mánudagur, júní 28, 2004

Leiðinlega færslan

Það er búið að taka hólinn í garðinum mínum og garðinn með. Þegar ég kom heim úr vinnunni á fimmtudaginn var hálfur hóllinn farinn og allar æskuminningarnar með honum. Á þessum hól hitti ég einmitt mína bestu vinkonu aðeins 6 ára gömul í hið fyrsta sinn, vinkonu sem ég get bara alls ekki lengur kallað mína bestu vegna framkomu hennar gagnvart mér og öðrum upp á síðkastið. Á þessum hól kynntist ég einnig töfrum túttubyssunnar. Það að skjóta í fólk, þá aðallega gamalt fólk, var sko lífið á þessum tíma. Bílarnir voru líka vinsælir en ekki þegar skotið var í minn bíl, þá fór ég að gráta sem var algengt mjög á þessum tímum. En nú í dag er garðurinn eitt moldarflag sem verður þannig í heilt ár. Það á svo að gera girðingu þar sem hóllinn var núna í sumar og svo skella einum palli næsta sumar. Ég verð því í sólbaði á möl í sumar sem verður bara gaman. Ég ímynda mér bara að þetta sé sandur en ekki möl. En girðingin sem foreldrar mínir ætla að gera verður svolítið spes. Hún verður úr bárujárni sem er ekki algengt en þannig girðingu sáu þau á Kirkjubæjarklaustri síðasta sumar. Svo fyrir 2 vikum tóku þau sér rúnt upp á Klaustur og tóku myndir villt og galið af pallinum og ég get fullyrt það að þetta er ein ljótasta girðing sem ég hef séð. Hún verður altöluð um bæinn fyrir ljótleika sinn - það get ég sko lofað ykkur.

Ég fékk að vera á sláttuorf í vinnunni í dag. Það var bara alveg ágætt og dagurinn leið óvenju hratt. Vonandi verða allir dagar svona í sumar. Mér líður samt samt svolítið eins og býflugu í vímu. Ég er með svona grímu með neti, í gulu vesti og verð alltaf hálfringluð útaf bensínlyktinni sem blossar upp. Ég svíf því um allan daginn á gráu bensínskýi, ómeðvituð um allt það vonda í heiminum. Ætli ég geti komist í vímu vegna bensíngufna? Góð pæling Særún, góð pæling.

Var þetta ekki leiðinleg færsla?

laugardagur, júní 26, 2004

Ein sú besta ljósmynd sem tekin hefur verið af mér



Ástríðan og kynþokkinn hreinlega skín í gegn!

fimmtudagur, júní 24, 2004

Mömmuhrekkur

Það er ekkert jafn skemmtilegra en að stríða uppalendum sínum, hvað þá þeim kvenkyns. Málið er að ég og móðir mín fórum í ræktina áðan og á meðan hún fór í einhvern túrbó Body Pump tíma, var ég í tækjunum og var bara rosa dugleg. Eftir tímann fékk hún svo gefins epli sem hún gaf mér svo. Hún skaust svo inn í Nóatún og á meðan kláraði ég eplið. Ég opnaði hanskahólfið og fann tóman tyggjópoka. Þarna var hugmynd að fæðast... Ég setti því hálfétna eplið í pokann og stakk honum undir allt dótið í hanskahólfinu. Planið er að sjá hvað það tekur langan tíma að koma vond lykt og mamma mun svo leita að lyktarvaldinum eins og ég veit ekki hvað. Jáh, þetta verður nú meiri farsinn! Ég mun svo láta vita um stöðu málsins þegar hún kemur.


miðvikudagur, júní 23, 2004

Buuu...

Í vinnunni, í vinnunni, þar er gott að vera. Nú ýki ég svolítið en eins og allir sem þekkja mig ættu að vita, þá geri ég það oft. Í dag var ég með 2 mállausum krökkum að raka við Reykjanesbrautina. Það er ekki hægt að tala við þau og ef ég spyr að einhverju, fæ ég alltaf einsatkvæðissvar sem heyrist ekki einu sinni og berst það með vindinum til eyrna mér 10 mínútum eftir að ég spurði. Einu skiptin sem ég tala yfir daginn er þá í hádeginu þegar ég hitti hina krakkana. En það er ekki það versta, ónei. Því fylgja mikil óþægindi að vera að vinna í gulum vestum við svo stóra umferðargötu sem Reykjanesbrautin er. Fólk notar óspart flautuna á okkur og öskrar niðrandi orð. Til dæmis var öskrað á mig í dag: ,,Flott gult vesti. Viltu ekki koma heim með mér svo ég geti tekið þig úr því?" Ég sagði bara: ,,Fokkjú!" og hélt áfram að raka. Þegar ég hélt að líf mitt myndi enda úr leiðindum í dag, gerðist hið undursamlega. Eitthvað fjólublátt blakti í einum runnanum. Já þið giskuðuð rétt, 1000 krónuseðil var þar að finna. Og mig sem vantaði einmitt pening í bíó. Seinna fann mállausi strákurinn annan þússara en hann gaf ekki upp eitt múkk við fundinn, heldur stakk honum beint í vasann. Þá varð mállausa stelpan ennþá fýldari á svip en áður því hún var sú eina sem fann ekki þúsundkall. Þetta verður í síðasta skipti sem ég lýsi fyrir ykkur vinnudegi því ég vorkenni ykkur fyrir að hafa lesið svona langt, svo leiðinleg er þessi lesning.

En áfram með smjörið. Það er hálfur mánuður þangað til að ég fer til Portúgal. Mamma er strax farin að kaupa handklæði og farin er íhuga hvaða sólarvörn hún eigi að kaupa fyrir hvern og einn fjölskyldumeðlim. Við erum nefnilega ekki öll með sömu húðtýpu, sjáið þið til. Hún pælir líka mikið í bikiníum og líkamsrækt þessa stundina. Segir að ég sé löt af því að ég hef ekki farið í ræktina í viku. Ég er bara mjög upptekin vinnandi manneskja, það er allt og sumt.
Lifið heil en ekki hálf, borðið á við feitan kálf!



Ég á svona úr, liggaliggalái!

mánudagur, júní 21, 2004

Bókasafnsblogg

Nú er ég staðsett í Gamla bókasafni Hafnarfjarðar á trúbadorakvöldi. KK er að fara að spila á eftir. Í gær var ég að spila með hornkvartettinum Horn og rúnstykki og spiluðum við nokkur góð lög á Ung-klassískukvöldi, t.d. Rocky og Gaudeamus við mikinn fögnuð áheyrenda. Það er svo gaman að vera frægur.

Ég komst inn í sláttuhópinn með miklu tuði og hvolpasvip. Núna verður sko glatt á hjalla hjá mér, Erlu og Kristínu. Ég fæ skærgult vesti, heyrnatól og skó með stáltá. Þess vegna get ég sparkað í einhvern, vafið hann svo í gult vesti og stungið heyrnatólunum... utan á rassinn á viðkomandi.

Já, sukksagan frá Vestmannaeyjum. Það er nú takmarkað hvað ég man en ég skal reyna að kreista eitthvað útúr minniskubbnum. Ég, ásamt hinni góðu sveit LH, lagði leið mína í bátinn Herjólf og sigldi til Tyrkjanna í Vestmannaeyjum. Það var gott til sjós og hefði það verið hægðarleikur að renni fyrir fiski ef net hefði verið meðferðis. Ég hefði bara kannski getað notað... inertNETIÐ! Hohoho! Með í för voru 7 aðrar íslenskar lúðrasveitir ásamt einni frá Noregi og annari frá Finnlandi. Við gistum í skóla í eynni í stofu 34. Það kom mér mjög á óvart að börn í 6. bekk þar í bæ eru í tíma sem heitir Auðvitað. Ekki veit ég hvað er gert í honum!Um kvöldið var byrjað að búsa, búsa og djúsa og var partýtjaldvagninn aðalpartýpleisið. Einn meðlimur í okkar sveit var svo sniðugur að taka hann með og var það vel þegið. Fyrst var farið á skemmtistaðinn Lundann þar sem var Runólfur og Dixiebandið spiluðu. Síðan var farið á Skansinn sem er víst aðalútihátíðapleisið fyrir utan Herjólfsdal. Þar var leiðinlegt en ég sá Árna Johnsen! Eftir mikla drykkju í partýtjaldvagninum fór liðið að sofa. Ég rúllaði mér yfir Björk sem svaf við hliðina á mér. Það var fyndið en ekki veit ég af hverju ég gerði það. Um morguninn var hópferð í bakarí og svo var sameiginleg æfing allra sveitanna. Þar var spilað þjóðhátíðarlagið frá 1993 sem er örugglega það leiðinlegasta. Til að gera langa sögu stutta spilaði ég á tónleikum sem stóðu yfir í 3 og hálfan tíma sem var allt of langt. En jæja, eftir að hafa þorað að fara í minipilsið var farið í hina einu sönnu Höll Vestmannaeyja og borðaður góður matur. Ég og aðrir vorum vel í því og fórum ég og Oddný í eiginhandaráritunarkeppni á barmi okkar. Ég safnaði 5 og voru tvær mjög neðarlega, skrifaðar af Finna og Norsara. Hún safnaði líka 5 og var þetta því jafntefliþ Klukkan 12 átti Buff að spila en þeir sem voru yngri en 18 ára þurftu að fara. Það fóru því bara allir í okkar sveit í sukktjaldvagninn. Klukkan 3 var mér sagt að fara að sofa og af einhverri ástæðu hlýddi ég þótt ég hafi ekki viljað það sjálf. Ég missti því af aðalfjörinu, partýskrúðgöngunni. En jæja, um morguninn þegar ég vaknaði leit ég í kringum mig í stofunni og sá að það voru allir farnir nema ég og tveir aðrir. Það höfðu því allir farið með fyrri ferjunni klukkan 8 og ekki haft fyrir því að láta mig vita. Ég tók svo næstu ferju klukkan 4 og var flökurt allan tímann. Sem sagt, frábær ferð, frábær eyja og frábært fólk sem ég fór með og kynntist. Og munið: öl er böl!

sunnudagur, júní 20, 2004

Sukksagan frá Vestmannaeyjum kemur á morgun!

fimmtudagur, júní 17, 2004

Kallið mig Sæhúni

því það heiti ég í Ghana. Í gær barst mér bréf númer 11 frá Ghana. Já, það fyrsta barst mér þegar ég var í 7. bekk og hafa þau streymt inn um bréfalúguna síðan. Einhver ghanverskur piltur hefur grafið heimilisfangið mitt upp fyrir mörgum árum síðan og síðan dreift því út um Ghana, bara svona upp á grínið. Nafn mit hefur greinilega breyst við alla dreifsluna á heimilisfangi mínu og heiti ég núna Sæhúni Os. Það er alltaf gaman að skipta um nafn svona einstaka sinnum. Bréfin eru hvert öðru fáránlegri en þetta bréf toppar allt. Ég ætla að gefa ykkur smá sýnishorn:

Dear Sæhúni

When I took my golden pen to write to you, wind started blowing, trees started shaking, birds started singing. That means the love I have for you will never end.
First of all, let me give thanks to the almighty God for seeing another day. By the way, how is your present condition of health? I hope by the grace of almighty God everything is moving on smoothly as I'm here in Ghana.
To set the ball rolling, I will first of all introduce myself to you. Owusu Philip is my name and at the age of 16 years and black in complexion with round eye. My hobbies are: visiting the library, writing of letter and many more. My native language is Ghanian and currency is Cedis and what about you? Ghana is a nice place to see but at ward to welcome letter Philip Owusu. Do you live in a house made of snow? Send me your picture.

Your best friend - Philip Owusu


Þetta er svolítið mikið brjálæði. Hann biður samt ekki um úr, vasareikni eða liti í fyrsta bréfinu. Það er eitthvað nýtt. Ghanafólk er svolítið á kantinum - á vitlausa kantinum, það er alveg víst.

Jæja, skrúðganga á eftir og svo landsmót lúðrasveita í Vestmannaeyjum um helgina. Haha, eyja full af nördum! Gleðilega hátíð krakkar mínir!

þriðjudagur, júní 15, 2004

Haha!

Það fær enginn að fá að vita neitt um síðustu helgi því að þá helgi fer ég með í gröfina.

Konan byrjaði bara í bæjarvinnunni í gær. Þetta verður vægast sagt ömurlegast sumar lífs míns - vinnulega séð. Við erum 20 krakkar og ég þekki nákvæmlega ekki neinn þótt að ég búi í sama bæ og þau. Þetta er einmitt gallinn við það að flýja til Reykjavíkur til að afla sér menntunnar, ég þekki ekki neinn lengur í mínum heimabæ. En ekki kvarta ég. Krakkarnir samanstanda af heilasködduðum strákum sem tala bara um tölvur, vélar í bílum, víkinga og víkingarúnir. Svo eru 2 ljósabekkjastelpur, ein stelpa sem er þekkt fyrir að borða sitt eigið naflakusk og hor og síðast en ekki síst strákur sem er alveg eins og dvergur í vexti en er ekki dvergur. Mín eina von var stelpa sem var með mér í grunnskóla og viti menn! Hún fékk aðra vinnu og auðvitað tók hún henni, afar fegin. Þótt ég hafi reynt að tala við þetta fólk þá er það bara ekki fræðilegur möguleiki að það komi eitthvað gáfulegt útúr þeim þannig að ég ætla að festa kaup á útvarp með heyrnatólum og treysta á að það skemmti mér í sumar. Nema að ég finni mér aðra vinnu sem ég myndi glöð taka við.

Ég heyrði í blindum uppistandara í gær sem er í alvörunni blindur. Hann var ekki góður þótt að ég hafi alveg getað hlegið af honum til að byrja með. Hann byrjaði á því að gera grín af blindum og þeim heimi sem þeir búa við og byrjaði svo að rakka allt niður sem hann gat. Reyðarfjörð, Akureyri, Sjónvarpshandbókina, Sigga Storm, Austurland, stelpur, bara nefnið það, hann rakkaði það niður. Svo tók hann vinkonu mína fyrir og rakkaði hana niður sem var það versta af öllu við hans uppistand. Jáh, hann er bara siðblindur. HAHAHAHA! Í lokinn á uppistandinu sýndi hann okkur að hann var í g-streng. Þá var mér nú nóg boðið. Ef þið heyrið um blindan uppistandara, þá mæli ég ekki með honum.



Stewie Wonder - blindur af ást

mánudagur, júní 14, 2004

Helgin var...

heldur betur skrautleg. Hver vill fá smáatriðin?

föstudagur, júní 11, 2004

,,Vinna er slæm fyrir líkama og sál, en ekki fyrir budduna!"

Þetta sagði hann afi gamli alltaf við mig hérna í den á hverjum morgni á meðan ég skóflaði í mig hafragrautnum. Þessi orð hef ég geymt í hjarta mér og trúað. Já ég trúi þessum orðum!

Ég vinn á öldrunarheimili hér í bæ. Þessa vikuna var ég notuð sem vinnudýr því ég byrja í hinni vinnunni í næstu viku. Og í tilefni þess var ég látin hafa fyrir kaupinu mínu. ,,Já Særún, þú ferð á stofa 17 í dag og mundu, konurnar þar eru allar með þvagfærasýkingu og þú þarft að gefa þeim öllum Microlax." (Microlax er túpa fyllt af efni sem gerir manni auðveldara að hafa hægðir. Þessari túpu er stungið í endaþarm og síðan kreist) Og á þessa stofu er ég alltaf sett. Þar er kona sem lemur mig og klórar og kastar í mig gervitönnum annara. Þar er líka kona sem kann ekki að segja neitt annað en: ,,Halló!" og hefur mikið fyrir því að láta okkur vita að hún sé ennþá á lífi. En heimilisfólkið er ekki það versta, heldur hitt starfsfólkið. Þessar ungu stelpur eru nú samt fínar, við höfum átt góð samtöl um bikinívax, brasilískt vax og smokka. En þessar gömlu eru að gera mig brjálaða! Sérstaklega þessar tælensku. En trúið mér, ég hef ekkert á móti þeim en þær koma bara fram við fólkið eins og smábörn: ,,Gúgú gígí, Gunna borða kjöt. Nammi namm." En verst af öllum er stelpan sem var au pair í Bandaríkjunum í ár, er alveg drepleiðinleg og talar íslensku með amerískum hreim bara eftir þetta eina ár í Ameríkunni. Ég lenti einmitt með henni á þvagfærasýkingarstofunni um daginn og eftir þennan dag langaði mig að flagga henni á fánastöng og skilja eftir. Þetta samtal er gott dæmi um það hvað ég þoli hana ekki:

Gömul kona: "Halló, hvar er teppið mitt?"
Ég: "Ha, typpið þitt?" (Ég heyri illa)
Hún: "It's so obvious what you are always thinking about! Tíhí!"

Kyrki, kyrki, kyrki! En ekki ætla ég að ergja mig á henni.

Samtal dagsins

Ég: "Jæja Guðríður, ertu búin að gera eitthvað skemmtilegt í dag?"
Guðríður: "Já, ég hafði nú hægðir"

Eins og sjá má þá elska ég starf mitt. Það er nokkuð augljóst.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Ég er á lífi!

Ójá gott fólk. Ég prísi mig sæla fyrir að vera að pikka inn þessi orð sem þú, lesandi góður, ert þessa stundina vonandi að lesa því ég komst heil á húfi úr mínum fyrsta ökutíma. Og ég sem hélt að ég myndi enda líf mitt í skurði eins og ég var næstum því búin að gera hérna um árið. Ég og Óli hressi, ökukennarinn minn vorum sammála um það að Álftanes er sveit en það er Hafnarfjörður ekki. Hann sagði að ég væri þrusugóður dræver þrátt fyrir að þetta var mitt fyrsta skipti sem ég keyrði svona tegund af bíl (sjálfskiptur/beinskiptur... get aldrei munað þetta) En ég var að pæla svona í tilefni dagsins. Hann Óli sagði mér að samtals myndi þessi prófpakki kosta um 100.000 kr. sem mér finnst svolítið mikið meira en ég hef heyrt frá öðrum. Er ég bara að bulla eða er þetta ekki alltof hátt verð?

Ég bara spyr!



Haha!

miðvikudagur, júní 09, 2004

Hver vill koma með mér, Særúnu hinni stórskemmtilegu, í bíó í kvöld?

Ég var að finna upp á mjög skemmtilegum hlátri sem mun án efa vekja mikla lukku í salnum. Og hver vill ekki verða vitni að þeim merkilega atburði? En ef ferðinni verður heitið á tissjúmynd, þá hef ég einnig þróað afar átakalegan og tilfinningaþrunginn grátur sem mun eflaust væta öll sæti á pleisinu.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Særún dagsins



Selurinn Særún kæpti lítinn kóp í Húsdýragarðinum í dag. Hún fær því þann mikla heiður að vera Særún dagsins því það er ekki á hverjum degi sem við Særúnirnar eignumst kópa. Særún selur, ef þú ert að lesa þetta þá vona ég að þú nýtir titilinn vel á einhvern hátt.

mánudagur, júní 07, 2004

Væmna færslan

För minni var heitið í Bláa lónið í gær í góðra vina hópi sem mér þykir svo vænt um að orð geta ekki lýst því. Á leiðinni horfði ég á úfið hraunið sem heillaði mig svo þótt ég hef búið í kringum það alla mína ævi. Kraftur þess er svo mikill og áþreifanlegur að það er ekki annað hægt en að dragast að því líkt og segull á ísskápshurð. Kvöldsólin blindaði okkur með sínum hlýju geislum og guli litur hennar enduspeglaðist í rennislétta hári okkar. Vegaframkvæmdirnar í kring voru mér einnig huglægar. Að hugsa sér alla þá verkamenn sem hafa unnið dag og nótt til þess eins að við getum keyrt hraðar, öll börnin sem hafa grátið sig í svefn á kvöldin vegna þess að pabbi hefur ekki komið heim í marga daga og ekki einu sinni til að breiða yfir þau sænginni og fara með bænirnar. Ég fékk kökk í hálsinn við tilhugsunina eina.
Þegar ég kom í Bláa lónið tók dýrðin við. Þvílík náttúruperla! Þvílíkir töfrar! Þvílík blá armbönd! Ég faðmaði að mér eina súlu þegar ég kom inn því svona glöð hafði ég aldrei verið. Brosið náði út á kinnar og er ekki enn farið. Inni á veitingastaðnum var ráðstefna mjólkurfræðinga á Norðurlöndum. Mjólk, mjólkurfræðingar og Norðurlönd eru þrjú stórkostleg fyrirbæri sem ég dýrka af öllu mínu hjarta og gæti ekki lifað án. Og verðið... aðeins krónur 1200! Þetta er auðvitað bara gefins og það líkar mér! Búningsklefinn var eitt stórt himnaríki og fullur af allsberum, misstórum englum. Og sturturnar! Guð minn góður, svona sturtur hef ég aldrei séð. Það að eyða mörgum krónum í sturtuhengi fyrir allar sturturnar sýnir svo mikið örlæti! Já, ég sagði örlæti!
Þegar út var komið blasti við mér ný pláneta, full af kristalbláu vatni, vatni sem var blessað af Guði sjálfum.

Æi, ég nenni þessu nú ekki. Þetta er ekki alveg minn síll. Í stuttu máli fór ég í Bláa lónið með vinum mínum þar sem ég fór m.a. í keppni við Björk um það hvor gat farið fljótar úr bikiníbuxunum. Ég vann. Við fórum líka í bregðuleik sem var leiðinlegur. Ég drakk svona lítra af kísilvatni því það var alltaf verið að drekkja mér. Jájá þetta var gaman en nú er ég 1200 krónum fátækari. Helvítis okur!



Af hverju ætli konan sé alltaf nakin í Bláa lóninu? Kannski fær hún eitthvað kikk út úr því.

sunnudagur, júní 06, 2004

Jahá!

Eins og sjá má á síðustu færslu minni var ég afar ölvuð í gær. Það var nú samt bara gaman og ég og Oddný kysstumst ekki, fyrir ykkur sem vildu vita það. Kvöldið byrjaði í grillpartýi þar sem Prince Polo var stungið í vasa og mikið af því. Ég lærði svo nýtt orð yfir smóking - reykingaföt. Hahaha! Og þá hló ég mikið. Síðan var partýið fært annað og var þá ekki lengur grillpartý, heldur garðpartý. Ég og Oddný vorum snemma mjög ölvaðar og fengum titilinn "Fullu stelpurnar". Ég skallaði flösku með munninum sem var vont og það blæddi. Síðan fórum við á rúntinn niður Laugarveginn og öskruðum mikið. Vinsælast var að öskra: "Foliiiiiii! Nei ekki þú" og lagið um hann Fola, fola fótalipra, öðrum farþegum til mikillar ánægju. Við hoppuðum svo út úr bílnum og fórum á röltið og hittum marga. Sumir voru leiðinlegir en aðrir þrusu skemmtilegir. Jæja, sagan er búin.

Heimasíða dagsins

Þessi - uppáhaldsbúðin mín.

Hvaðerígangi?

Biltakkkinneerbiðlaður.'?ÐEgerfugl.B'ibífulgl.'Egflýumloftinbláeinsogfugl.?EgogOddnyerumaðfaraárúntinn.Veitekkihvert.Sj+opmannadagurinn ámorgun.'EGogOdn´ætlumaðkyssastáeftir.Hvervillhorfaá?þaðerýtsexí.Mérfinnstþað. Oddný og björkeruharðarmellur.'EgeraðdrekkaThule.Thuelathuleathuelethulethulethulethule.

föstudagur, júní 04, 2004

Daglegt slúður

- Hornleikarafélag Íslands var með tónleika í gær. Vitaskuld var ég þar og spilaði með í lokinn og svo voru rjúkandi pezzur. Áhugavert og skemmtilegt var verk fyrir 8 horn og slagverk en þetta var frumflutningur á því verki. Alltaf hefur mér fundist skammstöfun félagsins fyndin: HORNÍS. Ætli sú skammstöfun lýsi okkur hornleikurunum ekki hvað best.
- Útidyrahurðin á Hverfisgötu 25 er ekki ennþá þornuð
- Ég fer í minn fyrsta ökutíma núna á fimmtudaginn. Ég vil því vinsamlegast biðja alla íbúa höfuðborgarsvæðisins um að halda sig innan dyra eftir kl. 6 því von er á miklum árekstri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
- Mér barst afar skemmtileg sending áðan. Tveir stæltir karlmenn komu til mín um hádegið, berir að ofan með sitthvora rósina í munninum. Ekki var það verra að þeir voru í vinnubuxum og í skóm með stáltá. Maður fær nú ekki svona sendingu á hverjum degi. O nei.



Hoja!
------------------------
Særún dagsins



Og Særún dagsins er enginn annar en hann Haukur! Ég ákvað að hann þurfti ekki að skipta um nafn til að fá þennan titil af því að hann gerði mig að Hauki dagsins á blogginu sínu. Njóttu vel svo þér verði ekki um sel og hakkist í mél! (Ég var að búa þetta til. Hohohho)

fimmtudagur, júní 03, 2004

"Doctor Doctor! This woman has been shot and had a blow on the head!"

Læknaþættir - alltaf samir við sig. Þeir eru hreint óteljanlegir þessir læknaþættir. ER, Chicaco Hope, Presidio Med, Strong Medicine og svo lengi mætti telja. Löggu- slökkvuliðs- og sjúkraliðaþættir eru líka margir: Third Watch, NYPD Blue, Law and Order og ég veit ekki hvað og hvað. Kennaraþættir eins og Boston Public, réttarlæknaþættir eins og CSI og Crossing Jordan. Lögfræðingaþættir og blabla. En hvað með öll láglaunuðu störfin? Þau fá að sitja úti í kuldanum bara fyrir það að vera láglaunuð og óspennandi. Hver myndi ekki vilja sjá þátt um líkhreinsi eða ræstitækni? Tja, allavega væri ég til í það! Ég er meira að segja komin með söguþráð fyrir líkhreinsaþátt:

Hann heitir Cleaning the Corps og er aðalsöguhetjan Susan McDowell, miðaldra kona sem býr í bænum Kensingtonville í Skotlandi. Lík eru hennar ær og kýr eftir að móðir hennar dó í hrikalegu traktorslysi og það var ekki sjón að sjá hana í kistunni því enginn var líkhreinsirinn til að gera hana fína. Susan gerir því allt sem hún getur til að gera líkin húsum hæf og stundum kemur það fyrir að hún leysi eitt og eitt sakamál í leiðinni. Ástir og fjölskyldumál flækjast inn í söguþráðinn og hinir mörgu ástmenn hennar yfirgefa hana vegna starfsins síns. Í lokaþættinum kemur svo að því að lík kemur inn á líkstofuna hennar... líkið að hennar einu ást: Karl Bretaprins! Hvað gerir Susan núna?

Æjæj, ég er þá búin að eyðileggja endinn. Nújæja.



Einhvern veginn svona leit móðir Susan út eftir traktorslysið. Blessuð sé minning hennar.

miðvikudagur, júní 02, 2004

Ógeðis SMS

hafa borist mér í hrönnum. Ég hélt að allir væru hættir að senda svona SMS en nei nei, ég fékk slatta í gær frá sama ógeðisaðilanum. Það fyrsta hljómaði svona:

Limur, brundur, lykt af vessum,
klám og kynlíf líkar mér.
Í rassinn reið ég 14 lessum
með mynd af þér í huga mér.


Jæja, ég viðurkenni að þetta er svolítið fyndið en þegar SMS-in héldu áfram að flæða inn, hætti þetta að vera skondið. Það næsta hljómaði svona:

Það var ekki Guð sem skapaði konuna - heldur gatnadeild borgarinnar. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að leggja vatn og klóak alveg ofan í leiksvæðinu?

Gubbidígubb! Á eftir þessu komu fleiri og fleiri sem ekki er hægt að birta á þessari síðu. Síminn er eins og sést, skaðræðistæki sem ekki er á færi allra að nota. Það að senda ungum saklausum skólastelpum klúr skilaboð er refsivert. Jáh, refsivert!

Niður með klúrheit og perra burt!!

þriðjudagur, júní 01, 2004

Fréttir af heimilinu

Sú ákvörðun var tekin hérna á Hverfisgötunni á laugardaginn að mála útidyrahurðina upp á nýtt. Þessi massíva hurð frá 1700 og súrkál hefur alla tíð verið rauð en nú átti að bæta um betur og mála hana vínrauða. Svo skemmtilega vildi til að málningin er ekki enn þornuð nú á þessum þriðjudegi og mun seint gera það. Ekki er vitað af hverju í ósköpunum. Enginn hurðahúnn, skráargat eða bréfalúga er nú á hurðinni og erum við því nokkurn veginn læst inni á okkar heimili. En sem betur fer eru 3 aðrar hurðir á húsinu.

Fréttir af tónlistinni

Einkunnir úr tónlistarskólanum bárust mér nú um nónleytið mér til mikillar gleði. Gleðilegast var þó að sjá einkunn mína í tónlistarsögu: 9,8. Þetta er því næsthæsta einkunn sem ég hef fengið fyrir ritgerð en sú hæsta var tía fyrir ritgerð sem ég gerði um Sri Lanka í 10. bekk. Ég náði bæði hljómfræði og tónheyrn og fékk 7,8 í bæði.

Fréttir af atvinnu

Atvinna er komin í hús en get ég ekki byrjað fyrr en 14. júní. Næstu dagar munu því einkennast af aðgerðar- og peningaleysi og nokkrum aukavöktum á öldrunarheimilinu. Það væri því gaman ef fólk myndi skemmta mér á meðan og væri það vel þegið. Mér finnst til dæmis alltaf gaman að sjá fólk joggla.