mánudagur, desember 29, 2003

Í gær...

...náði nördinn í mér yfirhöndinni. Já þið giskuðuð rétt, ég fór nefnilega á Lordarann í annað skipti í sömu vikunni. En það er ekki mér að kenna, ekkert annað en hópþrýstingur! Nú jæja, það slæma við að fara aftur á sömu sýninguna tvisvar sinnum er það að nú er ég 990 kr. fátækari en ég var deginum áður. Það góða er að í annað skiptið þarf maður ekki að vera að fylgjast mikið með söguþræðinum, heldur fer athyglin í öll smáatriðin sem á vegi manns verða. Ég tók eftir nokkrum:

- Kyntröllið og kallinn Jómar er með þessa svakalegu vörtu fyrir ofan aðra augnbrúnina. Ekki mjög sjarmerandi.
- Viggo Mortensen hleypur asnalega.
- Stuttlingurinn Kátur opnar munninn ískyggilega mikið þegar hann talar.
- Fróði stynur unaðslega en hlær aftur að móti kjánalega.
- Orðið: "Ríðum!" er mikið notað í þessari mynd. Sóðabrækur!
- Gandalfur væri ógeðslega flottur með tígó.
- Ég hefði ekkert á móti því að greiða skeggið á Gimli, kannski setja nokkrar fléttur.
- Hárið á Aragorn er alltaf að síkka og styttast svo aftur. Hvaða sjampó ætli hann noti?
- Í einu atriði sést lítil stelpa henda blómum á götu í Mínis Tíríð og þá er hún mannsbarn. Í öðru atriði í Hobbitabrúðkaupi, sést þessi stelpa aftur en þá sem Hobbiti. En kannski er hægt að klóna fólk þarna, veit það ekki.

Ég er nú að pæla í að fara bara aftur og þá í þriðja sinn. Best að skella sér bara...



Vartan sést víst ekki hérna, hjálmurinn fyrir og svona. Svo er hann líka svo mikið meikaður að hún myndi hvort eð er ekkert sjást.

Engin ummæli: