miðvikudagur, mars 31, 2004

Beygla!!

Hundurinn minn, hann Sókrates er bara bévítans lygari. Á mánudaginn kom hann heim úr göngutúr haltrandi og gat ekki stigið í aðra löppina. Ég vorkenndi honum ekkert smá og stjanaði við hann tvist og bast. Hann var líka ekkert að ná að halda sér uppi greyið, heldur datt bara allt í einu kylliflatur á gólfið og það oft. Við vorum skíthrædd um að hann væri farinn úr lið eða jafnvel fótbrotinn og öll fjölskyldan var gráti nær og hélt að nú myndi hann fara yfir móðuna gráu. Hann fékk puslur í matinn þetta kvöld sem er uppáhaldsmaturinn hans, já og kleinur. Svo næsta morgun, þá haltraði hann bara ekki neitt! Hann er greinilega bara svona gáfaður og góður leikari að honum tókst að blekkja fíflin húsbændur sína til þess að fá meiri ástúð og mat. En hann gerði ein mistök. Næsta dag haltraði hann nefnilega ekki neitt. Haha, aumingi!!
Það er greinilegt að dýrin hafa fundið veika blett mannkynsins, samúðina... eða það halda þau og ætla að nota hana gegn okkur. Óttist börn mín góð, því á endanum munu dýrin taka völdin!!



Ég var að æfa mig að mála.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Gjöf nr. 2

Ég fékk svolítið samviskubit eftir að hafa gefið föður mínum aðeins skítuga fötu þannig að ég ákvað að biðja pabba um pening og keypti handa honum aðra gjöf. Ég fór í plötubúð og keypti DVD-mynd um Roy Keane fyrst hann er nú Manchester United kall dauðans og varð hann bara enn ánægðari með diskinn en fötuna. Af hverju ætli það sé? En allavega, ég ákvað að kíkja nú aðeins á gripinn áðan en steinhætti við eftir að ég las aftaná hulstrið. Textinn hljóðar einhvern veginn svona:

ROY KEANE: AS I SEE IT

WORSHIPPED, FEARED, RESPECTED
Roy Keane is the heart and soul of the world's greatest football club. On the field he is a born leader with a fiery temper, adored and worshipped by fans, feared and envied by rivals. Despite his fame, the real Roy Keane is elusive - until now! Now you can learn what makes Keane REALLY tick.

KEANE ON KEANE - AS HE SEES IT

(Smáa letrið: Some scenes may contain violence and may be unsuitable for young children. Bad language is frequent.)

Ég sé þetta alveg svona fyrir mér: Myndin byrjar á ferli hans með United og sýnd svaka flott mörk. Svo byrjar þetta að vera ýkt væmið og svo er talað um æsku hans, eiturlyfjafíkn og áfengisvanda. Næst byrjar hann að gráta þegar hann segir frá því þegar stjúpi hans þvoði munninn á honum með sápu og hvernig allt var svo mikil harlem. En núna er hann frægur kall sem sparkar í bolta, á flott hús, konu með 1 árs gömul brjóst og börn sem eru alveg eins og pabbi sinn. Frekar hlusta ég á glamrið í Richard Clayderman.



"Ojah, give me some sugah papa!"

sunnudagur, mars 28, 2004

Vandamálahornið

Ég á við vandamál að stríða. Þetta er ekkert lítið vandamál, onei. Vandamálið mitt er naflakusk. Ég er nefnilega með mjög einkennilegan nafla og get ég sagt að ég hef bara ekki séð neinn annan með álíka nafla og minn (ekki að ég sé eitthvað að leita). Aðrir hafa einnig tjáð mér það að þetta sé einstaklega fyndinn og skondinn nafli. Ég get togað hann út og þá stendur einhvers konar tota út í loftið og það er einmitt staðurinn þar sem kuskið heldur sig. Skrýtið finnst mér að þetta vandamál blossaði bara upp núna um daginn og hefur ekki stoppað síðan. Ég hef einnig furðað mig á því af hverju kuskið er í flestum tilfellum grátt og hvaðan það kemur. Vegir naflakusksins eru greinilega órannsakanlegir. Það væri því ágætt ef ég gæti fengið að spjalla aðeins um þetta vandamál við fleiri sem eiga við þetta sama vandamál að stríða því ég er orðin svolítið pirruð á þessu. Svo er líka alltaf gaman að vita til þess að maður er ekki einn í heiminum. Ég las samt grein um daginn í blaði um lýtaaðgerðir á nöflum sem var afar athyglisverð. Þá gæti ég látið fjarlægja totuna og sett kannski demant í staðinn. En ég ætla ekki að fara í lýtaaðgerð nr. 2 fyrir 18 ára afmælisdaginn minn. Það lítur ekki vel út á pappírum. Fólki er velkomið að pikka í mig ef það vill sjá aðskotahlutinn því ég vil með glöðu geði deila vandamáli mínu með öðrum því ég er nú tilfinningavera.

Brandari dagsins

Í tilefni þess að X-Smarties voru kosnar í auglýsinganefnd þá er þessi brandari tileinkaður Guðnýju og fleirum.

Hvað sagði Guðný þegar hún sá teiknibólu?
- Neih, smarties í bóner!

föstudagur, mars 26, 2004

Ég fer á puttanum...

... í Borgarfjörð um helgina. Bless borg og halló sveit.



Mæli með þessari síðu... ég og þessi stelpa eigum margt sameiginlegt og ég veit að hún á bjarta framtíð fyrir sér í módelstörfunum.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Sagnorð - óþarfaþing

Pabbi 46 ára afmæli morgun. Ég honum fötu í pakka, ekki íþróttaföt. Ég stríðnispúki. Pabbi vonandi glaður. Á morgun æfingabúðir með krökkum úti á landi. Björk beygla, ég skonsa. Ég alla bakaríismat í framtíðinni. Þú snúður, hann kringla, þau vöfflur og allir bláfjallabrauð. Mamma þriggjakornabrauð alltaf kúkabrauð. Ég alltaf haha. Ég alltaf á Queen núna því þeir kúl. Ég í aukatíma í dag hjá Helga Ingólfs hjá 4.A. Það gaman. Hann öllum fyrr út sem hann aldrei hjá okkur. Það kosningadagur á morgun. Ég ekki meira nammi, aldrei. Ég bara ef ég meira nammi, sérstaklega Smarties. Mér kalt á tánum, ég búin öllum sokkunum mínum. Jónína Ben framan á Mannlífi með kanínu, hún beygla. Hún: ,,Ég í gegnum helvíti." Hún helvíti.

Hver þarf sagnorð...

miðvikudagur, mars 24, 2004

Skrúöpp!

Ég er himpigimpi og þess vegna er fjölskyldan í fýlu út í mig. Þetta byrjaði allt saman í dag þegar mamma kom að ná í mig af æfingu og sagði mér að hún væri búin að kaupa íþróttaföt á pabba svo hann þyrfti ekki lengur að strippalingast á nærbuxunum þegar hann lyftir lóðum með lyftingagræjunum sínum ógurlegu. Ég varð bara glöð fyrir hans/okkar hönd og pældi ekkert meira í því. Á meðan á kvöldmatnum stóð, ákvað ég að sýna nýju íþróttafötum föður míns smá áhuga og spurði: ,,Jæja pabbi, búinn að máta fötin?" Mamma og systir mín settu þá upp þennan svakalega svip og þá gerði ég mér grein fyrir því að ég hafði gert eitthvað vitlaust. Ég reyndi því að redda mér: ,,Ha nei... uu... ég meinti fötuna, ertu búinn að máta... fötuna?" Þarna var ég að reyna að bjarga mér fyrir horn en þurfti þá hún móðir mín ekki endilega að fara að flissa. Pabbi minn á nefnilega afmæli á föstudaginn og mamma ætlaði að gefa pabba íþróttaföt í afmælisgjöf. Hún hafði nú ekki mikið fyrir því að segja mér frá því en ég held að pabbi hafi nú samt fattað þetta, það þarf ekki snilling til þess. Mamma er núna ennþá hlægjandi en er samt fúl út í mig. Ég er líka fúl út í hana fyrir að vilja gefa pabba íþróttaföt í afmælisgjöf. Ég væri ekkert til í að fá leikfimisföt í afmælisgjöf jafnvel þótt ég þarfnaðist þeirra sárlega. Hver veit nema hún hafi kannski keypt á hann krumpugalla, þá vil ég nú frekar hafa hann á nærbuxunum.

Ég er himpigimpi.



Pabbi í tilvonandi nýju íþróttafötunum sínum - reyndar í líki Rod Stewart.

þriðjudagur, mars 23, 2004

Það er góður dagur. Ha, er Helgi magur?

Þetta rímaði en dagurinn gerði það ekki. Hann var alveg ágætur ef ég á að segja sjálf frá (þótt hann sé að vitaskuld ekki búinn). Hann byrjaði vel, svaf lengur en venjulega og hljóp síðan í strætó. Átti mörg góð spjöll við gott fólk og síðan var skundað í tíma. Eipaði á stærðfræðikennarann í svona tuttugasta skipti í þessari viku og þá vissi ég að dagurinn yrði góður. Festi tvö X-Steindór merki á mjög svo dónalega staði og bar þau mest megnið af deginum. Tók merkin þó af mér fyrir leikfimi því ekki vildi ég gata neina staði sem hugsanlega munu koma sér vel í framtíðinni. Fékk bakkelsi í Cösu og smakkaði minn fyrsta heila kaffisopa hjá Bó. Takk Bó. Sopinn var vondur en það var ekki Bó að kenna, heldur mér. Fór hamförum í latínu og rimpaði útúr mér þolmyndum um hvippinn og hvappinn, samnemendum til yndisauka. Síðan var það tjarnarhlaupið ógurlega. Tók það á mettíma: 13 mín og 50 sek sem þýðir 5,5 í einkunn. Afsökun mín í þetta skiptið er að ég er nú nýstaðin úr veikindum og svo er ég með beinhimnubólgu. Það er ekki hver sem er sem getur státað sig af því, óneinei. Dagurinn var þó toppaður í strætó þegar nokkrir menntskælingar tóku upp á því að syngja afmælissönginn fyrir hann Jóhannes en hann á afmæli í september. Það vildi svo skemmtilega til að hópur leiklistarnema var í strætó og byrjaði að syngja með. Ekki leið á löngu þangað til að allir í strætó voru farnir að syngja og engan grunaði að hann átti ekki einu sinni afmæli. Þýskukennarinn minn hún Maja Loebell var líka í strætó og hún söng að vitaskuld með. Á leið sinni út fór fólk að óska Jóhannesi til hamingju með afmælið og þá var hlegið. Núna er ég bara komin heim í heiðardalinn með slitna skó og ætla að fara að gera eitthvap upplífgandi fyrir sál og líkama. Kannski jóga.

Lifi ég ekki skemmtilegu lífi krakkar?

mánudagur, mars 22, 2004

Feðginin óborganlegu

Eins og fræg kona söng einu sinni svo fallega: "Music makes the people come together, yeah!" Þar hefur hún á réttu að standa því samband míns og föður míns hefur aldrei verið betri en nú og er það allt tónlistinni að þakka. Hann tók upp á því fyrir stuttu að kaupa geisladiska handa mér af litlu tilefni og ég handa honum. Það er því alltaf gaman á föstudögum því þá koma þeir oftast í hús. Pabbi er ennþá svolítill prakkari í sér síðan hann var smápolli á Hólmavík í gamla daga og gefur mér oftast diska sem hann heldur að ég þoli ekki. Það mistekst þó oftast hjá honum. Til dæmis gaf hann mér um daginn Abba panpipes og glotti um tönn. Ég sagði bara feis því ég get ekki hætt að hlusta á þann disk og þá varð pabbi skúffaður. Hann gaf mér líka Billy Joel og aftur mistókst planið hans. Já, ég á svo sannarlega kjánapabba. Ég hef ekki gefið honum eins mikið af diskum því otf er pyngjan tóm en ég reyni af bestu getu. En af því ég elska pabba minn svo mikið gaf ég honum 2 diska um daginn: Richard Clayderman - Songs of Love og The Love Album - Soul for Lovers. Þá var hann glaður en samt eru diskarnir ennþá í bréfinu.
Við höfum líka gaman að því að fara á geisladiskamarkaði og flippa ærlega. Þá er bundið fyrir augun og bara valið það sem hendi er næst. Oftar en ekki hafa margir diskar oltið um koll og brotnað en þó engin bein. Hohoho. Margt skondið hefur lent í innkaupakörfunni og sem dæmi um það voru margir góðir diskar keyptir. Til dæmis: Shania Twain, Faith Hill, BG og Ingibjörg, Public Enemy, Graduelukórinn og fleiri fleiri góðir. Það er gott að eiga góðan pabba.

sunnudagur, mars 21, 2004

Góð kaup

Viltu gera góð kaup? Áttu 199 kr.? Viltu hlægja af þér skóna? Farðu þá í Hagkaup og kauptu spóluna Hilmir Snær og Stefán Karl - Í góðum gír. Þetta er svona sketsaspóla sem meðal annars var sýnd á gamlárkvöld á Stöð 2 eftir áramótaskaupsvonbrigðin og björguðu svo sannarlega áramótunum fyrir fjölskyldunni. Þetta eru góð kaup sem þú munt ekki sjá eftir.

Brandari dagsins

Hver á bongið?
- Billi!


laugardagur, mars 20, 2004

Eru bönd brjáluð?

Ég hef svolítið verið að velta þessari spurningu fyrir mér og hef nokkrar sannanir fyrir þessari staðreynd. Til dæmis eru til lýsingarorðin snarklikkaður og bandbrjálaður. Það hlýtur nú að vera einhver ástæða fyrir þessum orðum, jú mikið rétt: bönd og snörur eru bara brjáluð! Annað gott dæmi er Antonio Banderas. Banderas. Hann er alveg snældubrjálaður eins og allir vita því hann er band. Karlmenn verða líka alltaf graðbrjálaðir þegar þeir sjá sokkaband og byrja bara að froðufella og spangóla. Brjálæðingar voru líka hengdir með köðlum sem eru gerðir úr mörgum böndum.

Þarf fleiri sannanir?



Horfðu vel og lengi í augun á óvininum því allir þurfa að þekkja óvin sinn til að halda lífi!

fimmtudagur, mars 18, 2004

Nú hefjast fréttir

(Fréttastef: Dududududu dudududududu dudududududududu bommbomm!)

Gott kvöld. Þetta er helst í fréttum.
Hin rosalega og svakalega glæpaklíka Sterkir kokkar eða öðru nafni Streftókoggar réðst inn á sveitabæinn Innri-Háls í Særúnarsýslu um kvöldamatarleytið á sunnudaginn. Glæpamennirnir sópuðu til sín alls kyns varningi og liggur öll starfsemi þar á bæ í lamasessi. Þjófunum var náð seint í gærkvöldi með hjálp herra Penicilin sem kom alla leið frá Heilsugæslustöðinni í Hafnarfirði til að hjálpa til við rannsókn málsins. Hinir seku eru bak við lás og slá og getur almenn starfsemi á bænum hafist á morgun eða hinn.
Ótrúlegt þykir að einnig fylgdi ráninu hæsti hiti sem mælst hefur í 17 ár eða frá því að mælingar hófust. 39,7°C!! Hitinn hefur þó sveiflast óvenjumikið til en nú er hann kominn í eðlilegt horf eða 37°C.

Og talandi um Hafnarfjörðinn. Gömul kona þóttist sjá draug á Heilsugæslustöð Hafnarfjarðar á miðvikudaginn og féll í yfirlið. Eftir nánari rannsókn komst í ljós að draugurinn var ekki draugur eftir allt saman, heldur afar veik stúlka sem var á leið til læknis og að sögn sjónarvotta, mjög svo illa tilhöfð. Konan hyggst ekki leggja fram kæru.

Sjálfur Freddy Mercury mun ekki mæta á litla og lága nesið í kvöld íklæddur sömu fötum og hann var í í myndbandinu við lagið I want to break free, sem sagt í kvenmannsklæðum. Hann er veikur og fékk ekki leyfi frá mömmu sinni til að fara. Aumingja litla fólkið!

Ég nenni ekki að tala um einhverjar sjálfsmorðsárásir í dag þannig að það var ekkert fleira fréttnæmt í dag. Og allir þeir sem eru að fara á grímuball MR í kvöld mega æla í kokið á næsta manni. Verið þið sæl.

sunnudagur, mars 14, 2004

Súr helgi

Þetta var súrasta helgin hingað til og jafnframt sú grófasta. En tölum ekki meira um það.

Grímuball á næsta leiti. Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hverju ég eigi að klæðast þetta árið. Í fyrra var ég eins og pabbi, rafvirki. Fékk lánaðan hjálm og blátt Bläklæder vesti hjá manninum og verð að segja að ég tók mig bara mjög vel út. Ég var þó eilítið ölvuð það ball og meðal annars sló ég ungan dreng utan undir sem ég sakaði um að hafa stolið hugmyndinni af búningnum mínum. Hann var líka með hjálm og í vesti en eftir að ég var búin að slá hann, komst ég að því að hann var þá afgreiðslumaður í Byko eftir allt saman. Slysin gerast krakkar mínir og ef þú, afgreiðslumaður í Byko ert að lesa, þá biðst ég margfalt afsökunar.
Til að gera ekki upp á milli foreldra pældi ég í því að vera núna móður mín í starfi sínu en ég held að það sé svolítið erfitt að klæðast sem leikskólakennari. Sú hugmynd fór þá útum þúfur. Ég hef líka verið mikið að pæla í að vera fegurðardrottningin Ungfrú skyr.is en þá vantar mig einhverja fleiri vitleysinga til að vera með. Þeir sem eru tilbúnir í mega flipp mega endilega láta mig vita. Hugmynd númer 2 er að vera Freddy Mercury en hvernig sá búningur mun líta út, verður bara að koma í ljós.

föstudagur, mars 12, 2004

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Það er spurning sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér upp á síðkastið. Ætli það sé ekki vegna þess að fyrir stuttu var valblöðum hent í fjórðubekkinga í MR og eiga þeir að ákveða hvað þeir vilja gera í 5.bekk. Fyrir suma er valið afar erfitt og flokkast ég í þann hóp. Valið stendur milli fornmáladeildar I eða II eða nýmáladeildar I eða II. Ég er nokkurn veginn búin að útiloka fornmála I og nýmála II af skiljanlegum ástæðum og þá standa hinar brautirnar tvær eftir. Algjör óþarfi að velta því fyrir sér því í þessum pikkuðu orðum hef ég ákveðið mig... ég MUN fara á fornmáladeild II.
En þá er bara eftir að velja fjórða tungumálið. Þar sem ég er nú þegar í þýsku get ég skiljanlega ekki valið hana og því stendur valið á milli spænsku eða frönsku. Planið er að velja tungumál sem hentar minni innri konu og það verður sko erfitt. Spænska er mjög ögrandi og kynæsandi en franska aftur á móti afar rómantískt tungumál. Svo er það þýskan... það er meira svona kjánalegt greddutungumál en já, skemmtilegt engu að síður. Hvort er ég meira ögrandi eða rómantísk kona? Það er einmitt spurningin.
Líf unglinga nú til dags er ekki auðvelt. Það er fullt af erfiðum ákvörðunum og já, bara erfitt. Til dæmis klessti ég á súlu í strætó í gær. Það var erfitt og þess vegna mun ég reyna að gera það ekki aftur.

fimmtudagur, mars 11, 2004

Hvernig það er að vera vændiskona í grófum dráttum

Mannlegir pýramídar eru svo til eftir allt saman. Ég myndi segja að þetta sé áttunda furðuverk veraldar. Klárlega. Og sjáiði hvað ég er glöð! Þetta er svo fallegt!



Skorsteinn, alltaf í stuði! Partý partý!



Björk óneitanlega líka...



Það tekur á að vera í bíl í heilan hálftíma



Listaverkin mín tvö



Svo er það bara æfing fyrir Bítlatónleika með Sinfó í kvöld.

miðvikudagur, mars 10, 2004

Jájá

Ekkert mikið að frétta svo sem. Eða jú:

- á eftir mun ég gefa Björk, minni ástsælu vinkonu til 12 ára, gjöf frá hjartanu. Nú er bara spennandi að sjá hvernig hún mun bregðast við.
- ég og Guðný fórum á hátíðartónleika MR í Dómkirkjunni í gær og það var gaman. Greinilegt að það er mikið af hæfileikaríku fólki í Lærða skólanum og sé ég ekki eftir þeirri ákvörðun minni að spila EKKI á þessum tónleikum. Ég hefði einfaldlega kúkað á mig því flest allir sem komu fram voru á 8. stigi eða eitthvað álíka og ég bara á mínu skitna 5. stigi. En ég mun ekki bugast og mun halda ótrauð áfram og lofa sjálfri mér að spila á næsta ári. Punktið það niður krakkar.
- festi kaup á mennina í Franz Ferdinand og hlakka til að leggja við hlustir.
- var að hlusta á lagið Rock the Casbah með pörupiltunum í The Clash og hrökk í kút þegar ég heyrði síma hringja. Leitaði útum allt að þessum síma en enginn var síminn. Ástæðan fyrir því er einföld því í miðju laginu sem ég var að hlusta, var eins og sími væri að hringja, INNI Í laginu. Spúkí.
- hryggbraut dreng í gær en það var alveg óvart. Vonandi þarf hann ekki að vera lengi á spítalanum. Oó!
- meira var það nú ekki.

mánudagur, mars 08, 2004

Fyrst maður segir margir hæfileikar, segir maður þá ekki einn hæfileikur?

Mér til mikillar furðu, komst ég að því um daginn að ég hef hæfileika og það engan smá hæfileika, ónei. Ég get nefnilega sungið eins og smábarn í gegnum lófann á mér. Mörg atvinnutilboð frá sirkusum víða um heim hafi borist mér en ég mun varla svara þeim sökum annríkis. Heimsreisan verður því að bíða betri tíma. En óþreyjufullir mega pikka í mig þegar ég er ekki upptekin við annað og mun ég deila hæfileikanum með viðkomandi gegn vægu gjaldi, ókeypis ef mér líka vel við þann sama. Ekki vera feimin því ég mun með glöðu geði sýna mig og sanna að ég er ekki misheppnuð og að ég hef mína kosti.

Idol-dómnefndin var þá upptekin eftir allt saman þannig að leitin heldur áfram. Á meðan á henni stendur er mönnum enn frjálst að taka þátt í keppninni um titilinn versta brandarann.is hér í kommentakerfinu. Verðlaunin eru vegleg þótt vegir hafa ekkert leg (Hahaha, reynið bara að toppa þennan ömurlega brandara!)

sunnudagur, mars 07, 2004

Skamm skamm!

Ég er reglulegum bloggum til skammar því ég hef ekkert bloggað í langan tíma. Ég hef þó góða ástæðu en ég eyddi helginni á hóteli með hæfileikaríku fólki. Þar var margt til gamans gert, til að mynda bjuggum við til mannlegan pýramída (hann náðist á mynd), fórum í höfrungahlaup, umturnuðum heilu herbergjunum, gerðum Lil Bow Wow fléttur í stráka og köstuðum trópí í glugga. Og sei sei jú, áfengið var teigað. Ég held þó að toppinum hafi verið náð þegar ég vaknaði í morgun og búið var að taka dýnuna úr rúminu við hliðina á mér. Ég grenslaðist fyrir og komst að því að nokkur ungmenni hefðu tekið hana um nóttina og ég hafi sest upp og byrjað að stynja af sársauka þegar þau komu. Vitaskuld mundi ég ekkert eftir þessu og já... það er fyndið. Hahaha.

Úrskurður dómnefndar í brandarakeppninni mun koma á næstu dögum... um leið og ég hef fundið einhverja hlutlausa dómara. Hmm, Idol dómararnir ættu að vera lausir...

miðvikudagur, mars 03, 2004

Versti brandarinn.is

Er lýðurinn ekki í stuði með Guði, sprækur sem lækur og mjúkur sem kúkur? Júh, ég held það nú því nú er komið að því... keppnin um það hver á versta brandarann. Verðlaunin eru ekki af verri endanum og í þetta skiptið eru þau áþreifanleg. Ég á bara eftir að festa kaup á þau en það mun ég að sjálfsögðu gera. Keppnin fer þannig fram að þú einfaldlega skrifar brandarann í þarnefnt kommentakerfi sem er hérna fyrir neðan og auðvitað á hann að vera sá lélegasti sem þú hefur heyrt. Til að koma ykkur í gírinn, skal ég byrja:

Hvernig urðu dvergar til?
Svar: Nokkrir menn skruppu saman í bíó!

Hahahaha!

Og ég verð afar súr ef enginn eða fáir taka þátt.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Vandamálahornið

Eruð þið orðin leið á lífinu? Vantar allt krydd í það? Gerist ekkert spennandi? Þá er ég með lausnina!

Þú einfaldlega tekur upp á því að ganga eins og þú sért að labba á móti sterkum vindi sama hvernig veðrar, með tilheyrandi andlitsafskræmingum og hreyfingum. Einnig getur verið gaman að nota til dæmis ljósastaura til að leggja áherslu á það hve mikill vindur er (sjá meðfylgjandi mynd). Munið þó að nota þessa upplífgandi aðferð í hófi því ekkert er leiðinlegra en óhófsamt fólk. Varist að gera þetta innandyra því annars getið þið átt í hættu að vera send beint upp á Klepp eða getið einfaldlega stórslasað gangandi vegfarendur.

Ég óska ykkur góðrar skemmtunar og megi tilveran bætast.