grætur á jólunum. En svo var komið að jólakortalesningu. Við höfum alltaf lesið kortin bara strax og þau koma inn um lúguna en ég heimtaði að nú yrðu þau opnuð á aðfangadagskvöldi eins og allir aðrir gera. Fékk sjálf 6 kort, fimm kortum fleiri en í fyrra. Las svo smá í bókinni um dauða hundinn. Steinrotaðist.

Vaknaði kl. 9 í morgun af því að bjöllukórinn var að fara að spila. Það gekk bara vel. Dagurinn fór svo bara í fugl. Nei rugl. Horfði á Harry Potter 3 sem ég gaf örverpinu í jólagjöf. Svo er jólaboð núna with hanged meat, some red cabbage and up-stubby. Afi komst að því hver er versta uppfinning allra tíma: ilmkerti. Veit ekki hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu. Núna er ég bara að láta mér leiðast og bora í nefið. Neih, þarna er páskaunginn sem ég var að leita að! Ái hann er fastur. Með páskaunga fastan í nefinu óska ég ykkur gleiðra jóla og afsaka ef ég sendi ykkur ekki jólakort. Fann ekki símaskrána.

Engin ummæli: