Mér tókst það!
Eftir tveggja mánaða langan ökuskírteinistíma tókst mér það loksins. Ég skemmdi bílinn minn. Þannig er mál með vexti að ég vinn í miðbæ Reykjavíkur og miðbænum hefur alltaf fylgt bílastæðavandamál. Eini staðurinn þar sem ég get lagt er inni í þröngasta bílastæðahúsi suðvestan Alpafjalla sem er staðsett undir Hereford. Allir veggir eru málaðir gulir. Gaman að því. Ég hef aldrei verið sérstaklega góð í því að leggja og hefur það hrjáð mig mikið en alltaf hef ég getað reddað mér. Nema í gær. Ég renndi náttfataljósbláa bílnum okkar inn í stæði með gulan vegg og gula súlu á sitthvorri hliðinni og byrjaði á því að misreikna mig aðeins og keyrði á gula vegginn. Þá var bara að bakka út og þá skrapaðist önnur hliðin utan í gula súlu. Gula súlu. Ég fór út, sá rispuna og langaði mest að grenja. Fór í vinnuna, var utan við mig allan tímann og var send heim. Fór heim, sagði mömmu og pabba, allir sáttir. Jíha! En fall er fararheill.
Áðan fór ég í klippingu, kl. 9. Það var erfitt. Kallinn sem klippti mig var samt ekki hommi, skrýtið. Fyrst fór ég á vitlausa hárgreiðslustofu því að enginn sagði mér að stofan væri búin að sameinast annarri stofu og væri við Dómkirkjuna. Kúkar. Jæja, ég kom seint og kallinn byrjaði að klippa. Páll Óskar var í aflitun hliðina á mér. Svo sagði hann: ,,Hefur þú aldrei pælt í því að gerast augnmódel? Þú veist, fyrir gleraugu og svona." Ég varð furðulostin og vitaskuld neitaði ég því því að ég vissi ekki einu sinni að það væru til sérstök augnmódel. Þá sagði hann: ,,Þú ert bara með svo falleg augu." Og aldrei hef ég roðnað svona mikið. Kannski er þetta einhver ný pikköpp lína og vá, hún er sniðug. Ég ætla að nota hana einhvern tímann bara af því að hún er svo léleg.
Í dag er Þorlákur eins og hann er kallaður. Voða margir segja Þodlákur. Ef ég myndi heita Þorlákur þá yrði ég ekki sátt með að vera kölluð Þodlákur. En sem betur fer heiti ég ekki Þorlákur eða Þodlákur. Þorlákur Ósk Pálmadóttir. Hljómar asnalega.
fimmtudagur, desember 23, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli