þriðjudagur, júlí 06, 2004

Hver er með þetta gal?

Jú, auðvitað hann Portú! Á morgun fer ég til Portúgal að hitta Portú og heyra hann gala. Ég kann ekki spænsku, hvað þá portúgölsku þannig að öll samskipti við innfædda verða heldur betur skrautleg. Það furðulega er að ég að er fara með foreldrum mínum og vinafólki þeirra, en ekki í einhverja sukkferð með óbermunum vinum mínum. En sem betur fer verða krakkar á mínum aldri með í för en það er einn hængur á - þau eru kærustupar! Og þau eru frá Akureyri! Strákurinn er víst sonur Jóns Ásgeirs í Baugi en hvort það er satt eða ekki, veit ég ekki. Ég verð því þriðja hjólið í ferðinni en ég ætti svo sem að vera búin að kynnast og venjast því.

Nú stendur yfir strangt nám í ökuskóla 1. Fyrsti tíminn var í gær og var hann heldur betur skrýtinn. Ökukennarinn tók af einhverri ástæðu, litla rottuhvolpinn sinn með sér og leyfði honum að labba útum alla stofu. Allir þurftu því að passa allar snöggar fótahreyfingar og minnstu munaði að ég kremdi eitt stykki hvolp með mínum stóru bífum. Slæmt!

Ég gerði hið ólíklegasta í gær - fór á heimildarmyndina um Metallica. Með mér í för voru þrír drengir og var einn klæddur í rauðar stuttbuxur sem var steikt en sniðugt. En svo að ég snúi mér aftur að heimildarmyndinni, þá kom hún mér skemmtilega á óvart. Ég bjóst við því að sofna en svo var ekki. Hún var líka fyndin á köflum og einnig dramatísk. Lars Ulrich er mjög oft alveg að fara að gráta en nær alltaf að halda tárunum inni. Fólkið í rokkbransanum hefur nefnilega líka tilfinningar sko!

En nú er komið að kveðjustund. Ég sný aftur hress og kát eftir rúmar 2 vikur með djúsí sögur í pokahorninu. Sviðasultan kveður!Mitt tilvonandi heimili

Engin ummæli: