miðvikudagur, apríl 30, 2003

MÖMMUHORNIÐ!

Ég sé að heitasta umræðuefnið þessa dagana eru ólíklegustu mannverur í heimi: mömmur. Þetta er afar skrýtinn þjóðflokkur sem heitir því statt og stöðugt að ala upp hinn eiginlega framtíðar Íslending, en eins og við öll vitum... með misgóðum árangri. Móður minni hefur tekist misvel ætlunarverk sitt. T.d. þá kenndi hún mér þegar ég var lítil að hreint hús sé gott hús. Og ekkert múður með það!! Þetta lífsmottó móður minnar hefur á stórfurðulegan hátt síast inn í gatasigtið mitt og er bara fast þar. Mér líður illa ef það er skítugt í kringum mig!! Ég verð oft pirruð og leiðinleg ef allt er skítugt og lendir það oftast á saklausum einstaklingum. En ég strengdi áramótaheit og gerði uppreisn... ákvað að vera djörf og hætta að taka til!! Það gekk svo sem alveg... í svona viku. Þá var ekki líft í herberginu og það lyktaði eins og leikskóli, og ég bara varð að taka til! Djö....
En talandi um leikskóla.... helvíti er vond lyktin í þeim!!! Það er líka ekki skrýtið. Ef við vindum okkur aftur að henni móður minni þá sagði hún mér í gær að þegar ég var lítil, þá var ég með svo miklar fellingar undir hökunni því OK, ég var feitt barn. Svo alltaf þegar mér var gefin mjólk og hún rann niður hökuna á mér, þá súrnaði mjólkin milli fellinganna og mamma varð alltaf að lyfta fellingunum upp og þrífa inn á milli. Þið getið bara ímyndað ykkur lyktina sem myndast af súrnaðri mjólk undir hökufellingum feits barns! Og svo fór ég á leikskólann og hvert fór lyktin?? Jú, hún varð eftir í leikskólanum! Og svona hljóðar kenning mín um vonda lykt í leikskólum.

föstudagur, apríl 25, 2003

PERRI DAGSINS!

Mamma mín er sniðug kona. Hún kemur oft með svona skemmtilega/heimskulega/óþarfa/perralega visku- og gullmola en það er samt oftast eitthvað vit í þeim. Gott dæmi um það er samtal sem átti sér stað í gær. Ég og mamma vorum að tala um apparat sem ekki má vanta á neitt heimili... álfabikarinn góða, og mamma spurði mig hvort ég væri ekki til í að fjárfesta í einum grip. Ég var nú ekki á þeim buxunum að kaupa einn þannig því að ég ætti örugglega í erfiðleikum með að koma gúmmelaðinu upp í heilaga gatið. Huhumm... Mamma varð svolítið hissa og spurði af hverju. Þá svaraði ég með hæðnistón: "Já mamma mín, ég er nú bara hrein mey ennþá!" (Þið fáið ekkert að vita hvort það er satt eður ei og það þýðir ekki að spyrja mig!) Og þá spurði mamma: "Sastu þá aldrei á snuð þegar þú varst lítil??" HVAÐ ER MÁLIÐ??? Ég skil stundum ekki þessa konu! Ég er farin að halda að hún sé frá einhverri annarri plánetu! (Núna er ég að rífa í hárið á mér vegna mikillar angistar sem ríkir í huga mér) Ég vona, lesandi góður, að mamma þín spyrji þig ekki að svona hlutum. Ég vona það svo sannarlega!

sunnudagur, apríl 20, 2003

NÝYRÐI DAGSINS!

Eitt heitt nýyrði var að koma í hús fyrir g-streng / pjötlubuxur / thong, frá snillingnum henni móður minni...... BORUBRÓK!! AAAAhahahahaha! Bara að hugsa þetta orð fær mig til að hlæja!
Svo kom einn annar góður viskumoli frá mömmu sem hún sagði við mig áðan: “Særún... þú veist að ef ég prófa einhvern tíma svona borubrók, þá verðurðu að senda Björgunarsveit Hafnarfjarðar til að leita að þeim!” Vá hvað ég dýrka þessa konu! :)

En já... gleðilega páska, lömbin mín! Þetta er merkisdagur í lífi mínu því að í fyrsta skipti var það ÉG en ekki systir mín eða hundurinn minn sem fann páskaeggið mitt! Ég var búin að leita í hálftíma, var orðin svoldið nettpirruð á háðsglotti foreldra minna, tók mér smá pásu á leitinni og ákvað að taka hann Hannibal vin minn upp og leika á hann nokkur vel valin skátalög. Og viti menn.... þarna var páskaeggið mitt, umvafið hlýjum strengjum hans Hannibals í gítartöskunni minni! Þetta er yndislegur dagur!!

föstudagur, apríl 18, 2003

UPPGÖTVANIR DAGSINS!

Í nótt átti sér stað afar fágætur atburður... ég varð andvaka. Í svefngalsa mínum ákvað ég að finna mér eitthvað gott lesefni til að sefa svefnþörf mína. Ég greip fyrstu bókina sem ég sá, mikinn og þykkan doðrant með heitið: Dagbók og símaskrá FF 2002-2003. Ég held að ég hafi aldrei sofnað svona fljótt en eftir lesningu þessarar bókar. Ástæðan fyrir því er að ég las hvert einasta nafn í símaskránni, mér til mikillar kátínu. Ég komst að því að ég er eini einstaklingurinn í þessari bók sem ber fyrranafnið Særún. Svo bjó ég til svokallaða Önnu-keppni milli nokkurra framhaldsskóla og úrslitin urðu þessi:

1. FÁ – 26 Önnur
2. MR – 23 Önnur
3. FB – 20 Önnur
4. Borgó – 19 Önnur
5. Kvennó – 16 Önnur
6.-7. FSU – 14 Önnur
6.-7. VA – 14 Önnur
8.-9. MH – 11 Önnur
8.-9. MS – 11 Önnur

Já, eins og vitur maður sagði: “Maður getur ekki unnið allt!” Fleiri uppgötvanir voru gerðar meðan á lesningu stóð. Mörg ungmenni í framhaldsskólum hafa afar sérkennileg og skondin nöfn. Lítum á nokkur dæmi:

Hunter I. Muscat
Mortal Hólm Gíslason
Petra Bender
Funda Gaxholli
Phatharawadee Saythong
Bing Xi
Fabio Guðni Passua
Gerald Andrew Houndlow
Hamíð Moran
Sha Mi
Geisli Hreinsson
Kraki Ásmundarson
Víví Kristóbertsdóttir

Ég vil þakka þessum einstaklingum kærlega fyrir að leyfa mér að birta nöfnin þeirra og ég stend við mitt loforð krakkar: Börnin mín munu heita eitthvað af þessum nöfnum.

laugardagur, apríl 12, 2003

Ég var að taka til í skápnum mínum í dag með öllu gamla skóladraslinu mínu og fann mér til mikillar gleði, smásögu sem ég skrifaði í 9. eða 10. bekk um dag í lífi Jónasar Hallgrímssonar ef hann væri nú uppi í dag:


DAGUR Í LÍFI JÓNASAR HALLGRÍMSSONAR

Góðan og blessaðan daginn, kæra dagbók

Ég vaknaði árla morguns um klukkan tíuhundruð, rakaði skegghýjunginn og komst að því að Venus rakvélar eru með eindæmum betri en Gilette. Muna að kaupa raksápu. Fékk mér sviðakjamma og mysu í árbít og skolaði herlegheitunum niður með lýsisflösku. Nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði!! Það er komið gat á ullarsokkinn minn!! Hvernig nær maður svitabletti úr skyrtu? Nú væri gott að hafa múttu gömlu sér við hlið, hún kunni ráð við öllum fjandanum. Ætli kúamykja virki?? Ég reyni það.
Eftir ferð í fjósið, símaði ég til Konna lagsmanns míns, til að minna hann á kvæðamannafundinn sem var um nónið. Hann þakkaði pent fyrir sig og skellti á. Það er eitthvað uppi á honum böllurinn í dag. Vonandi var hann ekki í miðjum klíðum.
Síðan fór ég til Erps, sonarsonar míns og við kvöddumst á í nokkra stund. Fengum okkur rammíslenskt brennivín, hákarl og nokkra Thule á efir. Ég lagðist útaf eftir smástund og eftir blundinn fór ég á æfingu með hljómsveitinni minni, ZZZ Íslenskir fjárhundar. Ég sá mér til mikillar undrunar að klukkan var orðin fjórtánhundruð. Skítur! Kvæðamannafundurinn var byrjaður! Ég hljóp eins hratt og ég gat þrátt fyrir slæma mjöðm en þegar ég mætti á staðinn voru allir farnir. Skratti með horn og klaufir! Og næsti fundur er ekki fyrr en eftir mánuð!
Kom við á Kaffi Reykjavík og hitti þar ástina í lífinu mínu, Hafnarfjarðar-Gullí. Við skruppum á salernið og mökuðumst í góða stund og sofnuðum vært. Ég samdi rímu um hana meðan hún svaf sem ég kýs að kalla: “Hvað varð af nærbuxunum.” Þetta var besta ríman mín til þessa.

Svona hljómaði það. Fyrir þá sem ekki vita, þá var Hafnarfjarðar-Gullí gömul kona sem bjó í götunni fyrir neðan mig. Hún vissi greinilega ekki hvað nærbuxur voru því hún klæddist þeim klæðnaði voða sjaldan. Hún sat alltaf á tröppunum fyrir framan húsið sitt með sköpin útí loft og æpti á fólk sem labbaði framhjá. Einu sinni þegar ég var lítil og nýbúin að fá hundinn minn, fóru ég og Björk með hann í göngu. Gengum framhjá Gullí og hún sagði við okkur að hún vildi gera sófa úr hundinum mínum. En Hafnarfjarðar-Gullí er nú fyrir löngu komin í gröfina og Gullí... þessi saga er tileinkuð þér! ;)

laugardagur, apríl 05, 2003

Ég er komin aftur... aðallega vegna fjölda áskoranna!! Mohohohoh! :) Svo er líka afar erfitt að segja bara bless við eitthvað sem manni þykir vænt um, í þessu tilfelli við bloggið mitt. Ég hef aldrei verið góð í líkingum en ég held að þessi líking sé við hæfi: Maður sendir ekki barnið sitt í einangrun þótt að það fari í taugarnar á manni og maður veit ekki hvað á að segja við það. Já... hérna sannast það að ég er ömurleg í líkingum en ekki grýta mig fyrir því!
Ég sá líka í gær að ég varð að byrja aftur að blogga. Ég fór nefnilega í Kringluna með überkonunum Evu og Björk og sáum þar okkur til mikillar undrunar afar skringilega munaðarvöru. Það var koddi... koddi með 6 brjóst í klessu í einu horninu á koddanum. Okkur varð óglatt við þessa sjón og bölvuðum hönnuði þessa kodda. Að fara svona með líkamspart konu eins og... eins og... eins og HÚSGAGN! Brjóst hafa líka tilfinningar og vilja örugglega ekki að það sé verið að skera sig og kyntvíbura sína af húsbóndakonum sínum og límd á kodda!!
Og við þessa sjón ákvað ég að byrja aftur að blogga! :)