laugardagur, apríl 24, 2004

Ljúfa líf

Móðir mín bauð mér í leikhús í gær. Fyrir valinu varð sýningin 5stelpur.com og þegar í Austurbæ var komið, blasti við mér heill kvennakór sem söng Kúmbæjamælord, My Girl og fleiri góða slagara. Vín var selt á staðnum og voru nokkrar konurnar komnar vel í það og viti menn... ég fékk bjór yfir mig alla. Fulla konan bauðst þá til að sleikja bjórinn af mér en fullu vinkonur hennar töldu hana trú um að það væri ekki góð hugmynd. Það er því ekki sniðugt að fara í leikhús undir áhrifum áfengis. Mamma var búin að vara mig við því að það væri fólk með myndavél á svæðinu sem spurði fólk allskyns óþægilegra spurninga varðandi kynlíf og sýndi það svo á skjánum inni í sal. Okkur tókst um tíma að passa okkur á öllum rafmagnstækjum með linsu með því að fela okkur á klósettið og viti minn... þegar ég labbaði af jóninum, hysjandi upp um mig pilsið, blasti ein slík vél og óð kona með míkrófón fyrir framan mig.
Óða kona: "Hefurðu fengið raðfullnægingu?"
Ég: "Uhh, ég er nú bara 17 ára."
Óða kona: "Ha, það getur ekki verið!"
Ég: "Jú."
Óða kona: "Allavega, ertu þá að segja mér að 17 ára stelpur eins og þú fái ekki fullnægingu og stundi kynlíf?"
Ég: "..."
Þarna stóð ég stjörf að ótta við konuna og spurninguna en sem betur fer kom einhver undrakona og bjargaði mér með því að svara fyrir mig. Inni í salinn gekk ég niðurlút eftir þessa hræðilegu lífsreynslu. Ekki bætti úr skák að við hliðina á mér sat feitur kall og tók hálft sætið mitt fyrir hendina á sér. Sýningin byrjaði svo og fyrst gekk Björk Jakobsdóttir á svið og bað allar konur sem voru í g-streng að rétta upp hönd. Þær voru nú eitthvað feimnar og þá gerðist hið ótrúlega. Mamma rétti upp höndina á mér. Þá benti Björk á mig og sagði: "Það er allavega ein og hún er ekki einu sinni kona!" Allir hlógu og ég sökk í sætið mitt. Sýningin var orðin eitt risastórt helvíti en ég þraukaði því ég er þraukari. Sýningin sjálf var nú ekki svo slæm en stundum var nú gengið aðeins of langt í greddunni. Mamma er ekki mjög vinsæl hjá mér í augnablikinu en það verður ekki lengi.

Best að fara að semja 8 blaðsíðna ritgerð um Wagner og síðan hengja sig!



Þetta með að hengja mig var nú bara smá spaug.

Engin ummæli: