Hörð í horn að taka
Ég er klaufabárður, þó ekki af Guðs náð. Það var föstudagskvöld. Lokaæfing fyrir tónleika Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna í Langholtskirkju. Ég hélt á hljóðfærinu mínu sem er gert úr málmi og ætlaði að setja það í hljóðfærakassann því æfingin var á enda komin. BÚMM! KRSST! Ég klessti á millivegg. Ég lít á ca. 200.000 króna hljóðfærið og sé að það er beyglað. Og það ekkert smá beyglað. Fékk sjokk. Sá fyrir mér viðgerðarreikning upp á 50.000 kr, peninga fjúka. En þó er alltaf gott að líta á björtu hliðarnar:
- ég á ekki hljóðfærið, heldur tónlistarskólinn. Hjúkket.
- beyglan er bara helvíti flott. Ég var meira að segja öfunduð af samspilurum mínum.
- núna hef ég góða sögu að segja í partýum. Það eru ekki allir sem geta sagt að þeir hafi klesst á vegg með hljóðfæri í hönd. Onei. Ó þetta verður svo góð saga að segja frá.
Tónleikarnir tókust með ágætum og var Stravinsky hrisst fram úr erminni eins og ekkert væri. Flatbökur voru torgaðar. Eftir-tónleika-teiti um kvöldið. Talaði þar við montinn básúnuleikara sem sagði að orðið trombone væri latína. Heimski maður. Vitaskuld mótmælti ég þessu og sagðist læra latínu þannig að ég ætti að vita betur. Upp á hann kom fát og hann sagði mér að halda áfram að læra latínu. Ég sagðist ætla að gera það. Hann þagði.
Síðustu daga hef ég staðið í stórframkvæmdum. Ég er nefnilega að sauma mér kjól fyrir árshátíðina. Það hefur ekki verið auðvelt. En núna er ég búin að klára kjólinn og er ánægð sem þrusa með afraksturinn. Hann er rauður. Úúú. Hann er ögrandi. Úúú. Hann er sexý. Úúú. Hann er kjóll. Úúú. Nei ég er sko engin ugla.
sunnudagur, janúar 30, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli