föstudagur, júní 30, 2006

Smámál

Nú er næturvinnutörnin komin á fullt skrið(sund). Á minni fyrstu hef ég aldrei orðið jafn hrædd á minni 19 1/2 ára löngu ævi. Allt var dimmt í húsinu því ég var inni á minnstu skrifstofu í heimi í tölvunni. Ég heyrði eitthvað brölt frammi á gangi og leit fram, þá var enginn þar. Hélt áfram að tölvast og þá kom bröltið aftur en í þetta sinn færðist það (hljóðið sem minnti óvenjumikið á bjöllur) nær og nær og nær. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að líta fram en ákvað að vera djörf. Þá hoppaði eitthvað ferlíki á mig sem reyndist vera sætasta kisa í heimi! Hann hét Johnson. Er það ekki annað orð yfir typpi? Jæja. Ég hleypti krúttinu út sem var næstum því búið að láta mig missa saur og bað að heilsa Johnson-fjölskyldunni. Fór svo að horfa á Fuglastríðið í Lumbruskógi og Viðtal við vampírurnar sem nota bene er ógeðsleg! Varð að hætta í miðri mynd því tilhugsunin um allt þetta blóð kallaði bara á yfirlið.

Heimsreisufundur var haldinn með Pompei og Prag í gær. Gróft plan er komið og er stefnt á að byrja í janúar á Galapagos-eyjum og skreppa svo yfir í Dóminíska og Kúbu til að vörka tannið smá. Í febrúar hittir krúið svo Gyðu á Karnivalinu í Ríó með tilheyrandi búningum og sukki. Svo verður bara djammað um Suður-Ameríku, Chile, Perú, Venezuela og Argentína. Er þottþétt að gleyma einhverju. Svo er planið að hoppa yfir til Nýja-Sjálands og þaðan yfir til Ástralíu og er það minn draumur að komast á Neighbours-settið og hitta Stuart Parker. Og Todie. Og auðvitað Harold, má ekki gleyma aðalkallinum. Einnig er í myndinni að gera stutt stopp í Asíu. Það er því ekki hægt að kalla þetta heimsreisu en ég geri það bara samt! Ég er ekkert smá spennt fyrir þessari ferð og þá er bara málið að byrja að safna því þetta á eftir að kosta sinn skildinginn. Er mest stressuð fyrir öllum þessum sprautum og öllum skordýrunum þarna úti. Og hvað á maður að borða ef það má helst ekki borða ávexti, grænmeti eða kjöt? Seinni tíma vandamál.


Þetta er ekkert grín sko


Hvaða sykurmamma er að fara þangað?

miðvikudagur, júní 28, 2006

Ég var einmitt að pæla...

... hvað hefði orðið um Bob Saget, gaurinn úr Fyndin fjölskyldumyndbönd. Þangað til ég fann þetta. Hann hefur það bara greinilega ágætt. Alltaf jafn kúl áþí og veður í píum í cardigan-peysu.

... hvernig það væri ef Snoop Dogg vinur minn og Grease (bíómyndin sko) myndu leiða saman hesta sína. Þangað til ég fann þetta. Travolta hefur aldrei verið svona kúl. Jú kannski. Ólavía Nítján-Tonn er allavega í essinu sínu. En Snoop væri nú helvíti flottur í Pink Ladies jakka.

... hvað ég myndi segja ef ég væri spurð hvað væri uppáhaldslagið mitt þessa dagana. Þangað til ég fann þetta. Þá fékk ég svarið bara í hendurnar. Alveg hreint merkilegt. Ég er líka með æði fyrir beljum af öllum sortum. Mjólk er líka holl.

... hvað hefði orðið um fyrrverandi bekkjarbróður minn úr Lækjarskóla sem sprengdi einu sinni póstkassa með þeim afleiðingum að hann sprakk í glænýjan jeppa konunnar sem var með sjoppuna í skólanum. Svo var hann held ég rekinn, byrjaði í MR í svona mánuð, hætti og hvarf bara. Þangað til ég fann þetta og þetta. Hann er þá allavega að gera eitthvað við lífið sitt og er á Hróarskeldu, ókeypis með tattú með merki útvarpsstöðvar. Ágætt að vita að hann spjarar sig.

Þú veist það ef þú skoðar veraldarvefinn!

laugardagur, júní 24, 2006

Hvað er þetta með karlmenn og...

...rassa? Þeir halda að þetta sé einhver stressbolti sem má hjakkast á eins og ekkert væri sjálfsagðara. Sérstaklega ef stelpan er með eitthvað utan á rassinum og er því rosalega... straumlínulaga. Svo ef þeir eru spurðir hverju þeir taka eftir fyrst í fari stelpna þá er svarið oftast: "rassinn". Ekki að ég sé eitthvað að monta mig en ég hef alveg stundum fengið hól fyrir flottan rass en ég er ekkert að fatta það. Mér finnst rassinn á mér ógeðslegur! Þarf að sitja á honum allan daginn og hann er bara krumpaður og ljótur. Buxur fela það bara.
Ekki finnst mér karlmannsrassar æsandi. Maður sér líka aldrei hvernig þessir afturendar eru fyrr en þeir eru komnir úr buxunum. Alltaf í alltof stórum og víðum buxum þannig að lögunin sést aldrei. Strákarassar eru ekki sætir og dúllulegir eins og margir stelpurassar. Annaðhvort eru þeir svo horaðir eða svo massaðir að það er ekkert fútt í þeim. Og ef það er eitthvað utan á karlmannsrössum þá er það af því að þeir eru eitthvað búttaðir... straumlínulaga afsakið.

...brjóst? Slefandi yfir þessum fitu- og vefjaklumpum eins og þeir séu á launum við það frá Hinu húsinu. Káfandi á þessu og klípandi daginn út og daginn inn EN bara ef brjóstin eru lúkufylli eða meira. Þeir vilja ekki sjá þau ef þau eru lítil, A-B skál. Segja/hugsa bara: "Burtu með þessi kvikindi!" og þora ekki að snerta í ótta við að þá fari úr þeim það litla loft sem var þar fyrir. Tékka á brjóstarhöldurum í skúffum eða bara á konunni til að gá skálastærðina svo þeir geri ekki mistök með því að vera að káfa á brjóstum sem eru svo alltof lítil. Svo finnst þeim alveg mergjað ef kona fer í brjóstastækkun og geta dýft sér í þau eins og á stökkbrettinu í Sundhöll Reykjavíkur. Gorta sig við félaga sína ef þeir fá að snerta sílíkonbrjóst. "Og þau voru svo ekta marr!"
Svo eru það geirvörturnar. Ef kona er með litlar geirvörtur þá er bara sett í skransgírinn og bakkað í burtu. Minnir þær á geirvörtur á litlu barni. Og ef geirvörturnar eru í stærð sem þeim líkar, halda þeir að þetta sé einhver dyrabjalla eða lykill. Geirvörturnar þeirra eru aftur á móti allar ógeðslegar. Loðnar og með svona kusk. Ekki ósvipað naflakuski. Það þarf að bera sótthreinsandi á þessu kvikindi svo að maður fái ekki lungnabólgu eða eitthvað.

Tits 'n' ass, my ass!

Athugið: Greinin lýsir ekki skoðun greinahöfundar.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Vúhú!

Magni í Á Móti Sól er kominn áfram í Rock Star Supernova! O hann er nýja ídolið mitt. Þessi hökutoppur. Þessi rakaði skalli. Þessi látúnsbarki. Ætla bara að syngja lögin hans í vinnunni í dag.

"Ég er þrítugur í dag, ég nenni ekki neinuuuuuu....."
"Meira meira dóp/t, meira dóp/t meira fjörefni!"
"Ég er miklu meira en spenntur fyrir þér, mig langar bara að vera einn með þér!"

Eins og sést þá er ég mikill aðdáandi þessarar hljómsveitar. Mér dettur bara þessi lög í hug og kann bara viðlögin. En Magni er svo mikið krútt!


Obbobobb! Gúgglaði 'Magni' og þá kom þessi forkunnarfagra mynd. Magni er óþekkur strákur sem ætti að rassskella!

sunnudagur, júní 18, 2006

Hahaha!

Það er kona á Íslandi sem heitir Marta Macuga! Sorrí krakkar en mér finnst það bara ógeðslega fyndið.

Helgin bara að verða búin. Hún var nú bara alveg ágæt. Ræðukeppnin... tölum ekkert um hana. Sýni bara myndir.


Lið á barni taugaáfalls


Guði sé dýrð í upphæðum


Andsetinn Haukur?

Lifi P-málið!

þriðjudagur, júní 13, 2006

Sumir

geta bara verið svo miklir fávitar stundum. Eða bara alltaf. Meira að segja þegar það sefur. Mumlar eitthvað sem gerir það af hálfvitum. Hrýtur eins og fáviti. En ég get alveg líka verið fáviti. Allir eiga sína slæmu fávitadaga. Ég er búin að vera fáviti núna í nokkra daga. Var að fatta í dag að ég týndi greiðslukortinu mínu síðasta fimmtudag. Fékk mitt algenga panikkast og leitaði til að byrja með út um allt hús. Fattaði svo að ég hafði pottþétt týnt því á tónleikum um daginn. Fór þangað og þá var kortið bara þar, allt útatað í einhverju gumsi. Set það bara í þvottavélina. Foreldrar voru ekki sáttir, skilja ekkert í því hvernig ég get verið svona kærulaus, það er svona mikill fáviti. En vonandi verð ég ekki svona mikill fáviti næsta föstudag því þá er úrslitakeppnin í Sólbjarti. 6.A vs. 6.Y. Allir fávitar að mæta á stað sem er mér ókunnur. Veit einhver? Umræðuefnið mun vera "Eru þessar Íslendingasögur bara eitthvað sjitt?" 6.A á móti enda meikar það bara sens. Ég er búin að búa til allsvakalega liðstjóraræðu í hausnum og á ég núna bara eftir að rita hana á blað. Jæja ég ætla að enda þessa fávitafærslu mína. Er víst að fara að læra kúrekalag og kannski dansinn við. Ógeðslega get ég verið mikill fáviti!

föstudagur, júní 09, 2006

Úff!

Júlí verður næturvaktamánuðurinn mikli. Frá 3.-22. júlí verð ég á 11 næturvöktum en einni dagvakt. En hvað þýðir það? Jú peningar peningar og aftur peningar.

Síðastliðnir dagar hafa einkennst af tónleikum, námskeiðum, vinnu og trúnó. Fór á námskeið tengt vinnunni strax eftir næturvakt og var alltaf að dotta. Sat fremst þannig að allir sáu alltaf þegar ég hlammaðist niður á borðið. Ég man líka takmarkað hvað var sagt eða gert á námskeiðinu. Man bara að ég setti Björk í læsta hliðarlegu og tók hana í Heimlich. Svo verð ég að vinna eins og coco loco maniac næstu daga og mánuði en það verður bara fínt held ég. Á miðvikudaginn fórum við Erla svo á tónleika á Gamla bókó og til að byrja með löbbuðum við inn á eitthvað öskur og við komu okkar hækkaði meðalaldur tónleikagesta um svona 4 ár. Við flúðum á kaffihús en komum aftur og þá var þetta nú að skána. Í gær fór ég svo á Prince Tribute tónleika með Jóa og ji minn eini, maðurinn var í tiger-skyrtu með fjaðrir um hálsinn og falskari en allt sem falskt er. Svo var hann með konu að dansa við hliðina á sér og hún skipti um föt á svona 5 mínútna fresti. Ég hef fundið Wonderwoman!

Það halda rosalega margir að ég sé mjög bitur kona. Svo er ekki. Bara til að leiðrétta allan misskilning sjáið þið. Ég kveð á þessum fallega föstudegi sem mun einkennast af vinnu það sem eftir er.


Ekki furða að skammstöfunin mín er PÓS aftur á bak

mánudagur, júní 05, 2006

"Ég er ekki tilbúinn í samband"

Þessi orð fæ ég að heyra/lesa að minnsta kosti einu sinni á ári og get ég nú krotað yfir árið 2006. Já mér var dömpað. Á MSN. Einu sinni var það nú í sms-i. Svo var ég hálf-rekin úr vinnu í gegnum síma. Hvað er næst? Hérna koma nokkrar tillögur af uppsagnaraðferðum svo tilvonandi kærastar mínir og fleiri geta notfært sér því gamla góða face-to-face-aðferðin er greinilega ekki vinsæl þessa dagana:

- tölvupóstur
- keðjubréf
- komment á myspace
- málsháttur í páskaeggi
- í Velvakanda í Mogganum
- senda besta vin sinn
- senda mömmu
- með bréfdúfu
- skrifa uppsögnina á prumpublöðru og skilja hana eftir í rúminu mínu.
- leigja flugvél og skrifa “Særún, þér er hér með sagt upp. Kv. Jón” á svona borða og fljúga yfir hverfið mitt í svona klukkutíma svo örugglega allir sjái.
- panta pizzu handa mér og stafa uppsögnina með hakkkurli eða lauk. Eða mygluosti til að vera virkilega andstyggilegur.
- senda trúð heim til mín sem syngur uppsögnina og spyr svo í lokinn hvort ég vilji ekki taka “einn stuttan”
- fá afa á Stöð 2 til að syngja morgunsönginn fyrir mig með endalínunni: “Þér er dömpað, þér er dömpað, viltu hoppa þitt rassgat í!”

Ég er búin að missa mikið þessa vikuna. Besta vin minn, eitt stykki kærasta og vinkonur til Köben. Svo missti ég pizzusneið ofan á mig í gær með sósusulli og tilheyrandi. Svona er þetta bara og ég má alveg vera væmin. Teiknaði svo mynd af fyrrverandi í paint í gær. Setti á hann grænt hár, fjólublá augnhár, varalit og eyrnalokka. Er ekki frá því að ég mér leið betur eftir það. Mun betra en að grenja úr sér augun, eyða heilum klósettrúllunum í horsnýtingar eða kasta brothættum hlutum. Mæli með þessu. Mæli einnig með því að láta það vera að byrja með besta vini þínum jafnvel þótt þú sért að springa af hrifningu. Það fjarar út á endanum. Segjum það bara. Og núna er bara um að gera að eyða öllum sms-um frá honum, eyða öllum lögum sem hann sendi mér af playlistanum, hætta að borða Kellogs Special K því hann kynnti mig fyrir því morgunkorni og hætta að horfa á Boston Legal. Allavega til að byrja með. En ekki hafa áhuggjur af mér gott fólk. Ég spjara mig enda er ég sérfræðingur þegar kemur að þessum málum. Ég er mun sjóaðari en Kalli Bjarni ;)

fimmtudagur, júní 01, 2006

Jæja

Þá er letilífið á enda. Byrja í nýju vinnunni minni bara núna eftir ca. 2 tíma og er hún staðsett í Garðabæ. Sambýli er það heillin. Get ekki neitað því að ég er soldið mikið stressuð en þetta hlýtur að koma fljótt hjá mér. Annars hleyp ég bara með skottið milli lappanna og aftur í sláttinn. Neeeeeeeei.

Það sem fyndið er að segja

Ef einhver segir við þig: "Eigum við að kíkja á fætur?" þá kíkir þú einfaldlega undir sængina hjá viðkomandi og á fætur hans. Svo er um að gera að skellihlæja. Hahaha.

Ef grínið fór ekki vel í hinn aðilann og hann segir fúll: "Eigum við að FARA á fætur?" þá er um að gera að standa upp og fara ofan á fætur viðkomandi. Svo er um að gera að skellihlæja. Hahaha.

Ef einhver hneykslast á þér og segir í biturð sinni: "Misstu þig!" þá er um að gera að missa sig og láta sig detta á jörðina. Svo er um að gera að skellihlæja. Hahaha.