miðvikudagur, apríl 30, 2003

MÖMMUHORNIÐ!

Ég sé að heitasta umræðuefnið þessa dagana eru ólíklegustu mannverur í heimi: mömmur. Þetta er afar skrýtinn þjóðflokkur sem heitir því statt og stöðugt að ala upp hinn eiginlega framtíðar Íslending, en eins og við öll vitum... með misgóðum árangri. Móður minni hefur tekist misvel ætlunarverk sitt. T.d. þá kenndi hún mér þegar ég var lítil að hreint hús sé gott hús. Og ekkert múður með það!! Þetta lífsmottó móður minnar hefur á stórfurðulegan hátt síast inn í gatasigtið mitt og er bara fast þar. Mér líður illa ef það er skítugt í kringum mig!! Ég verð oft pirruð og leiðinleg ef allt er skítugt og lendir það oftast á saklausum einstaklingum. En ég strengdi áramótaheit og gerði uppreisn... ákvað að vera djörf og hætta að taka til!! Það gekk svo sem alveg... í svona viku. Þá var ekki líft í herberginu og það lyktaði eins og leikskóli, og ég bara varð að taka til! Djö....
En talandi um leikskóla.... helvíti er vond lyktin í þeim!!! Það er líka ekki skrýtið. Ef við vindum okkur aftur að henni móður minni þá sagði hún mér í gær að þegar ég var lítil, þá var ég með svo miklar fellingar undir hökunni því OK, ég var feitt barn. Svo alltaf þegar mér var gefin mjólk og hún rann niður hökuna á mér, þá súrnaði mjólkin milli fellinganna og mamma varð alltaf að lyfta fellingunum upp og þrífa inn á milli. Þið getið bara ímyndað ykkur lyktina sem myndast af súrnaðri mjólk undir hökufellingum feits barns! Og svo fór ég á leikskólann og hvert fór lyktin?? Jú, hún varð eftir í leikskólanum! Og svona hljóðar kenning mín um vonda lykt í leikskólum.

Engin ummæli: