miðvikudagur, desember 31, 2003

The Icelandic Yule lads

Ég gleymdi víst að minnast á það að ég fékk möndlugjöfina þetta árið. Það er kannski ekki frásögum færandi því að ég hef fengið hana síðastliðin þrjú jól af þremur jólum sem þessi siður hefur verið viðhafður á mínu heimili. Möndlugjöfin þetta árið var Eftir-átta-nammi og spilin með íslensku jólasveinunum þar sem Brian Pilkington ljáir þeim penna sinn. Í gær fór ég fyrst að skoða þessi spil og sést það vel að þau eru einnig ætluð túristum og útlendingum. Á kassanum stendur á ensku: The Icelandic Yule lads. Jahá, hver hefur ekki heyrt um hinu frægu Yule lads? Jæja, ég sætti mig nú alveg við eina asnalega þýðingu en þegar mér var litið inn í pakkann... fór ég bara að hlæja. Þetta er ástæðan:

Stekkjastaur: Sheep Worrier (Síðan hvenær hefur hann haft áhyggjur af kindum?)
Giljagaur: Gully Gawk (Minnir helst á trúðsnafn. Gully þýðir reyndar gil en gawk þýðir klunnalegur. Gully Dude væri kannski betra)
Stúfur: Stubby
Þvörusleikir: Spoon Licker (Engin er skeiðin)
Pottasleikir: Pot Licker
Askasleikir: Bowl Licker (Engin er skálin)
Hurðaskellir: Door Slammer
Skyrgámur: Skyr Glutton (Kjánalegt)
Bjúgnakrækir: Sausage Stealer (Tíður gestur á Bæjarins bestu að næturlagi.)
Gluggagægir: Window Peeper (Perralegt)
Gáttaþefur: Door Sniffer (Minnir á eiturlyfjaneytanda)
Ketkrókur: Meet Hook
Kertasníkir: Candle Beggar (Ég held að Kertasníkir færi aldrei að grátbiðja um kerti)
Grýla: Joker (Ég þori að veðja upp á augasteina langaömmu minnar, að hún Grýla er ekki mikil brandarakelling)

Ef ég væri útlendingur og myndi sjá þessi spil, myndi ég hiklaust kaupa fullt af þeim, gefa ættingjum mínum og sýna þeim hvað Íslendingar eru miklir kjánar og hafa skrýtna siði.

Á nýju ári ætla ég að hætta þessu daglega bloggi mínu, nenni ekki að standa í þessu.

En ég vil óska lesendum gleðilegasta árs hingað til og þakka fyrir það gamla. Gangið hægt um gleðinnar dyr, notið hlífðargleraugu og munið: Hjálparsveit skáta skaffar dótið!

þriðjudagur, desember 30, 2003

Post jucundam juventutem

Já, æskan líður svo sannarlega ung og fjörleg. Ég komst að þeirri niðurstöðu áðan en þá braust fram barnið í mér og varð að fallegu blómi. Ég fór nefnilega út að renna mér í snjónum ásamt Sóleyju, Snorra og Eiríki. Við skunduðum við glöð í bragði í átt að brekkunni fyrir neðan kirku Víðistaða með þoturassa, plastpoka og snjóþotu og æskan og kynþokkinn skein af okkur. Hvað er meira kynæsandi en að vera í monnboots, í alltof stórum snjóbuxum og með skærgrænt ennisband? Ekki veit ég það.
Ég og Sóley bjuggum til þessa fínu pomsubrekku sem var ekki mikill rassavinur. Strákarnir bjuggu svo til stökkpall sem var bara samanþjöppuð snjóhrúga. Svo var aðalmálið að hitta á pallinn, það gekk ekki vel en gekk þó. Til að gera langa sögu stutta, fórum við heim til Bjarkar eftir kaffæringar og englagerð og fengum kakó. Það var gaman.

Ég mæli eindregið með því að þið drattist af ykkar ***** rassi, hendið ykkur í Kraft-gallann, grípið í Stiga-sleðann og gerist börn á ný! Væri lífið ekki öðruvísi ef allir hugsuðu eins og Pétur Pan? Jú, því þá létu allir eins og börn!

Svo er þetta líka ókeypis skemmtun. Hver þarf bíó, keilusali, spilakassa og súlustaði þegar maður hefur snjó í brekku?

mánudagur, desember 29, 2003

Í gær...

...náði nördinn í mér yfirhöndinni. Já þið giskuðuð rétt, ég fór nefnilega á Lordarann í annað skipti í sömu vikunni. En það er ekki mér að kenna, ekkert annað en hópþrýstingur! Nú jæja, það slæma við að fara aftur á sömu sýninguna tvisvar sinnum er það að nú er ég 990 kr. fátækari en ég var deginum áður. Það góða er að í annað skiptið þarf maður ekki að vera að fylgjast mikið með söguþræðinum, heldur fer athyglin í öll smáatriðin sem á vegi manns verða. Ég tók eftir nokkrum:

- Kyntröllið og kallinn Jómar er með þessa svakalegu vörtu fyrir ofan aðra augnbrúnina. Ekki mjög sjarmerandi.
- Viggo Mortensen hleypur asnalega.
- Stuttlingurinn Kátur opnar munninn ískyggilega mikið þegar hann talar.
- Fróði stynur unaðslega en hlær aftur að móti kjánalega.
- Orðið: "Ríðum!" er mikið notað í þessari mynd. Sóðabrækur!
- Gandalfur væri ógeðslega flottur með tígó.
- Ég hefði ekkert á móti því að greiða skeggið á Gimli, kannski setja nokkrar fléttur.
- Hárið á Aragorn er alltaf að síkka og styttast svo aftur. Hvaða sjampó ætli hann noti?
- Í einu atriði sést lítil stelpa henda blómum á götu í Mínis Tíríð og þá er hún mannsbarn. Í öðru atriði í Hobbitabrúðkaupi, sést þessi stelpa aftur en þá sem Hobbiti. En kannski er hægt að klóna fólk þarna, veit það ekki.

Ég er nú að pæla í að fara bara aftur og þá í þriðja sinn. Best að skella sér bara...



Vartan sést víst ekki hérna, hjálmurinn fyrir og svona. Svo er hann líka svo mikið meikaður að hún myndi hvort eð er ekkert sjást.

sunnudagur, desember 28, 2003

Nokkrar gullmolaspurningar úr Trivial Pursuit:

- Þegar María Antonette heyrði um brauðskort í Frakklandi sagði hún: ,,Gefum þeim bara kökur í staðinn." En hún sagði þetta auðvitað á frönsku.
- Ben Stiller er sonur kallsins sem lék föður George í Seinfeld-þáttunum.
- Loftskipið Graf Zeppelin kom til Íslands árið 1930.
- Sterkasta beinið í fætinum er hælbeinið.
- Silvester Stallone fór úr Armani jakkanum sínum og vafði nýfætt barn sitt í hann þegar frú Stallone fæddi fimmta barn þeirra í lyftu hér um árið.
- Leikarinn og leikstjórinn Mel Brooks heitir í alvörunni Melvyn Kaminsky.
- Fljótasta landspendýrið er blettatígur.
- Stjórnmálamaðurinn og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna Al Gore telur sig hafa fundið upp internetið.
- Þorpið Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwillantysiliogogogoch er í Wales. Þetta er líka lengsta staðarnafn í heimi.
- Afkastamesti uppfinningamaður sögunnar var Thomas Alva Edison.
- Í Kína eru flest svín í heiminum.
- Moskítóflugur laðast mest að bláum lit.

Kópavogsbúinn Fannar í 3.G. fær link fyrir að vera hann sjálfur.

laugardagur, desember 27, 2003

Mig dreymdi draum...

... og draumurinn var sá að ég fékk 10 flísteppi í jólagjöf. Ég var bara nokkuð ánægð með það og varð enn ánægðari þegar ég komst að því að teppin voru frá engum öðrum en Fídel Kastró. Hann kom með þau í eigin persónu og sagði að ég myndi skilja gjöfina seinna. En það gerði ég ekki af því að ég var vakin. Síminn minn hringdi kl. 4 í nótt og ég svaraði: "Fídel?" Síðan var skellt á. Ég mun finna þig í fjöru, mörðurinn þinn!!



Teppin voru svona nema í mismunandi litum. Núna vildi ég að ég ætti svona teppi.

föstudagur, desember 26, 2003

UPPGÖTVANIR SÍÐUSTU DAGA:

1. Rauðsokka þýðir víst kvenréttindabaráttukona, ekki indíánakona eins og ég hélt.

2. Ástæðan fyrir því að maður kallar höfuðverk eftir fyllerí, timburmenn er sú að það er hægt að líkja verknum við smiði að hamra í timbur. Alltof langsótt fyrir mig.

3. Rauðkál er vont.

4. Líka bláu molarnir í Gæðastrætis konfektinu.

5. Það er ekkert sniðugt að pakka inn kassakvittuninni með jólagjöfinni.

6. Það er líka ekkert sniðugt að senda tóm jólakort en nú þegar vitum við að þau eru 2 þessi jól og þau eru örugglega fleiri.

fimmtudagur, desember 25, 2003

GLEÐILEG JÓL!

Ég vona svo sannarlega að þau verði það. Jólin byrjuðu svo sem ágætlega hjá mér. Gott dæmi um það er Þorláksmessukvöld en þá skundaði ég ásamt 9 öðrum vitleysingum á vit ævintýranna á veg laugarinnar í Reykjavík. Fórum í strætó með túbu, bassatrommu, sneriltrommu, 2 horn, 2 trompeta, saxófón og jólabjöllur. Jú og nótur og jólaskapið. Leið okkar lá svo í Kolaportið þar sem jólalögin voru kyrjuð í gegnum hljóðfærin en lítil var stemningin þannig að við fórum á Laugarveginn í staðinn. Þar var nóg um að vera og mikið um manninn. Okkur var tekið vel og fólk var greinilega í stuði af því að það tók óhikað þátt í leiknum okkar, að kasta pening í húfu. Verðlaunin fyrir þátttökuna voru ekki af verri endanum, hyllingaróp. Svo þegar við sáum einhverja sem við þekktum spiluðum við eitt frægasta lag í heimi fyrir það, afmælislagið. Engu máli skipti þótt að þau áttu afmæli eða ekki. Við komumst svo að því að Skífan er fýlupúkabúð sem kann ekki að meta góða tónlist og jólaandann því að við vorum rekin út þegar við buðumst til að spila þar. Heimildir herma að þar hafi Jón Ólafsson verið að verki. Við létum það ekki aftra okkur frá því að spila, en við spiluðum s.s. um allan Laugarveginn og með leiknum okkar söfnuðum við ca. 10.000 kr. sem er samt helmingi minna en við söfnuðum á Menningarnótt. Það var líka ekki mikið af fullu fólki í þetta skiptið sem gáfu okkur heilu 1000 kallana.

Aðfangadagur byrjaði nú rólega. Ég vaknaði seint og fékk grjónagraut. Síðan var hin árlega pakkaferð og heima hjá frænda mínum og frænku voru reyttir brandarar á fullu spani:

Hafið þið heyrt um bóndann sem tók inn heilt pilluglas af viagra? Honum er haldið sofandi í mjaltarvél!

Hvað kallast maður af amerísk-afrískum uppruna sem hefur borðað nokkur biðskyldumerki? Toblerone!


Eftir mikil hlátrasköll var haldið heim í von um að finna ilminn af hamborgarahrygginn í ofninum. En enginn var ilmurinn. Pabbi hafði þá stillt klukkuna vitlaust og núna var klukkan hálf fimm og hryggurinn hrár. Því varð að fresta máltíðinni um nokkra klukkutíma en það var nú allt í lagi fyrir mig en ekki systur mína því að hún var að farast á taugum og hélt að hún myndi ekki fá að opna neina pakka í ár. Sem betur fer voru amma og afi fjarri góðu glensi frá þessum hremmingum því að þau ákváðu að fara í 3 mánaða rómantíska ferð... til Noregs og búa þar hjá dóttur sinni og 3 brjáluðum börnum sem tala ekkert nema norsku. Tuttebærjahulte! Afi hefði svo sannarlega ekki sætt sig við svona uppákomu. En klukkan 9 voru allir búnir að borða og pakkarnir voru tættir í sundur. Ég fékk margt skemmtilegt og óskemmtilegt en það skemmtilega var tvímælalaust úr án tölustafa sem ég fékk frá foreldrum mínum. Því verður skipt fyrir betra úr. Svo fékk ég náttbuxur með ilm frá systur minni en ilmurinn á víst að fara úr í næsta þvotti. What a pitty it is! Svo fékk ég 3 geisladiska og tvo vildi ég alls ekki fá. Þeim verður því skipt líka. Rúsínan á pysluendanum var svo hið ágæta spil Trivial en það var spilað seinna um kvöldið þrátt fyrir öll boð og bönn. Pabbi fékk jólasveina g-strenginn frá systu og frændi minn fékk risastóra tréstyttu af svínum að ríða frá systur sinni. Á styttunni stendur: 'Making bacon' Haha! Svekkelsi kvöldsins átti án efa hún móðir mín en ég fékk þá hugmynd að hrekkja hana aðeins. Hún hafði s.s. sýnt mér þennan svakaflotta hring sem hana langaði svo mikið í og ég átti að sjá til þess að hann yrði keyptur. Hann var keyptur en einnig keyptum við í 10-11, ísskeið, hræripísk og geisladisk. Þessum þremur hlutum var fallega pakkað inn og mamma ætlaði að missa augun þegar hún sá að þetta var ekki lítill kassalaga pakki sem var pakkað inn í búðinni. Það var svo algjört kodak-móment þegar hún svo opnaði pakkann því að hakan var komin niður á maga af undrun og svekkelsi. Allt kvöldið var hún fúl og sagði að það yrði ekkert gaman að segja vinnufélugunum frá því hvað hún fékk í jólgjöf frá eiginmanni og börnum. Eftir nokkurra klukkustunda píningar og fýlu gáfum við henni svo rétta pakkann. Þá varð hún svo glöð, kyssti okkur og knúsaði og sagði: "Eins gott!" Vanþakkláta kona. Síðan var Trivial spilað og svo fóru allir að sofa.

Jóladagur byrjaði ekki vel. Kl. 7 um morguninn þurfti ég að dröslast framúr rúminu og fara að vinna á elliheimilinu, þvílík pína var það! Þegar ég kom á staðinn voru fá kunnuleg starfsfólksandlit og um helmingurinn voru útlendingaandlit. Ég var svo heppin að fá að vinna með leiðinlegu filipeysku-konunni sem kann ekki að tala almennilega íslensku og lætur mann gera allt það erfiða og leiðinlega. Orðin 'ha?' og 'ég skil þig ekki!' voru því óspart notuð þennan vinnudag. Í þokkabót mætti hún með jólasveinahúfu dóttur sinnar og var alltaf síhrópandi: "Hóhóhóhóhóhó!" Greyið gamla fólkið hrökk alltaf í kút og það lá við að það dytti úr rúmunum og gleypti gervitennurnar sínar. Það var líka mikið þreifað á mér þennan vinnudag því að dónakallinn á deildinni var svo sannarlega í jólastuði og ávallt ungur í anda. Ég var svo heppin að fá að klæða hann og fékk því mikið hól fyrir lögulegan líkama og fallegt nafn. Filipeyska konan setti líka út á nafnið mitt og tjáði mér það að á filipeysku þýddi það strútur! Og svo hló hún. Mér var ekki skemmt. Eftir vinnu fór ég heim, skóflaði í mig einu hangiketslæri og hér sit ég og þjappa matnum niður með því að hossast á stólnum. Virkar bara heldýpis vel. Neih, eftirrétturinn tilbúinn!

Það var kannski vitleysa af mér að óska ykkur gleðilegra jóla því í mínum huga eru þau alltaf búin á jóladag en ekki tek ég orð mín til baka. Þetta voru þá bara ágætis jól.

þriðjudagur, desember 23, 2003

Fídel Kastró - góður gaur!

Ég hef alltaf haldið að hann væri vondur kadl en svo er bara ekki. Pabbi sagði að það væri útaf því að ég hafi blindast af áróðri Bnadaríkjamanna. Það er líka alveg satt og svo er kannski líka ein önnur ástæða fyrir því. Þegar ég var yngri hlustaði ég rosalega mikið á Tvíhöfði og eini geisladiskurinn sem ég á var ofspilaður og það er óhugnalegt að ég geti hlustað á hann ennþá. Á disknum er leikrit sem kallast 'Bylting á Kúbu' og það hljóðar svo:

*Bank bank*
Móðir Fídels: Nei komdi sæll og blessaður Djeminn
Tjé: Hæ, er Fídel heima?
MF: Já. FÍDEL!
Fídel: Hvað?
MF: Hann Tjé er að spurja um þig
F: Já hæ.
T: Hæ, viltu vera memm?
F: Gera hvað?
T: Byltingu.
F: Byltingu... hvar?
T: Á Kúbu.
F: Kúbu... hvar er það?
T: Æi það er eyja.
F: Hmmm, af hverju?
T: Bara, arfarán.
F: Jájá, æi ég veit það ekki. Ég á eiginlega eftir að læra.
T: Þú mátt vera forseti.
F: Vá, lofarðu því?
T: Jájá
F: Ja það er kannski þokkalegt.
T: Ég held að það geti verið ógeðslega gaman.
F: Jæja ókei. Mamma, ég er farinn út!
MF: Hvert ertu að fara elskan?
F: Fara til Kúbu, í byltingu.
MF: Ekki vera lengi, passaðu að þér verði ekki kalt.

Nokkru síðar í skógum Bólivíu:

Báðir (syngjandi):
Óleóleóleóle, óleóle, óleóleóleóle, gera byltingu, gera byltingu!
T: Nú skulum við fara til Kúbu að gera byltingu.
F: Ókei.

Nokkru síðar á Kúbu:

T: Þá erum við búnir að gera byltingu og þú ert orðinn forseti Kúbu, Fídel. Hvernig lýst þér á það?
F: Þokkalega!
T: Fáðu þér vindil.
F: Nei reykingar eru óhollar maður.
T: Nei kommon maður, einn vindill getur ekki sakað.
F: Jæja ókei.

Öðruvísi fór en áætlað var, Tjé Gúvara reykti svo mikið að leyniþjónusta Bandaríkjanna neyddist til þess að drepa hann og Fídel Kastró hélt áfram að reykja eftir sinn fyrsta vindil og varð háður nikótíni. Hann varð þekktur sem einn hræðilegasti harðstjóri mannkynssögunnar og heldur Kúbu enn í heljargreipum kommúnisma og nikótínfíknar. Stöndum saman, verum reyklaus! Hötum kommúnista og illaþefjandi byltingarhyski!

Það sem er feitletrað hér að ofan er einmitt gott dæmi um það hvað usa-menn geta smitað út frá sér alls konar lygum og dóti. Ég man ekki alveg hvað Fídel átti að hafa gert... jú hann fór til Suður-Afríku og leysti fólk undan aðskilnaðarstefnunni, man ekki meira. Hann er líka eini maðurinn sem hefur staðið í hárinu á usa-mönnum og komist upp með það. Usa-menn settu líka hafnarbann á Kúbu og eitthvað svona leiðinlegt. En Fídel er þá góður gaur, það segir pabbi að minnsta kosti.

Mig langar til Kúbu



Hann Fídel er ekki bara góður gaur, hann er líka góður gaur í hafnarbolta og tekur sig ógeðslega vel út í þessum búning. Nettur!

mánudagur, desember 22, 2003

Það er...

...slabb úti.



Það er meira að segja til slabb-borg fyrir einstæða!

sunnudagur, desember 21, 2003

Ég fór á...

... Lordarann í gær í Laugarásbíó. Ég og Björk skunduðum glaðar í bragði í átt að bíóhöllinni hálftíma áður en sýningin átti að byrja í von um að fá góð sæti. En nei, var þá ekki biðröð út á götu. Þar biðum við í korter, hríslandi af kulda og höfðum bara kynþokkann til að hlýja okkur. Svo var hleypt inn og múgurinn breyttist í rolluhjörð á leið í réttir á svipstundu þegar það henti saklausu fólki í gólfið til þess eins að vera nálægt hurðinni. Ég og Björk lentum í miðri hrúgunni og eftir ca. 20 mínútna bið var orðið ansi heitt í hamsi. Fólk var að fara yfir um af æsingi og súrefnisskorti og þar sem ég þoli hita illa var mér farið að svima ansi mikið og þegar yfirliðið var að svífa yfir var opnað. Fólk byrjaði að froðufella af blóðþorsta og þeyttist í átt að hurðinni, ýtandi á fólk fyrir framan sig því að það hélt greinilega að það fengi ekki sæti. Þegar ég loksins steyptist inn í salinn var ég næstum búin að drepa mig eða kannski réttara sagt Laugarásbíó var næstum búið að drepa mig. Hvað er málið með að vera með skautasvell á gólfinu og það í brekku? Ekki veit ég það en sem betur fer urðu engin slys á mér og vonandi ekki á öðrum. Myndin byrjaði að byrjaði vel. Ég vil nú ekki segja frá innihaldi myndarinnar en það sem ég tók eftir var að í hvert skipti sem litli skeggjaði dvergurinn Gimli kom fyrir, var eins og að fólk væri búið að ákveða að hann ætlaði að segja eitthvað fyndið og hló meira að segja áður en hann sagði stakt orð. Hann var nú reyndar fyndnasta persónan í myndinni að mínu mati en þegar hann sagði eitthvað sem var ekki einu sinni fyndið, fór fólk samt að hlæja. Í hlénu var mikil húllumhæ. Á vegi mínum urðu nokkrir verslingar sem mér er ekkert svakalega vel við en ég er kurteis og skvetti framan í þá einu hæ-i líkt og kaldri gusu úr koppi að morgni dags. Þegar hléið var búið og ég sest niður fór verslópía sem sat í sömu röð og ég að kaupa sér eitthvað. Þegar hún kom til baka og ég ætlaði að standa upp fyrir henni, rak Björk óvart fótinn í hana og stelpan steyptist á mig með nachos í hendinni. Sem betur fer fékk ég enga sósu yfir mig en ég fékk nachos og það mikið af því. Ég vildi samt ekki borða það af því að fólk í verlsó er eitrað mjög.
Endirinn á myndinni var væminn og eilítið langdreginn en góður endir samt því að allir urðu glaðir til æviloka.

Bingókúlur: 4 af 5

laugardagur, desember 20, 2003

BLOGG DAGSINS!

Ég rakst á skemmtilegt blogg um daginn. Þótt að maðurinn sem það er um sé viðurstyggð mikil, þarf kannski ekki að blogga um hann og stofna félag honum til heiðurs. Reyndar er þetta anti-fan club en samt sem áður félag. Já þið giskuðuð rétt því að ég er að tala um Heiðar Austmann, sjónvarps- og útvarpsmann með meiru. Í síðunni er hann kallaður Hreðjar en hann hefur svoleiðis, en hver veit það nema hann sjálfur? Þótt að þetta sé asnalegt blogg um asnalegan mann er þetta samt sem áður skemmtileg lesning og bara nokkuð fyndin. Hann Hreðjar er í alla staði leiðinlegur og er með ljóta klippingu. Svo eru litlar stelpur hrifnar af honum og þannig menn eru ekki vinsælir hjá mér. En bloggið er hérna og vonandi njótið. Ef mér býðst að vera meðlimur í þessum klúbbi mun ég hiklaust vera með og jafnvel bjóða mig fram í einhverja háttsetta stöðu, Vibbus Hreðjus jafnvel sem er víst það sama og formaður.



Svo er hann líka með lélegan fatasmekk í þokkabót... og vinur hans líka. Þetta er líka kallað Hreðjar-syndrome sem sýkir menn og konur af ómóðensheitum.

föstudagur, desember 19, 2003

DELLA ALDARINNAR

Faðir minn kær er kominn með nýja dellu og er það engin smáræðisdella. Dellan er lyftingar. Ég er ekki alveg að skilja karl föður minn því að hann hefur aldrei og þá meina ég aldrei haft mikinn vilja til að hreyfa sig og iðka íþróttir. Jú vissuelga fer hann með hundinn út að ganga en ég tel það tæpt að kalla hundagöngu til íþrótta. Hann keypti sér sem sagt þessar allsvakalegu lyftingasamstæðu og er búinn að planta þessu apparati í kjallaranum. Það verða sem sagt engin partý þar á meðan tækið er til staðar og verður því 4.B. að redda sér annars staðar.
En maður verður alltaf að sjá jákvæðu hliðarnar á öllum málum og hef ég fundið þá jákvæðu við komu aðskotahlutarins - að stofna Drykkjufélagið Upp-lyftingu þar sem mikið verður drukkið og síðan verður farið í bekkpressukeppni og sigurvegarinn fær upplyftingu, s.s. að allir haldi á honum og kassti í loftið. En svo fór ég að pæla... það er kannski ekkert sniðugt að láta fullt fólk lyfta lóðum. Mér hefur verið lyft að fullu fólki og hvernig haldið þið að það hafi endað? Jú, á jörðinni. Það væri samt alveg hægt að stofna þetta félag og tengingin við lyftingarnar væri að það væri hægt að sitja á tækinu eða hafa það sem borð. Svo er þetta líka afar fallegt tæki og ég gæti skreytt það og gert það huggulegt. Já ég held að ég geri það bara! Þeir sem hafa áhuga að gerast meðlimir í félaginu kommenta og ég skal taka umsóknina til umhugsunar.

Í skóinn:
Afsökunarbeiðni frá Askasleiki fyrir kartöfluna og að hafa verið að njósna um mig á ballinu.

fimmtudagur, desember 18, 2003

KARTAFLA DAGSINS!

Í gær fékk ég kartöflu í skóinn. O ég var svo fúl. En svo fékk ég bréf sem ég opnaði þegar ég kom heim svolítið völt af jólaballi Flensbyrginga og í því stóð:

Kæra Særún
Því miður verð ég að láta kartöflu í þetta sinn. Þú verður í það minnsta að vera komin heim þegar ég er að gefa í skóinn og svo var nú líka svolítið mikið drasl í herberginu þínu að ég hefði nú bara varla fundið skóinn nema af því að ég fann alveg hroðalega táfýlu. Svo veistu að það er alveg bannað að kyssa stráka. Ég var að labba Holtagarðana rétt hjá Ikea og heyrði ég þá ekki þessu flottu tónlist. Rann á hljóðið, var þá ekki hún litla sæta Særún að kyssa strák bak við hús. Mér náttúrulega dauðbrá. Fyrst sýndist mér þetta vera hann blessaður faðir minn hann Lúði en svo sá ég að þetta var einhver annar þó hann væri líkur honum pabba, bara aðeins yngri.
Særún mín, passaðu þig nú að fara fyrr að sofa á kvöldin.

Þinn einlægi vinur, Askasleikir Leppalúðason


Þvílík ósvífni er þetta! Askasleikir má bara... sleikja sinn ask!! Auðvitað sætti ég mig ekkert við svona framkomu þannig að ég skrifaði bréf sem á stóð að hann mætti bara stinga kartöflunni þar sem sólin aldrei skín og gefa mér franskar kartöflur í staðinn. Og þegar ég kom völt heim í annað sinn las ég bréfið sem var þá búið að skila eftir:

Til Særúnar matvöndu
Frá Hurðaskelli Grýlusyni

Ég hélt nú að þú vissir að við sveinkarnir förum ekki til Frakklands til að kaupa kartöflur. Við ræktum þær auðvitað sjálfir. Annars sagði Aski bróðir að þú hefðir verið eitthvað í harkinu í gær og hann hefði orðið að gefa kartöflu. En þú víst lofaðir að vera góð í þetta sinn þannig að ég vippaði smá í táfýluskóinn. En ef það verður líka útstáelsi hjá þér annað kvöld verður vandlega farið í saumana á þessum málum.

Þinn Jóli


Jæja ég er þá búin að sættast við jólasveinana í þetta sinn. Ég ætla að skrifa þeim næsta eitthvað fallegt í kvöld. Samt skrýtið að jólasveinarnir skrifi öll bréfin í tölvu og visti þau í tölvunni minni! Já tæknin nú til dags!

miðvikudagur, desember 17, 2003

JÓLALAG DAGSINS!

Í tilefni að því að ég er að fara á jólaball nr. 2 þetta árið, ætla ég að gefa ykkur sýnidæmi um það hvernig alvöru jólalög eiga að vera. Dæmið í þetta sinn er lagið: I Want a Hippopotamus For Christmas. Það er mér hulin ráðgáta hvernig á að bera fram nafn dýrsins þannig að það er bara best að segja... hippopotato. En þetta lag var samið á því herrans ári 1950, árinu sem mun seint renna úr minni allmargra. Söngkonan sem söng þetta lag heitir/hét Joanie Bartel og hver man nú ekki eftir henni? Ja allavega eru þeir ekki margir. Best að vera ekkert að ílengja þetta og skella textanum á ykkur og njótið:

I WANT A HIPPOPOTAMUS FOR CHRISTMAS

"I want a hippopotamus for Christmas
Only a hippopotamus will do
I don't want a doll, no dinkey tinker toys
I want a hippopotamus to play with and enjoy


I want a hippopotamus for Christmas
I don't think Santa Claus will mind, do you?
He won't have to use a dirty chimney flue
Just bring him through the front door
That's the easy thing to do


I can see me now on Christmas morning
Creeping down the stairs
Oh what joy, what surprise
When I open up my eyes
To see a hippo hero standing there


I want a hippopotamus for Christmas
Only a hippopotamus will do
No crocodiles, no rhinosaurus
I only likes hippopotamuses
And hippopotamuses like me, too


Mom says a hippo would eat me up, but then
Teacher says a hippo is a vegetarian
There's lots of room for him in our two-car garage
I'd feed him there and wash him there and give him his massage.


Og þar hafið þið það. Svona jólalagatextar vaxa nú ekki á öllum trjám, það er víst.

þriðjudagur, desember 16, 2003

KJÉDLINGIN BARA BÚIN Í PRÓFUM!

Sældarlíf er framundan. Engin danska, engin líffræði og bara ekki neitt. Jú ég ætla reyndar að vera rosadugleg að æfa mig og síðast en ekki síst... að sofa.
Systir mín var að koma úr jólainnkaupunum. Hún er svo heppin að það eru 2 "draslbúðir" hérna í Firðinum og notar hún þær óspart í allskyns gjafakaupum. Hún keypti þennan forláta g-streng handa pabba en þetta er enginn venjulegur g-strengur... heldur yo-lasveina g-strengur. Að framan er þetta risaandlit af sveinka sjálfum og planið er víst að stinga bibbalingnum í hólf sem er á skegginu. Mig langaði nú ekkert að skoða þetta nánar en ég verð að játa að þetta er soldið sniðug jólagjöf!
Mamma fær nú ekki gjöf af verri endanum en það er prumpublaðra. Já það er saga að segja frá því en ég veit ekki hvort ég ætti að segja hana. Jú ég geri það bara. Móðir mín s.s. á það til að prumpa í svefni, sérstaklega þegar hún sefur upp í sófa. Hún hrýtur líka: "*hrjót* pfff... *hrjót* pfff..." Það er soldið fyndið, alveg eins og það að gefa móður sinni prumpublöðru í jólagjöf.

Ég held að ég fari nú hefðbundnu leiðina í innkaupunum og kaupi bara ilmvatn handa mömmu og veiðivesti handa pabba. Það er víst nýjasta dellan hans líkt og golfið hér forðum. Hann keypti sér glænýtt golfsett og allar græjur og þegar hann var loksins byrjaður fyrir alvöru ákvað hann að hætta. Það var víst útaf því að hann tók þátt í vinnugolfmóti og fékk skammarverðlaun fyrir lélega frammistöðu. Stuttu eftir það fékk hann þessa glæsilegu golfskó í afmælisgjöf og þeir hafa ekki verið teknir uppúr kassanum enn en prýða nú nýjan áfengisfelustað minn. 1 bjór í sitthvorum skónum. Það klikkar ekki!



Þessi er nú ekki í g-streng... en nálægt því!

mánudagur, desember 15, 2003

HVER ER MAÐURINN?



Vísbending: Hann er alveg ógeðslega frægur!

Allt svindl bannað!!

HELVÍTIÐ HANN DABBI ODDS!

Eftir frekar erfitt enskupróf í morgun gekk ég súr á svip framhjá stjórnarráðinu ásamt Björk Níels og Guggu á leið í strætó. Ekki skánaði ástandið því að hver haldiði að hafi staðið beint fyrir framan gluggann á stjórnarráðinu? Jú hann Dabbi litli krulluhaus!! Hjartað datt ofan í klof við þessa sjón því að þetta var svo ófögur sjón. Dabbi að mönsa feitan Nonnabita með sósu útá kinn. Ég var sú eina sem sá þennan hrylling og þegar við höfðum labbað framhjá sagði ég: "Hey, þarna var Dabbi Odds!" Björk varð furðulostin og í örvæntingu sinni hrópaði hún: "Ha, jólasveinninn??" Þá svaraði ég galvösk að vanda: "Það er nú enginn munur á þeim!" Og að þessum orðum slepptum rann ég beint á rassinn fyrir framan stjórnarráðið! Það var svolítið skrýtin tilfinning, fannst eins og að þetta gerðist í slow-motion en svo var víst ekki. Og það besta var að ég var í mjög ljósum buxum og afturendinn var alveg brún. Það er bara flott að eiga hálfar brúnar buxur og hálfar ljósar.
En ég kenni Dabba alfarið um þetta óhapp mitt og má hann missa allar sínar krullur mín vegna og hoppa í hyldýpi helvítis í leiðinni.



DABBI KÚKALABBI!

Í súkkulaðadagatalinu: Ég hef aldrei átt neitt dagatal! Trúgjarna fólk!
Í skóinn: Táfýla

sunnudagur, desember 14, 2003

BIRGITTA DAGSINS!

Vitiði hvað krakkar? Ég talaði við Birgittu Haukdal áðan! Hún er svo yndisleg mannseskja, algjört krúttípútt! Hún var í Kringlunni áðan ásamt öllum hinum rúsínubollunum í Írafár, að árita nýja diskinn sinn. Ég hoppaði hæð mína af gleði og fór strax í Skífuna að kaupa diskinn. Þetta var svo sannarlega minn lukkudagur af því að diskurinn var á tilboði á aðeins 1899,- kr! Var ég ekki heppin? JÚ!!
Ég þurfti reyndar að bíða í röð í hálftíma en hvað gerir maður ekki til að berja átrúnaðargoðið sitt augum? Og svo var komið að mér... fyrst var það Hanni banni sem skrifaði, o hann er algjört kandífloss! Svo skrifuðu hinir en þeir eru ekki eins miklir sykurpúðar. Jú kannski litli sæti krulluhausinn, hann er algjör bingókúla!! Ó Birgitta, ó Birgitta! Hve mikið ég dái þig! Þegar hún átti að fara að skrifa, gat ég ekki annað en starið, ég var í svo mikilli sæluvímu! Þegar ég gat loksins komið útúr mér orði, bað ég hana um að skrifa nafnið mitt inní diskinn. Hún skrifaði reyndar: Til Særúni Ósk frá Birgittu. Ég meina, ef einhver annar hefði beygt nafnið mitt svona vitlaust hefði ég bara kýlt hann en fyrst þetta var nú bara hún Birgitta, þá var þetta nú allt í lagi. Við verðum nú að gefa henni smá séns, hún er nú einu sinni frá Húsavík.
Ég er búin að hlusta á diskinn í allan dag og vá hvað hann er góður!! Sérstaklega lagið eftir Birgittu sem hún samdi eftir að afi hennar dó. Ég fór bara að gráta og allt og hér sit ég með maskara niður á kinn og bara tími ekki að þurrka þessi tár því að þau eru svo einlæg.
En jæja, ég ætla núna að hlusta á diksinn í 5. skiptið í dag.

GLOSS KOSS!!

Í súkkulaðidagatalinu: Afsteypa af rassinum á Hanna banna.
Í skóinn: Birgittu-húfa, Birgittu-gleraugu og Birgittu-pillur.

laugardagur, desember 13, 2003

TÓNLEIKAR DAGSINS!

Ég var að koma af tónleikum. Þetta voru garg- og sargtónleikar. Það var nefnilega lítill strákur fyrir aftan mig, sonur fyrrverandi kennara míns, sem orgaði allan tímann af því að snakkið hans var búið. Hver kemur með snakk á tónleika? Ekki ég!! Kennarabörn... kolvitlaus alveg.
En systlingurinn minn stóð sig með mikilli prýði í sarginu. Hún er meira að segja farin að spila í takt! Svo slitnaði strengur hjá henni 10 mínútum áður en hún átti að byrja. Vond skita! Hún fékk því lánaða fiðlu hjá vinkonu sinni. En á tónleikunum voru spilaðir margir góðir slagarar á borð við Partýlagið og G-streng. Og viti menn! Stelpufjandinn sem fór að hlæja að nafni síðara lagsins á síðustu tónleikum, fór aftur að hlæja á þessum tónleikum. Hún sökk í sætið sitt... aftur og fékk vond augnaráð... aftur. Stelpan vill ekki láta nafns síns getið.

Í súkkulaðidagatalinu: Sneriltromma
Í skóinn: Súkkulaðijólasveinn sem endaði líf sitt í ruslinu. Einnig fékk ég bangsa sem á að spila Heims um ból þegar ýtt er á maga hans. En hann er bilaður og þegar ýtt er á magann heyrist bara: Biiiiiiiiiiiiiiiiiiiii. Hann er greinilega í hjartastoppi.

Og já. Það á víst að vera einhvers konar gestabók á þessu vefsetri en að finna hana er eins og að leita að nál í heystakk. Skil samt ekki af hverju þetta heitir gestabók því að enginn er penninn. Þetta er gott dæmi um hluthvarf. Eða var það huglægni? Nú jæja, mér er sama. Gestabókin er bleik af einhverjum ástæðum. Veit ekki af hverju.

föstudagur, desember 12, 2003

Ég hef sagt það áður og segi það enn... mamma mín er ofurkona. Allt sem hún gerir, gerir hún af svo mikilli innlifun og gerir það með hjartanu. Nei ég segi svona. Tilefni þess að ég lofsama hana hér í dag er gullmoli sem spratt af vörum hennar um daginn, moli sem við kvenþjóðin ættum digga. Hún og pabbi voru eitthvað að kítast:

Mamma: "Af hverju tekurðu aldrei upp ryk ef þú sérð það á gólfinu?"
Pabbi: "Af hverju getur þú ekki verið eins vaxin og konurnar í Victoria's Secret sýningunni?"
Mamma: "Ef ég væri það, þá væri ég ekki gift þér!"

FEIS!!

Í súkkulaðidagatalinu: Veit það ekki, dagatalið er fyirr neðan ruslatunnuna og molinn datt ofan í
Í skóinn: Thule í gleri fyrir jólaballið. Jólasveinninn vill greinilega að ég verði óþekk á ballinu svo að hann geti flengt mig vel og rækilega.

fimmtudagur, desember 11, 2003

ÞRAUT DAGSINS!

HVaða kona er þetta og hvað hefur hún gert af sér um árin?



Í súkkulaðidagatalinu: Lifur

miðvikudagur, desember 10, 2003

JÓLALAGAPÆLINGAR!

Poppjólalög eru afar sérkennileg fyrirbrigði sem hefur fest klær sínar um jólin. Hver man ekki eftir jólalaginu með Landi og sonum og Júróvisjón laginu sem kallinn í Skítamóral gerði að jólalagi og það kollreið landanum fram og aftur? Gott dæmi um poppjólalagadrottningar eru stöllurnar Helga Möller og Sigga Beinteins. Þessar konur hafa alltaf farið í taugarnar á mér, ekki síst þegar ég heyri jólalög með þeim. Ég tók svo eftir því að framburður þeirra við flutning jólalaganna er hörmulegur. Eins í lagi frk. Möller, Fyrsta aðfangadagskvöld, heyri ég bara: "Fyrsta affaffaffakvöld, fyrsta affaffaffakvöld. Á jólahátíðinni..."
Annað dæmi er lagið Senn koma jólin með Siggu Beinu. Ég veit að textinn á ekki að vera svona en ég heyri alltaf: "Og senn koma jólin, kviknar í húsinu!"
Eigi veit ég hvað segja skal, kannski þarf að skafa út úr eyrunum á mér eða að það þarf að senda þessar söngkonur til talmeinafræðings. En eitt veit ég... ég er ekki sú eina sem heyri þetta.



Þetta vill Sigga að komi fyrir þig um jólin. Er hún ekki vond kona?

Í súkkulaðidagatalinu: Man það ekki

þriðjudagur, desember 09, 2003

BLOGG DAGSINS!

Meira að segja sveinki sjálfur bara dottinn í blogggryfjuna. Sko kallinn! Hann er svo sannarlega ekki dauður úr öllum æðum, ónei!



Hvað ætli sveinki sé að skoða?!?

mánudagur, desember 08, 2003

LALLI DAGSINS!

Í sakleysi mínu var ég að læra í gær fyrir latínupróf. Rosa rosa rosam rosae rosae rosa. Allt í einu heyrði ég þessi þvílíku kokhljóð fyrir utan og var mér því litið út um gluggann. Og var þá kallinn bara ekki mættur... sjálfur Lalli Johns! Hann var að gera sér glaðan dag og ákvað að æla á nágrannahúsið. Sem var bara gott hjá honum, betra en að gera það á miðri götu. En það sem vakti furðu mína var að hann var með einhverjum polla sem er kannski á svipuðum aldri og ég. Á Lalli þá kannski son eða er hann búinn að stofna einhvers konar klíku? Lalli's devils!!
En hvað um það... Lalli sá greinilega að það var einhver að horfa á hann í gegnum rimlagardínurnar og ákvað að líta aðeins upp úr ælunni og horfa inn um gluggann. Þá varð ég sko hrædd þannig að ég hætti bara að horfa og leyfði honum að klára að gubba. En þegar hann var búinn að ljúka sig af, labbaði hann að glugganum og kíkti inn. Og hjartað bara: Búmmbúmm búmm búmm búmm. Núna skil ég hvernig mömmu leið þegar hún ætlaði að ná í mig af busaballinu í 3. bekk og hann var fyrir framan Kaffi Reykjavík og settist bara á húddið á bílnum hennar. Það hefur verið vond skita!!
En Lalli lallaði bara í burtu fyrst hann sá engan í glugganum og eflaust hefur hann líka ælt á næsta hús.



Í súkkulaðidagatalinu: Pakki

sunnudagur, desember 07, 2003

SVEKKELSI DAGSINS!

Ég fór áðan í mat til ömmu og afa í afa-læri. Núna er afi bara með eitt læri. Nei við kölluð alltaf lærin sem eru af kindunum hans, afa-læri. Systir mín missti úr sér augun þegar hún sá broddgelti eðla sig og tilkynnti öllum það að broddgeltir ríða eins og hundar. Eftir afa-lærið, hoppaði afi á einum fæti yfir að sjónvarpinu og horfði á fréttirnar. Síðan sagði hann við mig að þessi væri nú lík mér... ég kipptist öll til og skaust að sjónvarpinu í von um að hann væri að líkja mér við einhverja ofurskutlu. En nei... hann líkti mér við þessa:



Þetta er sem sagt eiginkona Putins sem er forseti Rússlands. Sjáið þið svip? Nei ég held ekki!! Afi á sko ekki sjö dagana sæla á næstunni!!

laugardagur, desember 06, 2003

SLÚÐUR DAGSINS!

Föstudagar eru slúðurdagar á mínu heimili. Reyndar eru allir dagar slúðurdagar en á föstudögum er mamma alltaf búin að fiska eitthvað sérstaklega gott í soðið. Slúðrið þennan föstudaginn var ekkert venjulegt slúður, heldur slúður sem mun koma í Séð og heyrt en er ekki komið þangað enn. Slúður sem mun kannski fylla huga þinn af viðbjóði eða að þér sé alveg skítsama.

Slúðrið er um þjóðþekktan mann, hafnfirskan mann. Hann hefur sungið sig í gegnum hug og hjarta þjóðarinnar með sínum gervitönnum. Þetta er enginn annar en Bó Halldórs!! Fyrir þá sem ekki vita þá hefur hann verið giftur í mörg mörg ár og með konu sinni á hann 2 börn sem eru einnig þjóðþekktir einstaklingar. Hann er talinn vera mjög mikill sjarmör og sést það best í þessu slúðri. Hann nefnilega HÉLT FRAMHJÁ eiginkonu sinni! Og það ekki með hverri sem er, ónei, heldur gerði hann það með 25 ára gamalli konu sem gæti þess vegna verið dóttir hans. Og hérna kemur aðalsjokkið: Þessi kona fæddi honum barn!! Bó er s.s. orðinn pabbi á ný og er að skilja við konu sína. Hann var nýbúinn að festa kaup á íbúð í Hafnarfirði (ekki svo langt frá mínu húsi. Ég er skítug fyrir það) en sú íbúð er nú komin á sölu. Það er búið að sýna hana í Innlit útlit, "frábært rými, brilliant" og allt það og svo er Bó gestur í þættinum Sjálfstætt fólk annað kvöld. Jæja nú hefur hann svo sannarlega skotið sig í fótinn og núna getur Björk Níelsdóttir ekki verið stolt af því að Bó átti heima i húsinu hennar. Þessi maður hefur gjörsamlega engar tilfinningar!! Stöndum saman, hættum að hlusta á Bó og förum með skilti fyrir framan heimili hans sem á stendur: "BÓ ÞÓ!"

SVAR VIÐ GETRAUN:

Konan á mynd nr. 1 er einhver leikkona. En hún lék persónu í þættinum Just shoot me (byssan) og hét persónan Nina van HORN. Á mynd nr. 3 eru víkingar og bæði hafa þeir HORN á hjálmum sínum og drukku úr HORNUM. Á næstu mynd er hann Mozart að spóka sig en hann samdi afar marga HORN konserta. Hún Heidi litla var síðan alltaf að passa geitur og hvað hafa þær á hausnum? Jú mikið rétt.... HORN!
Svarið er s.s. feitletrað. Já krakkar mínir. Þetta var svona auðvelt.

Í súkkulaðidagatalinu: Búklaus jólasveinn

föstudagur, desember 05, 2003

HVAÐ ER SAMEIGINLEGT MEÐ ÞESSUM MYNDUM?











Í súkkulaðidagatalinu: Íkorni

fimmtudagur, desember 04, 2003

HVER ER GLAÐI MAÐURINN SEM BENDIR Á ÞIG?



Ef þið hafið ekki Guðmund um hver þetta er, þá skal ég kannski vera góð og gefa vísbendingar.

Í súkkulaðidagatalinu: Fjögurra laufa smári

miðvikudagur, desember 03, 2003

SKANDINAVÍSKASTA SPURNING SEM TIL ER...

Fær græni ísinn að svíkja í Finnmörk í Noregi?


Í súkkulaðidagatalinu: Jólapakki

þriðjudagur, desember 02, 2003

UPPGÖTVANIR DAGSINS!

1. Baðherbergisgardínur á klósetti nr. 2 eru gegnsæjar. Ég á víst fan-club og allt! Endilega skráið ykkur í hann.... alltaf pláss fyrir fleiri. Fundir fyrir framan gluggann kl. 20 alla daga.

2. Who let the dogs out? Það er greinilegt að litlir Sókratesar og litlar Sókrateresur eiga eftir að hlaupa um hverfið á næstunni því að nágrannatíkin er á lóðaríi. Getnaðurinn hefur þó ekki átt sér stað.

3. Maður fær heiftarlega vindverki af of miklu piparkökuáti. Nefni engin nöfn.

4. Fólk um hvippinn og hvappinn er búið að linka við mig þannig að ég mun endurgreiða greiðann. En kunna endur að greiða sér með greiðu?



Það er greinilegt að þessi fartari hefur verið að stelast í piparkökurnar á bænum!

Í súkkulaðidagatalinu: Stjarna

mánudagur, desember 01, 2003

FYRIRLESTURINN!

Tölvufræði er skemmtilegt fag enda stóðum við stöllurnar í 4.B. okkur svo vel áðan við flutning fyrirlestrarins um ferð okkar til Kýpur, að álitið á þessu fagi reis allavega um helming.
Í ferðinni gætti ýmissa grasa, m.a. hittum við þátttakendur í Herra Heimi á ströndinni og þeir buðu okkur að vera með í myndatöku. Síðan var keppnin daginn eftir og okkar menn unnu allt en Herra Mexíkó sem var hönkið hennar Bjarkar, fékk titilinn Herra Leggir. Gaurinn minn hann Herra USA varð í öðru sæti en það var allt í lagi. Eftir mikið partý buðu þeir okkur í skemmtisiglingu um Miðjarðarhafið á skipinu The Dandy Sailorman og eyddum þar jólunum. Móa dró upp hangikjötslæri úr vasanum og gátum við því haldið gleðileg jól. Eftir viku af endalausu djúsþambi, kanínufóðri og sólböðum, var komið gamlárskvöld. Horfðum á kýpverskt áramótaskaup og fórum svo í partý með fallegu fólki. Djúsið var teigað og daginn eftir fórum við í skoðunarferð um Limassol (Haha! Typpasól!) og fórum á Shakespeare leikrit í rústuðu leikhúsi. Daginn eftir, vörutalningadaginn mikla 2. janúar, var farið í verslunarferð og keypt korselett í massavís. Þegar á hótelið var komið skelltum við okkur á líkamsræktarstöðina Hot Steam Sex-machine og tókum þátt í vaxtarræktarkeppninni Glorious Women in bathing-suits or nothing. Við unnum auðvitað og fórum svo í hand- og fótsnyrtingu. Daginn eftir reyndu djöflabörn að kaffæra okkur í sundi og eftir það fórum við í göngutúr. Þar fundum við lítinn hvolp sem við skírðum Hössler og komum honum til rétts eiganda. Það kom á daginn að eigandinn var engin önnur en Eurovisionstjarnan Gimme sem söng lagið One árið 2002 og lenti í 6. sæti. Það var nú bara af því að Ísland var ekki með. Hún bauð okkur í mat og söng fyrir okkur lagið sitt. Annað kom á daginn af því að Gimme var svo karlmaður... en sú skömm. Síðan var tekið til í herberginu og fundust margir smokkar undir rúmum sem enginn vildi vita af. Og svo fórum við heim.

En hvað þetta var skemmtleg ferð. Þrátt fyrir að lesningin hafi gengið ákaflega vel, sást ekki glitta í bros á kennaranum enda er hún með sannkallað stálbros. Rúsínan á pylsuendanum var svo endirinn á Power-point sýningunni sem fjallaði um alla þá djúsdrykkju sem átti sér stað í ferðinni:



Juicy juice safinn styrkti þessa ferð.
Juicy juice - djúsalega djúsaður!