Heimilistækjaógöngur
Ég var um daginn að rifja upp slæmar minningar mínar þar sem heimilistæki koma við sögu. Ætli það sé ekki best að rita þær hér.
- Ætli ég hafi ekki verið í 8. bekk þegar afar byltingarkennt heimilistæki kom inn á heimilið: samlokugrill. Það voru því grillaðar samlokur með miklum osti á hverjum degi hjá mér. Einu sinni ætlaði ég að fá mér samloku eins og ég gerði alla aðra daga, þegar að stórslys átti sér stað. Samlokan var í grillinu og ég fann brunalykt. Gekk hægum skrefum að grillinu og búmm. Grillið sprakk. Það var af því að ég hafði klemmt snúruna með samlokunni. En það var allt í lagi með grillið OG snúruna. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með teipi. En það er ekki hægt að laga litla viðkvæma hjartað mitt með teipi því aldrei á ævinni hefur mér brugðið svo mikið.
- Þessi saga gerðist núna um daginn. Ég var að fá mér ristað brauð í flýti. Beið eftir brauðinu og fann brunalykt. Ætti nú að þekkja brunalykt eftir síðustu brauðsögu. Uppúr brauðristinni kom reykur og ég leit í ,,gatið." Þá hafði ég ýtt á takkann sem klemmir grindurnar saman, áður en ég setti brauðið í og brauðið var því að brenna á perunum. Brauðristin náði ekki að hrista þessar ógöngur af sér og því endaði hún líf sitt á ruslahaugunum.
- Þessi saga gerðist líka um daginn. Í sumar var keyptur blandari því ég og móðir mín fengum þá hugdettu að lifa á skyrbústi. Í eitt skiptið týndist litla lokið ofan á blandarann þannig að ég ákvað bara að halda fyrir með höndunum. Ég gerði það en svo hringdi síminn. Ég svaraði símanum og fattaði svo að ég var hætt að halda fyrir gatið. Leit við og þá voru bananabitar og klakar fljúgandu útum allt eldhús. Ég var lengi að þrífa þetta.
Þið sjáið að það lítur út fyrir að heimilistækin muni ráða yfir heiminum eftir nokkur ár og er þetta aðeins byrjunin. Verum því með opin augu, notum heimilistæki í hófi og verum alltaf með eldvarnarteppi við hönd.
mánudagur, janúar 31, 2005
sunnudagur, janúar 30, 2005
Hörð í horn að taka
Ég er klaufabárður, þó ekki af Guðs náð. Það var föstudagskvöld. Lokaæfing fyrir tónleika Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna í Langholtskirkju. Ég hélt á hljóðfærinu mínu sem er gert úr málmi og ætlaði að setja það í hljóðfærakassann því æfingin var á enda komin. BÚMM! KRSST! Ég klessti á millivegg. Ég lít á ca. 200.000 króna hljóðfærið og sé að það er beyglað. Og það ekkert smá beyglað. Fékk sjokk. Sá fyrir mér viðgerðarreikning upp á 50.000 kr, peninga fjúka. En þó er alltaf gott að líta á björtu hliðarnar:
- ég á ekki hljóðfærið, heldur tónlistarskólinn. Hjúkket.
- beyglan er bara helvíti flott. Ég var meira að segja öfunduð af samspilurum mínum.
- núna hef ég góða sögu að segja í partýum. Það eru ekki allir sem geta sagt að þeir hafi klesst á vegg með hljóðfæri í hönd. Onei. Ó þetta verður svo góð saga að segja frá.
Tónleikarnir tókust með ágætum og var Stravinsky hrisst fram úr erminni eins og ekkert væri. Flatbökur voru torgaðar. Eftir-tónleika-teiti um kvöldið. Talaði þar við montinn básúnuleikara sem sagði að orðið trombone væri latína. Heimski maður. Vitaskuld mótmælti ég þessu og sagðist læra latínu þannig að ég ætti að vita betur. Upp á hann kom fát og hann sagði mér að halda áfram að læra latínu. Ég sagðist ætla að gera það. Hann þagði.
Síðustu daga hef ég staðið í stórframkvæmdum. Ég er nefnilega að sauma mér kjól fyrir árshátíðina. Það hefur ekki verið auðvelt. En núna er ég búin að klára kjólinn og er ánægð sem þrusa með afraksturinn. Hann er rauður. Úúú. Hann er ögrandi. Úúú. Hann er sexý. Úúú. Hann er kjóll. Úúú. Nei ég er sko engin ugla.
Birt af Særún kl. 22:56 0 tuðituðituð
fimmtudagur, janúar 27, 2005
Ég er brún eins og kókómalt
eftir að hafa dæmt í blautbolakeppni karla í skólanum í dag. Fékk stóran skammt af kókómjólk yfir mig en ég átti það svo sem skilið. Gaf Sindra óvart stóran skammt af muu mjólk en ég myndi segja að kókómjólkin sé verri. Hún lyktar og er brún.
Þessi vann
Birt af Særún kl. 13:53 0 tuðituðituð
þriðjudagur, janúar 25, 2005
Það er súrt að vera veik. Veiktist herfilega eftir krufningu á svínsinnyflum í líffræði á föstudaginn. Ætlaði nú að taka þetta með trompi þrátt fyrir það að ég kúgast alltaf þegar ég sé og hugsa um blóð. En allt kom fyrir ekki. Mig svimaði, fór á klósettið í hvítri plastsvuntu og ældi þar af öllum mínum sálarkröftum. Ég hálfskammaðist mín nú fyrir að þurfa að segja líffræðikennaranum frá þessu. Hún flissaði bara og leyfði mér að fara. Söngballið kvöldið áður átti kannski hlut að máli því fyrir ballið drakk ég mikið heima hjá mér. Sorglegt, aha. Ég og Björk áttum ágætis kojufyllerí og töluðum um daginn og veginn. Þá aðallega um kærasta- og kúruleysi. Þetta er harður heimur. Ég kveð.
Birt af Særún kl. 08:48 0 tuðituðituð
miðvikudagur, janúar 19, 2005
Pabbasögur
-Mamma sagði mér í gær að þegar hún var að rembast við að koma mér í heiminn fyrir 18 árum, svaf pabbi minn á grjónapúða inni í fæðingarherberginu. Hann er svo harður kall hann pabbi minn. Og þreyttur.
-Hann er líka maðurinn sem kynnti mig fyrir Bakkusi á mínum yngri árum. Þegar ég var ca. 2 ára fór hann með mig í kerru til bróður síns sem átti heima skammt frá okkur. Þar var hann að drekka bjór og gaf mér marga sopa af því að mér fannst víst svo gaman að drekka úr flöskum. Á leiðinni heim, steinrotaðist ég í kerrunni og slefaði yfir mig alla. Þetta er voðasvipað þegar ég er í leigubíl eftir skólaböll og bæjarferðir, steinrotuð og slefandi.
-Pabba fannst líka gaman að fara með mig á róló, þá helst að ramba. (Vega salt fyrir ykkur ó-hafnfirðinga) Eitt sinn skaut hann mér af römbunni og ég lenti í sandkassanum. Fékk mikið högg og er það kannski ástæðan fyrir því að ég er svona eins og ég er enn þann dag í dag; ringluð.
-Pabba finnst líka gaman að fara á geisladiskamarkaði. Í fyrra kom hann færandi hendi og gaf mér diskinn með Ronan Keating. Vitaskuld hoppaði ég hæð mína af gleði. Mömmu gaf hann Kenny G og Richard Kleidermann, fyrir saumaklúbbinn. Tónlistarsmekkur mannsins er hreint ótrúlegur!
Birt af Særún kl. 13:43 0 tuðituðituð
þriðjudagur, janúar 18, 2005
Gúrkutíð
Vegna þess að systir mín setti inn eitthvert klámvírusaforrit inn á tölvuna okkar, (sem var svo vírus eftir allt saman) er internetið í lamasessi á heimili mínu. Það verður því gúrkutíð á þessu bloggi þangað til annað kemur í ljós.
Margt hefur á daga mína drifið en þá aðallega súrir hlutir. Laugardagskvöldið er gott dæmi um það. Byrjaði kvöldið á því að fá mér nokkra vel valda bjóra og síðan skutlaði familían mér á Nesið. Systir mín var svolítið hrædd við mig því ég knúsaði hana óvenju mikið á leiðinni og mamma gaf mér illt auga í baksýnisspegilinn. Samkundan á Nesinu var hin ágætasta og átti ég hin ágætustu spjöll við hið ágætasta fólk. Fór svo niður í bæ. Þetta kvöld ætti líka að kenna mér að þiggja ekki far hjá ókunnugum karlmönnum á sportbíl. Ef ég hefði þurft að pissa á þeim tímapunkti, hefði ég gert það í bílsætið. Svo vaknaði ég um kaffileytið með blóðnasir eins og síðastliðna þrjá morgna. Held að blóðið sé nú að fara út um vitlaust gat. Setti svo kaffi ofan í núðlurnar mínar í skólanum. Samt stóð Vatn á könnunni. Það var því ekkert borðað þann skóladag. Allt morandi út í sinfóæfingum, eiginlega bara allskyns æfingum. Líka magaæfingum. Það versta er að ég hef eiginlega engan tíma til að fara í bað þannig að nefviðkvæmir eru hér með beðnir afsökunar á fnyknum. Þessu verður ef til vill reddað um helgina. Örvæntið ei góða fólk, ég mun snúa aftur með blómalykt í haga.
Birt af Særún kl. 11:54 0 tuðituðituð
föstudagur, janúar 14, 2005
Líf mitt er ekki búið eftir allt saman
því pabbi náði að laga sléttujárnið mitt. Og ég sem hélt að nú væri þetta búið, ég með mitt stjórnlausa hár. Það er gott að eiga handlaginn föður, föður sem er rafvirki og síðast en ekki síst rafvirkjaMEISTARI!
Og meðan ég man. Minn bekkur vann ræðukeppnina með ca. 160 stigum. Ofbeldi rúlar!
Birt af Særún kl. 18:27 0 tuðituðituð
fimmtudagur, janúar 13, 2005
Leikur mánaðarins
er leikur sem ég bjó til í skólanum í dag fyrir einskæra tilviljun. Ég var að borða skyr og til að vera nákvæm þá var það vanilluskyr frá KEA. Besta skyrið. Fann 2 blýbrot á borðinu mínu ca. 8 mm að lengd og setti þau í holuna á skyrdollulokinu þar sem skeiðin á að vera. Vitanlega var skeiðin ekki í holunni því ég var búin að borða skyrið með skeiðinni. Fór svo að pota í brotin því það var íslenska og ég hafði ekkert annað gáfulegt að gera. Tók eftir því að blýbrotin virkuðu svipað eins og segull því ef ég beindi öðru blýbrotinu að hinu, þá skaust það í burtu. Teiknaði því 2 rauð mörk í sitthvora enda holunnar og teiga, einnig dómara til að hafa allt löglegt og svo áhorfendur á lokið. Leikurinn fer þannig fram að þátttakendur eru tveir og er markmikið að koma blýbroti í óvinamarkið og á meðan koma í veg fyrir að andstæðingurinn komi broti í þeirra mark. Engu máli skiptir með hvaða blýbroti þeir skora. Svo er "spilað" og eftir mínútu eru stigin tekin saman og þá er kominn sigurvegari! Leikurinn virkar einfaldur en svo er ekki eins og undirrituð komst að eftir miklir pælingar og margar tilraunir. Þá er bara að taka fram skyrdósina og hefja leikinn. Krakkarnir í Afríku yrðu alveg örugglega glaðir ef þeir myndu fá skyr og geta svo leikið sér með dolluna. Tvær flugur í einu höggi.
Birt af Særún kl. 20:07 0 tuðituðituð
miðvikudagur, janúar 12, 2005
Ræðukeppninni frestað fram á föstudaginn. Djö. Og þið sem bíðið ennþá niðrí Cösu megið alveg fara heim í sturtu á milli.
Lærði nýtt orð í gær: fröllur. Það þýðir franskar. Núna ætla ég alltaf að nota þetta orð. En ætli það sé þá ein fralla, margar fröllur? ,,Ég ætla að fá hamborgaratilboð. Eru ekki örugglega fröllur með?" Jú þetta svínvirkar.
Ég er í sinfóníuhljómsveit. Mér líður nú hálfkjánalega á þessum æfingum því ég hef sofið hjá helmingnum af brassinu. Haha. En ekki hjá honum Halldóri sem er 12 ára. Það eru nokkur ár í það. Ég sit hliðina á sænskri stelpu sem er skiptinemi. Er að pæla við segja við hana að fötin hennar lúkki rosa vel ég svefnherbergisgólfinu mínu. Það er það eina sem ég get sagt á sænsku. Held samt að ég geymi það þangað til seinna. Hún má ekki strax halda að ég sé gaukshreiður. Kúgú!
Birt af Særún kl. 16:12 0 tuðituðituð
mánudagur, janúar 10, 2005
El tampón
Ræðukeppni á miðvikudaginn. Mitt lið mun keppa við 4. bekkjarlið. Ég sagði í fyrra að ég ætlaði aldrei aftur að taka þátt í ræðukeppni og er ég eiginlega að standa við það því ég er liðstjóri og liðstjóri þarf voðalítið að tala. Liðstjóraræðan mín er kreisí ef ég á að segja eins og er og ég segi alltaf eins og er. Komin með fullt af svörum eins og t.d.: "Ef ég væri með typpi, myndi ég kokkslappa þig á ennið því að..." Svo á eftir að klára svarið. Umræðuefnið er Ofbeldi (þó ekki kynferðislegt) og erum við með. Það er alltaf gaman að vera með vonda kallinum. Svona eins og hýenurnar í Lion King sem héngu utan í Múfasa sí og æ. Bara allir að mæta í Cösu á miðvikudaginn kl. 3 og verða dáleiddir af mætti ofbeldisins.
Birt af Særún kl. 19:13 0 tuðituðituð
fimmtudagur, janúar 06, 2005
Kvef
hrjáir mig og ef það væri hægt að deyja úr kvefi (sem er kannski hægt) þá væri ég dáin. Nú get ég ekki sofnað út af hugsunum, heldur út af kvefi. Svo tala ég líka eins og afi minn af einhverjum ástæðum. En kvef er líka gleðigjafi. Áðan var ég að snýta mér í svona sjötta skiptið í dag og mér var litið í snýtubréfið. Það gera það allir, kommon. Og við mér blasti stórt horfiðrildi sem hafði myndast í snýtubréfinu. Ó hvað það var fullkomið og fallegt. Hélt hreinlega að það myndi fljúga í burtu. En það er ennþá fast í bréfinu sem ég ætla að hengja upp í skólastofunni minni á næstu dögum svo að aðrir geti litið dýrgripinn augum. Hor er svo sannarlega gleðigjafi, sérstaklega ef það er í fiðrildalíki.
Birt af Særún kl. 15:40 0 tuðituðituð
miðvikudagur, janúar 05, 2005
Merkisdagur
Opnaði hólf á skólatöskunni minni sem ég kýs að kalla nestishólf. Á móti mér kom þessi svakalegi fnykur. Tók upp glæran plastpoka með framandi innihaldi. Það var mjúkt, svart með doppum. Svo rann það upp fyrir mér: þetta var epli sem var búið að vera í töskunni síðan í nóvember. Ég er viss um að einhver brjálaði vísindamaðurinn hefði borgað morðfjár fyrir að fá að skoða þennan grip. En hann þarf þá að grafa í ruslinu.
Keypti mér súkkulaðibitaköku í tilefni þess að jólin eru að verða búin og eftir þau verð ég að hætta þessum bakaríisferðum. En jæja, tók vænan slurk af köku og beit svo í eitthvað hart. Tók aðskotahlutinn út úr mér. Sesamfræ. Sesamfræjakaka. Virkar ekki spennandi og er það heldur ekki.
Birt af Særún kl. 18:35 0 tuðituðituð
mánudagur, janúar 03, 2005
Hugsjónadruslan
Það er ég. Nei haha, það er bók sem ég las í einum rikk í nótt. Það er af því að ég er alltaf andvaka. Hélt alltaf að gæti ekki sofnað og fór þá bara að hugsa rosalega mikið um allan fjandann svo að ég gæti kannski sofnað. Fattaði það eiginlega í nótt að ástæðan fyrir því að ég get ekki sofnað er að ég hugsa svo mikið. Hversu súrt er það? En í nótt las ég heila bók og samdi nokkurnveginn íslenskan texta við uppáhaldslagið mitt þessa dagana. Ojá börnin góð. Ég og Guðný erum að fara að taka þátt í söngvakeppninni. Annað árið í röð. Og í þetta skiptið ætla ég að vinna. Þótt ég kunni ekkert að syngja. Lengur. Kunni það einu sinni þegar ég var í kór. En svo hætti ég og þá bara kunni ég ekki lengur að syngja. Röddin mín dýpkaði bara ef það er eitthvað. En í þetta skiptið ætlum við ekki að rappa, heldur að rokka. Feitt. Samt spurning hvort ég komist á keppnina sjálfa. Ég verð svo upptekin í janúar. Brjálaðar æfingar með Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna. Brjálaður skítur.
Birt af Særún kl. 15:55 0 tuðituðituð
laugardagur, janúar 01, 2005
Kvöld gamla ársins
Í stuttu máli:
- fór í teiti til Sóleyjar og drakk af mér rassgatið. Freyðivínsflöskunni minni var stolið og ég fékk bara slef en það var gott slef.
- MS gaur sem ég skutlaði heim um daginn hringdi. Við stelpurnar hittum hann og vin hans og fórum niður í bæ. Allt í einu var ég ein með stráknum og bara allir horfnir.
- Nújæja. Fórum á Nelly's. Ekki spyrja af hverju. Þegar ég var að laga skóinn minn var togið í pjötlubuxurnar mínar upp á bak. Ástæða: þær voru bara þarna. Ég sneri mér við og við mér blasti frændi minn sem ég hef ekki séð í mörg ár. Frábært! Ég hef séð annan frænda minn á typpalingnum og núna hefur annar frændi brókað mig með það í huga að fá eitthvað út úr því. Þannig að þetta voru gleðifundir!
- MS gaurinn var glaður. Mjög glaður. Eiginlega bara alltof glaður þannig að ég losaði mig bara við hann. Á sérstaka vini sem sjá um það fyrir mig sko. Fann aftur Oddnýju, skonsuna mína og við fórum til systur hennar þar sem ég sofnaði hálfnakin í litlum sófa. Þá var klukkan 7.
- Vaknaði kl. 1 í sófanum, hissa á því að vera buxnalaus. Brummaði heim og horfði á Skaupið til að reyna að fatta suma brandarana. Er svo núna að fara í eitthvað innflutningsstaffapartí. Vúhú!
Í heildina litið var þetta bara ágætis kvöld. Betra en það síðasta.
Birt af Særún kl. 22:15 0 tuðituðituð