mánudagur, febrúar 17, 2003

Núna er það á hreinu hver mun keppa fyrir Íslands hönd í Júróvisjón.... en það er söngkonan í Íraskinn, Girbitta Daukhal eins og pabbi kallar hana stundum og finnst það alltaf jafn hlægilegt!! Í tilefni að þessu merkiskvöldi í lífi okkar Íslendinga ákváðum við að bjóða foreldrum föður míns í grillmat svona í miðjum febrúarmánuði. Máltíðin byrjaði vel því að afi og pabbi fóru að karpa um það hvar fillet og lundir voru staðsettar á greyið rollunni.... Blessuð sé minning hennar. Þessu rifrildi var samt sem betur fer stungið undir stól og allir skunduðu með bros og vör að sjónvarpinu og settu sig í stellingarnar fyrir viðburðinn. Eftir smá Skúróvisjón (ahaha... þeir eru alltaf jafn fyndnir mennirnir þarna á stofu spaugsins!!) voru Gísli Marteinn og Logi Bergmann (Mísli Garteinn og Bogi Lergmann eins og pabbi segir...) orðnir þjóðhetjur Íslands á einu kvöldi fyrir það eina að segja sama brandarann eftir hvert einasta lag... en þessi brandari vakti mikla lukku og kátínu á mínu heimili! Og þegar stóra stundin rann upp... s.s. Botnleðja steig á svið... trylltist krávdið gjörsamlega!! Amma byrjaði að gera sinna fræga þumalputtasnúning, að hætti ellilífeyrisþega, á methraða og mamma ákvað að vera óþekk og fékk sér 3 skeiðar af ís í staðinn fyrir 2 eins og venjulega. Þegar Botnleðja lauk sínum líflega flutningi, róaðist liðið sem betur fer niður. En flipp kvöldsins var án efa þegar söngvari Leðjunnar öskraði í lok lagsins: “LEÐJAN TIL LETTLANDS!” og amma hélt að hann hafði sagt: “Á LEIÐINNI TIL LÆKNIS!!” og skildi ekkert af hverju hann var að láta alla íslensku þjóðina vita af því. Og svo þegar allir höfðu lokið sér af... var það bara að kjósa. Pabbi vildi kjósa Eivöru færeysku Pálsdóttur af því að hún á víst að vera mjög brjóstgóð en sterkara kynið fékk að ráða og við kusum okkar menn... Botnleðju. En það var ekki nóg því að Birgitta var kosin en okkar menn lentu í 2. sæti með AÐEINS 13.000 stiga mun!! Núna hefði verið gott að eiga GSM eins og auglýsingin segir en í þessu tilfelli 13.000 GSM síma og 1.300.000 kr í viðbót! En maður verður bara að vona að hún Girbitta geri okkur ekki að fíflum fyrir framan alla Evrópu.... kannski tekst henni það með þessu skoppi sem hún gerir alltaf á sviði. Er ég sú eina sem tek eftir þessu????? Hún er alltaf svona gleiðfætt og bara asnaleg. Lítil börn halda örugglega að hún sé api eða e-ð og fara að grenja þegar þau sjá hana. Nei kannski ekki... en hún verður að hætta þessum Tinu Turner stælum sínum... núna gengur hún aðeins of langt!! En brjóttu legg í Lettlandi frk. Girbitta!!

Engin ummæli: