miðvikudagur, mars 24, 2004

Skrúöpp!

Ég er himpigimpi og þess vegna er fjölskyldan í fýlu út í mig. Þetta byrjaði allt saman í dag þegar mamma kom að ná í mig af æfingu og sagði mér að hún væri búin að kaupa íþróttaföt á pabba svo hann þyrfti ekki lengur að strippalingast á nærbuxunum þegar hann lyftir lóðum með lyftingagræjunum sínum ógurlegu. Ég varð bara glöð fyrir hans/okkar hönd og pældi ekkert meira í því. Á meðan á kvöldmatnum stóð, ákvað ég að sýna nýju íþróttafötum föður míns smá áhuga og spurði: ,,Jæja pabbi, búinn að máta fötin?" Mamma og systir mín settu þá upp þennan svakalega svip og þá gerði ég mér grein fyrir því að ég hafði gert eitthvað vitlaust. Ég reyndi því að redda mér: ,,Ha nei... uu... ég meinti fötuna, ertu búinn að máta... fötuna?" Þarna var ég að reyna að bjarga mér fyrir horn en þurfti þá hún móðir mín ekki endilega að fara að flissa. Pabbi minn á nefnilega afmæli á föstudaginn og mamma ætlaði að gefa pabba íþróttaföt í afmælisgjöf. Hún hafði nú ekki mikið fyrir því að segja mér frá því en ég held að pabbi hafi nú samt fattað þetta, það þarf ekki snilling til þess. Mamma er núna ennþá hlægjandi en er samt fúl út í mig. Ég er líka fúl út í hana fyrir að vilja gefa pabba íþróttaföt í afmælisgjöf. Ég væri ekkert til í að fá leikfimisföt í afmælisgjöf jafnvel þótt ég þarfnaðist þeirra sárlega. Hver veit nema hún hafi kannski keypt á hann krumpugalla, þá vil ég nú frekar hafa hann á nærbuxunum.

Ég er himpigimpi.Pabbi í tilvonandi nýju íþróttafötunum sínum - reyndar í líki Rod Stewart.

Engin ummæli: