The Icelandic Yule lads
Ég gleymdi víst að minnast á það að ég fékk möndlugjöfina þetta árið. Það er kannski ekki frásögum færandi því að ég hef fengið hana síðastliðin þrjú jól af þremur jólum sem þessi siður hefur verið viðhafður á mínu heimili. Möndlugjöfin þetta árið var Eftir-átta-nammi og spilin með íslensku jólasveinunum þar sem Brian Pilkington ljáir þeim penna sinn. Í gær fór ég fyrst að skoða þessi spil og sést það vel að þau eru einnig ætluð túristum og útlendingum. Á kassanum stendur á ensku: The Icelandic Yule lads. Jahá, hver hefur ekki heyrt um hinu frægu Yule lads? Jæja, ég sætti mig nú alveg við eina asnalega þýðingu en þegar mér var litið inn í pakkann... fór ég bara að hlæja. Þetta er ástæðan:
Stekkjastaur: Sheep Worrier (Síðan hvenær hefur hann haft áhyggjur af kindum?)
Giljagaur: Gully Gawk (Minnir helst á trúðsnafn. Gully þýðir reyndar gil en gawk þýðir klunnalegur. Gully Dude væri kannski betra)
Stúfur: Stubby
Þvörusleikir: Spoon Licker (Engin er skeiðin)
Pottasleikir: Pot Licker
Askasleikir: Bowl Licker (Engin er skálin)
Hurðaskellir: Door Slammer
Skyrgámur: Skyr Glutton (Kjánalegt)
Bjúgnakrækir: Sausage Stealer (Tíður gestur á Bæjarins bestu að næturlagi.)
Gluggagægir: Window Peeper (Perralegt)
Gáttaþefur: Door Sniffer (Minnir á eiturlyfjaneytanda)
Ketkrókur: Meet Hook
Kertasníkir: Candle Beggar (Ég held að Kertasníkir færi aldrei að grátbiðja um kerti)
Grýla: Joker (Ég þori að veðja upp á augasteina langaömmu minnar, að hún Grýla er ekki mikil brandarakelling)
Ef ég væri útlendingur og myndi sjá þessi spil, myndi ég hiklaust kaupa fullt af þeim, gefa ættingjum mínum og sýna þeim hvað Íslendingar eru miklir kjánar og hafa skrýtna siði.
Á nýju ári ætla ég að hætta þessu daglega bloggi mínu, nenni ekki að standa í þessu.
En ég vil óska lesendum gleðilegasta árs hingað til og þakka fyrir það gamla. Gangið hægt um gleðinnar dyr, notið hlífðargleraugu og munið: Hjálparsveit skáta skaffar dótið!
miðvikudagur, desember 31, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli