föstudagur, desember 31, 2004

Árið er liðið í aldanna skaut

og aldrei það kemur til baka, nema kannski í myndinni Back to the future. Þetta er búið að vera gott ár, þá sérstaklega námslega séð en ástarmálalega séð þá var þetta slæmt ár. En hver getur ekki lifað án ástar? Ef það er einhver þá er það ég. Vinalega séð var þetta mjög gott ár á köflum. Missti og eignaðist vini en eignaðist þó fleiri sem hafa gengið með mér í gegnum súra og sæta sósu. Og súkkulaðisósu líka. Þetta var ár gleði og kætis og er það eitthvað sem ég mun alltaf muna eftir. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið jafn dugleg og á þessu ári. Þetta er ekkert mont ónei, heldur bara pjúra sannleiki. Ég hef líka aldrei drukkið jafn mikið strumpagos og á þessu ári. Það var ekki ein strumpagoslaus helgi í sumar sem er alveg rosalegt. Það er kannski ástæðan fyrir þessari bumbu minni sem hefur myndast hægt og bítandi. Kannski bara. En ég vil þakka öllum sem ég þekki fyrir þetta góða ár og vonandi verður hið nýja ennþá betra. Og meira strumpagos!

miðvikudagur, desember 29, 2004

Kona

Einkennisorð mín þessa dagana eru: Girl, you'll be a woman soon, en það er einmitt lag sungið af Neil Daimond og seinna af Urge Overkill, eða öfugt. Hvort kom hænan eða eggið fyrst? Enginn veit fyrir víst. Ástæðan fyrir því er óviss. Ég bara finn þetta á mér. Eggjastokkarnir eru svo þroskaðir eitthvað og kvenhormónið fyllir vit mín af vitund um kvenleika minn. Ég hef alltaf verið mjög óánægð með að hafa stórar mjaðmir þangað til núna en það hefur vitaskuld sína kosti að vera stórmjaðma. Ég er kvenlegri í vexti fyrir vikið og svo get ég borið margan krakkann undir belti án þess að afskræmast líkamlega eftir á. Þannig að ég bíð bara eftir að ég verði kona að fullu og þegar það móment kemur, þá veit ég það. Ég held að það sé svipað því að stór bomba bombist inn í leginu og svo fari maður á megatúr eða eitthvað svoleiðis álíka. En ég bíð spennt og læt ykkur vita þegar það gerist.

Ath. Ég er laus á Gamlárskvöld ef einhver vill fá trúð í partíið sitt.

þriðjudagur, desember 28, 2004

Það er súrt

að horfa á klámmynd með 6 strákum. Það er einnig súrt að horfa á Ken Park með 6 strákum. Það er líka súrt að það er ekki tebó í kvöld með 6 strákum. Súrt.

mánudagur, desember 27, 2004

laugardagur, desember 25, 2004

Jól í bæ

Hátíðirnar hafa verið góðar. Betri en í fyrra. ,,Smá" upptalning:

Þorláksmessukvöld var stuð. Ég ásamt nokkrum krökkum úr tónó skelltum okkur niður í bæ með hljóðfæri og læti og spiluðum fyrir mannmergðina. Það var skítakuldi þótt að ég viti ekki hvort að skítur sé kaldur eða ekki. Langar bara ekki að vita það. Hrafn Gunnlaugsson var dyggur aðdáandi okkar. Til gamans má geta að ég hef komið í bústaðinn hans sem brann fyrir skömmu. Gaman að því. Svo fengum við kakó og allir fóru heim.

Aðfangadagur byrjaði með uppvakningu í gegnum fartól. Ég var boðuð á bjöllukórsæfingu þótt ég hafi aldrei áður spilað á bjöllu. Staulaðist niður í tónó og fékk hvíta hanska. Svo fór ég í gjafaleiðangur. Hann var nú bara eins og alltaf: pabbi fær kaffi og koníak og verður hálfvaltur. Ákvað að nýta mér valtleika hans þegar hann var að dást að fullu tungli. Ég sagði honum að það væri ekkert tungl þarna, hann væri bara að ímynda sér það. Og hann trúði mér. Spurning hvenær ég ætla að segja honum sannleikann. Á leiðinni heim urðum við vitni að þriggja bíla árekstri. Aumingja þau. Þegar heim var komið var komið að jólabaðinu. Fór svo í sparifötin og tveir fráskildir frændur mínir komu í mat. Hann var góður. Sem sagt maturinn. Svo voru pakkarnir opnaðir. Ég fékk margt og mikið. 3 geisladiska og á meðal þeirra var Pottþétt 36 sem ég ætla pottþétt 36 að skila. Ögrandi náttföt. Takk fyrir þau Oddný mín. Önnur náttföt en í þetta skiptið var það afar efnislítill náttkjóll. Hann var frá einum af fráskildu frændum mínum og sagðist hann hafa fengið hjálp við að velja hann. Ég spurði hvort það hefði verið vændiskona sem hjálpaði honum og ég fékk olnbogaskot frá mömmu. En frændi fór bara að hlæja. Við höfum nefnilega svo svipaðan húmor. Frændi er mikill brandarakall og er oft að leika sér í Kína en enginn veit hvað hann er að gera þar. Hann sýndi mér myndir af öllum konunum sem voru alltaf að elta hann þar af því að þær héldu að hann væri milljóner. Hann er það samt ekki. En ég skal halda áfram með gjafirnar. Fékk vettlinga frá hundinum mínum sem hann er búinn að vera heilt ár að prjóna. Hann er hæfileikaríkur hann Sókrates. Fékk einnig bók um dauðan hund. Takk fyrir hana Guðný. Vonandi ertu ekki að gefa það í skyn að þú ætlir að drepa minn hund með garðgaffli. Nenni ekki að telja upp fleiri pakka. Systir mín fékk déskotans hljómborð sem ég ráðlagði foreldrum mínum að kaupa ekki. Það verður ekki stundarfriður á heimilinu það sem eftir er. Talandi um stundarfrið. Ég samdi einu sinni lag sem heitir Stundarfriður þegar ég var 11 ára af því að það var eitthvað sem ekki var á heimilinu. Sendi lagið í keppni en vann ekki. Bömmer. En svo var það eftirrétturinn. Einn fráskildi frændi minn er afar þykkvaxinn og rak afturendann í borðstofuskápinn og upp á skápnum er vínrekki með 8 vínflöskum sem pabbi heldur mikið upp á. Skápurinn byrjaði að vagga og svo búmm. Vínrekkinn plús flöskurnar smölluðust í gólfið og timburgólfið var rauðvínslegið. Þá var byrjað að þrífa í 4. skiptið í þessari viku en rauðvínið fór á hæðina fyrir neðan og í gegnum loftið á tilvonandi herbergi mínu. Ég verð því með rauðvínsloft. Nammi namm. En pabbi fór ekki að gráta eins og yfir dýralífsmyndinni, sem betur fer. Þoli það ekki þegar að fólk grætur á jólunum. En svo var komið að jólakortalesningu. Við höfum alltaf lesið kortin bara strax og þau koma inn um lúguna en ég heimtaði að nú yrðu þau opnuð á aðfangadagskvöldi eins og allir aðrir gera. Fékk sjálf 6 kort, fimm kortum fleiri en í fyrra. Las svo smá í bókinni um dauða hundinn. Steinrotaðist.

Vaknaði kl. 9 í morgun af því að bjöllukórinn var að fara að spila. Það gekk bara vel. Dagurinn fór svo bara í fugl. Nei rugl. Horfði á Harry Potter 3 sem ég gaf örverpinu í jólagjöf. Svo er jólaboð núna with hanged meat, some red cabbage and up-stubby. Afi komst að því hver er versta uppfinning allra tíma: ilmkerti. Veit ekki hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu. Núna er ég bara að láta mér leiðast og bora í nefið. Neih, þarna er páskaunginn sem ég var að leita að! Ái hann er fastur. Með páskaunga fastan í nefinu óska ég ykkur gleiðra jóla og afsaka ef ég sendi ykkur ekki jólakort. Fann ekki símaskrána.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Mér tókst það!

Eftir tveggja mánaða langan ökuskírteinistíma tókst mér það loksins. Ég skemmdi bílinn minn. Þannig er mál með vexti að ég vinn í miðbæ Reykjavíkur og miðbænum hefur alltaf fylgt bílastæðavandamál. Eini staðurinn þar sem ég get lagt er inni í þröngasta bílastæðahúsi suðvestan Alpafjalla sem er staðsett undir Hereford. Allir veggir eru málaðir gulir. Gaman að því. Ég hef aldrei verið sérstaklega góð í því að leggja og hefur það hrjáð mig mikið en alltaf hef ég getað reddað mér. Nema í gær. Ég renndi náttfataljósbláa bílnum okkar inn í stæði með gulan vegg og gula súlu á sitthvorri hliðinni og byrjaði á því að misreikna mig aðeins og keyrði á gula vegginn. Þá var bara að bakka út og þá skrapaðist önnur hliðin utan í gula súlu. Gula súlu. Ég fór út, sá rispuna og langaði mest að grenja. Fór í vinnuna, var utan við mig allan tímann og var send heim. Fór heim, sagði mömmu og pabba, allir sáttir. Jíha! En fall er fararheill.

Áðan fór ég í klippingu, kl. 9. Það var erfitt. Kallinn sem klippti mig var samt ekki hommi, skrýtið. Fyrst fór ég á vitlausa hárgreiðslustofu því að enginn sagði mér að stofan væri búin að sameinast annarri stofu og væri við Dómkirkjuna. Kúkar. Jæja, ég kom seint og kallinn byrjaði að klippa. Páll Óskar var í aflitun hliðina á mér. Svo sagði hann: ,,Hefur þú aldrei pælt í því að gerast augnmódel? Þú veist, fyrir gleraugu og svona." Ég varð furðulostin og vitaskuld neitaði ég því því að ég vissi ekki einu sinni að það væru til sérstök augnmódel. Þá sagði hann: ,,Þú ert bara með svo falleg augu." Og aldrei hef ég roðnað svona mikið. Kannski er þetta einhver ný pikköpp lína og vá, hún er sniðug. Ég ætla að nota hana einhvern tímann bara af því að hún er svo léleg.

Í dag er Þorlákur eins og hann er kallaður. Voða margir segja Þodlákur. Ef ég myndi heita Þorlákur þá yrði ég ekki sátt með að vera kölluð Þodlákur. En sem betur fer heiti ég ekki Þorlákur eða Þodlákur. Þorlákur Ósk Pálmadóttir. Hljómar asnalega.

miðvikudagur, desember 22, 2004

Bland í poka

Niðurstöður úr könnun jóla eru komnar í hús. Fólk er almennt sammála mér um að það eigi að vera jólatrjáasala. Nú er ég ánægð. Þess vegna ætla ég að starta smá kyndilför um höfuðborgarsvæðið og annaðhvort brenna öll jólatrésala- og jólatréssalaskilti eða krota yfir jólatrésala og jólatréssala og setja jólatrjáasala í staðinn. Umsóknareyðublöð fást í Smáralind undir rúllustiganum í Debenhams.

Einkunnir eru einnig komnar í hús. Fékk 10 í stærðfræði! Og í skólasókn reyndar líka. 9 í spænsku. 8 í íslensku eftir að hafa lesið Njálu deginum áður. Svo bara áttur og sjöur. Fékk svo rosalega lélega einkunn í leikfimi sem ég vissi ekki að væri hægt að fá í því fagi en ég tek hana bara ekkert með af því að það er ekki bóklegt fag. Og hana nú!

Fór í jólagjafaleiðangur áðan. Keypti Valtýr prumpuhund á alla línuna. Jæja, þá er ég búin að eyðileggja spennuna fyrir nokkrum.

Vá hvað það skulda mér margir pening og bjór. Það er svolítið óþægileg tilfinning af því að samkvæmt mínum útreikningum er þetta 5200 krónur og ein kippa af Thule. Farið svo að borga mér krakkafífl því að ég er ekki búin til úr peningum. Jólaandinn svífur hreinlega yfir mér.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Könnun jóla

Jóla

a) tréssala
b) trésala
c) trjáasala

sunnudagur, desember 19, 2004

Súra kvöld

indíd. Byrjaði með vinnu. Mikið að gera, mikið af fólki kom sem ég þekkti og fólk sem ég vildi ekki þekkja en gerði það samt. Missti flösku en hún brotnaði. Ekki. Haha. Blés svo fast á kerti að ég fékk vax framan í mig. Ái það var vont. Afgreiddi mann frá Finnlandi sem hét Bösse. Haha, þá fór ég að hlæja. Afgreiddi líka mann úr Vesturbænum sem hét Kristinn. Haha, þá fór ég að hlæja. Eftir vinnu kíkti fólkið á Svarta kaffi. Allir átu kjöt og þeir drukku öl og þeir skemmtu sér mjög vel. Nema ég af því að ég var bílandi. Á Laugarveginum var margt um manninn. Ég og fulla samferðakona mín pikkuðum upp blindfulla frænku mína og enn fyllri vinkonu hennar og skutluðum þeim á Devitos. Hún kom með rosalega góða línu: ,,Ég er ekki þú og þú ert ekki ég" Fréttir! Haha. Fulla samferðakona mín tók upp á því að tala við alla stráka sem á vegi okkar urðu. Hún gekk í eitt skipti svo langt að gefa unglömbum úr MS númerið sitt svo að þeir gætu hringt þegar við áttum að skutla þeim heim. Nóvei Hósei! Fengum okkur svo pölsu á Aktu taktu. Fórum annan Laugarveg. Keyrðum framhjá Rex og öskruðum á fólkið þar: Rex pex! Fólkið tók vel í það. Á leiðinni heim hringdu svo greyið MS-ingarnir og af því að ég hef gott og stabílt hjarta þá gat ég ekki annað en skutlað kjánunum heim. Svo komst ég að því að þeir eru bara allir að fara til Mexíkó eins og ég. Lítll heimur. Þeir voru 4 aftur í og viti menn, við mættum löggunni. En sá minnsti var ekki lengi að kúra sig ofan í klof vinar síns þannig að ég slapp við sektina í það skiptið. Komst að því að það að skutla heim er ágætt pikköpp lína því að ég held að þeir allir séu með númerið mitt. hoho. Fékk svo sms þegar ég kom heim eftir læti móður minnar yfir seinkomu minni. ,,Við skuldum þér far. Þú ert live-saver" Ég svaraði til baka: ,,Haha, ég á heima í Hafnarfirði þannig að ég mun pottþétt nýta mér farið. Svo er Live-saver nammi."
Súra kvöld, ójá.

Þarna sjáið þið hvað það væri leiðinlegt ef allar færslur væru um mitt daglega líf. Seiseijú.

föstudagur, desember 17, 2004

Tímamót

Um daginn gerði ég það sem ég hef ætlað að gera í langan tíma, ég horfði á Pulp Fiction í fyrsta skipti á ævinni. Margir hafa hneykslast á Pulp Fiction-leysi mínu enda er það skiljanlegt, myndin er nú 10 ára gömul. Ég og góðvinur minn sem hafði ekki heldur séð myndina, skelltum okkur fyrir framan imbann og horfðum á subbulegu dýrðina í allri sinni mynd. Það versta var að myndin var með dönskum texta sem truflaði afar mikið, aðallega sökum lélegra þýðinga. Hér komu nokkur dæmi:

My man = Fars niggerson
Fuck off = Fis af
The show must go on = Showen kontinuer

Svo nennti ég ekki að pæla í þessu lengur. En þetta var góð mynd og merkilegt að margir af leikurunum í myndinni leika í framhaldi myndarinnar Get Shorty, sem hefur fengið nafnið Be Cool. Merkilegt. Núna á ég bara eftir að horfa á The Big Lebowski, Grease, Jaws og Rambo.

Uppáhalssetningin mín: Zed is dead

fimmtudagur, desember 16, 2004

Ég er frjáls

Prófin búin. Trallala.

Ég hef verið andvaka núna í mánuð, þá aðallega á nóttunni. Þá hef ég fengið tíma til að hugsa. Hef til dæmis samið marga texta við þekkt lög. Þetta samdi ég fyrir íslenskuprófið:

Lag: Ég er frjáls

Synir Njáls
Synir NJáls
Drápu fósturson
Sváfu lon og don
Synir Njáls

Svo sofnaði ég loksins og á eftir að klára lagið.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Misskilningur ársins

Ég hef misskilið orðið tojtoj í þónokkuð langan tíma. Samt er þetta eiginlega ekki orð en ég misskildi það samt. Þannig er mál með vexti, að ég hélt alltaf að þetta væri svona ,,montorð", sem sagt að það væri notað þegar að fólk væri að monta sig og myndi setja upp svona grobbsvip og segja svo ,,Tojtoj!" En á laugardaginn fyrir kammersveitartónleika, skildi ég ekkert í því af hverju í ösköpunum fólk var að öskra tojtoj sín á milli. Þetta var nú kannski ekki beint tíminn til að vera að monta sig. En svo prófaði ég að leggja saman tvo og tvo: tónleikar, fólk að fara að spila, þeim á að ganga vel. Þá þýðir tojtoj það sama og gangi þér vel! Ég er svo mikill illi, hef verið segja þetta við fólk sem verður mér á vegi en svo bara... hef ég ekkert vitað hvað ég var að segja. Svona er bara lífið, eitt tojtoj.

sunnudagur, desember 12, 2004

Teiti

Í gær var haldið teiti á heimili mínu. Tilefnið var fimmtugs afmæli bróður hans pabba en hann er einstæður, á litla blokkaríbúð og fékk því að halda upp á herlegheitin heima hjá okkur. Keypt var bús fyrir 80.000 pjéninga og fullt af mat fyrir ennþá meiri pjéninga. Teitið samanstóð af fólki í kringum fimmtugt, mér og tvítugri frænku minni. Planið var nú að drekka ekki fyrst að ég er í prófum og svona en vitaskuld fór það um þúfur því að ég var alveg á geitinni. Sveinsína, áttræð frænka mín, þurfti endilega að fara að spurja mig um framtíðina en sökum Bakkusar kom ég engu gáfulegu út út mér. Pabbi var hress eins og alltaf. Sagði rosalega oft við mig: ,,Ertu sátt? Ef þú ert sátt við mig, þá er ég sátt við þig. Nei sáttur." Svo bað hann mig um að kenna sér að heilsast eins og rapparar gera. Hann sýndi mér hvernig hann myndi gera það og það var frekar önkúl. Rann svo allsvakalega úti í garði en það var reykingarstaðurinn og rann beint í alla öskuna. Og auðvitað þurfti ég að vera í hvítu pilsi og síðast þegar ég var í þessu pilsi á árshátíð hér um árið, settist ég í munntóbaksskirp. Þetta er því svo sannarlega óhappapils. Svo kom frændi minn með nýju fótboltakærustuna sína sem var í versló. Og auðvitað lét ég hana vita að ég væri í MR og spurði hvort við ættum ekki að fara í bidsfæt. Hún tók vel í það og veltumst við um gólf í nokkurn tíma. Svo fór allt fólkið í yngri kantinum og kl. 12 sofnaði ég í öllum fötunum í sófanum. Það varð rosalega mikið eftir af áfengi og frændi asnaðist til að kaupa 2 kassa af Breezer. Það var voðalítið drukkið af því þannig að hann gaf mér það sem var eftir: 12 flöskur. Það verður því feitt Breezer fyllerí á næstunni þótt að ég sé ekki sátt við þennan drykk. En það má með sanni segja að þetta var afar athyglisvert kvöld. Ég bara get ekki sagt annað.

föstudagur, desember 10, 2004

Tvífarar mánaðarins


Zorin úr Bond-myndinni A View To Kill


Forseti vor Ólafur Ragnar Grímsson

fimmtudagur, desember 09, 2004

Undur og stórmerki

Ég fékk bílinn í morgun til að fara í málvísindapróf. Það verður í fyrsta og síðasta skipti sem það gerist. En ég naut þess líka í þetta eina skiptið. Það er svo svalt að fara á bíl í skólann, sérstaklega þegar bíllinn inniheldur jólaseríur. Prófið gekk á afturfótunum. Ef mér hefði gengið vel, þá hefði prófið gengið á framfótunum. En svo var ekki. Hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja það að í máli sem er náskylt íslensku geti hestur þýtt kýr og kýr þýtt hestur? Og að hestar bauli og kýr hneggi? Það svar vil ég fá í jólagjöf.
Ekkert er betra en að setjast niður eftir svona hrakfallapróf og rita í nokkur jólakort. Þau voru ekkert nokkur, heldur 15. Og ekkert kort er eins og já, bara bull. En þau eru skemmtilegust. Ég fór samt ekki svo langt að semja 6 erinda ljóð fyrir tvær vinkonur mínar eins og ég gerði í fyrra.

Ég hef átt rosalega erfitt með svefn upp á síðkastið. Annaðhvort dotta ég yfir bókum oft á dag eða get einfaldlega ekki með nokkru móti sofnað. Í gærkvöldi fór ég til dæmis í háttinn kl. 12 en gat ekki sofnað. Prófaði allt: að telja kindur, búa til runur þar sem ég byrja á einu orði og finn annað orð sem tengist því fyrsta og koll af kolli þangað til að ég enda aftur á upphafsorðinu. Þetta gerði ég 3 sinnum en ekkert gekk. Ég prófaði líka að hlusta á jólastöðina í von um að lenda á hugljúfu jólalagi sem myndi syngja mig í svefn. En allt kom fyrir ekki því að annað hvert lag var með Helgu Möller eða Andreu Gylfa. Lenti eiginlega bara á öllum verstu jólalögunum: Little Drummerboy með Siggu Beinu en þar er búið að setja lagið í poppbúning og inn á milli kemur salsasóló og ofan í það gítarsóló. Svo líka júróvisjónlag með einhverjum ítala sem var gert að jólalagi og kall í Skítamóral syngur. Líka Morning Has Broken í jólabúningi. Ullabjakk segi ég bara. En eftir 3 tíma sofnaði ég loksins og 2 tímum seinna vaknaði ég til að læra. Ég er dugnaðargaffall.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Líffræðigrín í smáauglýsingaformi

í tilefni þess að ég var í líffræðipófi í dag.

-Athugið athugið! Prólaktín óskast sem fyrst!

-Ertu orðin/n leið/ur á því að fara alltaf til Kanaríeyja um jólin? Skelltu þér þá til Langerhanseyja! Upplýsingar á www.bris.is

þriðjudagur, desember 07, 2004

Dýralífsmyndir

Það er eitthvað sem ég hef ekki haft mikinn áhuga á fyrr en nú. Þannig er mál með vexti að pabbi er afar mikill áhugamaður um dýr og á örugglega flest alla þættina hans David Attinborough. Hann horfir líka rosalega mikið á Animal Planet og hann vill endilega að við hin í fjölskyldunni sameinumst honum um þetta áhugamál. Til að gera honum til geðs, tók ég mér smá frí frá lærdómnum og skellti mér fyrir framan imbann. Á dagskrá var heimildarmynd um ljón, allt í lagi með það. En þetta var bara alveg rosalega merkileg mynd. Hún fjallaði um ljónynju sem hafði nýlega misst afkvæmi sitt. Á vegi hennar varð antilópukálfur sem hafði misst móður sína og venjulega hefði ljónynjan gripið gæsina og fengið sér einn kálf en nei, ljónynjan tók hann að sér og var honum sem móðir. Hún meira að segja svelti sig í hálfan mánuð svo hún gæti passað hann. Þetta fannst pabba svo merkilegt og fallegt að hann fór næstum því að gráta, allavega felldi hann tár. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem að ég hef séð faðir minn gráta þannig að þetta var stór stund í lífi mínu. En svo versnaði það. Ljónynjan leit af antilópukálfinum í nokkrar sekúndur og þá kom ljón og tók kálfinn. Í kálfinum heyrðust mikil sársaukahljóð og ljónynjan horfði á á meðan ljónið át hann. Hún gat auðvitað ekki gert neitt því að þá yrði hún líka étin.
Þetta virðist kannski ekki vera merkilegt þegar um þetta er lesið en ef þið mynduð sjá þetta með eigin augum, þá væruð þið eflaust sammála mér. En ég hef skipt um skoðun hvað varðar dýralífsmyndir. Þær enda oftast með blóðúthellingum en inn á milli er mikil ást. Mikil ást.

sunnudagur, desember 05, 2004

Tík!

Það er rosalega góð og kitlandi tilfinning að vera álitin tík af annarri tík. Svo ég best viti, þá hef ég aldrei verið álitin tík fyrr en nú og það gerir þetta svo spennandi. Mér finnst tíkin líka vera algjör tík og hef gaman af því að gefa henni tíkarlegt augnaráð og tíkast aðeins í henni. Ég kalla tíkina líka oft dúkkuna af því að hún er alveg eins og dúkka, samt ekki sæt dúkka. Stundum langar mig hreinlega að plokka þessi dúkkuaugu útúr hausnum hennar og gera eyrnalokka úr þeim en ég geri það auðvitað bara í nauðsyn. Einu sinni ætlaði tíkin að vera voða tíkarleg og labbaði á mig þegar ég hélt á heitri núðlusúpu en heita núðlusúpan helltist ekki á mig, heldur á hana. Hún hélt að ég hefði gert það viljandi þannig að núna er ég súperdúper tík í hennar augum. Ojá, það er góð tilfinning.

Bráðum fær einhver saur í pósti.
Er þér sama þótt ég á hann hósti?
Mikið hatur er þér í brjósti,
viltu að ég nafn þitt uppljóstri?

laugardagur, desember 04, 2004

Ef

ég myndi segja við þig: "I am a booby!" þá er ég ekki að segja að ég sé brjóst eða júlla, heldur er ég að segja að ég sé brjáluð manneskja, sbr. Enskar smásögur.

ég myndi segja við þig: "Go to a booby-hatch!" þá er ég ekki að segja þér að fara í brjóstalimgerði*, heldur er ég að segja þér að fara á geðveikrarheimili, sbr. Enskar smásögur.

*haha, brjóst og limur í sama orðinu. Ég er svo mikil dónókona

.

Mr. Hatch er algjör booby

föstudagur, desember 03, 2004

Rosalega er ég glöð

að þurfa ekki að skrifa á 50 jólakort þetta árið. Foreldrar mínir hafa nefnilega fundið upp tæknina, tölvuna, Word og prentarann. Núna verður textinn bara pikkaður inn, prentaður og skellt inn í heimatilbúnu kortin sem voru tilbúin í október. Í fyrra fóru foreldar mínir ótroðnar slóðir og létu hvern og einn fjölskyldumeðlim skrifa sitt nafn undir og það í aldursröð. Og af því að heimilishundurinn kann ekki að skrifa, þá þurfti ég að teikna loppufar inn í öll kortin. Viðtakendur kortanna hafa örugglega haldið að við værum nett brjáluð, svona eins og The Brady Bunch.

Þetta verður því gott kortaár í ár.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Jólagjafaóskalisti

Dót:

Bratz Beauty Boom Box
Þráðlaus barnapía
Barnahljómborð með dýrum
Organ Doktor
Girls Only prjónavél
Barnaharmonikka
Þythokkíborð
Veltipétur
Baðborð með 38 cm brúðu
Bratz Safari Cruiser
Ófrísk Judith
Rugguhestur með hnakk og hljóðum
Lögregluljós
Innfrarauð lögreglu Apache þyrla
Bratz - truflaða tískuspilið
Birgittu dúkkan
SingStar Party

Geisladiskar:

Birgitta - Perlur
Nylon - 100% Nylon
Kalli Bjarni

Bækur:

Nylon bókin
Idol bókin
Bókin um dvergakonuna sem þóttist vera eskimói í Ameríku
Bankabók

P.S. ég er sko ekki að djóka meðetta!