Heimilistækjaógöngur
Ég var um daginn að rifja upp slæmar minningar mínar þar sem heimilistæki koma við sögu. Ætli það sé ekki best að rita þær hér.
- Ætli ég hafi ekki verið í 8. bekk þegar afar byltingarkennt heimilistæki kom inn á heimilið: samlokugrill. Það voru því grillaðar samlokur með miklum osti á hverjum degi hjá mér. Einu sinni ætlaði ég að fá mér samloku eins og ég gerði alla aðra daga, þegar að stórslys átti sér stað. Samlokan var í grillinu og ég fann brunalykt. Gekk hægum skrefum að grillinu og búmm. Grillið sprakk. Það var af því að ég hafði klemmt snúruna með samlokunni. En það var allt í lagi með grillið OG snúruna. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með teipi. En það er ekki hægt að laga litla viðkvæma hjartað mitt með teipi því aldrei á ævinni hefur mér brugðið svo mikið.
- Þessi saga gerðist núna um daginn. Ég var að fá mér ristað brauð í flýti. Beið eftir brauðinu og fann brunalykt. Ætti nú að þekkja brunalykt eftir síðustu brauðsögu. Uppúr brauðristinni kom reykur og ég leit í ,,gatið." Þá hafði ég ýtt á takkann sem klemmir grindurnar saman, áður en ég setti brauðið í og brauðið var því að brenna á perunum. Brauðristin náði ekki að hrista þessar ógöngur af sér og því endaði hún líf sitt á ruslahaugunum.
- Þessi saga gerðist líka um daginn. Í sumar var keyptur blandari því ég og móðir mín fengum þá hugdettu að lifa á skyrbústi. Í eitt skiptið týndist litla lokið ofan á blandarann þannig að ég ákvað bara að halda fyrir með höndunum. Ég gerði það en svo hringdi síminn. Ég svaraði símanum og fattaði svo að ég var hætt að halda fyrir gatið. Leit við og þá voru bananabitar og klakar fljúgandu útum allt eldhús. Ég var lengi að þrífa þetta.
Þið sjáið að það lítur út fyrir að heimilistækin muni ráða yfir heiminum eftir nokkur ár og er þetta aðeins byrjunin. Verum því með opin augu, notum heimilistæki í hófi og verum alltaf með eldvarnarteppi við hönd.
mánudagur, janúar 31, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli