miðvikudagur, janúar 14, 2004

Afmælisvikan - Dagur 2

Ég verð að viðurkenna að næsta færsla er ein af mínum uppáhalds því þetta var örugglega skemmtilegasta ferð á veitingastað sem ég hef farið í með fjölskyldunni.

laugardagur, janúar 25, 2003

VEITINGASTAÐAGAGNRÝNI SÆRÚNAR!!

Í gær ákváðu foreldrar mínir að bjóða allri familíunni út að borða á A.Hansen... eina skemmtistað okkar Hafnfirðinga. Það var nú ástæða fyrir því að gamla settið tók upp á að splæsa máltíð á alla og hún er sú að mamma vann máltíð fyrir 2 í einhverju jólahappdrætti í vinnunni sinni og hafði svo keypt blóm handa kallinum og fengið 2 fyrir 1 á A.Hansen miða með. Þannig að það eina sem þau þurftu að borga var ein máltíð og eitthvað að drekka. Hún laumaði samt einni kók í bauk í veskið sitt handa systur minni og var að fara að stinga Svala niður líka fyrir mig en ég harðneitaði að láta sjá mig drekka Svala á fínum veitingastað!! Ég hef mitt reputation sko!! :) Það tekur bara 2 mínútur að labba þangað en mamma og pabbi voru í góðu skapi og ákváðu að eyða bensíni í að skutlast á bílnum niður í bæ. Þegar inn var komið, hneykslaðist mamma á því að það voru engin herðatré laus í fatahenginu og fór að ná í þjón og bað hann um að koma með fleiri. Eftir mikla leit að fleiri herðatrjám gátum við loksins sest niður. Í forrétt var sveppasúpa sem var bara helvíti góð að mínu mati fyrir utan nokkra hráa sveppi sem í henni voru. Í aðalrétt var svo svínasteik með einhverju gumsi sem ég gat bara ekki látið ofan í mig!! Eins og t.d. eitthvað salat sem var með appelsínubáti ofan á og einni svartri ólívu. Ekki góð samsetning!! Systir mín hafði aldrei séð ólívu áður og leist ekkert á hana og spurði því mömmu hvort að hún vildi ekki borða hana:

Systir mín: “Mamma, viltu borða ólivíuna mína??”
Mamma: “Ha... Olivia Newton-John???” (Ahahahah)
Pabbi: “Nei... Olivía Nítján-Tonn!!” (AHAHAHHAHAH)

Þarna gerði ég mér ljóst að fjölskyldan mín er ekki venjuleg fjölskylda... heldur aulahúmorsfjölskylda. Ég tók nú samt þótt í þessum hrossalátri þeirra... bara svona til að vera kammó en það ætla ég aldrei að gera aftur!!! En jæja... svo í eftirrétt átti að vera ístvenna með ávaxtasósu. Þá varð mín sko spennt!! En þegar ég fékk ísinn á borðið varð ég fyrir miklum vonbrigðum... á disknum voru bara 2 ískúlur og slikja af jarðaberja- og sítrónu útúrkreistingi sem átti að vera þessi fræga ávaxtasósa. Ég ákvað samt að gefa þessu séns og þetta var bara alveg skítsæmilegt. Á meðan við vorum að skófla í okkur ísnum, benti mamma okkur á skakka mynd sem var á veggnum sem hafði farið svo í taugarnar á henni allt kvöldið!! Þessar mömmur... OHH!! En þjónustustúlkurnar voru ekki alveg að standa sig.... því að ég fékk tvisvar sinnum disk í hausinn og í annað skipti sósu í hárið á mér í kaupæti!! En hey... er ekki sósa betri í hári en flasa?? En þegar máltíðinni lauk var það svo að borga reikninginn. Maður hálfskammaðist sín þegar mamma fór með alla þessa miða til að borga matinn. Maður sá það líka á svipnum á konunni sem afgreiddi okkur að hún var ekki vön að fá svona nískt fólk á staðinn til sín. Á leiðinni út stóðst mamma mín ekki mátið, tók einhvern sá svakalegasta snúning sem ég hef á ævinni séð, sneri við og lagaði myndina á veggnum sem hafði farið SVO mikið í taugarnar á henni!! Fólk á staðnum var ekki alveg að fatta hvað þessi ruglaða kona væri að gera og með hausinn í buxunum gengum við út. Það er ástæða fyrir því að við förum ekki oft út að borða!! En samt... mæli eindregið með þessum ágæta stað!!

A.Hansen: 2 ½ bingókúlur

Engin ummæli: