þriðjudagur, janúar 06, 2004

Kúgú!

Titillinn á svo sannarlega við fjölskyldu mína því að þau eru gjörsamlega að tapa glórunni. Gott dæmi um það er að í fyrsta skipti héldu þau sérstaklega upp á þrettándann. Þrettándinn er svo vitlaus dagur og var til þess eins gerður að hylla eitthvað álfapakk og skjóta upp afganginn af rakettunum síðan á gamlárskvöld. En fólkið lætur blekkjast og þegar ég kom heim af æfingu um kvöldmatarleytið, fann ég þennan yndislega ilm af hamborgarhrygg og fjölskyldan stóð í ganginum öll spariklædd. Sparistellið sem er aðeins notað á hátíðardögum var á borðum og var ekkert til sparað. Ég hugsaði: ,,Er mig að dreyma?" en svo var víst ekki. Mér leið bara hálfilla við matarborðið, klædd í gallabuxur og bol á meðan allir voru í sínu fínasta pússi. Maturinn bragðast vel en núna er búið að eyðileggja jólamatinn fyrir mér. Maginn minn þolir bara hamborgarhrygg einu sinni á ári og verð ég því að passa mig vel um næstu jól. Maður fær svo hrikalegan vindgang af þessu...
Eftir matinn var svo heimatilbúinn ís og læti en ég ákvað að sleppa honum til að taka ekki þátt í þessari geðveiki þeirra. Síðan var hóað í mig því að það var verið að endursýna ávarp útvarpsstjóra á RÚV og allir urðu að horfa á það. Ekki skrýtið að ég er eins og ég er. Sem betur fer var ég ekki pínd á álfabrennu en þar eru víst álfar til brennslu. Nei, segi svona en það er annar siður sem var búinn til, til að fólk geti losnað við pappakassana og jólapappíraafgangana eftir jólahátíðina.

Þið hljótið að skilja mig núna... þau eru gjörsamlega klikk!Svona verð ég á næstu jólum

Engin ummæli: